Eyðnipróf

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:59:00 (1599)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin sem ég tel heiðarleg og góð og rétt. Ég taldi ástæðu til að bera þessa fsp. fram vegna þess að það er auðvitað ólíðandi að einhverjir embættismenn í kerfinu geti tekið það upp hjá sjálfum sér að gera rannsóknir á fólki sem engar lagaheimildir eru fyrir og engin ástæða er til. Vitaskuld kemur það ekki málinu við að fyrirspyrjandi hefur auðvitað ekkert á móti því að fólk sé eyðniprófað og kannski ætti að eyðniprófa alla sem hér í landi búa en það er önnur saga. En það er auðvitað óþolandi að einhver ákveðinn hópur af fólki verði fyrir slíku utan við allt sem heitir lög og réttur.
    Í viðtali mínu við landlækni fékk ég auðvitað sams konar upplýsingar. Hann tjáði mér að fyrir nokkrum árum hefði verið sett reglugerð, þegar eyðniveiran varð kunn, um að fólk sem kæmi frá Mið-Afríku yrði eyðniprófað þegar það kæmi til landsins en sú reglugerð var numin úr gildi vegna þess að slíkt þótti brjóta í bága við almenn mannréttindi.
    Ég hef ekki mikið meira um það að segja. Það gleður mig að á þessu máli hefur verið tekið og slík vitleysa stöðvuð. En ég held það væri kannski ástæða til að heilbrigðisyfirvöld létu frá sér heyra og hörmuðu þessi mistök þannig að þeir erlendu menn sem vilja koma hingað og nema við Háskóla Íslands hafi ekki á tilfinningunni að þeir séu meðhöndlaðir öðruvísi en annað fólk hér í landi.