Sjóður til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 15:18:00 (1743)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
     Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi fá að þakka fyrir þann heiður að fá loksins að mæla fyrir þessu frv. Það er búið að vera fastur liður á dagskránni um nokkurra vikna skeið og ég var farinn að halda að það yrði þar til eilífðarnóns. En ég vil um leið og ég minnist á þetta lýsa furðu minni á því að hér er 7. dagskrárliðurinn, Seðlabanki Íslands, 163. mál, þskj. 175, og meiningin er að taka það til umræðu í dag, þegar á dagskránni laugardaginn 7. des. var frv. sem bar þingskjalsnr. 161, er 150. mál, og er um kaup á björgunarþyrlu. Ég skil ekki hvers vegna það fær ekki í það minnsta að halda sér í röðinni og vera á sínum stað í dagskránni, ekki síst í ljósi þess að það hefur ítrekað verið óskað eftir því að það mál væri tekið fyrir við fyrstu hentugleika. Ég vona að þetta verði leiðrétt og það

mál fái að komast á dagskrá sem allra fyrst.
    Það mál sem ég mæli fyrir nú er frv. til laga um stofnun sjóðs til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn og er á þskj. 51 og er 50. mál þingsins.
    Flm. með mér eru 23 aðrir þingmenn þannig að ætla má að málið njóti a.m.k. velvilja þingsins. Þetta mál er keimlíkt máli sem flutt var á sl. þingi af mér ásamt þáv. hv. þm. Hreggviði Jónssyni en hét þá frv. til laga um Afreksmannasjóð eða eitthvað í þá veruna. Það nafn olli hins vegar misskilningi og þess vegna var farin sú leið að skíra frv. upp á nýtt þannig að efnisinnihald þess og tilgangur væri alveg skýr. Menn ályktuðu um fyrra frv. að hugsun flm. væri sú að styðja afreksmenn en það var alls ekki tilgangurinn heldur sá sem hér er vonandi alveg skýr en það er að styðja unga og efnilega íþróttamenn sem vonandi hefði það í för með sér að einhverjir þeirra næðu því marki að verða afreksmenn.
    Ég ætla ekki að fjalla efnislega um gildi íþrótta. Ég tel að ég hafi gert það nógu oft hér og þurfi ekki að endurtaka það allt. Ég held að þingheimur hafi fullan skilning á gildi íþrótta yfirleitt og ég þurfi ekki að flytja þá ræðu einu sinni enn.
    Frv. er tiltölulega einfalt. Fyrirmynd þess er frv. um skákmenn og gerir ráð fyrir því í 1. gr. að stofna skuli sjóð til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn og að stofnfé séu árslaun fjögurra háskólakennara.
    Tilgangur sjóðsins er svo að skapa efnilegum íþróttamönnum fjárhagslegan grundvöll til að helga sig íþrótt sinni.
    Í fyrra frv. var gert ráð fyrir árslaunum 40 háskólakennara en við ákváðum að fara hógværari leið og hafa það fyrst og fremst að markmiði að koma þessum sjóði á koppinn og vinna svo að því frekar í framtíðinni að styrkja hann eftir því hvernig starf sjóðsins kemur út, hvort hann skilar þeim tilgangi og árangri sem flm. ætlast til.
    2. gr. fjallar um að fjárveiting skuli fyrst koma á fjárlögum 1992 og síðan ár hvert á fjárlögum og upphæðin nemi ekki lægri fjárhæð en greinir í 1. gr. og að fjárhæðina skuli endurskoða ár hvert við undirbúning fjárlaga með tilliti til breytinga á launum háskólakennara.
    3. gr. skýrir út hverjir eigi rétt á greiðslum úr sjóðnum en það eru íþróttamenn sem að mati stjórnar sjóðsins hafa sýnt ótvíræða hæfileika í íþróttagrein sinni og eru því líklegir til afreka á því sviði. Einnig er tilgreint hvernig sækja skuli um greiðslur úr sjóðnum. Sérsambönd innan ÍSÍ munu við upphaf hvers fjárhagsárs senda stjórn sjóðsins tilnefningar um íþróttamenn er hljóta skuli styrk það ár. Þarna koma auðvitað fleiri aðilar til en stjórnir sérsambanda sem væntanlega kemur þá fram í reglugerð. Þetta geta verið þjálfarar íþróttafélaga, allra greina sem um er að ræða, og þetta geta verið leikfimikennarar, almennir kennarar eða þess vegna foreldrar. Það er svo aftur í höndum stjórnarinnar að meta það hver er þess verður að fá styrk.
    4. gr. fjallar um hversu lengi stjórnin skal sitja hvert sinn eða þrjú ár, og hverjir skuli í henni sitja. Gert er ráð fyrir því að einn sé tilnefndur af framkvæmdastjórn ÍSÍ og annar af íþróttanefnd ríkisins og sá þriðji skuli skipaður án tilnefningar og sé hann jafnframt formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    5. gr. fjallar um reglugerðarsetningu á vegum menntmrn. og 6. gr. um gildistöku frv.
    Ég ætla að láta greinargerðina eiga sig, aðeins ítreka að hér er ekki verið að leggja til, eins og ég sagði áðan, að afreksmenn sem slíkir verði studdir, heldur á fyrst og fremst að hjálpa ungum og efnilegum íþróttamönnum að komast áfram í sinni íþróttagrein. Það vita allir að þegar við loksins eignumst afreksmenn eigum við í þeim hvert bein. Við geysumst út í Leifsstöð og fögnum þeim þar með misgóðum ræðum. Það er algilt að þegar okkar menn ná árangri þá geysumst við þarna suður eftir og eigum í þeim hvert bein. En fjöldinn allur af efnilegum íþróttamönnum týnist á leiðinni og nær aldrei að verða afreksmenn og það er til þessara efnilegu íþróttamanna sem við viljum reyna að ná.
    Það er líka rétt að ítreka það að þessi sjóður getur ekki og mun aldrei geta stutt við bakið á hópíþróttum, eins og knattspyrnu, handbolta, körfubolta eða slíku. Þetta er fyrst og fremst fyrir einstaklingsíþróttir til að mynda frjálsar íþróttir, sund eða eitthvað slíkt.
    Hæstv. forseti. Ég held ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta. Að vísu er freistandi að fjalla nokkuð um þann niðurskurð til íþróttamála sem hefur átt sér stað undanfarin ár og þau hörmulegu mistök þegar Íþróttasjóður var lagður niður og settur inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga með þeim afleiðingum, sem þegar eru byrjaðar að koma í ljós, að uppbygging íþróttamannvirkja víða um land er látin sitja á hakanum.
    Hæstv. forseti. Ég tel að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég óska þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.