Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 22:00:00 (1828)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég hef ekki átt þess kost að taka þátt í umræðu um þetta merkilega frv. hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar, fyrir utan það að í upphafi umræðunnar gat ég þess að ég væri reiðubúinn til að hjálpa hæstv. ráðherra með málið í gegnum þingið af því að einn og einn maður úr hans liði hafði brugðist honum á örlagastund. Eftir að það gerðist hafa komið fram ýmsar mjög athyglisverðar upplýsingar um stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Nýjustu afrekin birtast okkur t.d. í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem á að leggja skatta á sjúklinga og fatlaða í þessu landi þó að með óbeinum hætti sé og af því tilefni frábið ég mér það að rétta ríkisstjórninni hjálparhönd þó að í litlu sé í þessu máli.
    Ég hafði hins vegar hugsað mér að víkja nokkuð að því lögfræðilega álitamáli sem hefur verið drepið aðeins á í sambandi við afkomu dreifbýlisverslunarinnar og spurningunni um það hvort hægt er að hugsa sér að hún sæti sérstakri og afbrigðilegri skattameðferð. Nú er það þannnig að sú nefnd sem hæstv. núv. viðskrh. skipaði í málefnum dreifbýlisverslunar er ekki sú fyrsta í sögunni sem fjallar um vanda hennar og væri vissulega fróðlegt að skrifa sögu þeirra nefnda sem fjallað hafa um vandamál dreifbýlisverslunar burt séð frá þeim álitum sem nefndirnar hafa sent frá sér.

    Ég minnist þess að þegar ég kom í viðskrn. á ungum aldri 1978 lá þar fyrir gríðarlega mikið álit um afkomu dreifbýlisverslunarinnar sem hæstv. fyrrv. viðskrh. Ólafur Jóhannesson hafði látið vinna á valdaferli sínum. Ég gramsaði dálítið í þessum pappírum og komst að því að þetta var ekki fyrsta tilraunin til þess að taka á málum þessarar verslunargreinar. Ég fór dálítið yfir þessi mál þá 13 mánuði sem ég var í viðskrn. og ég hygg að það hafi flestir eftirmenn mínir gert. Ég man ekki betur en í sáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem kom til valda sumarið 1987 --- en hún setti sér ítarlegasta málefnasanmning sögunnar, var kallaður Jónsbók og kom fyrir lítið að vísu --- væri sérstakt ákvæði um vanda dreifbýlisverslunarinnar. Alþfl. lagði mjög mikla áherslu á að hann hefði sett mjög svip sinn á þann stjórnarsattmála en það dugði skammt eins og kunnugt er. Stjórnarsáttmálinn var í rauninni svo mikill að vöxtum að hann var ein síða á dag fyrir þá skömmu stund sem sú ríkisstjórn átti. En hún ætlaði að taka á vanda dreifbýlisverslunarinnar og ég man ekki betur en sú ríkisstjórn sem við mynduðum haustið 1988 á örfáum dögum hafi líka ætlað sér að taka á sama vanda. Ég held að rétt sé að segja það bara alveg eins og er að það hefur ekkert verið gert í þessum málum og ég held að það sé rétt að taka það á okkur öll sem höfum komið nálægt þessum málum á undanförnum árum. Og af hverju ætli það sé? Ætli það sé leti og ómennska? Kannski í einhverjum tilvikum. Ætli það sé hugmyndaleysi? Kannski í einhverjum tilvikum. Eða ætli það sé af einhverjum öðrum ástæðum sem eru flóknari og erfiðari að eiga við? Ég held að meginskýringin á vanda dreifbýlisverslunarinnar birtist í hinum almennu grundvallarlögmálum markaðsþjóðfélagsins sem er þannig að miðstöðin þar sem fjármunirnir verða til á hverjum tíma sogar alltaf til sín meira fjármagn frá þeim sem hafa minna fjármagn. Það er lögmál sem blasir við og hv. 2. þm. Vestf. rakti t.d. prýðilega vel hér áðan. Spurningin er þá sú, og það er auðvitað það sem við stöndum alltaf frammi fyrir í markaðsþjóðfélögum: Er eitthvað hægt að gera með lýðræðislegum pólitískum ákvörðunum til þess að draga úr þeim afleiðingum sem markaðsþjóðfélagið og lögmál þess hafa fyrir tiltekna hópa, tiltekin svæði eða jafnvel tilteknar atvinnugreinar? Er eitthvað hægt að gera? Menn hafa velt þessu talsvert mikið fyrir sér og í raun og veru ekki komist að neinni niðurstöðu.
    Ég bendi á það í þessu sambandi og ég held að það sé kannski aðalatriðið að menn átti sig á því að því aðeins verður tekið á vandamálum dreifbýlisverslunarinnar --- af því að við erum nú sérstaklega að tala um hana --- að menn þori að standa þannig að hlutum að hún búi við önnur kjör frá hendi hins opinbera en þéttbýlisverslunin af því að það er í raun og veru það eina sem Alþingi hefur yfir að segja, það eru hin almennu kjör ríkisins í þessu máli á hverjum tíma. Staðreyndin er sú að t.d. í Noregi hafa menn farið út í það að láta verslunina búa við mjög mismunandi kjör. Verslunin í Norður-Noregi býr við allt önnur kjör en verslunin í Ósló frá hendi hins opinbera og það getur bæði náð til verslunarfyrirtækisins sem slíks og líka til þeirra sem starfa jafnvel í viðkomandi verslun. Reyndar hafa Norðmenn gengið svo langt í þessu efni að þeir hafa veitt sérstök skattfríðindi t.d. handa læknum eða heilbrigðisstéttum sem hafa unnið úti á landi frekar en greiða þeim sérstakar staðaruppbætur eins og menn hafa gert hér og er í grófum dráttum svipað mál en aðeins nálgast öðruvísi.
    Þess vegna segi ég þetta hér, herra forseti, að mér finnst að það mál sem hv. 5. þm. Vestf. hreyfir afar mikilsvert vegna þess að það snertir kjarna þessa vandamáls, þ.e. spurninguna um það hvort menn eru tilbúnir til þess að beita félagslegum ráðstöfunum, pólitískum ráðstöfunum til þess að draga úr þeim áhrifum sem óheft markaðskerfið hefur sem rífur niður verslunina í dreifbýli og síðan kannski verslunina í Reykjavík og flytur hana til Glasgow eða Newcastle eða hvað það nú er. Eru menn tilbúnir til að gera það? Það er sá pólitíski vandi og sú pólitíska spurning sem menn standa frammi fyrir. Þær ræður sem ýmsir hv. núv. stjórnarsinnar, eins og hæstv. núv. fjmrh., hafa flutt um málefni dreifbýlisverslunarinnar á undanförnum árum eru eitthvað það allra ómerkilegasta sem fyrirfinnst hér í þingtíðindum og er þá langt til jafnað vegna þess að prentsvertan á þingtíðindum er satt að segja alveg ótrúleg afreksskepna hvað hún þolir miðað við hvað menn láta út úr sér í þessum stól. Staðreyndin er sú að það kemur auðvitað í ljós aftur og aftur að menn meina ekkert með þessum hlutum og hæstv. núv. fjmrh. mun aldrei flytja frv. um breytingar á kjörum dreibýlisverslunarinnar sem ég er að tala hér um af því að það stríðir gegn pólitískum grundvallarsjónarmiðum mannsins og það er ekki vegna þess að hann sé illa innrættur. Mér er prýðilega kunnugt um það. Þetta er hinn ágætasti drengur að mörgu leyti. (Gripið fram í.) Ég hef margt fyrir mér í því, hv. þm., og dettur ekki í hug að ræða það við hv. 2. þm. Vestf. En hitt veit ég að hæstv. núv. fjmrh. er auðvitað fangi ofstækisfullra markaðssjónarmiða sem ráða núv. ríkisstjórn og hann getur enga björg sér veitt. Hann er bundinn á höndum og fótum þannig að það er engin ástæða til þess að gera sér vonir um það, ekki glætu, að núv. hæstv. fjmrh. muni nokkurn tíma gera neitt af neinu tagi til að koma til móts við vanda dreifbýlisverslunarinnar.
    Spurningin hins vegar um það lögfræðilega eða stjórnskipunarlega álitamál sem hér er, þ.e. hvort hægt er að hugsa sér að veita fjmrh. það vald sem gert er ráð fyrir í till. hv. 5. þm. Vestf., sem er afar fróðleg og afar merkileg. Ég held að menn þurfi nú endilega að vaxa upp úr því sem fyrst að horfa ekki á orðið fjármálaráðherra endilega þannig að það sé alltaf sá maður sem situr í stólnum þá og þá auk þess sem það liggur alveg tvímælalaust fyrir að svo getur farið að núv. hæstv. fjmrh. hætti því einhvern tíma og einhverjir aðrir taki við því embætti eins og gengur. Ég er ekkert að segja að það gerist á morgun en einhvern tíma gerist það. ( Gripið fram í: Ertu alveg viss?) Að það gerist einhvern tíma? Já, ég er alveg viss um það. Þannig er það nú, hv. þm., að þetta á fyrir okkur öllum að liggja einhvern tíma á ævinni eins og gengur. Ég tel að það sé ekki æskilegt að fjmrh. hafi ívilnunarheimild og ég tel að það sé grundvallarmunur annars vegar á ívilnunarheimild og hins vegar álagningarheimild og hækkunarheimild. Í þeim hæstaréttardómum sem hv. 2. þm. Vestf. nefndi var í báðum tilvikum um að ræða álagningar- eða hækkunarheimild. Í síðara tilvikinu sem hann nefndi var það þannig að hæstv. þáv. landbrh. fékk heimild til þess með setningu, ég hygg 1981 frekar en 1982, að leggja á kjarnfóðurgjald og hann ákvað samstundis að nota heimildina þannig að það var lagt á kjarnfóðurgjald ef ég man rétt í kringum 200% eða eitthvað þvíumlíkt. Ég man að mér þótti þetta að mörgu leyti mjög gott hjá þáv. hæstv. landbrh., mjög gott. En formið er svo annað mál. (Gripið fram í.) Gjaldið fínt, já. Ég vona að hæstv. forseti hafi ekkert við það að athuga þó ég ræði hérna aðeins við þingmenn um kjarnfóður, ég er alveg til í það og ég vona að ég fái ekki neinar svona Mannlífsvítur frá núv. forseta fyrir það þó að ég spjalli aðeins um kjarnfóður.
    En í þessu tilvikinu var það þannig að Hæstiréttur kveður upp dóm vegna þess að ráðherrann fær þarna framselt skattlagningarvald til að hækka skatt og leggja á skatt. Það sama gilti í raun og veru um þungaskattinn. Ég man ekki nákvæmlega hvernig sá dómur var en samkvæmt lögunum um Vegasjóðinn er það þannig að þungaskatt má leggja á með ákvörðun ráðherra eftir því hvernig byggingarvísitala hækkar. Ráðherra getur þess vegna, þegar byggingarvísitala hefur náð tilteknu stigi, ákveðið að hækka þungaskattinn upp að því marki frá fyrra stigi en hann getur ekki farið yfir það og það hygg ég að hafi gerst hjá hv. 1. þm. Vestf. að hann hafi farið yfir það mark sem byggingarvísitalan skammtaði. Og það er út af fyrir sig hlutur sem náttúrlega liggur alveg í augum uppi að gengur ekki þannig að auðvitað er skattheimtugræðgi ráðherra Sjálfstfl. alveg sérstaklega viðbrugðið því að þeir eru báðir í Sjálfstfl. þessir sem eru dæmdir af Hæstarétti fyrir það að ganga lengra í skattheimtu en nokkrir aðrir ráðherrar í sögu Íslands og er þá langt til jafnað. Það eru tveir ráðherrar í Íslandssögunni með hæstaréttardóm á bakinu fyrir ofboð í skattheimtu, þeir eru báðir úr Sjálfstfl., Pálmi Jónsson og Matthías Bjarnason. En látum það vera. Ég held að menn verði að þessu leytinu til að gera grundvallarmun á þeirri tillögu sem hv. 5. þm. Vestf. flytur annars vegar og þessum dómum hins vegar af því að þar er verið að fjalla um álagningu en hjá honum er tillaga um ívilnunarheimild til fjmrh.
    Nú er það út af fyrir sig ekki einfalt mál að ákveða hvar mörkin eiga að liggja í þessu efni, við hvaða byggðarlög á að miða. Ég tel að það komi vel til greina að byrja á þessari viðmiðun sem hv. 5. þm. Vestf. leggur til þó að það gæti þýtt það að menn gætu við betri kjör snúið sér við í þessum efnum í Garðabæ eða Mosfellssveit eða jafnvel Seltjarnarnesi um skeið eftir að þetta væri orðið að lögum. Það er ekki aðalatriðið mínum huga. Aðalatriðið er að Alþingi þori að stíga svona skref. Ég tel að þetta væru kaflaskipti hér fyrir þróun dreifbýlisverslunarinnar í landinu en þó fyrst og fremst fyrir áherslur í byggðamálum almennt. Þorir Alþingi að mismuna starfsgreinum eða hópum eftir því hvar menn eru staddir á landinu? Það er grundvallaratriðið. Og það er það sem fyrir flm. væntanlega vakir í þessu efni.
    Þess vegna held ég líka, virðulegi forseti, að í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan, komi fram mjög athyglisvert mismununaratriði sem ég hafði ekki hugsað út í satt að segja þar sem sveitarstjórnir hafa mismunandi heimildir til þess að leggja á fasteignagjöld eftir því hvar tiltekin hús eru. Það er með öðrum orðum heimilt að fella niður eða lækka fasteignagjöld á svokölluðum útihúsum í sveitum. Það þýðir með öðrum orðum að ekki er heimilt að fella þau niður eða lækka á sama hátt á útihúsum í þéttbýli. Það gilda aðrar reglur um þau útihús sem eru í Borgarnesi eða Hafnarfirði en þau útihús sem eru í Reykholtsdal, svo að ég nefni dæmi, eða Stafholtstungum eða jafnvel Þverárhlíð svo að ég teygi mig nú enn lengra í fæðingarsveit minni sem ég veit að hv. 2. þm. Vestf. þekkir afar vel. Þarna hefur löggjafinn í rauninni heimilað athyglisverða mismunun með þessa tilteknu tegund brúkshúsa sem eru notuð fyrir skepnur hvort sem það er í þéttbýli eða dreifbýli. En það er heimilt af löggjafans hálfu að nálgast þetta með mismunandi hætti eftir því hvar þessi hús eru. Þannig hefur löggjafinn í þessu tilviki heimilað mismunandi álagningu með ívilnandi hætti. Og það er auðvitað grundvallaratriðið sem menn þurfa að skoða þegar þessi mál eru athuguð. Þess vegna segi ég fyrir mig þó að ég vilji leggja á það mikla áherslu að Alþingi vandi sig við afgreiðslu tillagna af þessu tagi, tillagna sem geta legið á mörkunum og eru umdeildar, að ég get með ágætlega góðri samvisku, bæði sem alþingismaður almennt en líka út frá mínum pólitísku sjónarmiðum, stutt þá tillögu sem hér er flutt. Ég tel að ef menn hefðu kjark til að samþykkja tillögu af þessu tagi væru þeir að brjóta í blað og menn eiga ekki að neita sér um að gera svoleiðis hluti á þessum tímum.