Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 21:14:00 (1824)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar hefur fengið á margan hátt mjög sérstaka meðferð á hinu háa Alþingi á þessu hausti og ræðst það að nokkru leyti af forsögu málsins. Hér er komið á dagskrá uppáhaldsmál hæstv. núv. fjmrh. frá umliðnum árum þannig að það hefur gefið tilefni til verulegra umræðna. Ef ég man rétt snerust umræðurnar, áður en þeim var frestað í síðustu törn, um þá bókaútgáfu sem hv. 8. þm. Reykn. ætlaði að standa fyrir til heiðurs núv. hæstv. fjmrh. Það eina sem var eftir í þeirri umræðu var að finna titilinn á bókaflokkinn og ég er nú ekki svo skáldlegur að ég ætli mér þá dul að finna nafn hér og nú á þær bókmenntir. ( Gripið fram í: Íslensk fyndni.) Hér er komin tillaga um íslenska fyndni. Ég veit það nú ekki. Út frá þeim umræðum sem

áttu sér stað fyrir tveimur dögum duttu mér í hug tvö nöfn. Annars vegar Líkið í lestinni, og það er komið frá samlíkingum þeirra hv. þm. sem þá tóku til máls. Reyndar datt mér annað nafn í hug sem ég tel að væri betur við hæfi, Eilíft líf, því að mér sýnist á öllu að nú sé hæstv. fjmrh. að gefa þessum skatti eilíft líf. Ég býst við að það væri sá titill sem væri vel við hæfi á þann bókaflokk sem hv. 8. þm. Reykv. var búinn að lýsa yfir að hann mundi gefa út til heiðurs hæstv. fjmrh.
    Við skulum snúa okkur að alvöru málsins því að hér er vissulega um að ræða gjaldstofn sem er íþyngjandi fyrir þann atvinnurekstur sem hann nær til og það er full ástæða til að taka alla þætti þessa máls til athugunar. Hv. 5. þm. Vestf. hefur lagt fram breytingartillögu við frv. sem vissulega felur í sér sjónarmið sem vert er að skoða, ekki síst í því samhengi að þar sé átt við þau svæði almennt þar sem verslun stendur höllum fæti. Ég hef hins vegar séð þann meinbug á þeirri tillögu að þar er lagt til að vald til skattlagningar sé framselt frá Alþingi og til framkvæmdarvaldsins sem ég tel að sé mjög vafasamt að standist í raun. Auk þess verð ég að segja það hér úr þessum stól að ég ber ekki það traust til núv. hæstv. ríkisstjórnar að ég vilji framselja skattavald frá Alþingi til núv. hæstv. ríkisstjórnar. Ég vil reyndar biðja hv. 5. þm. Vestf. að taka þessi sjónarmið til athugunar gagnvart þeim tillöguflutningi sem hér hefur verið hafður uppi.
    Ég skrifaði undir nál. hv. efh.- og viðskn. þegar þetta mál var þar til umfjöllunar, að vísu með fyrirvara. Sá fyrirvari fól það m.a. í sér að ég vildi sjá skattastefnu hæstv. núv. ríkisstjórnar áður en ég tæki endanlega afstöðu til þessa máls. Aðgerðir núv. hæstv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálum og skattamálum hafa verið að líta dagsins ljós, hluti af þeim síðustu dagana. Ég verð að segja það hér að það sem ég hef séð af fyrirhuguðum aðgerðum í skattamálum og ríkisfjármálum er þess eðlis að ég vil ekki bera neina ábyrgð á því. Það sem þar er í raun að gerast er að verið er að færa til gjaldstofna. Stærsti þátturinn er að færður er einn milljarður frá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Svo kemur hæstv. ríkisstjórn og segir að með þessum aðgerðum sé verið að skapa svigrúm fyrir atvinnulífið í landinu og lánamarkaðinn. Ég vil, virðulegi forseti, leyfa mér að leita eftir rökstuðningi hæstv. ráðherra núv. ríkisstjórnar við slíku ráðslagi. Að mínu viti þýðir það ekkert annað en að verið er að færa greiðslubyrðina frá ríkinu og yfir á sveitarfélögin sem þá munu koma inn á lánamarkaðinn af meiri þunga en áður. Það þýðir væntanlega að eftir ár verður yfirdráttur Reykjavíkurborgar við sinn viðskiptabanka ekki 2 milljarðar heldur einhver önnur og miklu hærri tala. Hér er um þvílíkan blekkingarleik að ræða að það hlýtur að vera gersamlega vonlaust fyrir stjórnarandstöðuna að taka þátt í slíku þó að í þessu tilfelli sé um að ræða skatt sem þeir flokkar tveir sem nú eru í stjórnarandstöðu hafa tekið þátt í að leggja á eða réttara sagt hafa greitt atkvæði með á umliðnum árum. Við þær aðstæður sem nú eru er vonlaust að gera slíkt. Þess vegna munu þingmenn Framsfl. sitja hjá við afgreiðslu þessa máls þegar það kemur til atkvæðagreiðslu.
    Virðulegi forseti. Nú óttast ég það að hæstv. fjmrh. hafi brugðið sér frá þannig að hann hafi ekki heyrt mína röksemdafærslu fyrir þessari ákvörðun. Ég ætla að hlífa honum við því að fara yfir hana alla aftur en hún er í fáum orðum á þá leið að þingmenn Framsfl. treysta sér ekki til þess að standa að þeirri skattastefnu sem núv. ríkisstjórn hefur tekið upp sem fyrst og fremst felst í því að færa skattlagninguna frá ríkissjóði yfir á sveitarfélögin og einstaklingana í formi þjónustugjalda. Þau uppfylla á engan hátt þau markmið sem hæstv. ríkisstjórn setti sér í ríkisfjármálum, að skapa svigrúm fyrir atvinnulífið. Það skiptir hæstv. fjmrh. engu máli hvort það er Reykjavíkurborg eða önnur sveitarfélög í landinu sem taka lán á hinum innlenda lánsfjármarkaði eða hvort það er ríkissjóður. Umfang ríkissjóðs minnkar ekki neitt við það að færa hluta af kostnaðinum yfir á einstaklinga í formi gjalda á þá sem þurfa að leita læknisþjónustu eða sækja skóla. Þetta

eru staðreyndirnar sem nú liggja á borðinu eftir hin stóru orð hæstv. núv. ríkisstjórnar í upphafi um niðurskurð ríkisútgjalda og þar var ekkert verið að tala um milljarða. Þar slógu menn sér á brjóst og ræddu um milljarðatugi --- ég endurtek, milljarðatugi sem menn ætluðu að skera niður. (Gripið fram í.) Og gerðu það, segir hæstv. núv. fjmrh., en síðan kom í ljós að þessi aðgerð fólst í því að skera niður af óskalistum ráðuneyta hæstv. núv. ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Misskilningur, segir hæstv. fjmrh. en ég hygg að þessari fullyrðingu minni megi finna stað í blaðaviðtölum við hæstv. núv. ráðherra. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum leik á næstu árum þegar sá ráðherra kemst best frá því sem í upphafi fjárlagavinnunnar setur fram hæstan óskalista.
    Ég hef nú farið aftur yfir þær röksemdir sem ég vildi færa fyrir því að þingmenn Framsfl. sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Það er svo annað mál að ég gæti haldið langa ræðu um þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og blandast inn í þessa umræðu um stöðu verslunar í landinu bæði hér í Reykjavík og ekki síður á landsbyggðinni. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að vanda dreifbýlisverslunar þurfi að leysa á annan hátt en með því að beita eða beita ekki þeim skatti sem hér er til umræðu. Hæstv. viðskrh. nefndi það í umræðu á dögunum að þetta yrði ekki leyst öðruvísi en að menn sameinuðust um verslun í hinum dreifðu byggðum og uppi væru hugmyndir um aðstoð við það, að því er mér skildist af hálfu viðskrn. Það minnti mig á sögu sem hv. 1. þm. Vestf. og formaður efh.- og viðskn. sagði okkur og hafði vestan af fjörðum að þangað hefði komið ráðunautur í verslunarmálum að því mér skildist á vegum viðskrn. --- viðskrh. leiðiréttir ef svo hefur ekki verið. Hann hefði komið á Tálknafjörð og fleiri pláss og bent mönnum á það í mikilli vinsemd að suður í Reykjavík væri til mikið af ágætum verslunum og þar væri öll sú þjónusta sem menn þyrftu á að halda. Ég verð að vona að sú liðveisla sem hæstv. viðskrh. boðaði hér í umræðunni á næstliðnum degi sé í einhverju öðru formi en því sem hv. 1. þm. Vestf. lýsti fyrir okkur í efh.- og viðskn.
    Vissulega er það svo að verslunarþjónusta í dreifbýli er ekkert gamanmál og þar verða menn að taka á honum stóra sínum á næstunni. Í mörgum tilfellum er það svo að menn geta, eins og hæstv. viðskrh. nefndi, leyst það með samvinnu milli byggðarlaga en ég óttast að þrátt fyrir það séu til þeir staðir sem eru þannig settir varðandi verslun, þá á ég fyrst og fremst við verslun með brýnustu nauðþurftir, að þar verði að koma til einhver aðstoð og leiðsögn.
    Ég ætla ekki að ræða það frekar hér og lýk nú máli mínu.