Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 17:27:00 (1683)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Við ræðum hér allmikilvægt málefni þó að ekki sé það frv. fagurt sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á borð okkar. Frv. hefur af höfundunum fengið heitið bandormurinn. Það er kannski ekki ýkja frumlegt heiti en það er nokkuð táknrænt fyrir þá líkingu sem hér er á ferðinni.
    Af hverju er þetta kallað bandormur? Það er væntanlega vegna þess að hér er verið að fjalla um málefni sem ekki er mjög fasttengt í einu frv. og þá dregin væntanlega líking af þeirri skepnu, sem ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherrar þekki nokkuð vel til, bandormsins, þar sem ein tegund af þeirri ættkvísl herjaði mjög á Íslendinga um aldir. Sjálfur bandormurinn var nú ekki ýkja stór, sá sem herjaði á þjóðina, en þeim mun stærri var sullurinn sem er annað stig þessa kvikindis. Það hefði nú heldur verið nær að tengja þetta frv. við sullinn en hið smásæja, eða svo gott sem, og þekkilegra stig bandormsins sem er liðskiptur og er ástæðan fyrir þessari samlíkingu.
    En fleira gerir það að verkum að nota má þetta vinnuheiti á frv. og það er sú staðreynd að skepnan bandormur er tvíkynja, þ.e. hver einstaklingur er af báðum kynjum. Hann leikur þá list að frjóvgast á milli liða, á milli einstakra liða og fjölga sér, og það er mjög vel um búið fyrir tímgun þessarar skepnu. Nú er það svo að einmitt tveir, tvö kyn --- eða svo höfum við litið til --- standa að núv. hæstv. ríkisstjórn. Hún er tvíkynja þó að munurinn á stjórnarflokkunum sé kannski ekki svo ýkja mikill þegar grannt er skoðað, hvorki stefnulega séð né varðandi einstakar áherslur. Þá hefur lengi dreymt um að renna saman í eitt og æxlast og tímgast og það er að koma fram m.a. í þessu frv. sem þeir hafa valið að kalla bandorminn. En það skyldi þó ekki vera að þetta verði sullur fyrr en varir og við eigum eftir að sjá þetta í enn þá ófrýnilegri búningi heldur en sá tiltölulega meinlausi pappír er sem við ræðum nú?
    Virðulegur forseti. Ég vil svo nefna það varðandi meðferð þessa máls og þá umræðu, sem fór fram um þingsköp og ég tók ekki þátt í, að mér sýnist það vera sjálfsagt að einstakir þættir þessa bandorms, einstakir liðir, fari til þeirra nefnda sem málið er skyldast. Ég fagna því að það hefur komið fram stuðningur, bæði frá virðulegum forseta og formanni stærra liðsins í bandorminum ríkisstjórn, þ.e. frá þingflokksformanni Sjálfstfl., við

það að einstakar nefndir þingsins geti fjallað um vissa þætti málsins eftir eðli þess. Þetta tel ég skynsamlega ráðið og sjálfsagt og fyllilega í samræmi við breytingar á þingsköpum.
    Hæstv. forsrh. flutti framsögu fyrir þessu máli. Mér fór sem kannski fleirum að ég átti dálítið erfitt með að nema mál ráðherrans, svo hratt fór hann yfir hér í ræðustól. Mér hefur ekki tekist að fá útskrift af ræðunni frá ræðuritun þingsins. Eitt atriði vil ég nefna, sem er ekki stórt í þessu samhengi, sem mér heyrðist hæstv. ráðherra fjalla um en ég fann ekki neinn stað fyrir í frv. sjálfu, í þessum langa bandormi. Það varðaði kvikindi sem hæstv. ráðherra nefndi, sem Íslendingum eru sumpart kær og þó misjafnlega, þ.e. ref og mink. (Gripið fram í.) Ég hef ekki heyrt ástæðurnar fyrir því en ég vildi nefna þetta því að mér heyrðist einmitt að að þessu væri vikið í framsögu fyrir málinu. En þá afla ég mér frekari upplýsinga um það og er ekki að krefja hæstv. forsrh. sagna öðru sinni um þennan þátt sem ekki var í samræmi við frv. sem hann var að mæla fyrir, að ég fékk séð.
    Hæstv. forsrh. fór allvíða yfir í sínu máli og gaf tilefni til þess að rætt væri um einstaka þætti þess og þó málið í heild, miðað við liðna tíð og horfur fram undan. Í rauninnni var hæstv. forsrh. að gefa upp boltann fyrir mjög langa umræðu með því að skjóta fast og hart á stjórnmálamenn og ríkisstjórnir liðinnar tíðar og gefa þeim einkunnir, velja þeim heiti. Ég ætla af þessu tilefni að fara yfir örfáa þætti sem mér finnst eiga fullt erindi inn í umræðu um þetta mál, einstaka liði þessa bandorms sem hér er ræddur. Það varðar þær horfur sem eru í atvinnumálum okkar, ástæðurnar fyrir því hvernig komið er og spurninguna um hvaða tökum eigum við að taka þann vanda sem við er að fást. Hvernig eigum við að reyna að tryggja það að hér verði sú þróun atvinnulífs í landinu að við í senn höldum fólki í landinu, lendum ekki í útsogi landflóttans og takist að halda hér uppi bærilegum lífskjörum sem þoli nokkurn samjöfnuð við nálægar þjóðir?
    Ég er sammála því að sjaldan hefur útlitið verið eins dökkt um lengri tíma varðandi atvinnuhorfur í landinu og nú. Ástæðan fyrir því er ekki síst sú stjórnarstefna sem nú er boðuð, hún vekur ekki miklar vonir um það að núv. ríkisstjórn taki á málum með þeim hætti að líkur séu á að úr rætist, heldur þvert á móti. Þetta hlýtur að valda okkur og landsmönnum öllum miklum áhyggjum, valda mikilli áhyggju og það er skylt að fjalla svolítið um málið út frá þessum horfum.
    Í þjóðhagsáætlun kemur fram sú skoðun að gera megi ráð fyrir því að atvinnuleysi á komandi ári geti orðið 2,6% í staðinn fyrir 2% sem stofnunin hafði spáð í fyrri áætlun. Þetta er allmikið atvinnuleysi á íslenskan mælikvarða en þó engan veginn hátt stig sé litið til margra Evrópuþjóða. Ég vil aðeins benda á nokkrar staðreyndir í því sambandi og tengja við það sem kom fram í máli hæstv. forsrh., að ein helsta vonin um betri tíð í atvinnumálum í landinu væru samningar um evrópskt efnahagssvæði. Það er helsta haldreipi ríkisstjórnarinnar, virðist vera af máli forustumannsins sem talaði fyrir þessu frv., þessa höfuðs bandormsins sem við ræðum hér. Það er ástæða til þess að víkja að því hvort líkur séu á því að þetta nýja haldreipi ríkisstjórnarinnar, eftir að álbræðsludraumurinn strandaði hvort það sé líklegt til þess að breyta horfunum varðandi atvinnumálin á Íslandi.
    Við skulum, virðulegur forsrh., líta fyrst til þeirra landa sem hafa verið að leita samninga við Evrópubandalagið um evrópskt efnahagssvæði. Hver er staðan þar og hverjar eru horfurnar? Staðan í EFTA-löndunum varðandi atvinnustig er á yfirstandandi ári samkvæmt nýjum tölum úr aðalstöðvum EFTA að meðaltali 3,7%. Það er allhátt og það er langtum hærra en hér á landi. Það land sem leggur langmest í þessa prósentu er Finnland, þar sem atvinnumál og efnahagsmál hafa farið mjög til hins verri vegar á yfirstandandi ári og því næstliðna og alveg sérstaklega í ár. Ástæðurnar fyrir því eru margþættar en vafalaust að hluta til og kannski að drjúgum hluta þær breytingar sem orðið hafa hjá hinum

stóra granna í austri, þ.e. í Sovétríkjunum sem hafa haft geigvænleg áhrif á viðskiptamál Finnlands. Þannig er gert ráð fyrir því að atvinnuleysi þarlendis vaxi úr 3,4% á liðnu ári, 1990, og er núna metið á hvorki meira né minna en 7,8% og þetta hækkar mjög verulega meðaltal atvinnuleysis í EFTA-löndunum. Næst gengur Noregur sem býr nú við óvenjumikið atvinnuleysi sem metið er á 5,5% en lægst er atvinnuleysið, samkvæmt þessum upplýsingum frá EFTA, á Íslandi og í Sviss, bæði löndin með 1,5% og skera sig þarna vel úr í þessum efnum. En þrátt fyrir þessa stöðu er fyllsta ástæða til þess að hafa áhyggjur af stöðu atvinnumála í landinu nú um stundir.
    Þá er það spurningin, munu samningar um Evrópskt efnahagssvæði, sem hæstv. forsrh. vék að oftar en einu sinni í framsögu sinni, verða það haldreipi sem líklegt er að við ættum að grípa í í von um að það leysi vandann? Hver er staðan, hæstv. forsrh.? Hver er staðan varðandi atvinnuleysi í Evrópubandalagsríkjunum, þeim löndum sem við ætlum að fara að bindast böndum í Evrópsku efnahagssvæði? Þar er ekki atvinnuleysið innan við 4% eins og er í EFTA-ríkjunum. Þar er meðaltal atvinnuleysis nú 9,1% samkvæmt nýjum upplýsingum frá EUROSTAT, Hagstofnun Evrópubandalagsins. Það eru hvorki meira né minna en 13,2 millj. atvinnuleysingja í Evrópubandalagslöndunum tólf og þetta ástand fer versnandi nú eftir að hafa skánað á liðnum árum og náð þeirri stöðu í júní 1990 að atvinnuleysið nam aðeins 8,4% og það var skásta ástandið frá árinu 1983 að telja. Vissulega eru aðstæður hvað snertir atvinnuleysi í Evrópubandalagsríkjunum mjög misjafnar. Þar sker Írland sig úr með nær 18% atvinnuleysi nú um stundir en þar eru líka lönd eins og Lúxemborg, smáríkið Lúxemborg með aðeins 2% atvinnuleysi. En eins og hér hefur komið fram, þá er það ríki Norðurlanda sem hefur bundist böndum í Evrópubandalaginu, þ.e. Danmörk, með hátt í 10% atvinnuleysi, samkvæmt þessum tölulegu upplýsingum sem ég hef, 9,4%. Það er þetta bandalag sem ríkisstjórnin keppir nú að að bindast í Evrópsku efnahagssvæði, væntanlega til þess að hleypa krafti í atvinnuþróun á Íslandi og bæta stöðuna. Ég vek athygli á þessu því að hér er sannarlega um stóralvarlegt mál að ræða. Og ég held að við Íslendingar höfum of lítið gert af því að virða fyrir okkur þessar staðreyndir að því er snertir vinnumarkaðinn í Evrópubandalagsríkjunum á undanförnum árum þegar unnið hefur verið að samningum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Auðvitað tengist þessi mynd, sem ég hef verið að draga upp, spurningunni um það hvaða áhrif hefur það á íslenskan vinnumarkað ef við opnum hér upp á gátt og afnemum allar hömlur, eins og stefnt er að með samningnum sem til er í slitrum eins og þekkt er þó að hann sé ekki fullgerður. Þar er verið að afnema öll landamæri fyrir vinnuafl og menn geta leitað hér atvinnu og fengið búsetuleyfi og öll réttindi í landinu ef þeir fá atvinnu. Það er auðvitað verið veikja stöðu íslenskrar verkalýðshreyfingar alveg stórkostlega því að fyrr en varir verður hér um undirboð að ræða, stórfellt undirboð á vinnumarkaði og það sem ríkisstjórnin vísar til í þessu sambandi er einhver fyrirvari sem á að vera í samningnum. Margt hefur verið mistúlkað um þennan samning en fátt öllu meir en í sambandi við þennan fyrirvara varðandi erlent vinnuafl og möguleika þess til að koma inn í landið og möguleika stjórnvalda til að bregðast við. Fyrirvarinn er aðeins fólginn í yfirlýsingu, einhliða bókun íslensku ríkisstjórnarinnar sem eitt af hinum fjölmörgu skjölum sem á að fylgja þessum samningi. Vísun til þess hvernig íslenska ríkisstjórnin hugsanlega muni beita öryggisákvæði, öryggisklásúlu þessa samnings hefur verið reynt að túlka svo að menn geti bara kippt upp og niður í öryggisstrenginn þegar svo ber undir. En fátt er meiri blekking en halda því fram að slíkt sé mögulegt eins og um hnútana er búið í þessum samningi. Ég held að þetta sé eitt af mörgu varðandi þennan samning, hæstv. forsrh., sem ástæða er til að athuga fyrir ríkisstjórnina og ég vík að þessu máli hér vegna þess að hæstv. forsrh. talaði í sínu máli sérstaklega um samning um Evrópskt efnahagssvæði sem mundi hugsanlega færa okkur betri tíð með blóm í haga.
    Þetta sem ég hef verið að rekja hér er dregið upp í nýútkomnu fréttabréfi frá samtökum sem eru hæstv. utanrrh. nokkuð munntöm, ég vil ekki segja sérstaklega kær, þ.e. fréttabréf frá samtökunum Samstaða um óháð Ísland, fréttabréf sem ég held að hafi komið út í dag. Þar er að finna ýmislegt sem mætti verða til varnaðar þegar litið er til þessa samnings og fyrirætlana þar að lútandi. Ég ætla að biðja virðulegan forseta að koma þessu á framfæri við forsrh. þannig að hann geti virt fyrir sér þær tölur sem ég hef verið að nefna hér.
    En það er fleira sem ástæða er til að tengja við horfurnar um Evrópskt efnahagssvæði. Það er mjög sérkennilegt að forsrh. Íslands skuli 6. des. standa hér í ræðustól og flytja huggunarorð til þjóðarinnar fyrst og fremst með vísan til þessa samnings sem enginn samningur er og formaður utanrmn. þingsins hefur ítrekað valið honum heitið slitrur. Hefur það orðið tilefni til kveðskapar úr þessum ræðustól af hálfu hæstv. utanrrh., að vísu ekki frumsamið ljóð sem flutt var um slitruhátt. En hver er staða þessa samnings og þessa máls sem hæstv. forsrh. er að veifa sem einu helsta haldreipinu? Ég held það væri ástæða fyrir hæstv. forsrh. að koma hér upp og skýra mönnum frá því hvernig hann meti horfurnar varðandi þennan samning sem menn hafa verið að berja saman bráðum í þrjú ár.
    Ég heyri ekki annað utan úr heimi heldur en mjög stór spurningarmerki séu á lofti um það hvað verði um þetta mál og menn eru að gera ráð fyrir því að Evrópudómstóllinn eða dómstóll Evrópubandalagsins í Lúxemborg eigi eftir að flytja mönnum tíðindi núna fyrir jólin því að hann hefur heitið því að lengja ekki, eins og það er orðað í fjölmiðlum erlendis, lengja ekki þjáningar samningamanna með því að draga þá á svari fram yfir áramót og kveða upp sinn dóm yfir þessum samningi, þessum slitrum sem fyrir liggja. Að margra mati munu samningamenn þá standa frammi fyrir tveimur kostum og hvorugum góðum, Evrópubandalagið og framkvæmdastjórnin og ráðherraráð þess frammi fyrir spurningunni: Ætlar það að breyta Rómarsamningnum að kröfu Evrópudómstólsins eða, sem ekki er síður sársaukafullt, fyrir ýmsa a.m.k., að setjast á nýjan leik að samningaborði til þess að þóknast Evrópubandalaginu, til þess að aðlaga samningin að þeim úrskurði sem Evrópudómstóllinn ætlar að fella um þetta mál fyrir jól, væntanlega fyrir 20. des.? Er ekki, virðulegur forsrh., ástæða til þess að bera sig saman við formann utanrmn. þingsins áður en ríkisstjórnin fer að veifa þessum samningi sem haldreipi í efnahagsmálum Íslendinga. Ég held að það væri betra fyrir hæstv. ráðherra og það gildir um þá alla, ekki síst hæstv. utanrrh. að vera frekar lágmæltir um þetta hugverk sem liggur núna á borðum dómaranna þrettán í Lúxemborg og þeir eru að bera sig saman um. Það er ekkert ljóst enn þá hver á höfundarréttinn þar eða hvort hann verður yfirleitt útbær, sá réttur.
    Ég held þess vegna, og reyndar hvað sem verður um þetta Evrópska efnahagssvæði, að þá þurfi Íslendingar að velta fyrir sér þeim vanda sem við vissulega búum við um stundarsakir, ákveðnar þrengingar í okkar atvinnumálum, ákveðna óvissu, að velta þeim málum fyrir okkur út frá eigin bæjardyrum, út frá okkar eigin stöðu, út frá eigin möguleikum en ekki biðja um frelsun handan um höf eins og gert er með því að vísa í bandalagið stóra með höfuðstöðvar suður í Brussel og gert hefur verið um árabil af ráðherrum í ríkisstjórn Íslands. Þeir hafa verið að vísa á risaálbræðslu sem meginverkefni Íslendinga í atvinnumálum og hafa lagt krafta ríkisstjórna, rannsóknaraðila, verktaka og samtaka atvinnulífins í að mæna á, ekki beita þeim af atorku til þess að taka á verkefnum sem liggja fyrir, heldur til þess að sitja með hendur í skauti og bíða eftir því að stóri happadrátturinn, vinningurinn, komi handan um höf.
     Ég held að hæstv. forsrh. ætti að grípa til annarra samlíkinga heldur en tala um framsóknarstefnu fyrri ára og ætla ég ekki að fara að verja sérstaklega Framsfl. þó að mér

sé margt kært sem hann er að fást við en ég held að stefna þess flokks þoli allan samjöfnuð við það sem nú er fram borið af veisluföngum ríkisstjórnarinnar fyrir utan þau ráð sem Alþb. hefur talað fyrir og talar enn fyrir í sambandi við atvinnumál og atvinnuþróun í landinu.
    Við máttum búa við það á Alþingi um árabil að iðnrh. landsins kæmi mánuð eftir mánuð og missiri eftir missiri og segði: Þetta er að koma. Þessi stóri vinningur er að koma. Og hvað átti að felast í þessum vinningi? Ég skal ekki fara langt út í þá sálma því að tíminn leyfir það ekki þó að efni séu til þess og ástæða til að ræða það hér. En það sem fólst í þessum vinningi, hæstv. forsrh., að mati iðnrh., sem fleytti sér á milli ríkisstjórna sl. vor, var að fá ígildi þorskstofnsins á Íslandsmiðum með þessari álbræðslu, sem innlegg í íslenskan þjóðarbúskap. Því að þessi hæstv. ráðherra, um langt skeið þjóðhagsstjóri, hafði heyrt það og henti það á lofti að hvert tonn af áli úr þessari fabrikku jafngilti einu tonni af þorski upp úr sjó fyrir Ísland. Það er hægt að rugla þessa þjóð í ríminu. Það er hægt og hefur verið reynt, ekki bara af núv. ríkisstjórn, það hafa fleiri lagt í það púkk. En efnið er þarna enn þá. Og núna, þegar þetta mál er strand, er eins og menn ætli ekkert að endurskoða sinn gang, virðulegur forsrh. Þá á bara að fresta, þá er bara talað um frestun og hér er efnt til veisluboða, hér er efnt til boða fyrir forráðamenn hluta þeirra sem ætluðu hugsanlega að leggja fé í þetta púkk til þess að segja þjóðinni að enn sé þetta meginmál ríkisstjórnarinnar, að bíða eftir þessum stóra vinningi. Og það er rétt. Það örlar ekki í raun á neinu öðru í sambandi við atvinnumál og atvinnustefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar heldur en sitja og bíða eftir þessum vinningi. Þetta hefur verið viðlagið frá iðnaðarráðherrum, fyrst Sjálfstfl. og síðan Alþfl., allar götur frá 1983. Þetta hefur verið meginviðlagið, þetta var það sem átti að bjarga atvinnumálum á Íslandi öllu öðru fremur.
    Ég held að ríkisstjórnin ætti að taka sér svo sem einn fund til þess að ræða og velta því fyrir sér hvort ekki væri ástæða til að leggja þessi áform til hliðar, hætta að bíða eftir þessum vinningi og fara að hugsa um önnur ráð til að treysta grundvöll atvinnulífs í landinu. Því miður sjást þess ekki merki enn sem komið er. En við skulum ekki gefa upp vonina og því eru þessi orð mælt, til að hvetja til þess að menn fari að horfa til ráða sem geta verið líklegri heldur en þessi happdrættisvinningur sem menn svo lengi hafa beðið eftir til þess að treysta undirstöður okkar þjóðarbúskapar.
    Í því samhengi er kannski ástæða til að nefna öðru fremur þörfina á rannsóknar- og þróunarstarfsemi í landinu. Rannsóknar- og þróunarstarfi og menntastefnu í landinu, fræðslustefnu sem standi undir nafni. Það er hluti af þeim bandormi sem við ræðum nú. Það eru úrræði í sambandi við skólamál í landinu og ætla ég að gera þau að umtalsefni síðar í ræðu minni. En ég ætla aðeins áður að vekja athygli á stöðunni í sambandi við rannsóknar- og þróunarstarf, þ.e. þá akuryrkju sem verður að koma til. Ef við Íslendingar ætlum ekki að verða bónbjargarmenn fyrr en varir þá verðum við að herða mjög á í sambandi við þá undirstöðuþætti.
    Rannsóknaráð ríkisins hefur margoft á liðnum áratugum ýtt við stjórnvöldum og vakið athygli á þörfinni að taka þau mál öðrum tökum og veita meira fjármagni til rannsóknar- og þróunarstarfa heldur en gert hefur verið. Þar hafa verið gerðar atrennur af ríkisstjórnum og sumt vel en þegar á heildina er litið hefur verið gengið allt of skammt. Og nú þegar ljóst er að happdrættisvinningurinn stóri kemur ekki á næsta ári ætti að vera ástæða til að skoða þetta efni alveg sérstaklega.
    Rannsóknaráð ríkisins beindi erindi til fjárln. þingsins 18. nóv. sl. og vakti athygli á stöðunni að þessu leyti og greindi frá því á nokkrum blaðsíðum hvað gera þyrfti að mati Rannsóknaráðs til að bæta stöðuna í þessum undirstöðuþáttum. Athygli er vakin á því í þessu erindi að ríkisstjórnin leitaði ekki eftir umsögn Rannsóknaráðs ríkisins í sambandi

við þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna við fjárlagaundirbúning. Það er hins vegar farið yfir þessa stöðu í erindinu og minnt á nauðsyn þess að herða róðurinn alveg sérstaklega nú til að skjóta fleiri stoðum undir efnahagslíf þjóðarinnar. Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, með þínu leyfi að vitna hér í kafla úr þessu erindi Rannsóknaráðs til fjárln. Þar segir m.a.:
    ,,Rannsóknaráð ríkisins vill minna á að Íslendingar hafa á undanförnum árum verið eignast fjölmargt vel menntað ungt fólk á ýmsum sviðum sem náð hefur góðum árangri í háskólum og við vísindastofnanir erlendis. Þessi auðlind hefur hins vegar ekki nýst okkur til framfara enn sem komið er, aðallega vegna þess hve tregir landsmenn hafa verið til að nýta þekkingu þess í rannsóknum og nýskapandi þróunarstarfi og veita til þess nægjanlegum fjármunum. Á hinn bóginn hafa Íslendingar á undanförnum árum reynst afar fljótir til stórfelldra fjárfestinga í tækjum og búnaði og framkvæmdum sem litlum eða engum arði skila. Þetta á bæði við um fjárfestingar í hefðbundnum atvinnuvegum sem ekki geta aukið framleiðslu sína vegna minnkandi sjávarafla eða markaðstakmarkana en ekkert síður í raforkuverum, verslunarhúsnæði langt umfram þarfir markaðar að ekki sé talað um lítt undirbúið fjárfestingarævintýri í loðdýraeldi og fiskeldi. Opinberir aðilar jafnt sem einkaaðilar bera ábyrgð í þessum efnum. Það er skoðun Rannsóknaráðs ríkisins að nú þurfi að taka ákvörðun um áherslubreytingu, leggja þar mun meira en nú er gert af fjármagni og atorku í rannsóknir og þróunarstarf og tengt markaðsstarf með góðum fyrirvara áður en lagt er í fjárfestingu.`` --- Og það er undirstrikað í bréfinu.
    ,,Ákvarðanir þarf að undirbúa mun betur en tíðkast hefur og mun fleiri kostir þurfa að verða til svo nægilegur fjöldi þeirra geti skilað arði til samfélagsins. Óhjákvæmilega verður að gera ráð fyrir að einungis hluti nýrra hugmynda verði að raunveruleika í framleiðslu og verðmætasköpun. Stórfé í fáar tækifærisgreinar sem skila eiga skjótfengnum gróða er of mikil áhætta fyrir svo lítið þjóðfélag.``
    Og síðar í þessu sama erindi segir: ,,Í rannsóknar- og þróunarstarf þarf verulegt áhættufé og framlög án fyrir fram kröfu um ávöxtun og tryggingar þótt vonir séu um góðan arð. Ekki er hægt að uppfylla fyrir fram þær kröfur um arðsemi og tryggingar sem bankar og venjulegir fjárfestingarsjóðir þurfa að gera. Það hafa flestar aðrar vestrænar þjóðir skilið og hafa stóraukið framlög til rannsókna, jafnvel mest þegar stöðnun virtist blasa við. Þetta þykir almennt hafa skilað sér vel, eins og komið hefur fram í nýlegri athugun á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, í svonefndri TEP-athugun, Technology Economy Program. Þær niðurstöður birtast í ályktunum OECD-ráðsins og stefnumarkandi gögnum frá stofnuninni, m.a. í ritinu Science Policy Outlook sem er að koma út. Þar kemur m.a. í ljós að þær þjóðir sem notið hafa mest efnahagsvaxtar síðustu 10 árin eru einmitt þær sem hafa aukið hlutdeild framlaga til rannsókna og þróunar umfram þjóðartekjur. Þar má nefna Norðurlönd, önnur en Ísland, Spán, Ítalíu, Portúgal, Þýskaland, Frakkland og Japan. Umhugsunarvert er líka að Spánn og Portúgal, sem lengi lágu langt fyrir neðan Ísland í framlögum til rannsókna, eru nú að fara fram úr okkur.
    Rannsóknaráð fær ekki séð að Íslendingar geti náð efnahagslegum árangri og breikkað undirstöður efnahagslífsins án þess að gera slíkt hið sama. Ljóst er að nýsköpun verður ekki byggð á hugviti eins og mikið er talað um án þess að leggja verulegt fé í öflun þekkingar, ræktun hugvits og könnun á nýjum hugmyndum sem aukin þekking og tækifæri markaðarins leiða í ljós. Rannsóknaráð ríkisins bendir á að fyrirliggjandi fjárlagafrv. felur í sér áframhaldandi stöðnun í rannsóknum og nýsköpun.``
    Þetta læt ég nægja, virðulegur forseti, sem tilvitnun í erindi Rannsóknaráðs til fjárln. Ég hef ekki fengið upplýsingar um það hvernig fjárln. hefur brugðist við þessu erindi en ég tel ástæðu til að vekja athygli þingsins einmitt í tengslum við það mál sem við ræðum hér á þessu neyðarkalli, sem ég leyfi mér að kalla svo, frá Rannsóknaráði ríkisins og benda á þá staðreynd að fjárlagafrv. stendur í stað, veitir engar nýjar áherslur, engar viðbótarfjárfestingar til rannsókna þrátt fyrir þá stöðu sem nú blasir við og það strand sem orðið hefur varðandi meginmál hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnar, þ.e. risaálbræðslu á Keilisnesi.
    Hæstv. forsrh. vísar e.t.v. til þess --- ég nefni það án þess að leggja honum orð í munn --- hann kann að vísa til þess að sá sem hér stendur hafi setið lengur á Alþingi en hann og það er sannarlega rétt. En ég leyfi mér að nefna það án þess að ætla að hreykja sjálfum mér sérstaklega af því að ég hef oft mælt úr þessum stóli með svipuðum hætti og ég geri nú varðandi þörfina á rannsóknum og þróun í atvinnulífi okkar og það óháð því hvar ég hef verið staddur í sambandi við afstöðu til ríkisstjórna.
    Það er oft vitnað til mislukkaðra fjárfestinga og í því sambandi minni ég á sem dæmi tillögu, sem flutt var áður en menn sprettu úr spori í fjárfestingum í fiskeldi, sem ég bar fram ásamt fleiri þingmönnum úr mínum flokki um rannsóknir á undirstöðuþáttum þess að leggja út í fiskeldi sem atvinnugrein, þörfina á að undirbúa slíka þróun vel með heildarlöggjöf til að marka farveg og skýra ábyrgð innan ríkiskerfisins í þessu máli, til að koma upp nauðsynlegri tilraunaaðstöðu, til að undirbúa fjármögnun, til að kanna almennar forsendur fyrir fiskeldi hér varðandi tegundir, markað og arðsemi og fleira sem fram kom í þessari tillögu sem því miður hlaut ekki betri undirtektir hér á hv. Alþingi en svo að henni var vísað til ríkisstjórnar án þess að þingið tæki frekar afstöðu til hennar og síðan var lagt út í þetta stóra ævintýri. Og ríkisstjórnin sem fór á eftir undir forustu Framsfl. með aðild Sjálfstfl. stóð að þessu ævintýri og á þeim tíma, á fjögurra ára tímabili, stóðu ráðherrar flokkanna, ráðherrar landbúnaðar og sjávarútvegs eins og í reiptogi um það hver ætti að fara með málið af hálfu stjórnvalda. Hver ætti að veita því forstöðu. Betur var nú ekki fyrir því séð og málafylgjan að flestu leyti í góðu samræmi eða réttara sagt í slæmu samræmi við þessa hrikalegu stöðu. Og hið sama gildir um loðdýraræktina. Ég þreyttist ekki á því að gagnrýna landbrh. á þessum árum fyrir það hvernig að þeim málum var staðið. Skipulagsleysið og handahófið í sambandi við uppbyggingu á loðdýrarækt í sveitum landsins þar sem ekki var hugað að undirstöðunni og hvar þær áherslur áttu að liggja sem áttu að gera okkur kleift að vera samkeppnishæfir í þessari atvinnugrein, þ.e. fóðrið og fóðurstöðvarnar sem undirstöðuþáttur og allt skipulag varð auðvitað að byggjast í kringum ef þetta átti að verða barn í brók.
    Við eigum að læra af þessum mistökum. Fortíðarnefndir geta verið ágætar, hæstv. forsrh., en þær þurfa að líta yfir allt sviðið. Ef menn ætla að draga lærdóm af liðinni tíð þá þurfa menn að fara vel yfir sviðið og ekki bara horfa á einstakar tölur og leita að sökudólgum. Menn þurfa að átta sig á því hvað hefur valdið því að atvinnuþróun á Íslandi hefur ekki þokað meir og sumpart færst í öfuga átt á undanförnum áratug. Þess vegna hvet ég hæstv. ríkisstjórn til að taka þessi mál öll til endurskoðunar og með allt öðrum hætti en hún virðist ætla að gera samkvæmt þeirri stefnumörkun sem við höfum séð til þessa og sem þetta frv. sem við ræðum nú er einn þátturinn af.
    Það er því miður svo að aðgerðir stjórnvalda miðast mjög oft við það að bjarga málum um skamma hríð. Það eru skammtímaráðstafanir, það eru skammsæjar ákvarðanir og það kannski dregur nokkurn dám af því sem stundum hefur verið kallað Íslendingseðlið, þ.e að vera að bíða eftir stóra vinningnum, vilja fá uppskeruna fljótt. Það er vafalaust þáttur í okkar eðli sem tengist sveiflum í okkar náttúruauðlindum og auðlindagrunni en við þurfum að viðurkenna þessa hugsun, þennan vanda sem við er að fást og reyna að beina sjónum okkar til lengri tíma og huga að ráðum sem geta veitt uppskeru, ekki endilega á morgun heldur til lengri tíma litið.

    Eitt af því sem hæstv. ríkisstjórn er nú að fást við, eins og oft hefur verið viðfangsefni ríkisstjórna, er að stilla til friðar eða það ætti að vera verkefnið að stilla til friðar á vinnumarkaði. En því miður horfir ekki allt of vel í þeim efnum á þessum skammdegisdögum og við sjáum það nú síðast í dag í einu blaðanna, þ.e. DV, í viðtali við formann Verkamannasambandsins og fleiri aðila vinnumarkaðarins að þeim þykir ekki ýkja bjart fram undan varðandi þann vanda sem þeir eru að glíma við, viðsemjendur báðum megin við borðið og þeim finnst sem ríkisstjórnin veiti ekki þau svör sem þurfi. Ég leyfi mér að vitna til formanns Verkamannasambands Íslands í þessu viðtali sem segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Ég er nú svartsýnni en ég hef verið um langa hríð. Mér hefur fundist lengi vel í haust að það væri einhver ljóstýra í þessu öllu saman en mér sýnist sem slokknað sé á henni. Mín tilfinning er sú að þetta geti allt saman farið úr böndunum hvenær sem er. Við sitjum á púðurtunnu. Það má eiginlega segja að það sé farið að neista úr kveikjuþræðinum.`` Þetta eru aðvaranir sem koma frá formanni Verkamannasambandsins og það er að sjá sem formaður Vinnuveitendasambandsins deili með honum áhyggjunum yfir þessari stöðu. Hér er vissulega um mjög mikilsvert mál að ræða, skammtímavanda út af fyrir sig, en mál sem verður að leysa en er samt nauðsynlegt að horfa til þegar við erum að líta á þær lausnir sem ríkisstjórnin er að bera hér fram sem ekki eru vegvísandi til lausnar á þessum vanda eins og vakin hefur verið athygli á hér fyrr við þessa umræðu.
    Ég ætla nú, virðulegur forseti, að nefna að það gæti verið gott fyrir ríkisstjórnina að líta til nágrannalanda, t.d. til Noregs þar sem stjórnvöld eiga við verulegan vanda að glíma í atvinnulífi. Vaxandi atvinnuleysi, langtum meira en hér, eins og fram hefur komið í máli mínu. En það kom nýlega fram í norska Stórþinginu hjá atvinnumálaráðherranum að þar þurfi að hvetja til bjartsýni og lausna. Þessi ráðherra, sem er ótvírætt úr norska Verkamannaflokknum og heitir Tove Strand Gerhardsen --- og mættu nú þeir sem stundum telja sig flokksbræður hinna norsku krata taka sérstaklega eftir því sem þar er mælt, en eitt af þeim ráðum, sem vísað er til hjá atvinnumálaráðherranum norska, og hún byggir það með vísan í fjárlagafrv. sem liggur fyrir Stórþinginu, er að taka til hendi í þessum þrengingum með aukinni áherslu á svið eins og menntamál og bættar samgöngur, framkvæmdir í vegamálum, samgöngur í þéttbýli, endurbætur á þeim og orkusparnað, betri nýtingu á orkulindum landsins. Og svo ég fari ekki með ranga þýðingu hér leyfi ég mér, af því að það hefur gerst að menn hafa notað erlendar tungur í þessum ræðustól, ensku og fleira, að vísa til þeirrar heimildar sem ég er hér með og hún er aðgengileg öðrum. Blaðið er Aftenposten frá 29. nóv., ég hygg nokkuð borgaralegt dagblað í Noregi, og þar stendur þetta með vísun í ráðherrann:
    ,,Hun henviste til Regjeringens bruk av budsjettet for å få til ny vekst. Pengene styres målrettet mot områder som gir øket sysselsetting --- hun nevnte spesielt utdannselse, bedre veier, kollektivtransport og energiøkonomisering.``
    Og fyrir iðnrh., sem ég veit ekki hvort vill telja sig flokksbróður þessa norska vinnumálaráðherra. ( Viðskrh.: Sannarlega.) Það er greinilegt að hæstv. ráðherra vill telja sig til flokksbróður hennar og það er spurningin hvort hún mundi skrifa upp á þá skilgreiningu en ég skal ekki fara út í það nánar. ( Viðskrh.: Það gerir hún.) En hún fann fleiri ljós dæmi, fleiri ljós, ,,flere lyspunkter`` einnig. ,,Det blir øket aktivitet i oljesektoren, skipsverftene har en tilfredsstillende ordretilgang.`` Skipaiðnaðurinn fær auknar pantanir. Hvaðan koma þær pantanir? ( Viðskrh.: Virðulegur þingmaður, hann sagði ekki verkefni.) Hvaðan koma fullnægjandi verkefni fyrir norskan skipaiðnað, hæstv. iðnrh.? ( Viðskrh.: Það eru nóg . . . ) Ókyrrist nú hæstv. ráðherra en ég hygg að honum sé stóllinn opinn síðar í umræðunni en ég skil afar vel að málið er viðkvæmt. Við höfum rætt stöðu skipaiðnaðar í

landinu og ég leyfi mér að vísa á það einmitt í tengslum við þá umræðu sem fram fer í Noregi um þessi mál að atvinnumálaráðherrann norski getur vísað til fullnægjandi atvinnu og bættrar stöðu hjá norska skipaiðnaðinum, m.a. auðvitað vegna þess að þeir hafa nýtt markaðinn, þeir hafa fengið verkefnin frá Íslandi þar sem skipaiðnaðurinn er á miklu og stóralvarlegu undanhaldi, svo vægt sé til orða tekið. En það sem sneri að menntamálunum var sérstaklega ætlað hæstv. menntmrh.
    Þá skal ég, virðulegur forseti, koma að þeim þætti frv. sem ég ætla að ræða sérstaklega en það er I. kafli bandormsins, það er fyrsti liður bandormsins, þessa margliða bandorms sem er um grunnskóla og þá breytingu á lögum um grunnskóla sem þar er verið að leggja til.
    Fyrsti liður þessa bandorms ber yfirskriftina: ,,Um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla.`` Margt er sérkennilegt við sköpulag þessa dýrs sem liggur á borðum okkar en einna sérstæðastur er þó þessi kafli. Ekki vegna þess að hann sé stór að því er snertir sparnað í ríkisrekstri eða glímuna við vandann, sem ríkisstjórnin telur sig vera að fást við og að einhverju leyti að leysa með þessu frv., heldur þvert á móti, vegna þess hversu það mál sem hér er fram borið í þremur greinum í frv. til laga kemur í rauninni sparnaði í ríkisfjármálum sáralítið við en hefur þeim mun alvarlegri afleiðingar og fer í raun algerlega þvert gegn þeim markmiðum sem ættu að vera sjálfsögð í stöðunni eins og hún er nú í atvinnumálum okkar og atvinnuþróun. Það er verið að smeygja inn í þessa skepnu, inn í þennan lið málsins, breytingum á nýsamþykktum grunnskólalögum. Það er rétt svo að undirskrift forsetans er þornuð á lagafrv. sem Alþingi sendi frá sér sl. vor og þá kemur ný ríkisstjórn sem átti, að því er varðar stuðningslið hér Alþingi fyrir kosningar, góðan hlut í að lögfesta þetta mál og vill breyta því og færa til baka mörg helstu nýmæli þessa frv., og þau sem horft var til jafnt af foreldrum sem skólamönnum sem mjög þýðingarmikil atriði til bóta í skólakerfi landsins.
    Ég spyr ekki aðeins hæstv. forsrh. heldur alveg sérstaklega hæstv. menntmrh.: Hvað veldur þeim ósköpum að verið er að setja þetta mál á jólaföstunni inn á Alþingi Íslendinga, að fara að breyta viðamiklum þáttum nýsamþykktra laga um grunnskóla og láta umræðuna á Alþingi í önnum, óvenju miklum önnum, snúast um það hvort við eigum að fara að skera upp, fresta, breyta, fella niður þýðingarmikil ákvæði úr lögum um grunnskóla? Og ég endurtek, virðulegur forseti, lögum sem góð samstaða var um á lokastigi á Alþingi, máli sem allir flokkar á þinginu tóku þátt í og sameinuðust um að skila í höfn sem nýrri löggjöf um grunnskóla sl. vor. Síðan á að nota þennan skapnað, bandorminn, til þess að lauma inn lagabreytingum á nýsamþykktum grunnskólalögum. Ef maður með góðum vilja reynir að tengja þetta við efni málsins, þ.e. ráðstafanir í ríkisfjármálum, þá er þetta eitthvað það skammsýnasta sem hægt er að finna í þessum ormi. Eitthvað það allra skammsýnasta því að við ættum í raun að vera að stíga skref til hinnar áttarinnar, að tryggja að það verði hægt að taka fyrr heldur en við ákváðum sl. vor upp þau nýmæli og þær breytingar sem þá voru samþykktar. Þá væri eitthvert bragð að þessu. Þá væru menn að horfa til réttrar áttar. Þá væru menn að vinna sig út úr vanda. En svo er ekki hér.
    Með þessum lið málsins á að gelda nýsamþykkt grunnskólalög, taka úr þeim vaxtarbroddana. Ég vara mjög eindregið við þessu og mér finnst þetta vera mikil háðung fyrir Alþingi ef það á að verða hlutskipti okkar núna í skammdeginu að nánast laumast til þess í kröppum tíma sem þingið hefur til umráða að gera róttækar en afar slæmar breytingar á þeim lögum sem þingið sameinaðist um að samþykkja sem sín á liðnum vetri. Þá skal ég, virðulegur forseti, finna þessum orðum mínum nokkurn stað.
    Ég held að það sé gott, virðulegur forseti, að láta þá sem standa hvað næst vettvangi, fyrir utan foreldrana, þ.e. kennarana og kennarasamtökin, tala. Hlýða á hvað þau

hafa að segja um þetta og hefur þó verið nefnt fyrr við umræðuna stutt en skorinort erindi sem borist hefur þinginu og þingmönnum frá Kennarasambandi Íslands, dags. 3. des., þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Með bréfi, sem dagsett var 9. okt. sl., vakti Kennarasamband Íslands athygli á þeirri óvissu sem ríkti um framkvæmd nýrra grunnskólalaga. Þar var því beint til þingmanna að standa vörð um sjálfsögð og mikilvæg ákvæði laganna og sjá til þess að skólastarfi grunnskólanna yrðu tryggðar fjárveitingar í samræmi við þau.
    Nú hefur verið lagt fram á Alþingi frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Með frv. er gert ráð fyrir að fresta eða fella niður flest ákvæði nýju grunnskólalaganna sem til framfara horfa. Þegar nýju grunnskólalögin voru í undirbúningi og umfjöllun Alþingis á síðasta ári náðist um þau breið samstaða allra þingflokka. Þingmenn lýstu þannig vilja sínum til að tryggja farsælt skólastarf til framtíðar og festu í lög skipulag skólastarfs, sem er í samræmi við þróun þjóðfélagsins á undanförnum árum.
    Grundvallarmenntun þjóðarinnar er tryggð í lögum um grunnskóla. Framvinda skólastarfsins er háð því að festa ríki í skipulagi skólanna. Festa og ró í skólastarfinu er líka undirstaða þess að gagnkvæmt trúnaðartraust ríki milli þeirra sem starfa við skólana og hinna sem njóta þjónustu þeirra, nemenda og foreldra. Starfið í skólunum er því enn viðkvæmara en starf flestra annarra opinberra stofnana fyrir þeirri hentistefnu sem nú virðist ríkja hjá stjórnvöldum. Með nýju grunnskólalögunum var m.a. stefnt að einsetnum grunnskóla, samfelldum sjö stunda skóladegi og fækkun nemenda í stórum bekkjardeildum. Þessi ákvæði laganna voru fyrst og fremst nemendum til hagsbóta og tryggðu þeim markvissari menntun en komu auk þess til móts við þarfir þjóðfélags sem byggir á vinnuframlagi beggja foreldra.
    Með frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum ráðgera núverandi stjórnvöld að fresta eða fella niður öll þessi mikilvægu ákvæði og mörg fleiri.``
    Síðan er innramað í þessu stutta erindi frá Kennarasambandi Íslands:
    ,,Við slíkt ábyrgðarleysi verður ekki unað. Kennarasamband Íslands mótmælir því harðlega að lagaákvæði, sem samþykkt hafa verið og kynnt foreldrum og kennurum, skuli gerð marklaus á þann hátt sem nú er ráðgert. Kennarasamband Íslands heitir á alþingismenn að standa vörð um þær breytingar á grunnskólalögum sem allir þingflokkar voru sammála um á sl. vori og tryggja skólastarfinu fjárveitingar í samræmi við lög um grunnskóla frá 1991.``
    Í öðru erindi frá Kennarafélagi Reykjavíkur, sem er dagsett í gær, 5. des., segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Kennarafélags Íslands hefur á fundi sínum fjallað um kennaraskort og aukinn fjölda leiðbeinenda í skólum Reykjavíkur. Kennarar í Reykjavík hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þess að ríkisvaldið virðist ekki gera sér grein fyrir því að ein forsenda farsæls skólastarfs eru vel menntaðir kennarar sem eru sáttir við laun sín og kjör. Miklu máli skiptir að stöðugleiki ríki í skólastarfinu, ekki síst vegna breyttra aðstæðna og þarfa í nútímaþjóðfélagi.
    Kennarar fögnuðu því að ný grunnskólalög voru samþykkt í vor en í þeim er einmitt tekið tillit til breytts þjóðfélags og stefnt að lengingu skóladags nemenda, skólamáltíða, skólaathvarfs og fækkunar nemenda í bekkjardeildum. Þegar fjallað er um fjölda nemenda í bekkjardeildum er yfirleit talað um meðaltal, sem er mjög villandi. Þó meðaltal nemenda í bekk í Reykjavík hafi lækkað um 0,43 nemendur þá eru nú 132 bekkjardeildir með yfir 25 nemendur en voru 92 á skólaárinu 1990--1991.`` --- Þeim hefur sem sagt fjölgað.
    ,,Kennarastarfið hefur tekið miklum breytingum vegna nýs og breytts þjónustuhlutverks skólanna við nemendur og foreldra. Samfélagið gerir nú meiri kröfur til skólanna og

því þarf ríkisvaldið að koma til móts við nemendur og kennara með því að styrkja skólastarfið og fækka nemendum í bekkjardeildum, koma á einsetnum skóla og samfelldum skóladegi, og síðast en ekki síst, tryggja að kennarar komi til starfa í skólana. Því eru þau vinnubrögð sem felast í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum óskiljanleg en þar eru felld úr gildi eða frestað þeim ákvæðum í lögum um grunnskóla sem samþykkt voru sl. vor, sem eflt gætu og styrkt skólastarfið og hlýða kalli samfélagsins.``
    Síðan eru raktar ályktanir sem samþykktar voru á fundi stjórnar Kennarafélags Reykjavíkur 2. nóv. sl. Þær eru ekki langar, ég leyfi mér að lesa þær upp:
    ,,Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fjölgunar leiðbeinenda í grunnskólum Reykjavíkur. Þegar skólar tóku til starfa í haust hafði ekki tekist að ráða kennara í allar kennarastöður og því var ýmist gripið til þess ráðs að ráða leiðbeinendur eða senda nemendur heim. Á skólaárinu 1990--1991 voru 24 leiðbeinendur í grunnskólum Reykjavíkur en eru 52 á þessu skólaári. Það er því ljóst að kennaraskorturinn sem ríkt hefur á landsbyggðinni hefur teygt sig inn í skóla höfuðborgarinnar.
    Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur skorar á yfirvöld að standa vörð um skólastarfið í landinu og bæta kjör kennara þannig að þeir komi til starfa í grunnskólum landsins.``
    Og önnur stutt ályktun:
    ,,Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur mótmælir því harðlega að í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 er gert ráð fyrir að fresta eða fella úr gildi ákvæði um málsverði í skólum, fjölgun vikulegra viðmiðunarstunda nemenda og fækkun nemenda í bekkjardeildum. Kennarar fögnuðu nýjum grunnskólalögum í vor, einmitt m.a. vegna þessara ákvæða því þar með var komið til móts við breyttar þarfir nútímaþjóðfélags.
    Stjórnin mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem felast í því að samþykkja lög á einu þingi og ógilda á því næsta. Slík vinnubrögð eru ekki til að styrkja skólastarfið.
    Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur heitir á alþingismenn að standa vörð um skólastarfið í landinu og tryggja að grunnskólar starfi í anda laga um grunnskóla frá 1991.``
    Virðulegur forseti. Mér er ljóst að stefnt er að frestun hér á fundi innan skamms. Ég ætla að nefna nokkur atriði úr sjálfu frv. áður en ég lýk máli mínu en það er ekki langt sem ég á ólokið af minni ræðu.
    Í þessum þremur greinum sem er að finna í fyrsta lið bandormsins, sem er I. kafli, eru það ákvæði 1. og 3. gr. sem ég er að gagnrýna. Við ákvæði 2. gr. hef ég ekki sérstakar athugasemdir. Mér sýnist að þar sé um að ræða ákvæði sem ekki er ástæða til að gagnrýna sérstaklega. Ég hef hins vegar ekki kannað viðhorf sveitarstjórna til þess sem þar er verið að gera tillögu um að lögleiða. En það eru hinar greinarnar, þar sem eru hinir efnislegu þættir sem vikið er að í samþykktum kennarasamtakanna.
    Ég vil nefna úr 1. gr. frv. Í a-lið þeirrar greinar er ákvæði að finna um málsverði í skólum. Gert var ráð fyrir því --- og er gert ráð fyrir því í gildandi lögum --- að þetta ákvæði kæmi til framkvæmda á nokkrum árum. Þetta ákvæði kom inn í frv. við meðferð Alþingis og ég held ég fari ekki rangt með að flokkur núv. hæstv. menntmrh. hafi verið meðal þeirra sem lögðu sérstaka áherslu á þetta efni. Hér er um að ræða skyldur --- ekki ríkisins --- heldur sveitarfélaganna í landinu, sem er ætlað að taka á sig kostnað vegna þessa. Ég hlýt því að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er hann að koma með tillögu af þessum toga inn í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum? Það gildir raunar um þennan kafla í heild sinni. Af hverju flytur ráðherrann ekki sjálfstætt frv. sem þinginu gæfist færi á að gaumgæfa og fara yfir með eðlilegum hætti við eðlilegar aðstæður í stað þess að smeygja þessu hér inn sem einum fremsta lið í bandorminum sem við ræðum nú?
    Þá er það b-liður þessarar greinar. Þar er lagt til að fella niður ákvæði grunnskólalaga um grunnskólaráð, sem er samstarfsvettvangur aðila sem tengjast grunnskólanum. Mér er ómögulegt að skilja hvers vegna er verið að koma með tillögu af þessum toga, sem ég er efnislega algerlega á móti og tel að horfi til verri vegar. Þarna er um að ræða samráðsvettvang, m.a. foreldra, kennara og margra fleiri sem áttu að koma við sögu í grunnskólaráði, og ég skil ekki hvers vegna hæstv. ráðherra er að beita sér fyrir því að þetta ákvæði komi ekki til framkvæmda á næsta ári. Það er eitthvað annað en fjármálin sem liggja þar að baki.
    Í c-lið er verið að breyta ákvæði sem varðar heimild til ráðningar aðstoðarskólastjóra. Ég sé ekki að það sé nein nauðsyn fyrir hæstv. ráðherra að afnema þessa heimild. Það er ekki nema heimild samkvæmt gildandi lögum og hæstv. ráðherra verður að skýra það nánar af hverju hann vill spyrna þessu út úr nýsamþykktum grunnskólalögum.
    Í d-lið er að finna afar þýðingarmikið atriði sem er stefna grunnskólalaganna um fjölgun viðmiðunarstunda í grunnskólanum en þeim hefur verið fjölgað á undanförnum árum fyrir forgöngu fyrrv. hæstv. menntmrh. Hér er hins vegar verið að gera tillögu um að fella úr lögum það markmið að öll skólabörn á Íslandi séu svipaðan tíma í skólum og gerist í grannlöndum okkar, á Norðurlöndunum og í Bretlandi, og hér er því um að ræða verulega afturför í skólamálum ef við lögfestum þetta ákvæði sem um er að ræða. Það var gert ráð fyrir þriggja ára aðlögunartíma eða framkvæmdatíma varðandi þetta ákvæði og út af fyrir sig, ef hæstv. ráðherra hefði talið að eitthvað mælti með því vegna þrenginga í ríkisfjármálum að taka þetta mál upp --- að framkvæma þetta á næsta ári, þá gat hann flutt áherslurnar til, a.m.k. frestað því að óska eftir að afnema lagaákvæðið um þetta efni með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um.
    Þetta var það sem ég vildi nefna varðandi 1. gr. og þó er enn eftir að nefna skólaathvörf sem gerð er tillaga um að frestað verði framkvæmdum á. Gert er ráð fyrir því að komið verði upp skólaathvarfi við hvern grunnskóla þar sem þörf er talin á slíku. Þetta varðar sérstaklega þéttbýlisskólana og er auðvitað stórfellt hagsmunamál fyrir foreldra og börnin að koma upp slíku skólaathvarfi og bið ég hæstv. ráðherra að rökstyðja það hvers vegna slík tillaga er fram borin, væntanlega með hans samykki, inn í þennan sull sem er að vaxa á borðum okkar.
    Þá er það 3. gr. sem hefur að geyma allmörg efnisatriði og miklu fleiri í rauninni en virðist við fyrstu sýn, vegna þess að hún tekur á ákvæðum til bráðabirgða sem samþykkt voru við setningu grunnskólalaga sl. ár. Í fyrsta lið þessarar greinar er vikið að fækkun í --- af því að þetta varðar allt ákvæði til bráðabirgða í lögum um grunnskóla og það er nauðsynlegt að menn fari yfir það og beri það saman, þeir sem vilja setja sig efnislega inn í þetta --- en í fyrsta lið ákvæðis til bráðabirgða er kveðið á um vikulegan lágmarkskennslutíma á hvern nemanda og gert ráð fyrir því að hann komi til framkvæmda á næstu þremur árum. Í næsta lið er ákvæði um hámarksfjölda nemenda í einstökum bekkjum. Hér er verið að stíga skref til baka þar sem verið er ákveða að fresta því að fækkað verði í neðstu bekkjum grunnskólans. Það er hið efnislega ákvæði sem þarna er á ferðinni og hér er um að ræða tillögu sem tekin var inn í grunnskólalögin m.a. fyrir atbeina þingmanna Sjálfstfl. og með mjög góðri samstöðu. Sparnaðurinn sem hugsanlegt er að ná með þessari breytingu er metinn á röskar 20 millj. kr. Það er nú allur sparnaðurinn sem á að ná fram. Ég tel alls ekki sæmilegt að vera að tína ákvæði af þessum toga inn í þennan bandorm ríkisstjórnarinnar vegna ríkisfjármálanna, sérstaklega miðað við gildi þessa ákvæðis, stefnumarkandi ákvæðis, sem samþykkt var fyrr á þessu ári.
    Þá er eitt ákvæði um námsráðgjafa við grunnskóla, sem gert er ráð fyrir í grunnskólalögunum, en það ákvæði á að fella niður og sama gildir um það markmið, sem grunnskólalögin kveða á um, að skólinn verði einsetinn á 10 árum, stefnt verði að einsetnum

grunnskóla á 10 ára tímabili. Við þessu ákvæði er hróflað með þeirri breytingu sem hér er lögð til á ákvæðinu til bráðabirgða með tillögum 3. gr. þessa frv.
    Þá er verið að fella niður ákvæðið um skólamáltíðir, þ.e. að það komi til framkvæmda á þremur árum. Það er gildur liður í þessari stefnu að skapa samfelldan skóladag og horfir mjög til hins verra að gera slíka breytingu. Hún er satt að segja alveg ótæk.
    Þá er ákvæði í síðasta lið 3. gr. sem segir: ,,Menntmrn. setur í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þ.m.t. valgreinar, og leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma.``
    Hér er um að ræða mjög alvarlegt mál. Það er verið að setja inn nýja málsgrein sem heimilar menntmrn. að setja inn í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar á meðal einnig í valgreinum og leyfilega aukningu vegna skiptitíma. Nú spyr ég hæstv. menntmrh.: Ef þetta ákvæði yrði lögfest, verður það þá túlkað með þeim hætti að ráðherra geti með reglugerð skert lágmarkstímafjölda sem börnum er ætlaður í grunnskólum landsins? Ef það er meiningin að færa slíkt vald til ráðherra og gera það að reglugerðarákvæði þá er verið að lögleiða annað og meira en ég hygg að margir telji við fyrstu sýn. Ég vænti þess að ráðherra veiti um þetta skýr svör síðar við umræðuna.
    Ég vil svo segja, virðulegur forseti, að lokum varðandi þennan kafla, þennan lið bandormsins, þá er, eins og glöggt mátti heyra í ályktunum frá Kennarasambandi Íslands og Kennarafélagi Reykjavíkur og áreiðanlega eiga fleiri eftir að tjá sig um það efni, verið að breyta grunnskólalögunum í mörgum grundvallaratriðum og það í skjóli frv. sem ber heitið ,,Ráðstafnir í ríkisfjármálum.`` Þó er sparnaðurinn af þessum lið frv. ekki meiri en svo að hann er talinn hið mesta geta numið um 40 millj. kr. árið 1992 og 100 millj. ef menn ætluðu að láta sömu ákvæði gilda og reikna það til sparnaðar á árinu 1993. Þetta svarar til innan við 1% af útgjöldunum, langt innan við 1% af útgjöldum til skólamála, þ.e. til grunnskóla, á næsta ári. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Ætlar hann að fara að stíga slíkt ógæfuskref, eins og hér er lagt til, af ekki meira tilefni hvað snertir fjármál, eins og hér hefur komið fram, og stofna til þeirrar tvísýnu --- ég segi nú ekki ófriðar við þá sem starfa í skólum landsins og þá sem eiga börn í skólum --- með því að ómerkja grunnskólalögin sem samstaða var um á Alþingi í fyrravetur og góð samstaða allra flokka að færa til framfara, færa til betri vegar. Þeim yrði breytt stórlega til hins verra ef farið yrði að þessum tillögum.
    Ég held, hæstv. menntmrh., að við þyrftum að ræða þessi efni ansi vel í þinginu á jólaföstunni áður en þessi ákvæði yrðu lögleidd með stuðningi hugsanlega meiri hluta liðs ríkisstjórnarinnar á þingi. Ég hafna algerlega þessum tillögum sem felast í 1. og 3. gr. frv. vegna þess að hér er um stórfelld spor til baka að ræða í skólastefnu í landinu því að þessar greinar eiga alls ekki heima í þessu frv., þó ekki væri nema af þinglegum og tæknilegum ástæðum, þingtæknilegum ástæðum. Það væri heiðarlegra ef hæstv. ráðherra í raun vill standa fyrir tillögum af þessu tagi, sem ég satt að segja á eftir að heyra frá ráðherranum, að hann ætli sér og hafi vilja til þess að stíga þessi hörmulegu skref til baka varðandi skólastefnu í landinu. En ef það er ásetningur hans þá skora ég á hæstv. ráðherra að setja það fram í sérstöku frv. sem við á Alþingi og nefndir þingsins fáum ráðrúm til að gaumgæfa og fara yfir því að það er ekkert tilefni til þess að lögleiða þessi efni með vísun í bága stöðu eða þörfina á sparnaði hjá ríkissjóði.
    Virðulegi forseti. Ég læt máli mínu senn lokið. Ég hef séð ástæðu til þess, að gefnu tilefni hæstv. forsrh., í máli hans þegar hann mælti fyrir frv., að ræða dálítið um stöðuna í atvinnumálum og atvinnuþróun á Íslandi og hvernig horfir miðað við stefnu núv. stjórnvalda. Ég hef mælt mörg aðvörunarorð. Ég bið hæstv. ríkisstjórn að fara yfir þessi efni og gaumgæfa betur en ég trúi að hún hafi gert. Ég tel þetta bráðræðisverk sem er verið að

leggja til í sambandi við skólamálaþáttinn, mikið bráðræðisverk, og ég bið hæstv. ríkisstjórn að íhuga hvort ekki sé skynsamlegt a.m.k. að draga þennan I. kafla frv. þegar í stað til baka og fresta umræðu um það mál. Ég skorast ekki undan umræðunni og að taka afstöðu í þinginu ef það er raunveruleg afstaða ríkisstjórnarinnar að knýja fram breytingu á nýsamþykktum grunnskólalögum. En það er ósæmilegt að ætla að gera það í tengslum við þetta frv. Það skulu vera mín síðustu orð, virðulegi forseti. --- [Fundarhlé.]