Eftirlaun til aldraðra

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 13:23:00 (1724)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. vísaði mönnum með skætingi í fjárlagafrv. þegar þeir spurðu hann efnislegra spurninga í síðustu viku í þessari umræðu. Nú hefur hæstv. heilbrrh. á kurteislegan hátt verið beðinn um að skýra ummæli sín með tilvísun til þess sem stendur í greinargerð fjárlagafrv. Hvernig ber að skilja ummæli hans á þann veg að það eigi að skera niður atvinnuleysisbætur ef þau þýða eitthvað annað en stendur í fjárlagafrv.? Það er auðvitað mjög erfitt, forseti, að greiða fyrir framgangi mála eins og við erum nú að gera hér með stuttum ræðum og málefnalegri umfjöllun ef hæstv. ráðherrar hirða ekkert um annaðhvort að draga skætinginn til baka eða koma með efnislegum hætti inn í umræðuna. Ég veit að vísu að ég er að spandera rétti mínum til að tala hér í annað sinn á ráðherrann með þessari athugasemd en ég vona að hæstv. heilbrrh. sýni af sér þann manndóm að koma upp í ræðustólinn og skýra efnislega hvað hann átti við.