Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 13:49:00 (1780)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt fyrir hv. þingflokksformann Sjáflstfl. að átta sig á því að það heyrir ekki til greiðasemi eða sérstaks velvilja að fylgja hefðum um afgreiðslu mála á þinginu eins og þeim að samþykkja án undantekninga afbrigði við því að mál af þessu tagi geti komið til dagskrár undir viðkomandi umræðu. Hinn valkosturinn er sá, sem hv. þingflokksformaður hefur e.t.v. hugsað sér, að fresta umræðunni til morguns þannig að málið geti komið fyrir án afbrigða með þeim fylgiskjölum sem því tilheyra. (Gripið fram í.) En mér fundust þessi ummæli heldur óþörf eins og þau voru fram sett af hv. þm.
    Ég ætla að ræða dagskrármálið, virðulegur forseti. Það er rétt sem hér var upplýst af varaformanni efh.- og viðskn. að nefndin tók þetta mál fyrir og ræddi á einum fundi. Ég efast um að hægt sé að segja að það hafi formlega verið tekið fyrir á nýjan leik, enda kom ekki nefndarálit frá nefndinni á nýjan leik, en það var rætt á einum fundi. Því miður náðist þar ekki samstaða um breytingar á frv. sem ég tel þó að hefði átt að geta gerst ef vilji hefði verið fyrir hendi til þess að leggja meiri vinnu í þetta mál. Staðreyndin er sú að það er greinilegur meirihlutavilji fyrir því á þinginu að þessu sinni að afla ríkissjóði tekna með þessum hætti í einhverjum mæli. Ég hygg að skoðanir manna hefðu getað mæst í útfærslu á þessu máli þannig að jafnvel allir hefðu í eitt skipti getað staðið að því að afgreiða þetta gagnmerka þingmál og árvissa umræðuefni hér á hinu háa Alþingi. Hefði það verið mikil framför og ekki veitt af á þessum dimmu dögum að samstaða hefði tekist á þjóðþinginu um svo sem eitt slíkt mál.
    Ég tel að hefði verið lögð í það vinna að athuga annars vegar hagi verslunarinnar og sérstaklega verslunarþjónustu á landsbyggðinni og í afskekktum héruðum og hins vegar rætt um skattprósentuna í því sambandi hefði ekki átt að þurfa að verða svo langt á milli sjónarmiða að samkomulag um afgreiðslu málsins hefði verið útilokað. En því miður var ekki lögð meiri vinna í málið en sú sem ég hef gert grein fyrir. Það var rætt stuttlega á einum fundi efh.- og viðskn.
    Það er sömuleiðis ástæða til að gagnrýna það, ég segi nú ekki harma, en a.m.k. er það miður að ekki skuli í tengslum við umfjöllun um þetta mál liggja fyrir greinarbetri upplýsingar um afkomu verslunarinnar í landinu. Það virðist vera svo að verslunin í landinu eigi sér orðið sárafá talsmenn, a.m.k. hér inni á hinu háa Alþingi. Þess vegna hefur undirritaður ákveðið að gerast nú talsmaður hennar um skeið hér í þessum virðulega ræðustóli og harmar það að ekki skuli liggja til grundvallar meiri upplýsingar um afkomu verslunarinnar almennt í landinu og eftir einstökum landshlutum eða landssvæðum. Ég tel þess vegna að það sé mjög til bóta í málinu að brtt. sú sem hv. 5. þm. Vestf. leggur til að nái

fram að ganga bætist við frv. Það sem þá skeður er einfaldlega að hæstv. fjmrh. fær heimild í hendur til þess að beita þessum skatti með vægari hætti gagnvart versluninni á þeim svæðum þar sem hún á í sérstökum erfiðleikum. Þetta er heimildarákvæði, ég undirstrika það, þannig að ekkert skyldar hæstv. fjmrh. til að beita því ef hann finnur ekki þá útfærslu í málinu sem ásættanleg er. Þetta er sömuleiðis heimildarákvæði sem væri þá tiltækt og í lögum sem grípa mætti til ef sérstakar aðstæður sannfærðu menn um það að óhjákvæmilegt væri að taka á málum verslunarinnar annaðhvort almennt eða í einstökum landshlutum.
    Ég vil inna eftir því, virðulegur forseti, hvort hæstv. viðskrh. er hér einhvers staðar á svæðinu því að full ástæða væri til þess að spyrja hann um afstöðu hans til þessarar tillögu áður en umræðu lýkur og lokast fyrir frekari breytingar eða lagfæringar á málinu. Sér hæstv. viðskrh. nokkuð nema jákvætt við það að svona heimild verði í lögum? Það getur þess vegna verið til nánari skoðunar hvort henni verði beitt og þá með hvaða hætti eða í hve ríkum mæli. Ég vil að sjálfsögðu spyrja hæstv. fjmrh. um hið sama og ég bið um rök fyrir því ef hæstv. ráðherrar eru ekki einu sinni tilleiðanlegir til að greiða fyrir samstöðu um þetta mál, ef þeir eru ekki tilleiðanlegir til að leyfa þessu heimildarákvæði að koma inn í lögin. Nær hæstv. fjmrh. að nema orð mín á hlaupum sínum hér um salinn? Það eru nokkur ferðalög á hæstv. fjmrh. hér í þingsalnum sem skal upplýst fyrir þá sem koma til með að fylgjast með þessari umræðu í gegnum þingtíðindin síðar meir, ef einhverjir verða. En hæstv. fjmrh. upplýsir að hann nái nú engu að síður að nema umræðuna og er það vel og þar með spurninguna hvort nokkuð sé við það að athuga og nokkuð nema gott um það að segja að svona heimildarákvæði fái að standa í lögunum. ( Fjmrh.: Ég er andvígur öllum brtt. af þessu tagi.) Ég mundi óska eftir því að hæstv. fjmrh. kæmi í ræðustól og rökstyddi mál sitt en gæfi manni ekki svör með frammíköllum. Sú var tíðin að hæstv. fjmrh. var ekki svo feiminn við þennan ræðustól að þyrfti að ögra honum til að fá hann hingað upp í púltið. En þá var hann að vísu í stjórnarandstöðu, hæstv. núv. fjmrh.
    Ég spyr sem sagt um það hvað í ósköpunum ætti að mæla gegn því að svona heimildarákvæði væri inni í lögunum í ljósi þess að enn er ekki hönd á neinu festandi sem til skoðunar hefur verið og umræðu undanfarin ár í sambandi við afkomu t.d. verslunarinnar í strjálbýlinu. Nú er það staðreynd og alvarleg staðreynd að verslunarþjónustan víða á landsbyggðinni á mjög undir högg að sækja, bráðnauðsynleg þjónusta sem verður að vera í hverju byggðarlagi ef þar á að vera sæmilega lífvænlegt og boðlegt mönnum að dvelja eins og verslun með dægurvörur og dagvörur, mjólk og matvöru og annað slíkt. Þar sem ekkert handfast liggur fyrir um einhverjar aðgerðir í þessu sambandi spyr ég hæstv. viðskrh.: Er það ekki rétt til getið hjá mér að hæstv. viðskrh. mundi fagna því mjög að svona heimildarákvæði kæmi inn í lög sem hæstv. fjmrh. í samráði við hæstv. viðskrh. gæti beitt til hagsbóta versluninni á einstökum svæðum?
    Ég hef ástæðu til að ætla að eins og brtt. hv. 5. þm. Vestf. er úr garði gerð sé hún í góðu samræmi við venjur og brjóti ekki á nokkurn hátt í bága við jafnræðisreglur eða stjórnarskrá eða annað því um líkt sem einstakir hv. alþm. höfðu áhyggjur af í sambandi við þetta mál við 2. umr. og þá brtt. í nokkuð öðru formi sem þá lá fyrir.
    Hæstv. forseti. Ég mun ekki hafa ræðu mína lengri því að ég vil gjarnan hlýða á svör hæstv. ráðherra og ég treysti því að þau verði jákvæð. Satt best að segja trúi ég ekki öðru en hæstv. ráðherrar séu tilbúnir til þess að greiða fyrir samstöðu um þetta mál á þinginu og sé ekki að á nokkurn hátt geti fundist rök gegn því að opna þetta heimildarákvæði í lögunum en auðvelt er að sýna fram á gagnsemi þess að hafa það til staðar til að grípa til ef á þarf að halda.