Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 14:35:00 (1793)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er greinilegt að við munum báðir eftir þessari ágætu sögu enda var slíkur áhugi á henni þegar við vorum ungir menn að það var ekki nokkur leið að fá einhvern til þess að leika fótbolta meðan hún var lesin í útvarpið.
    Hins vegar er samlíkingin nokkuð snjöll hjá hæstv. fjmrh. vegna þess að þeim fjölgar líkunum í þeim málum sem hæstv. núv. fjmrh. talaði í umræðum um á síðasta kjörtímabili og ýmist lofaði því að leggja niður þessa skatta eða krafðist þess að það yrði gert eða skatturinn lækkaður, hvort sem það er nú ekknaskatturinn eða tekjuskatturinn eða jöfnunargjaldið. Þannig gæti ég haldið áfram að telja líkin á pólitískri vegferð Sjálfstfl. í skattamálum frá því að hann fór úr stjórnarandstöðu og yfir í ríkisstjórn. Hins vegar er ofætlun hjá hæstv. fjmrh. að ég ætli að senda honum að gjöf útskriftir af ræðum hans varðandi hvert og eitt af þessum málum, það yrðu alltof mörg bindi, hæstv. fjmrh.