Fjárlög 1992

48. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 14:21:00 (1809)

     Frsm. meiri hluta fjárln. (Karl Steinar Guðnason) :
     Hæstv. forseti. Fjárln. hefur lokið störfum fyrir 2. umr. og leggur fyrir hv. Alþingi brtt. sínar við 4. gr. frv. Áður en ég geri grein fyrir þessum tillögum nefndarinnar vil ég fara nokkrum orðum um það efnahagslega umhverfi, sem ríkir þegar fjárln. leggur tillögur sínar fram.
    Eitt af meginviðfangsefnum hvers Alþingis er afgreiðsla fjárlaga. Þær ákvarðanir sem teknar eru við afgreiðslu fjárlaga geta skipt sköpum um árangur í efnahagsstjórn í landinu á hverjum tíma. Þegar litið er til síðasta áratugs og borin saman áform Alþingis á hverjum tíma með samþykkt fjárlaga og afraksturs framkvæmda þeirra kemur í ljós að afkoma ríkissjóðs hefur orðið miklu verri en stefnt var að með samþykkt fjárlaga. Þáttur ríkisfjármála til að styrkja jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur ekki orðið sá sem

stjórnvöld hafa stefnt að á undanförnum árum. Stöðug aukning ríkisumfangs, stöðugt aukin lánsfjárþörf ríkisins, viðvarandi rekstrarhalli og stóraukin skuldsetning ríkissjóðs hefur einkennt ríkisfjármálin síðasta áratuginn.
    Sá viðvarandi hallarekstur sem verið hefur á ríkissjóði á undanförnum árum og mætt hefur verið með lántökum og því til viðbótar yfirtöku skulda svo sem frá orkufyrirtækjum, hitaveitum, Skipaútgerð ríkisins, Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og uppgjör á skuldum við sveitarfélög í landinu hafa leitt til þess að heildarskuldir ríkissjóðs um síðustu áramót eru taldar vera um 150 milljarðar kr. að frádregnum endurlánum. Af þeirri fjárhæð eru 50 milljarðar kr. vegna skulda við lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Eftir standa þá 100 milljarðar kr. sem eru næstum heilsárstekjur A-hluta ríkissjóðs. Vaxtakostnaður ríkissjóðs var í upphafi síðasta áratugs tæplega 5% af heildargjöldum ríkissjóðs en hefur hækkað jafnt og þétt síðustu árin og hefur verið þrjú síðustu árin um 10% af heildargjöldum og er nú svo komið að ríkissjóður greiðir árlega um 10 milljarða í vaxtakostnað. Ef greiða ætti þessa skuld upp á næstu tíu árum þyrfti að vera greiðsluafgangur hjá A-hluta ríkisins um 13 milljarða kr. á ári til að greiða afborganir og vexti af þessum skuldum. Í dag er ríkissjóður rekinn með margra milljarða króna halla og er þá ekki tekið tillit til þeirra skuldbindinga sem falla munu á ríkissjóð vegna ýmissa sjóða sem ríkið er í ábyrgð fyrir.
    Eins og ég sagði áðan var vaxtakostnaður ríkissjóðs í upphafi sl. áratugar um 5% af heildarútgjöldum hans, sem ekki er óeðlilegt. Nú er hins vegar svo komið að síðustu þrjú árin hefur vaxtakostnaður numið 10% af heildarútgjöldum á ári. Þessi vaxtakostnaður ríkissjóðs, þ.e. aukningin um þessi 5 prósentustig, er samtals 4.950 millj. kr. Fyrir þessa upphæð væri hægt að byggja tvenn Vestfjarðagöng og Reykjanesbraut að auki á hverju ári.
    Auðvitað ber þessi aukni vaxtakostnaður þess vitni að eyðsla umfram efni hafi verið með ólíkindum. Þetta ber vitni um óráðsíu og ístöðuleysi sem verður að stöðva.
    Það fjárlagafrv., sem nú er til afgreiðslu, gerir ráð fyrir 3,7 milljarða kr. halla. Ef ekki hefði verið reynt af fremsta megni að draga úr þessum halla, ef ekkert hefði verið gert og óstöðvandi hungur hins sjálfvirka ríkiskerfis hefði verið satt og fyllstu óskum sinnt, þá hefði fjárlagahallinn orðið upp undir 20 milljarðar kr. Hins vegar má segja að í dag sé innbyggður rekstrarhalli hjá ríkissjóði á bilinu 8--10 milljarðar kr. sem er raunverulegur halli miðað við óbreytt rekstrarumhverfi.
    Ein af þekktari perónum íslenskra bókmennta er án efa hinn merkilegi snærisþjófur af Akranesi, Jón Hreggviðsson. Halldór Laxness lýsir lífsbaráttu Jóns í hinu ágæta verki, Íslandsklukkunni. Sagt er meðal annars frá hinum aðskiljanlegu raunum hans vegna meintra afbrota. Í svartholinu á Bessastöðum verður Ásbjörn Jóakimsson einn af samferðamönnum Jóns Hreggviðssonar. Í annálaðri tugthúsræðu sinni segir Ásbjörn við samfanga sinn, Jón Hreggviðsson, eitthvað á þessa leið:
    ,,Afturámóti mun íslenska þjóðin lifa um aldir ef hún lætur ekki undan hvað sem á dynur. Ég hef neitað að flytja kóngsins mann yfir Skerjafjörð, það er satt. Hvorki lifandi né dauður, sagði ég. Ég verð hýddur og það er gott. En ef ég hefði látið undan, þó ekki væri nema í þessu, og ef allir létu undan . . . fyrir pestinni og bólunni, létu undan fyrir kónginum og böðlinum, --- hvar mundi þetta fólk þá eiga heima?``
    Þannig lætur Halldór Laxness hinn staðfasta Ásbjörn Jóakimsson, hinn heita föðurlandsvin, predika yfir Jóni Hreggviðssyni mikilvægi þess að láta ekki undan hvað sem á dynur.
    Helsti vandi íslensku þjóðarinnar í ríkisfjármálum er ístöðuleysi þeirra sem með fjármunina hafa farið. Það hefur alltaf verið látið undan. Þegar eitthvað hefur vantað hafa bara verið slegin ný lán.
    Þetta eru þær einföldu og sársaukafullu staðreyndir sem Alþingi og þjóðin hefur

staðið og stendur enn frammi fyrir varðandi ríkisfjármálin. Ljóst er að af þessari braut verður að snúa. Það verður hins vegar ekki gert án stórfelldrar uppstokkunar í ríkisfjármálum.
    Þegar núv. ríkisstjórn tók við völdum var gengið til þess verks að ná fram haldgóðum upplýsingum um raunverulega fjárhagsstöðu ríkissjóðs og ýmissa stofnana og sjóða sem ríkissjóður er ábyrgur fyrir fjárhagslega. Í opinberri umræðu hefur þetta verið kallað fortíðarvandi, sem og hann er. Þær upplýsingar sem nú hafa birst um þennan vanda hljóta að kalla á að þær upplýsingar sem lagðar eru fyrir Alþingi til ákvörðunar um skuldbindingar ríkissjóðs séu haldbetri en verið hefur og ekki síður að Alþingi sjálft geri kröfur þar um.
    Ég vil aðeins nefna eitt dæmi sem er 6. gr. fjárlaga. Þar eru opnar heimildir til handa fjmrh. að takast á hendur fjölmargar fjárhagslegar ákvarðanir án þess að í fjárlögum sjálfunum sé gerð grein fyrir þeim tölulega nema að litlu leyti. Oft á tíðum hafa þessar heimildir valdið milljarða króna útgjöldum hjá ríkissjóði. Þá má nefna í þessu sambandi að samkvæmt yfirliti frá fjmrn. hafði síðasta ríkisstjórn skuldbundið ríkissjóð á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs með heimildum í fjárlögum og/eða lánsfjárlögum fyrir útgjöldum sem talið er að nemi tæpum 6 milljörðum kr. og til viðbótar því gert ýmiss konar samninga, þar með talinn búvörusamning með fyrirvara um samþykkt Alþingis er hljóðar upp á 6,5 milljarða kr. Greiðsluskuldbindingar vegna þessara samninga eru á bilinu 2 til 3 milljarðar kr. á þessu og næstu þremur árum sem binda hendur stjórnvalda í framtíðinni og gera alla viðleitni til breytinga á útgjaldamynstri ríkisins erfiða. Telja verður að þessi vinnubrögð séu ekki boðleg fyrir Alþingi þar sem fjárveitingavaldið er í höndum þess og því brýnt að hér verði breyting á.
    Þá er ljóst að á næstu árum munu falla á ríkissjóð umtalsverðar fjárhæðir vegna ýmissa sjóða sem ríkissjóður er ábyrgur fyrir. Þar má nefna gjaldþrot Framkvæmdasjóðs Íslands, útlánatöp Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, ábyrgðir sem ríkissjóður hefur gengist í vegna laxeldis og loðdýraræktar, svo eitthvað sé nefnt.
    Ekki verður skilið við umræður um fjárhagsvanda ríkissjóðs án þess að nefna lögbundin lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Talið er að yfir 50 milljarða kr. skuldbindingar séu ógreiddar af hálfu ríkissjóðs vegna lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna í árslok 1991, sem falla á hann greiðslulega á næstu áratugum. Árlega hækka þessar skuldbindingar á bilinu 4 til 5 milljarðar kr. bæði vegna réttinda sem menn hafa áunnið sér og svo nýrra skuldbindinga. Fjöldi þeirra aðila sem njóta þessara réttinda er um 40 þúsund einstaklingar. Þegar réttindi þessara aðila eru borin saman við aðra lífeyrisþega í landinu kemur fram hróplegt misræmi þar sem opinberir starfsmenn búa að þessu leyti við miklu betri kjör en aðrir. Ljóst er að á þessu máli verður að verða breyting. Annars vegar er ljóst að ríkissjóður sem atvinnurekandi getur ekki með óbreyttri tekjuöflun borið þessi útgjöld öllu lengur og svo hins vegar, sem er miklu alvarlegra mál, að innan skamms verður þjóðinni skipt í tvo hópa hvað varðar afkomu, þegar að lífeyrisaldri kemur, þar sem alþingismenn og ráðherrar tróna á toppnum. Fjmrh. hefur boðað viðræður við félög opinberra starfsmanna um þessi mál og ber að fagna því. Ég legg áherslu á að þessi vandamál verður að leysa með samkomulagi aðila.
    Við fjárlagagerð kemur auðvitað margt fram sem betur má fara. Þeir sem nýir koma að þessu verkefni sjá hlutina kannski í öðru ljósi en aðrir. Það er t.d. ekki til sú ríkisstofnun sem ekki kvartar yfir of litlum fjárveitingum. Það er talað um fjársvelti, skilningsleysi og jafnvel illt innræti þeirra, sem um fjárveitingar fjalla.
    Þegar málin eru skoðuð kemur ýmislegt í ljós. Um innihaldið má auðvitað deila en samstarf mitt við meðnefndarmenn mína í fjárln. tel ég vera í besta lagi. Það vilja allir

vera réttlátir. Það vilja allir gera vel. Takmarkað fjármagn setur hins vegar skorður sem öll heimili í landinu þekkja. Það getur enginn gert allt fyrir alla.
    Ég hef mikið velt því fyrir mér, kannski vegna uppruna míns, hve mikil ringulreið virðist vera í kjaramálum opinberra starfsmanna. Það er reyndar víða þannig. Það er ef til vill ekki viðeigandi að nefna þetta á þeirri stundu er samningaviðræður eiga sér stað og svigrúm afar takmarkað og þjóðartekjur minnka fimmta árið í röð, en það er að mínu viti mjög þarft.
    Það taxtakerfi, sem samið er um, virðist gjörsamlega úr sér gengið. Það virðist aðeins notað fyrir þá sem litlar varnir geta sér veitt. Fyrir þá sem fá lægstu laun. Svona hefur þetta verið í áraraðir.
    Feluleikur og hvers kyns mismunun í flestum þáttum kerfisins virðist ótrúlega algengur og þegar listi yfir launatekjur hjá ríkinu er skoðaður kemur ýmislegt skrautlegt í ljós. Ekki ætla ég að ræða hann hér en hlutföll eru mjög á annan veg en opinberlega er fjallað um. Víða í kerfinu er utan kjarasamninga samið um óunna yfirvinnu sem sjálfsagt er í mörgum tilfellum gert til að leiðrétta eða til að koma til móts við markaðinn eins og oft er sagt. Ég fullyrði samt að þetta er óeðlilegt. Þetta er feluleikur sem bitnar á öllum hinum, sem oft á tíðum hafa ekki sömu aðstöðu og þeir sem á toppnum sitja.
    Ekki ætla ég að leggja mat á upphæðirnar að öðru leyti en því að mér finnst þær hæstu reyndar ljósárum fjarri veruleikanum hjá öðrum launastéttum. Hitt er annað að komist ríkið ekki hjá því að greiða þessar upphæðir er miklu heiðarlegra að ganga hreint til verks og viðurkenna það.
    Ég hef líka velt því fyrir mér hvort ekki er ástæða til að breyta samningsferlinu frá því sem viðgengist hefur í áratugi. Þegar stjórnmálamenn hafa ætlað að sýna aðhald í ríkisrekstri er gjarnan gripið til almenns niðurskurðar; svo hefur verið á liðnum árum. Ekki er óeðlilegt að það verði gert nú vegna þess gífurlega vanda sem vaxið hefur að undanförnu og afar lítill tími til stefnu. Slíkt gengur hins vegar ekki til lengdar. Það er í eðli sínu óréttlát aðgerð. Hún kemur ekki réttlátlega niður.
    Það sem gerist er að þeir, sem hafa lagt sig alla fram um að halda sig innan fjárveitinga fá sömu meðferð og hinir sem sukka með fjárveitingar og skiptir engu hvað áætlað er, fara fram úr fjárveitingum og taka sér sjálfir vald til fjárveitinga. Það er hins vegar fyrirhugað í nánu samstarfi við fjárln. að kannski kemur að því að skoða einstakar stofnanir niður í kjölinn, vega og meta hvernig megi draga úr útgjöldum og hvort ástæða er til að viðkomandi stofnun starfi yfirleitt.
    Nú hefur sú breyting verið gerð á þingsköpum Alþingis að fjárln. er heilsársnefnd. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að nefndin hafi frumkvæði að því að gera athugun á ýmsum stofnunum og að hún fylgist nánar með framkvæmd fjárlaga í beinu og góðu samstarfi við Ríkisendurskoðun.
    Þá er einnig ástæða til þess að nefndin taki sérstaklega fyrir og vinni meira en verið hefur við tillögur um úrbætur í ríkisrekstri og hef ég þá í huga stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar.
    Á fyrstu níu mánuðum þessa árs fóru fjölmargar stofnanir fram úr heimildum fjárlaga. Var umframeyðslan frá 1 millj. til 1.000 millj. kr. Auðvitað er í sumum tilfellum um skýringar að ræða en fáum. Við slíkt verður ekki unað. Það er ekki stofnana eða forráðamanna þeirra að taka sér vald sem þeir ekki hafa. Það er Alþingis að meta þessa hluti.
    Komi í ljós að um vanáætlun eða mistök er að ræða er það Alþingis eða fjárln. að fjalla um það hverju sinni. Aðalreglan hlýtur að vera sú að það, sem Alþingi samþykkir, sé virt. Þeir sem ekki una því eða virða það eiga að víkja líkt og tíðkast þegar hinn almenni borgari er dæmdur fyrir að taka sér fé ófrjálsri hendi.

    Ástæða er einnig til að skoða á hvern hátt unnt sé að láta þær stofnanir, sem standa sig vel í meðferð fjármuna, njóta þess sérstaklega. Það getur reyndar vart talist tilætlunarsemi að menn fari að lögum. Fjárlög eru lagafyrirmæli um það hvað hver stofnun á að hafa umleikis. Ef stofnun er vel innan markanna á hún að njóta þess.
    Það fé, sem þannig verður eftir innan stofnunarinnar mætti nota til uppbyggingar innan hennar eða til þess að veita starfsmönnum launauppbót og þannig er viðurkennt að góð útkoma stofnunar sé einnig starfsfólkinu að þakka. Ekki er vafi á því að það er ástæða til að gera stofnanir að sjálfstæðari einingum og auka ábyrgð stjórnenda.
    Ég tel það líka umhugsunarefni hve launakjör innan kerfisins eru misjöfn, hve launakökunni er misjafnt skipt. Það er átakanlegt að það skuli vera umsamið réttlæti að þeir sem verða fyrir líkamlegu erfiði eða vinna við umönnun annarra skuli vera á eða við lágmarkslaun á meðan aðrir fitna á möppum, pappírum og aðstöðunni einni.
    Þegar litið er til hinna hefðbundnu útgjalda ríkissjóðs eru útgjöld vegna heilbrigðis- og menntamála fyrirferðarmest en þau taka rúmlega helming allra útgjalda A-hluta ríkissjóðs. Stöðug raunaukning þessara útgjalda er mikið áhyggjuefni. Þannig er talið að á árabilinu 1986--1990 hafi raunaukning útgjalda lífeyristrygginga orðið um 25% og vegna sjúkratrygginga um 20%. Þá virðist vera til staðar sjálfvirkni í menntakerfinu sem kallar á yfir 100 störf árlega vegna skólastarfsemi í landinu. Og rétt er að geta þess að samtals fjölgaði starfsmönnum ríkisins um 636 stöðugildi á síðasta ári.
    Það vakti athygli mína í þeim fjölda viðtala, sem áttu sér stað í fjárln., hve margir kvörtuðu yfir viðhaldi bygginga. Svo virðist sem sparnaður eða kappið við að byggja nýtt hafi orðið til þess að viðhald bygginga ríkisins hafi gersamlega setið á hakanum. Flestar byggingar ríkisins eru að hrynja. Viðhaldið hefur svo gersamlega verið vanrækt.
    Frá árinu 1971 til og með 1989 hefur verið varið um 10 milljörðum kr. á verðlagi í nóvember 1991 til framkvæmda við byggingu sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða annarra en ríkisspítala.
    Mörg stór sjúkrahús voru reist fyrir þann tíma og má þar nefna stóran hluta Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Sjúkrahús Akraness, Sjúkrahúsið í Neskaupstað og fleiri. Segja má að byggingu heilsugæslustöðva um landið sé nú lokið, aðeins er eftir að byggja heilsugæslustöðvar á Eskifirði og í Grundarfirði en vinna við hönnun stendur yfir. Þessir fjármunir hafa ekki nýst eins og best verður á kosið.
    Verkáfangar hafa verið slitnir í sundur vegna takmarkaðra fjárveitinga sem hefur leitt af sér langan byggingartíma og að dómi sérfræðinga dýrari byggingar en ella. Dæmi er um að bygging á 735 m 2 húsi, sem ætti að kosta um 75 millj. kr., hafi tekið rúm 12 ár þegar eðlilegur byggingartími hefði verið 2--3 ár.
    Þegar þeim fjármunum sem veitt er til þessara framkvæmda er skipt hefur til þessa það sjónarmið ráðið að sem flestir fái einhverja úrlausn, án tillits til hagkvæmni eða með einhvers konar kjördæmapoti af versta tagi.
    Þegar slíkar byggingar taka jafnlangan tíma og raun ber vitni verður hönnunarkostnaður meiri en eðlilegt getur talist vegna mikilla breytinga á herbergjaskipan og innréttingum, sem óhjákvæmilega verða á t.d. 12 árum. Dæmi er um að ellefu ný stöðuheiti hafi orðið til innan sjúkrahúsa á byggingartíma eins sjúkrahúss úti á landi.
    Við athugun hefur komið í ljós að frá 1980 til 1989 hefur verið veitt fé á fjárlagalið 08-391 til viðhalds 149,2 millj. kr. á verðlagi í nóvember 1991, en aðeins 107,6 millj. kr. eða um 1% af framkvæmdafé áranna 1971 til 1989 verið notaðir til viðhalds. Þegar kreppir að í rekstri hjá þessum stofnunum freistast menn til að grípa til þessara fjármuna og geyma viðhald bygginganna.
    Margar þessara stóru bygginga eru illa farnar vegna skorts á fjármunum til viðhalds. Ekki er vafi á því að á næstu árum er rétt að draga verulega úr nýbyggingum og veita þess í stað fjármagni til viðhalds. Dæmin þekkja menn frá Þjóðleikhúsi og Þjóðminjasafni. Þó ekki sé um marga milljarða að ræða við hvert verkefni, eins og menn hafa heyrt um vegna þeirra bygginga, er samt um verulegar fjárhæðir að ræða við sum þessara verkefna.
    Til dæmis eru þrjár byggingar sem óhjákvæmilegt verður á þessu ári að veita fé til viðhalds á. Þar er áætlaður viðhaldskostnaður samtals 135 millj. kr. Við eina þessara bygginga var kostnaður samtals 135 millj. kr. Ein þessara bygginga var tekin í notkun 1987 en framkvæmdir við byggingu hennar hófust árið 1974.
    Það er engin skynsemi í því að halda áfram nýbyggingum þegar ekki virðast efni til að halda þeim verðmætum við sem búið er að koma upp. Það mundi enginn einstaklingur gera og það sama hlýtur að gilda fyrir ríkissjóð.
    Samkvæmt spám um afkomu þjóðarbúsins á næsta ári horfir þunglega í íslenskum þjóðarbúskap á árinu 1992. Talið er að áframhald verði á því samdráttarskeiði sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf allt frá árinu 1987. Það sem fyrst og fremst veldur þessu er langvarandi samdráttur í sjávarútvegi. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir að botnfiskaflinn á árinu 1992 verði 17% minni en á yfirstandandi ári. Þá má nefna að frá árinu 1987 til þessa árs hafa þjóðartekjur á mann lækkað að raungildi um 6,5%. Sé miðað við þær spár sem nú liggja fyrir um árið 1992 verða þjóðartekjur orðnar um 13% lægri en þær voru á árinu 1987.
    Veruleg ástæða er til að hafa áhyggjur af atvinnuöryggi verkafólks í kjölfar minnkandi botnfiskafla. Það er einfalt reiknisdæmi að með núverandi skipulagi veiða og vinnslu minnkar atvinna fiskverkafólks um næstum tvo daga í viku verði aflasamdráttur nálægt 20%. Þetta verður með öllum ráðum að koma í veg fyrir og hlýtur þess vegna athyglin að beinast að því hve ótrúlega mikill afli er fluttur á markaði erlendis án þess að íslenskt verkafólk komi nálægt vinnslu aflans.
    Þrátt fyrir þann aflasamdrátt sem lýst er hér að framan hefur afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi hlutfallslega ekki versnað sem aflasamdrættinum nemur. Þar kemur til að fiskverð hefur hækkað mikið á undanförnum árum. Talið er að verð á botnfiski, mælt í SDR, hafi hækkað um rúmlega 12% milli áranna 1989 og 1990. Þjóðhagsstofnun áætlar að verðið hækki um 10% milli áranna 1990 og 1991. Hins vegar er ljóst að afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi er mjög mismunandi og mörg þeirra eiga við verulegan rekstrarvanda að stríða, einkum vegna mikilla skulda og fjármagnskostnaðar.
    Það samdráttarskeið sem gengið hefur yfir íslenskan þjóðarbúskap að undanförnu hefur komið fram í auknu atvinnuleysi. Atvinnuleysi á tímabilinu 1980--1988 var að meðaltali 0,7% af vinnuafli. Á árunum 1989 og 1990 mældist atvinnuleysi hins vegar 1,7% bæði árin. Atvinnuleysi hefur í ár minnkað nokkuð og er nú gert ráð fyrir að það verði um 1,4% af vinnuaflinu. Útlit er fyrir að atvinnuleysi muni aukast og áætlað er að það geti farið í 2,6% af vinnuafli næsta árs ef ekki verður breyting á.
    Tilraunir okkar til að stækka þjóðarkökuna hafa að mestu brugðist. Milljarðar af þjóðarauðnum hafa tapast í laxeldis- og loðdýrafyrirtækjum og þrátt fyrir góðar vonir og mikið starf hafa fyrirætlanir okkar á sviði stóriðju brugðist í bili. Í næstum tvo áratugi hafði því ekki verið sinnt að leita eftir samvinnu við sterka aðila um byggingu stóriðju. Þegar það var loks gert og hyllti undir árangur brugðust ytri aðstæður. Byggingu nýs álvers hefur verið frestað um sinn, svo vissulega er útlitið ekki bjart.
    Það er einlæg von mín að samningsaðilar nái saman á skynsamlegum nótum. Sagan hefur kennt okkur Íslendingum að stóru stökkin í kjarasamningum hafa reynst röng. Sjálfur hef ég verið þátttakandi á þeim vettvangi í áratugi. Á því tímabili var verðbólgan

og fylgifiskar hennar helsta viðfangsefnið.
    Eðlilega krafðist verkalýðshreyfingin þess að fá sanngjarnan hlut í þjóðartekjunum. Það grundvallaratriði var og er tekist á um bæði á hinum almenna vinnumarkaði og hjá því opinbera. Auðvitað hafa báðir aðilar gert mistök á áðurgreindum vettvangi. Það sem efst situr þó í huga mínum frá fyrstu árunum er minningin um hversu lítið var oft hugsað um framtíðina. Nánasta umhverfi og vandamál líðandi stundar var oftast efst á baugi á þessum vettvangi. Hjá verkalýðshreyfingunni hefur þetta breyst. Þar eru viðhorfin allt önnur en áður. Nú er það eitt meginefni í kjaramálaályktunum verkalýðsfélaganna að krefjast stöðugleika í efnahagsmálum og vara við verðbólguófreskjunni.
    Af þessu gætu aðrir lært. Ár eftir ár hafa kröfur um útþenslu ríkiskerfisins aukist. Ár eftir ár hafa fjárlög verið þannig úr garði gerð að helst mætti ætla að þeir sem þau gerðu og samþykktu hefðu trúað því í alvöru að þeir ættu aðeins eftir eitt ár á þingi. Eða trúað því að eftir líðandi ár kæmi ekki annað ár. Ríkissjóður hefur átt sér fáa formælendur. Menn hafa horft fram hjá því að það er grundvallaratriði að ríkissjóður sé rekinn án halla. Ef það er ekki gert verkar það út um allt þjóðfélagið.
    Vaxtastigið verður hærra ef ríkissjóður veður eins og villidýr um bankakerfið. Það verkar síðan á heimilin í landinu og atvinnulífið. Það eyðileggur heimilin og tortímir fyrirtækjunum. Allir tapa.
    Síðustu áratugir hafa verið tímabil uppgangs og aukinna þjóðartekna. Stjórnmálamenn og þjóðin öll hefur viljað fara hratt, hratt burt frá örbirgð til bjargálna, hratt til uppbyggingar og meira umfangs. Allir hafa kappkostað að byggja upp betra þjóðfélag. Fáir hafa spurt: Förum við of hratt, eða kostar þetta eitthvað? Ef eitthvað vantaði voru bara tekin erlend lán.
    Halli á ríkissjóði hefur síðustu árin fremur verið regla en undantekning. Meira að segja þegar góðærið var mest þá var mikill halli á ríkissjóði, sem er víðs fjarri heilbrigðri skynsemi.
    Oft hafa ríkisstjórnir flutt fjárlagafrv., sem tilgreindi hallalausan ríkisbúskap. Alþingi hefur líka oft afgreitt fjárlög, sem sýndi jákvæða niðurstöðu. Því miður hafa þetta yfirleitt reynst ómerkilegar sjónhverfingar sem nú koma okkur í koll.
    Það er athyglisvert og þess verður minnst í sögunni að síðustu árin hafa það verið aðilar vinnumarkaðarins sem hafa átt frumkvæði að því að ná tökum á verðbólgunni og skapa stöðugt efnahagsumhverfi. Ekki hefur skort vilja hjá viðkomandi ríkisstjórnum heldur stefnufestu og kjark.
    Eftir nær tveggja áratuga óðaverðbólgu hér á landi tókst með samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins í ársbyrjun 1990 að ná kjarasamningum sem við nefnum nú jafnan þjóðarsátt. Þeir kjarasamningar mörkuðu tímamót. Þá tókst að snúa af þeirri óheillabraut, sem farin hafði verið. Samningarnir mörkuðu ótvíræð þáttaskil í verðlagsmálum. Þeir hafa aukið verðskyn almennings og skapað efnahagslegt umhverfi sem er nær þeim veruleika sem alla hafði dreymt um.
    Hækkun framfærsluvísitölu frá upphafi árs 1990 til ársbyrjunar 1991 var 7,3%, en árið áður hafði framfærsluvísitalan hækkað um tæplega 24%. Nú er gert ráð fyrir að verðbólgan frá upphafi til loka þessa árs verði um 7,7%.
    Þá hefur þjóðarsáttarsamningurinn treyst kaupmátt launa. Er nú talið að kaupmáttur atvinnutekna á mann verði 2% meiri á þessu ári en á sama tíma í fyrra í samanburði við kaupmáttarhrapið á árinu 1989 sem var nær 10%.
    Það er afar nauðsynlegt að leysa þær vinnudeilur sem nú standa yfir. Allir kjarasamningar eru lausir. Jöfnun lífskjara hlýtur að vera eitt brýnasta verkefnið til að endar nái saman. Umfram allt verður að tryggja atvinnuöryggið sem víða hefur brostið. Þau hundruð vinnufúsra launþega, sem nú eru atvinnulaus, verða að eygja von um betri tíð.
    Það er skoðun mín að samningar í takt við þjóðarsáttarsamninginn verði að takast. Þá tekst okkur að vinna okkur út úr vandanum. Þá tekst okkur að bjarga því sem bjargað verður og byggja upp á ný.
    Fjárln. hefur í þetta sinn lagt sig fram um að skera niður útgjöld. Láta ekki undan þrýstingi og kröfum um hærri fjárveitingar. Það er vissulega erfitt verk og ekki til vinsælda fallið. Það er hins vegar nauðsynlegt til að ná tökum á vandanum.
    Hefði allt rekið á reiðanum hefði það haft skelfilegar afleiðingar. Það hefði enn hækkað vexti, það hefði útilokað skynsamlega kjarasamninga. Auðvitað hefði mátt skera meira niður. Það hefði verið æskilegt til að ná fyllsta markmiði. Það hefði hins vegar komið niður á atvinnustiginu. Þar er ekki á bætandi. Það kemur annað ár. Umboð ríkisstjórnarinnar er fjögur ár. Takist okkur ætlunarverkið, að koma reiðu á efnahagsmálin, þá höfum við fært fórnir fyrir betri framtíð. Þá mun haldið af stað til uppbyggingar og betri lífskjara.
    Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1992 er það fyrsta sem núverandi ríkisstjórn leggur fram og markar sem slíkt fyrstu skrefin á braut þeirra umbóta sem nauðsynlegar eru í ríkisfjármálum. Því er jafnframt ætlað að tryggja þann árangur sem náðst hefur með þjóðarsáttarsamningunum og takast á við versnandi ytri skilyrði svo og rangar ákvarðanir í efnahagsmálum á liðnum árum.
    Meginforsendur fjárlagafrv. voru byggðar á þjóðhagsáætlun sem lögð var fram í októbermánuði sl. Þar var gert ráð fyrir að bygging álvers og tengdra mannvirkja hæfust á næsta ári. Eins og ég sagði áðan hefur ákvörðunum um framkvæmdir við álver verið frestað. Vegna þessa er staða efnahags- og atvinnumála miklu verri en gert var ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram. Áhrif frestunar álversins og byggingar raforkuvers mun enn frekar auka á vanda ríkissjóðs.
    Eins og ég gat um óx tekjuvandinn verulega eftir að ríkisstjórnin lagði frv. fram. Ríkisstjórnin hefur brugðist við þeim vanda með tillögugerð þar sem markmiðið er að rekstrarhalli ríkissjóðs lækki niður í 3,5 milljarða kr.
    Meginmarkmið fjárlagafrv. fyrir árið 1992 eru:
    Að lánsfjárþörf opinberra aðila verði minni en 24 milljarðar kr.
    Að lánsfjárþörf ríkissjóðs verði minni en 1 milljarður kr.
    Að rekstrarhalli ríkissjóðs verði um 4 milljarðar kr.
    Að þessum markmiðum verði náð án þess að hækka skatta.
    Fjárln. hóf vinnu við undirbúning á afgreiðslu fjárlaga í síðustu viku septembermánaðar sl. með viðræðum við sveitarstjórnarmenn. Eins og á undanförnum árum auglýsti nefndin viðtalstíma þar sem þeim aðilum, er þess óskuðu, var gefinn kostur á að bera upp erindi sín við nefndina. Þá hafa samskipti fjárlaganefndar við einstök ráðuneyti verið mikil nú í kjölfar breyttra vinnubragða hjá ríkisstjórninni við gerð fjárlagafrumvarpsins, þar sem einstakir ráðherrar eru í ríkari mæli en áður gerðir ábyrgir fyrir fjármálum sinna ráðuneyta og stofnana. Þetta nýja verklag hefur auðsjáanlega nú þegar skilað árangri þar sem færri stofnanir ríkisins telja sig þurfa að koma til nefndarinnar með mál sín en áður. Það sem verður hvað mikilvægast við þessa breytingu er framkvæmd ríkisfjármála innan ársins því nú verða einstök ráðuneyti sjálf að ábyrgjast að rammi fjárlaga haldi. Þetta verður að telja einn af þýðingarmestu þáttum í því nauðsynlega aðhaldi sem ríkja þarf við rekstur á ríkiskerfinu.
    Nefndin hefur haldið 45 sameiginlega fundi og til nefndarinnar hafa komið til viðræðna um 180 aðilar. Á þessum tíma hefur nefndin fjallað, samhliða vinnu við fjárlagafrv. fyrir árið 1992, um fjáraukalög fyrir árið 1991 og 1990 ásamt ríkisreikningi fyrir árið

1989. Í þessum störfum hefur nefndin notið aðstoðar fjmrn. og Ríkisendurskoðunar eins og á undanförnum árum. Þá hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð. Ég vil fyrir hönd nefndarinnar þakka öllum aðilum fyrir gott starf. Þá hafa fastanefndir þingsins fjallað um fjárlagafrv. er varða málefnasvið þeirra og hefur fjárln. borist skriflegt álit nefndanna.
    Eins og ég hef rakið hér að framan hefur staða ríkissjóðs sett meiri hluta fjárln. þröngar skorður við afgreiðslu þeirra fjölmörgu óska um fjárveitingu til þeirra margvíslegu verkefna sem borist hafa á borð hennar í tengslum við afgreiðslu þessa frv. En við höfum reynt að taka tillit til þess allra nauðsynlegasta í erindum þess fólks sem á fund okkar kom eða sendi okkur erindi. Meiri hluti fjárln. hefur þurft að hafna flestum þeim beiðnum sem fyrir nefndina hafa verið lagðar.
    Við höfum starfað í anda þeirrar heimspeki sem Ásbjörn Jóakimsson predikaði í Íslandsklukkunni:
    ,,Ef ég hefði látið undan, þó ekki væri nema í þessu, og ef allir létu undan altaf og alsstaðar, létu undan fyrir draugum og fjanda, . . . hvar mundi þetta fólk þá eiga heima?``
    Við erum að berjast af sannfæringu gegn þeim fjanda sem efnahagsvandanum fylgir. Það er gert af sannfæringu, við munum fylgja henni til sigurs, sigurs íslensku þjóðarinnar.
    Er nefndin hafði lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda, sem til hennar bárust, lá fyrir að brtt., sem nefndin hafði sameiginlega unnið að, leiddu til hækkunar á 4. grein um 220,2 millj. kr.
    Þá fékk nefndin til umfjöllunar tillögur sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 9. des. sl. Eru þær tillögur sem kunnugt er flestar til sparnaðar á útgjöldum ríkisins en einnig nokkrar sem fela í sér aukin útgjöld. Enn aðrar varða tekjuhlið fjárlagafrv. Meiri hluti nefndarinnar flytur verulegan hluta þessara tillagna við 2. umr. og nemur sparnaður samkvæmt þeim 957,6 millj. kr. að meðtöldum almennum sparnaðartillögum ríkisstjórnarinnar varðandi launa- og rekstrargjöld.
    Aðrar af þessum tillögum bíða 3. umr. Auk þess leggur meiri hluti nefndarinnar fram við þessa umræðu tillögur um frekari lækkanir útgjalda sem samtals nema 232 millj. kr.
    Í heild gera brtt meiri hluta nefndarinnar við 2. umr. ráð fyrir 969,4 millj. kr. lækkun útgjalda.
    Nefndin hefur ekki lokið afgreiðslu nokkurra mála og bíða þau 3. umr. Má þar nefna málefni sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu, þar með taldir ríkisspítalar, vegamál og nokkur önnur smærri mál. Þá er rétt að geta þess að ákvörðun um skólagjöld bíður einnig 3. umr.
    Enn fremur bíður samkvæmt venju tekjuhlið frv., B-hluti, og heimildir samkvæmt 6. gr. afgreiðslu nefndarinnar við 3. umr.
    Minni hluti nefndarinnar hefur kosið að standa ekki að brtt. meiri hlutans og hefur hann skilað séráliti.
    Vil ég nú víkja að einstökum þáttum þessara tillagna.
     1. tillagan á þskj. 232 varðar Alþingi. Þar er lagt til að alþingiskostnaður lækki um 7 millj. kr. Lækkuninni er ætlað að ná til launa- og rekstrarkostnaðar.
     2. tillagan varðar Byggðastofnun en þar er gert ráð fyrir lækkun rekstrarkostnaðar um 20 millj. kr. sem kemur til vegna samdráttar í starfsemi.
     3. tillagan varðar aðalskrifstofu menntmrn. Þar er lagt til að framlag hækki um 4 millj. kr. vegna ferðakostnaðar vegna samnings um Evrópskt efnahagssvæði en meðan á samningum stóð var þessi kostnaður færður hjá utanrrn.

     4. tillagan er við liðinn Almennir framhaldsskólar. Þar er lagt til að framlag til byggingarframkvæmda lækki um 5,5 millj. kr.
     5. tillagan, stafliður a, varðar Landakotsskóla. Þar er lagt til að fjárveiting til skólans verði hækkuð um 1 millj. kr. vegna aukins rekstrarkostnaðar við skólann. Stafliður b varðar grunnskóla almennt. Lagt er til að fjárveiting lækki um 10 millj. kr.
     6. tillagan varðar Þjóðminjasafn Íslands. Annars vegar er gert ráð fyrir að fjárveiting hækki um 2 millj. kr. vegna sýninga á vegum safnsins og hins vegar hækkar fjárveiting til verndunar gamalla húsa um 2 millj. kr.
     7. tillagan varðar Listasafn Íslands. Þar er lagt til að fjárveiting hækki um 1 millj. kr. vegna leigu á húsnæði fyrir viðgerðir á vegum safnsins.
     8. tillagan varðar Kvikmyndasafn Íslands. Lagt er til að fjárveiting hækki um 2 millj. kr. sem varið verði til sérstakra björgunaraðgerða á nítratmyndum safnsins en nítratmyndir voru notaðar á fyrstu árum kvikmyndagerðar.
     9. tillagan lýtur að söfnum. Í staflið a er lagt til að fjárveiting til Listasafns ASÍ hækki um 1 millj. kr. vegna endurbóta á verkum safnsins. Í staflið b er lögð til hækkun á fjárveitingu um 2,5 millj. kr. til Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og í staflið c er lagt til að fjárveiting til Byggða- og minjasafna hækki um 2,6 millj. kr.
    10. tillagan varðar Þjóðleikhúsið. Þar er gerð tillaga um að fjárveiting til rekstrar hækki um 27,5 millj. kr. Að mati Þjóðleikhússins á óbreyttum rekstri hefði framlag úr ríkissjóði þurft að vera 309 millj. kr. árið 1992 en í frv. til fjárlaga er gert ráð fyrir 226,5 millj. kr. Fallist var á að leggja til að bætt verði við 27,5 millj. kr. en ætlast er til að leikhúsið endurskipuleggi reksturinn og dragi úr umfanginu sem nemur 55 millj. kr. Jafnframt er lagt til að ekkert framlag verði til endurbóta á Þjóðleikhúsinu á fjárlögum árins 1992.
    11. tillagan varðar starfsemi áhugaleikhópa. Lagt er til að fjárveiting hækki um 2 millj. kr. Í staflið b er lagt til að fjárveiting til Menningarsjóðs félagsheimila hækki um 1,4 millj. kr. þannig að heildarfjárveiting samsvari 10% af skemmtanaskatti.
    12. tillagan varðar starfsemi KFUM og KFUK. Er þar lagt til að fjárveiting hækki um 2 millj. kr. vegna rekstrar sumarbúða félagsins.
    13. tillagan varðar ýmis íþróttamál. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting til Íþróttasambands Íslands hækki um 1,9 millj. kr. Þá er einnig lagt til að framlag til Ólympíunefndar Íslands hækki um 2,5 millj. kr. og framlag til Ólympíunefndar fatlaðra hækki um 0,8 millj. kr., hvort tveggja vegna Ólympíuleika á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir að styrkir til íþróttafélaga hækki um 3,5 millj. kr. Einnig er lagt til að fjárveiting til Skáksambands Íslands hækki um 2,2 millj. kr. en á móti kemur að liðirnir Skákmót, styrkir og Skólaskákmót falli brott og er ætlast til þess að þessum viðfangsefnum verði sinnt af fjárveitingum til Skáksambandsins. Fjárln. taldi óhjákvæmilegt að styðja Skáksambandið í húsnæðiskaupum þess en Skáksambandið hefur, eins og kunnugt er, flust í nýtt og myndarlegt húsnæði.
    14. tillagan varðar Menntastofnun Íslands og Bandaríkjanna og er gert ráð fyrir að fjárveiting hækki um 1,2 millj. kr. sem svarar til hækkunar á framlagi til dollaragildis. Ekki er vafi á því að stofnunin hefur gegnt mikilvægu hlutverki með því að efla samskiptin við hið öfluga menntakerfi Bandaríkjanna. Mikilvæg rök eru fyrir því að aukið framlag ríkisins til stofnunarinnar gæti skilað sér með mjög beinum hætti í hlutfallslega minni fjárþörf Lánasjóðs íslenskra námsmanna í Bandaríkjunum. Þeir, sem hljóta styrki stofnunarinnar til framhaldsnáms í Bandaríkjunum sækja um skóla sem Fulbright-styrkþegar. Skólar í Bandaríkjunum veita nær þrefalda þá upphæð sem Fulbright-styrkurinn nemur.
    15. tillagan varðar aðalskrifstofu utanrrn. og er lagt til að fjárveiting til þýðingar laga og reglugerða Evrópubandalagsins hækki um 10 millj. kr. vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði.

    16. tillagan varðar aðalskrifstofu landbrn. Þar er lagt til að fjárveiting hækki um 1 millj. kr. vegna ferðakostnaðar vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði en meðan á samningum stóð var þessi kostnaður færður hjá utanrrn.
    17. tillagan varðar Hagþjónustu landbúnaðarins. Gert er ráð fyrir að fjárveiting hækki um 0,5 millj. kr. vegna þess að stofnuninni hefur verið falið viðfangsefni í tengslum við GATT-samninga.
    18. tillagan lýtur að greiðslum vegna búvörusamninga. Þar er lagt til að beinar greiðslur til bænda vegna afurða lækki um 295 millj. kr. vegna þess að gert er ráð fyrir að greiðslum verði dreift á 12 mánuði, tímabilið 1. mars 1992 til 1. febr. 1993, en ekki öll á næsta ári eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Þessi ráðstöfun er í samræmi við ákvæði búvörusamnings, nánar tiltekið grein 5.2.1., þar sem kveðið er á um tilhögun greiðslu til bænda. Þar kemur skýrt fram að beinar greiðslur skuli inntar ef hendi mánaðarlega frá 1. mars. Í greininni kemur fram að fullnaðaruppgjör skuli fara fram 15. des. vegna framleiðslu ársins þar sem tekið sé tillit til gæðaflokkunar framleiðslunnar. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að fullnaðaruppgjör og fullnaðargreiðsla af hálfu ríkissjóðs færu saman en hér er horfið frá þeirri forsendu, m.a. á grundvelli ákvæðanna um að greiðslurnar skuli inntar af hendi mánaðarlega. Rétt er að vekja athygli á því að 29. gr. búvörulaganna, nr. 46/1985, stendur óhögguð þess efnis að fullnaðargreiðsla afurðastöðva skuli fara fram eigi síðar en 15. des.
    19. tillagan varðar ýmis verkefni á sviði búnaðarmála. Þar er gert ráð fyrir að tekinn verði inn nýr liður, Landþurrkun, og er áætlað að verja til þessa verkefnis 1,5 millj. kr. á næsta ári. Þá hækkar liðurinn Ýmis verkefni um 1,4 millj. kr.
    20. tillagan varðar aðalskrifstofu sjútvrn. Þar er lagt til að fjárveiting hækki um 1 millj. kr. vegna ferðakostnaðar vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
    21. tillagan snýr að sjávarútvegsmálum, ýmissi starfsemi. Þar er lagt til að framlag til starfsmenntunar í sjávarútvegi lækki um 10 millj. kr.
    22. tillagan varðar Lögreglustjórann í Reykjvík. Þar er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður vegna almennrar löggæslu lækki um 10 millj. kr.
    23. tillagan varðar Landhelgisgæslu Íslands. Þar er lagt til að fjárveiting til reksturs varðskipa lækki samtals um 31 millj. kr. og fjárveiting til reksturs flugvéla lækki um 19 millj. kr.
    24. tillagan varðar embætti biskups Íslands. Þar er gert ráð fyrir að ýmis verkefni hækki um 0,5 millj. kr. vegna safnaðaruppbyggingar.
    25. tillagan varðar prestaköll og prófastsdæmi. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting hækki um 1,8 millj. kr. og er sú hækkun til komin vegna stöðugildis aðstoðarprests í Keflavík.
    26. tillagan varðar ýmsan kostnað vegna kirkjumála. Þar er lagt til að liðurinn Ýmislegt hækki um 2,4 millj. kr. og framlag til Hallgrímsskirkju hækki um 2 millj. kr. vegna viðgerða á kirkjunni. Þá er gert ráð fyrir að fjárveiting til Hóladómkirkju hækki um 2 millj. kr.
    27. tillagan varðar aðalskrifstofu félmrn. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting hækki um 1 millj. kr. vegna ferðakostnaðar í tengslum við samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
    28. tillagan varðar málefni fatlaðra. Þar er tekinn inn nýr liður, Vistun geðfatlaðra, og er gert ráð fyrir fjárveitingu að upphæð 35 millj. kr. til þessa liðar. Framlaginu er ætlað að mæta kostnaði vegna vistunar geðfatlaðra einstaklinga sem vegna fötlunar sinnar geta ekki fært sér í nyt meðferð geðdeilda sjúkrahúsanna.
    29. tillagan varðar Sólheima í Grímsnesi. Þar er gert ráð fyrir að framlag hækki um 4,5 millj. kr. Sú hækkun er til komin vegna samþykkta fjárveitinganefndar frá 13. mars

1991 um að gert verði ráð fyrir 9 millj. kr. framlagi á árunum 1992 og 1993 sem lokauppgjöri vegna fjárhagsvanda heimilisins.
    30. tillagan varðar ráðstöfunarfé félmrn. Lagt er til að þessi liður hækki um 0,2 millj. kr. og er hér um leiðréttingu að ræða.
    31. tillagan varðar ýmsa starfsemi á sviði félagsmála. Þar er lagt til að framlag til Slysavarnafélags Íslands hækki um 7,5 millj. kr. vegna viðhalds á skólaskipinu Sæbjörgu. Þá er gert ráð fyrir að framlag til starfsmenntunar í atvinnulífinu lækki um 10 millj. kr.
    32. tillagan varðar aðalskrifstofu heilbr.- og trmrn. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting hækki um 2,5 millj. kr. vegna ferðakostnaðar í tengslum við samninga um Evrópskt efnahagsvæði.
    33. tillagan varðar Tryggingastofnun ríkisins. Þar er gert ráð fyrir að framlag til lífeyristrygginga hækki um 80 millj. kr. Er ástæðan sú að útjöld til lífeyristrygginga hafa á þessu ári reynst hærri en áætlanir fjárlagafrv. gerðu ráð fyrir. Þá er gert ráð fyrir að framlag til sjúkratrygginga hækki um 600 millj. kr. Annars vegar er um að ræða 300 millj. vegna lyfjakostnaðar og hins vegar 300 millj. vegna hjálpartækja, sérreikninga sjúkrastofnana o.fl. Mikil aukning hefur orðið á þessu ári á ýmsum kostnaðarliðum sjúkratrygginga. Þrátt fyrir mikla lækkun á lyfjakostnaði sem greiddur er af Tryggingastofnun ríkisins virðist ljóst að ekki reynist unnt að ná honum niður fyrir 2 milljarða kr. á næsta ári.
    34. tillagan varðar Atvinnuleysistryggingasjóð. Þar er gert ráð fyrir að framlag til sjóðsins hækki um 150 millj. kr. þar eð sýnt þykir að atvinnuleysi muni á næsta ári verða meira en forsendur fjárlagafrv. gerðu ráð fyrir.
    35. tillagan varðar embætti landlæknis. Þar er lagt til að framlag hækki um 9 millj. kr. og er um að ræða framlag til Krýsuvíkursamtakanna vegna rekstrar meðferðarheimilis í Krýsuvík fyrir fíkniefnaneytendur. Í haust fór fjárln. í heimsókn að meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Vistmenn í meðferð í Krýsuvík eru 18 að tölu sem er talsvert meira en reiknað var með. Þá er biðlisti langur. Starfið þar hefur verið unnið undir eftirliti landlæknis og hafa starfsmenn embættisins reglulegt eftirlit með starfseminni. Ljóst er að í Krýsuvík er unnið gífurlega mikið og þarft sjálfboðastarf. Á heimilinu er vistað fólk sem er hvað verst sett vegna vímuefnaneyslu.
    36. tillagan snýr að Hollustuvernd ríkisins. Þar er lagt til að framlag til heilbrigðiseftirlits lækki um 5 millj. kr. og framlag til rannsóknastofa lækki um 5 millj. kr. Ástæðan er sú að gert er ráð fyrir 10 millj. kr. hækkun á sértekjum stofnunarinnar.
    37. tillagan varðar Sjúkrahúsið á Akranesi. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting hækki um 2,2 millj. kr. vegna leiðréttingar á álagshlutfalli á launum.
    38. tillagan varðar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting lækki um 3,8 millj. kr., einnig vegna leiðréttingar á álagshlutfalli á launum.
    39. tillagan varðar Sjúkrahúsið í Keflavík. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting hækki um 1,6 millj. kr. vegna leiðréttingar á álagshlutfalli á launum.
    40. tillagan snýr að sjúkrahúsum og læknisbústöðum. Lagt er til að framlag til byggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða hækki um 4,2 millj. kr.
    41. tillagan snýr að ýmissi starfsemi á sviði heilbrigðismála. Þar er gert ráð fyrir að framlag til Krabbameinsfélags Íslands vegna krabbameinsleitar lækki um 19 millj. kr. en um ofáætlun var að ræða í frv. Þá er tekinn inn nýr liður, Bláalónsnefnd, og áætlað að veita 7 millj. kr. til rannsóknaverkefna. Fyrir nokkru var samþykkt þingsályktun um að rannsaka fjölþætta nýtingu Bláa lónsins við Svartsengi. Nefnd var skipuð til að gera tillögu um fjölþætta nýtingu þess og til verkefnisins stofnað í samvinnu við heilbr.- og trmrn. Bláa lónið er nú þegar vinsæll ferðamannastaður og er nafn þess þekkt víða um heim. Fram kom í viðtali við nefndarmenn að sérstaða lónsins liggur í hugsanlegum lækningamætti þess sem nauðsynlegt er að kanna ef með rökum á að vera hægt að gera tillögu um nýtingu þess í heilbrigðisskyni, ekki síst með skírskotun til ferðamanna og ferðaþjónustu. Reynist niðurstöður rannsóknarinnar jákvæðar er ekki vafi á því að við Bláa lónið myndast atvinnustarfsemi og umsvif sem koma til vegna aðsóknar innlendra sem erlendra gesta, jafnt heilbrigðra sem sjúkra. Þá er gert ráð fyrir að ýmis framlög hækki um 4,1 millj. kr.
    42. tillagan snýr að hjúkrunarheimilinu Skjóli. Þar er lagt til að fjárveiting hækki um 17 millj. kr., en um er að ræða sambýli fyrir Alzheimer-sjúklinga.
    Tillögur 43--91 snúa að heilsugæslustöðvum. Gert er ráð fyrir að sértekjur heilsugæslustöðva hækki samtals um 122,8 millj. kr. Á móti lækka tilfærslur að fjárhæð 64,6 millj. kr. á fjárlagaliðnum Heilsugæslustöðvar, almennt, þannig að nettóhækkunin er 68,2 millj. kr. Ástæða þessa er nýútkomin reglugerð um komugjald á heilsugæslustöðvar og ýmsa aðra sjúkraþjónustu sem leiðir til þess að lækka verður fyrri áætlanir um sértekjur heilsugæslustöðva.
    92. tillagan varðar aðalskrifstofu fjmrn. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting hækki um 2,5 millj. kr. vegna ferðakostnaðar í tengslum við samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
    93. tillagan varðar embætti ríkistollstjóra. Þar er lagt til að fjárveiting lækki um 5 millj. kr. og er stofnuninni ætlað að mæta þessu með hækkun sértekna vegna sölu á tollskýrslueyðublöðum.
    94. tillagan snýr að tollstjóranum í Reykjvík. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting lækki um 5 millj. vegna lækkunar á rekstrarkostnaði.
    95. tillagan varðar útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Þar er lagt til að fjárveiting lækki um 5 millj. kr.
    96. tillagan varðar skýrsluvélakostnað ríkisins. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting til tekjubókhaldskerfis lækki um 2 millj. kr. Fjárveiting til skattvinnslukerfis lækki einnig um 2 millj. kr. og fjárveiting til bókhalds- og áætlunarkerfis ríkisins lækki um 1 millj. kr. Í öllum tilfellum er um að ræða lækkun á rekstrarkostnaði.
    97. tillaga varðar liðinn Ýmislegt hjá fjmrn. Þar er gert ráð fyrir að ýmis sameiginlegur kostnaður lækki um 8,5 millj. kr., ýmsar endurgreiðslur lækki um 10 millj. kr. og framlag til ríkisbifreiða lækki um 1,5 millj. kr.
    Tillögur 98--101 varða hafnamál. Stofnkostnaður hækkar um 75,3 millj. kr. og er það eini liðurinn sem hækkar verulega í afgreiðslu fjárln. Á líðandi ári var gert ráð fyrir 508 millj. kr. í fjárveitingu en 10 millj. voru skornar af því við afgreiðslu fjáraukalaga. Heildarframkvæmdir í ár munu hins vegar kosta um 1.100 millj. kr., þar af er hlutur ríkisins 822 millj. kr. Nefndinni var vissulega vandi á höndum við að skipta því fé sem fjárlagafrv. tilgreinir. Er það vegna þess að af þessari upphæð varð að greiða 309,6 millj. í skuldir og vexti og 175 millj. vegna ferjumannvirkja í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Þá varð að láta fé í samningsbundnar framkvæmdir í Bolungarvík. Það verður að segja þá sögu eins og hún er að mjög erfitt var að skipta því sem eftir var því vissulega er þörfin mikil. Um allt land er hrópað á hafnaframkvæmdir og viðhald þeirra mannvirkja sem fyrir eru. Ekki er vafi á því að sá samdráttur sem átti sér stað í hafnaframkvæmdum á árunum 1985--1987 varð til þess að mikill vandi safnaðist fyrir. Segja má að bygging ferjumannvirkis vegna nýs Herjólfs sé bráðaverkefni sem varð ekki komist hjá að sinna. Því verki lýkur á miðju sumri. Því má ætla að á næsta ári verði meira fé til viðhalds og nýframkvæmda og léttara að skipta fénu.
    Þá eru teknir inn tveir nýir liðir. Annars vegar hafnarmannvirki í Sandgerði, 47,7 millj. kr., sem er afborgun af láni vegna framkvæmda sem lokið er en sveitarfélagið hefur greitt sinn hluta að fullu. Hins vegar framkvæmdagjald til hafna að fjárhæð 125 millj. kr. sem eru sértekjur en gert er ráð fyrir að lagt verði sérstakt 10% álag á aflagjald á fisk

upp úr sjó og 20% álag á vörugjald vegna varnings sem fer um hafnir landsins. Gjaldið verður notað til að fjármagna hluta kostnaðar ríkissjóðs vegna hafnaframkvæmda á árinu 1992.
    102. tillagan varðar ýmis framlög á sviði samgöngumála. Þar er tekinn inn nýr liður, Ýmislegt, og er honum ætlaðar 3 millj. kr. m.a. til styrktar vetrargistingu víða um land. Hinn liðurinn er Ýmis ferðamál og er gert ráð fyrir að verja 2 millj. kr. til þessa verkefnis.
    103. tillagan varðar Iðntæknistofnun Íslands. Tekinn er inn nýr liður, Tæki og búnaður, 9 millj. kr. Skýringin er sú að þessi liður féll niður í frv.
    104. tillagan varðar aðalskrifstofu viðskrn. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting hækki um 6 millj. kr. Annars vegar er um að ræða framlag til Neytendasamtakanna, 1 millj. kr., og hins vegar 5 millj. kr. vegna ferðakostnaðar í tengslum við samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
    105. tillagan varðar niðurgreiðslur á vöruverði. Þar er gert ráð fyrir að niðurgreiðslur á mjólkurdufti lækki um 100 millj. kr. Lagðir verða jöfnunartollar á innflutt sælgæti til að jafna samkeppnisstöðu innlends iðnaðar.
    106. tillagan varðar aðalskrifstofu umhvrn. Þar er lagt til að fjárveiting hækki um 2 millj. kr. Um er að ræða framlag til byggingarstaðlagerðar á árinu 1992.
    107. tillagan varðar ýmis verkefni á sviði umhverfismála. Tekinn er inn nýr liður, Átak í sorphirðumálum. Í þetta verkefni eru veittar 5 millj. kr. til undirbúnings að samvinnuátaki ríkis og sveitarfélaga um sorphirðu og förgun sorps. Þá er gert ráð fyrir að frestað verði samkeppni um hönnun og byggingu Náttúruhúss í Reykjavík.
    108. tillagan varðar embætti veiðistjóra. Þar er gert ráð fyrir að framlag til eyðingar refa og minka hækki um 12,3 millj. kr. þar sem fjárveiting í frv. er ekki nægjanleg þrátt fyrri skerðingarákvæði í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992.
    109. tillagan varðar embætti skipulagsstjóra ríkisins. Þar er gert ráð fyrir skerðingu á lögbundnu framlagi ríkissjóðs sem verður eigi hærra en 4,5 millj. kr.
    110. tillagan snýr að almennum sparnaði í rekstri ríkisins. Með almennu aðhaldi verði rekstrarkostnaður ríkissjóðs lækkaður um 1.500 millj. kr. Ráðuneytum og stofnunum verði gert að ná fram 2.455 millj. kr. sparnaði með 5% lækkun rekstrarkostnaðar sem skiptist þannig að laun lækki um 6,7% eða um 2.255 millj. kr. og rekstrargjöld lækki um 1,3% eða um 200 millj. kr. Til móts við þennan niðurskurð verði 955 millj. kr. ráðstafað til yfirstjórnar ráðuneytanna. Gert er ráð fyrir að einstakar stofnanir útfæri þennan sparnað með viðeigandi hætti.
    Auk þeirra brtt. sem ég hef nú gert grein fyrir þá féllst fjárln. á að veita 14 millj. kr. til Kvikmyndasjóðs vegna norræns kvikmyndaverkefnis sem verða teknar af 91,5 millj. kr. fjárveitingu til sjóðsins. Heimild fyrir þessu verkefni var staðfest við afgreiðslu við fjáraukalaga 1991 fyrir skemmstu.
    Enn fremur vill fjárln. beina því til stjórnar Byggingarsjóðs rannsókna í þágu atvinnuveganna að sjóðurinn leggi málefnum Fiskeldishúss lið en talið er að að lágmarki þurfi 8,5 millj. kr. til að ganga frá innréttingum og kaupa brýnasta húsbúnað þannig að hefja megi starfsemi í húsinu á næsta ári. Í frv. til fjárlaga 1992 er ekki gert ráð fyrir stofnkostnaðarframlagi til þessa húss hjá neinum þeim ríkisaðila sem að byggingunni stendur.
    Ég vil fyrir hönd nefndarinnar þakka starfsmanni okkar, Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, fyrir frábært starf og mikinn dugnað. Þá hefur nefndin notið góðrar aðstoðar starfsfólks hjá Ríkisendurskoðun og fjmrn. Einnig viljum við færa starfsfólki Alþingis þakkir, bæði hér og þá ekki síður fólkinu í Austurstræti 14, sem lagt hefur sig fram um að greiða

okkar götu í einu og öllu.
    Ég flyt og öllum samstarfsnefndarmönnum mínum, bæði stjórnarsinnum og stjórnarandstæðingum, þakkir fyrir mjög gott samstarf og umburðarlyndi í minn garð en allir hafa þeir lagt sig fram um að störf nefndarinnar gætu gengið sem greiðast.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið máli mínu og legg til að þær brtt. sem meiri hluti fjárln. flytur á þskj. 233 verði samþykktar að lokinni þessari umræðu.