Sjóður til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 15:40:00 (1746)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það er mikið lið sem stendur að þessu frv. sem hér er til umræðu, ætli það sé ekki tvöfalt fótboltalið eða svo. Það vekur auðvitað athygli að í upptalningu á þessum lista er engin kvennalistakona. Við, sem höfum sumar stundað handbolta og sund, erum svolítið sárar yfir því að okkur skuli ekki hafa verið boðið að vera með þó ég geti svo sem engu lofað um það hvort við hefðum tekið undir efni þessa máls. En ég vil auðvitað taka undir það að íþróttir eru mjög mikilvægar og ekki síst sem forvarnastarf, bæði hvað varðar heilbrigði, heilsugæslu og tómstundir. Þær forða ungu fólki frá ýmsu öðru. Ég er ekki alveg sátt við það afreksmannssjónarmið sem kemur fram í þessu frv. Sú spurning vaknar auðvitað: Hvað er afrek í íþróttum? Mér finnst sú vinna sem unnin hefur verið í íþróttafélögum fatlaðra margfalt meira afrek en sigur bridsliðsins vegna þess að öll sú vinna kemur svo mörgum til góða. Það er út af fyrir sig stórafrek.
    Hér vakna nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi varðandi 1. gr. Mig langar að benda hv. 1. flm. á að hér stendur: ,,Skal stofnfé sjóðsins samsvara árslaunum fjögurra háskólakennara.`` Ég reikna með að þetta sé svipað og stendur í lögunum um skákmenn. Ég veit ekki hvaða viðmiðun þeir tóku en laun háskólakennara eru afskaplega misjöfn. Til eru margir flokkar af háskólakennurum og mér fyndist skynsamlegra að skilgreina þetta betur.
    Fram kom í máli flm. að fyrst og fremst væri miðað við að einstaklingar fengju styrki. Ég tel æskilegt að þetta sé það öflugur sjóður að hægt yrði að styrkja fleiri, jafnvel heilu liðin til sérstakra verkefna. Ég kannast við dæmi af einum fremsta kúluvarpara okkar sem á erfitt með að stunda æfingar vegna þess að hann þarf að vinna fyrir sér. Einhver góð lausn þarf að finnast fyrir íþróttahreyfinguna en ég er ansi hrædd um að sjóður sem þessi dugi skammt ef stofnfé hans á að vera 10--12 millj., 12 millj. gæti ég ímyndað mér, ef við reiknum háskólakennurum svolítið rífleg laun.
    Ég á sæti í menntmn. og mun því skoða málið betur þar. Mitt grundvallarsjónarmið er að fyrst og fremst beri að stuðla að almennri þátttöku fólks á öllum aldri í íþróttum. Ekki síst þarf að skapa aðstöðu til þess að stunda íþróttir. Ég ítreka það sem ég sagði að ég áskil mér allan rétt í þessu máli þó að ég ætli ekki að láta nein sárindi ráða afstöðu minni.