Viðvera ráðherra og tilhögun þinghalds

41. fundur
Miðvikudaginn 04. desember 1991, kl. 14:05:00 (1549)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá ósk sem kom hér fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það frv. um þyrlukaup, sem hér hefur verið flutt með víðtækri samstöðu, komi sem fyrst til umræðu. Ég vil greina frá því, virðulegi forseti, að allir þingmenn Reykjaneskjördæmis voru kvaddir til fundar í Grindavík þar sem Vélstjóra- og sjómannafélagið boðaði til fundar og óskaði eftir því að þangað mættu þingmenn frá öllum flokkum sem eiga þingmenn í kjördæminu. Þar voru einnig fulltrúar bæjarstjórnar og aðrir. Á þessum fundi kom fram eindregin ósk heimamanna að sem fyrst yrði tekið til umfjöllunar frv. á Alþingi um þyrlukaup og ég vil lýsa nokkurri undrun minni á því að frv. hefur aldrei verið sett á dagskrána. Ég held ég fari rétt með að það hafi aldrei verið sett á dagskrá. Nú er hins vegar svo komið að vegna fjarvista ráðherra og annarra vandræða í stjórnarliðinu er ekki hægt að halda áfram með dagskrána með eðlilegum hætti og er nú rétt að hæstv. forsrh. fari að taka til heima hjá sér og skikka sína ráðherra til að mæta hér í þinginu með eðlilegum hætti til þess að þingstörfin geti haldið áfram.
    En ég vil benda virðulegum forseta á það, vegna þess að hún var ekki hér í salnum í gærkvöldi, að fundi var frestað þegar umræða stóð um 8. dagskrárliðinn, Rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands. Mér er kunnugt um það að nokkrir hv. alþm. eru reiðubúnir að taka til máls um það mál og vil þess vegna óska eftir því að það verði tekið fyrir fyrst þingið er verklaust vegna fjarvista ráðherra.