Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 14:29:00 (1790)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Þessi ræða hæstv. fjmrh. olli mér miklum vonbrigðum. Hann sakaði okkur nánast um það að vera að reyna að véla sig hér í gildru og hafði auk þess hin furðulegustu ummæli um vinnuna að þessu máli. Hæstv. fjmrh. verður að átta sig á því að búið er að gerbreyta vinnutilhögun hér á þingi. Þingið starfar í einni málstofu. Þar með eru ekki lengur fyrir hendi þær tvær deildir og tvær nefndir sem áður fóru yfir mál. Krafan um að mál gangi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. er í allt öðru samhengi en áður var. Það voru reyndar margir sem töldu að það ætti að vera sjálfgefinn réttur hvers sem þess óskaði að mál gengju aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. í ljósi þess að það er eingöngu ein þingnefnd en ekki tvær sem fjallar um þau og einungis þrjár umræður í einni málstofu í stað sex áður í tveimur deildum.

    Þetta vildi ég á þeim litla tíma sem ég hef, og á eftir eina mínútu og ellefu sekúndur, taka fram.
    Í öðru lagi verður hæstv. fjmrh. að átta sig á því, sem ég veit að hæstv. viðskrh. veit, að þessi rök sem hæstv. fjmrh. flutti um mismunandi afkomu verslunarinnar á Þórshöfn og Akureyri, á Akranesi og Króksfjarðarnesi --- sem reyndar voru hvort í sínu kjördæminu í minni landafræði en það hefur kannski eitthvað skolast til hjá hæstv. fjmrh. nema ríkisstjórninr hafi flutt mörkin á næturfundi. Það væri svo sem eftir öðru. Ábyggilega hefðu þeir ekki látið sveitarfélögin vita af því. En öll þessi rök munu eiga við, hæstv. fjmrh., með hvaða aðferðum sem reynt verður að taka á málefnum verslunarinnar, mun afkoman verða mismunandi hjá einstökum fyrirtækjum og milli landshluta og byggðarlaga. Þessi ráðstöfun er því ekki á nokkurn hátt öðruvísi eða frábrugðin öðrum í þeim efnum.
    Ég skora á hv. alþm. að athuga vel sinn gang og styðja tillöguna og viðskrh. sem greinilega var henni meðmæltur og hæstv. fjmrh. verður þá bara að lúta því ef vilji Alþingis verður annar en þessi stífi og óþjáli sem hann hefur talað fyrir og er ekki honum líkt, þessum ljúfa manni.