Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 21:47:00 (1826)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Víst er að það átti nokkurn þátt í því að Íslendingar misstu sjálfstæðið að þeir höfðu ekki forræði á versluninni á sinni hendi. Ég held að það megi alveg eins yfirfæra það yfir á landsbyggðina og segja: Hverjar eru lífslíkur hennar ef ekki þrífst þar verslun?
    Ég vil segja örfá orð varðandi þær brtt. sem ég hef flutt. Raunar er sú síðari af minni hálfu þannig hugsuð að hún kæmi í stað þeirrar fyrri. En hér hafa verið uppi efasemdir um hvort unnt væri að hafa álagninguna misjafna eftir sveitarfélögum og hins vegar hvort unnt væri að hafa heimild til ráðherra til að fella niður að hluta eða fullu álagningu skattsins.

    Ég vil fyrst taka fyrir framsalsþáttinn. Það vill svo til að ég er með í höndunum lög um tekjustofna sveitarfélaga og í þeim lögum er kveðið á um skatt á fasteignir, bæði íbúðarhús og atvinnuhúsnæði. Í II. kafla þeirra laga segir að leggja skuli árlega skatt til sveitarfélags af öllum fasteignum sem metnar eru af Fasteignamati ríkisins. Hér er augljóslega um að það ræða að löggjafarvaldið hefur ákveðið að fela öðrum aðila að leggja á skattinn og hefur framselt honum ákveðna heimild til þess að hafa skattinn breytilegan. Það kemur fram í þessum lögum, ef við afmörkum okkur við atvinnuhúsnæði, að skatturinn skuli vera allt að 1% af álagningarstofni. Hann getur því verið mjög breytilegur að ákvörðun hverrar og einnar sveitarstjórnar. Auk þessarar heimildar sveitarstjórnar til þess að hafa sveigjanleika í álagningarprósentunni er enn fremur heimild til þess að hækka um allt að 25% hámarkið á álagningunni. Og ef við skoðum í Árbók sveitarfélaga fyrir 1991, sem nýlega er komin út, álagningarreglur í kaupstöðum á árinu 1991 og afmörkum okkur enn við atvinnuhúsnæði er álagningin allt frá 0,75% upp í 1,25% þannig að um er að ræða mjög breytilega álagningu á sams konar álagningarstofn eftir sveitarfélögum. Ef þetta stenst stjórnarskrá þá tel ég vafalaust að hitt hljóti að gera það líka. Samkvæmt þessu er stofninn ákvarðaður þannig að hann skuli vera afskrifað endurstofnverð fasteignana margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík.
    Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins eru upplýsingar um markaðsverð verslunar- og skrifstofuhúsnæðis ekki fyrirliggjandi í stofnuninni nema fyrir Reykjavík og Akureyri. Engar upplýsingar eru handbærar svo að marktækar séu til þess að gefa eitthvað út um það og þá verður stofninn fasteignamatið eða með öðrum orðum nákvæmlega sami stofn og er í frumvarpinu um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
    Enn fremur er í lögunum um þennan fasteignaskatt heimild til þess aðila sem leggur hann á, þ.e. sveitarstjórn, til þess að lækka eða fella hann niður í ákveðnum tilvikum. Heimildirnar eru nokkuð margar. Í fyrsta lagi er heimild til þess að lækka eða fella niður skattinn af tilgreindu húsnæði. Í öðru lagi er heimild til að lækka eða fella niður fasteignaskatt þar sem eigendurnir eru tekjulitlir elli- eða örorkulífeyrisþegar. Í þriðja lagi er heimild ef um er að ræða útihús í sveitum. Síðan eru reyndar í fjórða lagi tilgreindar í lagagreininni ákveðnar fasteignir sem eru algerlega undanþegnar skattinum þannig að í raun og veru er um að ræða allt það sem menn hafa verið með efasemdir um að stæðist stjórnarskrá. Það er framsal álagningar til annars aðila, það er breytileg álagningarprósenta eftir sveitarfélögum og það eru heimildir til lækkunar eða niðurfellingar og geta sveitarfélögin notað þær heimildir mjög misjafnlega þannig að hlutirnir geta verið mjög mismunandi eftir sveitarfélögum á sambærilegu húsnæði þannig að álagningnarstofninn er í raun og veru samræmdur um allt land. Ég er ekki löglærður maður, en mín skoðun er sú að þær tillögur sem ég hef flutt standist fullkomlega og ég hef dregið fram rök máli mínu til stuðnings í þeim efnum. Það er svo aftur annað mál hvort menn treysta hæstv. fjmrh. til að fara með þá heimild sem felst í seinni brtt. og nota hana skynsamlega. Vissulega bendir afstaða hans sem fram hefur komið ekki til þess að hann muni beita henni en ég bendi á að það hefur komið fram að hæstv. viðskrh. er fullljóst að erfiðleikar eru í dreifbýlisverslun og er hann með nefnd í gangi til þess að gera athuganir á því máli og jafnvel ef verkast vill koma fram með tillögur til þess að treysta þessa verslun þannig að hún falli ekki niður eða leggist af fyrr eða síðar.
    Síðari tillagan sem ég flyt er þannig hugsuð að þessum tveimur ráðherrum verði heimilt að lækka eða fella niður þennan sérstaka eignarskatt á einhverjum svæðum sem menn komast að niðurstöðu um að verslun standi höllum fæti. Auðvitað getur svæðið ekki verið minna en eitt sveitarfélag en það þarf heldur ekki að vera svo stórt sem eitt skattumdæmi.

    Það er í sjálfu sér hægt að skoða allar hugmyndir um breytingar á þessari tillögu, á orðalagi eða af öðrum toga, en ég legg áherslu á það að menn horfist í augu við það að dreifbýlisverslunin stendur verulega höllum fæti svo að ekki sé fastar að orði kveðið í mjög mörgum sveitarfélögum. Menn geta ímyndað sér stöðuna í 500 manna sveitarfélagi, sem heitir kannski á nútímamáli ,,að markaðssvæði búðarinnar sé 500 manns``, þar sem viðkomandi verslun er metin jafnhátt og verslun í 10--15 þús. manna sveitarfélagi og borgar þar af leiðandi sama eignarskatt. Ég hef engan heyrt mæla á móti þessum erfiðleikum dreifbýlisverslunarinnar en hins vegar hefur mér fundist skorta á hjá hæstv. fjmrh. að hann hafi viljað taka á því vandamáli. Að mínu viti hefði hann gjarnan mátt sýna meiri velvilja til þessarar hugmyndar en fram kom í hans máli og sérstaklega í ljósi fyrri afstöðu hans til skattlagningar af þessu tagi kemur sú afstaða ráðherrans mjög á óvart svo að ekki sé fastar að orði kveðið.