Fæðingarorlof

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:42:00 (1591)

     Fyrirspyrjandi (Sólveig Pétursdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég legg hér fyrir fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um fæðingarorlof. Fsp. hljóðar þannig:
  ,,1. Hvaða afgreiðslu hefur frv. um fæðingarorlof (þskj. 673 á 113. löggjafarþingi) hlotið, en því var vísað til ríkisstjórnarinnar 20. apríl 1991?
    2. Hvernig hefur ráðuneytið brugðist við dómi bæjarþings Reykjavíkur frá 21. des.

1990 í máli er snerist um fæðingarorlofsgreiðslur Tryggingastofnun ríkisins tapaði?``
    Til þess að útskýra nánar ástæður fsp. vil ég leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að vitna í grg. með umræddu frv., en þar segir:
    ,,Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs greiðir Tryggingastofnun fæðingarstyrk ásamt fæðingardagpeningum, það síðarnefnda í samræmi við ákveðinn vinnustundafjölda. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi, sbr. t.d. opinberir starfsmenn, eiga þó ekki rétt á þessum greiðslum frá Tryggingastofnun. Upphæð fæðingarstyrks er ákveðin fjárhæð og hækkar með sama hætti og aðrar bætur lífeyristrygginga. Fæðingardagpeningar eru tvöfaldir sjúkradagpeningar einstaklings eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma. Þessar greiðslur nema nú samtals um það bil 50 þús. kr. á mánuði, en þá er um hámarksgreiðslu að ræða. Full laun foreldris á hinum almenna vinnumarkaði geta því numið mun hærri fjárhæð. Í slíkum tilvikum er ekki óeðlilegt að einstaklingur semji við launagreiðanda um greiðslu mismunar á fullum launum og greiðslum frá Tryggingastofnun, enda hluti af því samningsfrelsi er hér ríkir lögum samkvæmt.``
    Enn fremur segir í grg., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hinn 21. des. 1990 féll í bæjarþingi Reykjavíkur dómur í máli konu gegn Tryggingastofnun ríkisins. Konan höfðaði málið til þess að fá greitt fæðingarorlof (fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga) frá stofnuninni. Dómurinn féllst á kröfur konunnar í einu og öllu. Samkvæmt dómnum er því ljóst að framkvæmd þessara mála ætti að vera á þann veg sem mælt er fyrir um í þessu frv. Tryggingastofnun hefur hins vegar ekki enn séð ástæðu til að breyta framkvæmd fæðingarorlofslaganna þannig að konur, sem eins er ástatt fyrir og stefnanda málsins, fá ekki fæðingarorlofsgreiðslur frá stofnuninni ef þær fá einhverjar viðbótargreiðslur frá vinnuveitanda.``
    Þar sem um mjög mikilvægt mál er að ræða að mínu mati legg ég fsp. fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh.