Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 14:26:00 (1843)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það er eðlilegt við þessa umræðu að taka fyrir ýmsa þætti fjárlaganna og ræða rækilega um þá. Það er vafalaust alveg rétt sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. áðan að hætt er við því að margur maðurinn verði neyddur til þess áður en yfir lýkur að ferja kóngsins mann yfir Skerjafjörð þó svo hv. formaður fjárln. hafi haft aðrar skoðanir á hlutunum þegar hann greindi frá máli sínu hér í gær.
    Ég ætla fyrst að víkja að einum málaflokki sem er mjög veigamikill í fjárlagafrv. og hefur einnig verið ræddur í sambandi við niðurskurð þann sem ríkisstjórnin boðar að kynntur verði við 3. umr., þ.e. málefni fatlaðra.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram munu hafa komið í fjárln., og greint hefur verið frá m.a. af hv. 2. þm. Austurl. hér áðan, er ætlunin að spara í málefnum fatlaðra um 400 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því að þessi sparnaður verði framkvæmdur þannig að allar stofnanir aðrar en sólarhringsstofnanir og sambýli verði, eins og það er orðað, fluttar yfir á sveitarfélögin.
    Nú er það auðvitað svo að ef það væri veruleikinn væri að hægt að flytja allar þessar stofnanir yfir á sveitarfélögin horfði málið dálítið öðruvísi við. En staðreyndin er hins vegar sú að með því að setja þessar stofnanir út úr þjónustukerfi fatlaðra er verið að brjóta það niður í heild og sveitarfélögin munu ekki ráða við þessi verkefni. Þau hafa hvorki fjárhagslega né faglega burði til að taka þessi verkefni á sig. Ég tel satt að segja að alvarlegasti hluturinn sem frést hefur af í sambandi við meðferð fjárlaganna núna séu þessar fréttir um að það eigi að rústa málefni fatlaðra, þjónustukerfi fatlaðra sem byggt var upp af miklum myndarskap fyrir 10 árum eða svo, að núna eigi í raun og veru að breyta því í grundvallaratriðum. Hvaða stofnanir eru það, virðulegi forseti, sem á að henda út ef þetta verður raunin? Það er í fyrsta lagi dagvistun fatlaðra. Í öðru lagi verndaðir vinnustaðir, burt með þá. Þeir verða settir á sveitarfélögin samkvæmt þessum hugmyndum. Það eru í þriðja lagi svokölluð leikfangasöfn. Í fjórða lagi sumardvöl fatlaðra barna. Í fimmta lagi svokölluð verkstjórn. Í sjötta lagi vernduð vinnuhorn. Í sjöunda lagi atvinnuleit. Í áttunda lagi skammtímavistun og í níunda lagi endurhæfing. Talið er að allir þessir þættir sem hér er um að ræða kosti u.þ.b. 400 millj. kr. og eiga þeir að flytjast út úr þessu kerfi og yfir til sveitarfélaganna. Hvaða stofnanir eru það, virðulegi forseti, sem hér er um að ræða? Þetta er ekki bara lagaákvæði heldur er þetta líka lifandi veruleiki. Ef við lítum t.d. á Reykjavík þá er hér um að ræða Tæknivinnustofu Öryrkjabandalags Íslands, verndaðan vinnustað í Reykjavík, vinnustofu Blindrafélagsins, skammtímavistun Álfalandi 6 og fleiri dæmi mætti nefna. Og ég spyr: Hefur hæstv. félmrh. svo góða reynslu af afstöðu borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík til málefna fatlaðra að ástæða sé til þess eftir sambýlismálið hér á dögunum að ætla að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík sýni þessum málaflokki sérstakan skilning? Ég vara við því, af þeim ástæðum og einnig öðrum, að gera tilraun til að standa svona að málum hér í þessu kjördæmi.
    Ef við lítum á önnur kjördæmi og önnur byggðarlög þá er verið að tala t.d. um verndaðan vinnustað Örva í Reykjaneskjördæmi, leikfangasafnið í Keflavík, dagvistun í Keflavík, Hæfingastöð Bæjarhrauni 2, skammtímavistun í Reykjadal, gistiheimili jafnvel og e.t.v. fleiri aðilar. Á Vesturlandi er verið að tala um verndaðan vinnustað á Akranesi, leikfangasafn í Borgarnesi, leikfangasafn Ólafsvík, dagvistun Akranesi, skammtímavistun, sumarbúðir og atvinnuleit. Á Vestfjörðum er verið að tala um leikfangasafn á Ísafirði. Á Norðurl. v. er verið að tala um leikfangasafn á Siglufirði, leikfangasafn á Blönduósi, leikfangasafn á Sauðárkróki, dagvist á Siglufirði, sumardvöl Egilsá, atvinnuleit og verkstjórn. Á Norðurl. e. er einnig verið að tala um fjölmarga staði sem ég ætla ekki að telja upp hér og sömuleiðis á Austurlandi, þjónustu eins og leikfangasafn, atvinnuleit og fleira. Á Suðurlandi er einnig um að ræða verndaða vinnustaði, a.m.k. eina þrjá. Og ég spyr, virðulegur forseti, eru efnisleg rök til að taka þetta út úr? Eru efnisleg rök til þess, eru þrengingarnar svo miklar í efnahags- og atvinnulífi Íslendinga að efnisleg rök séu fyrir því að taka þessa þjónustu út úr og eyðileggja þannig þjónustuna við fatlaða eins og hún hefur verið byggð upp í þessu landi? Ég segi nei. Það eru engin efnisleg tök fyrir því, það eru ekki einu sinni fjárhagsleg rök fyrir því. Á meðan menn manna sig ekki upp í að leggja skatt á fjármagnstekjur eða taka upp hátekjuþrep í tekjuskatti þá eiga menn ekki að láta sér detta svona lagað í hug.
    Þegar litið er á stærðirnar í þessu efni kemur fram að þeir staðir einir sem hér er um ræðir kosta á ári 353 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrv. en ekki 400 millj. kr. Gert er ráð fyrir að Reykjavík taki á sig 167,1 millj. kr., Reykjanes 68,2 millj. kr., Vesturland 21,8 millj. kr., Vestfirðir 1,1 millj. kr., Norðurland vestra 12,5 millj. kr., Norðurland eystra 34,7 millj. kr., Austfirðir 11,8 millj. kr., Suðurland 35,8 millj. kr. Og ég spyr: Hvaða sveitarfélög á Suðurlandi, á Austurlandi, á Vesturlandi, á Norðurlandi vestra, eru tilbúin til þess fjárhagslega að taka þetta á sig og hvaða sveitarfélög í þessum byggðarlögum eru tilbúin til að taka þetta á sig faglega? Hvaða fagleg geta er til þess á þessum stöðum að taka þessa þjónustu á sig? Ég tel því, virðulegi forseti, að hér sé í rauninni um að ræða einhverja allra ljótustu hugmyndina sem fram kemur í sambandi við niðurskurð á fjárlögum vegna fjárlagaársins 1992.
    Hv. 2. þm. Austurl. vitnaði áðan í mótmæli sem borist hafa frá Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp. Ég ætla ekki að endurtaka það en ég ætla hins vegar að vísa til þess. Jafnvel þótt hæstv. félmrh. ætli að reyna að koma þessu áfram segi ég við ráðherrann og fjmrh.: Þetta er ekki hægt. Þetta er óheimilt samkvæmt lögum. Lögin eru alveg tvímælalaus í þessu efni að ríkið á að borga þessa þjónustu. Bæði lögin um málefni fatlaðra og lögin um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í lögunum um málefni fatlaðra kemur þetta mjög skýrt fram í 26. gr. og það er ítrekað í 1. gr. I. kafla laganna um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þannig að jafnvel þó að ríkisstjórnin ætli sér að vinna þetta

verk, sem ég vil kalla óhæfuverk, þá stendur málið þannig að það er ekki hægt öðruvísi en að breyta lögum, bæði lögum um málefni fatlaðra og lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það verður hvort tveggja að koma til í þessu efni. Og ég segi við hæstv. félmrh., jafnvel þó það yrði reynt þá er útilokað að koma slíkri lagabreytingu í gegnum þingið fyrir hátíðarnar.
    Ég verð að segja það alveg eins og er, virðulegur forseti, að ég tel að hér sé í raun og veru um að ræða svo alvarlegt mál að það sé ekki hægt að bíða eftir 3. umr. fjárlagafrv. til að ræða það. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að við gerum okkur grein fyrir því að hér er ekki bara um að ræða einhverjar stofnanir og einhverjar tölur og einhver lagaákvæði sem ekkert er á bak við. Hér er um að ræða þjónustu sem snertir þúsundir heimila í landinu, þúsundir heimila í landinu. Og ég tel að okkur sem hér sitjum sé skylt að láta þessi heimili vita og taka eftir því hér og nú hvað stendur til að gera gagnvart þessu fólki. Auðvitað skora ég í fyrsta lagi á hæstv. félmrh. að taka allar þessar tillögur til baka. Ég skora á hana að starfa í samræmi við upphafsár sitt á Alþingi þegar hún sjálf flutti frv. til laga um þjónustu við þroskahefta. Ég skora á hana að átta sig á því á hvaða forsendum hún var kosin inn á Alþingi Íslendinga, sem varaformaður í flokki sem kallar sig Jafnaðarmannaflokk Íslands.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. félmrh. geri grein fyrir því núna hvort að það er rétt að hún hafi fallist á þessar tillögur á næturfundinum langa um síðustu helgi eða hvort hún telur að hér sé um mistök að ræða og hún sé tilbúin til að draga þetta til baka. Fyrir utan að hér er um að ræða atlögu að málaflokknum og þjónustu við fatlaða yfir höfuð verða menn líka að skoða hitt, sem ég er sannfærður um, að þegar til lengri tíma er litið mun kostnaður við þessa þjónustu vaxa ef þessi leið verður farin. Hún mun vaxa hjá ríkinu vegna þess að sveitarfélögin, sem ekki munu hafa efni á því og ekki getað borgað, munu sækjast eftir því að til verði sólarhringsstofnanir í stað þeirra stofnana sem hér er verið að tala um að setja yfir á sveitarfélögin og sveitarfélögin hafa enga burði til að taka við.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að strax við þessa umræðu, við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1992, verði tekið á þessu máli. Og það kemur a.m.k. ekki til greina af minni hálfu að taka þátt í umræðu um þessi mál og afgreiðslu þeirra rétt eins og ekkert hafi í skorist þó ég viti að þessar tillögur eru í farvatninu og undirbúningi hjá ríkisstjórninni. Þess vegna skora ég á hæstv. félmrh. að koma upp núna á eftir og segja: Þetta eru mistök. Ég hef ákveðið að draga þessar tillögur til baka. Ég hef ákveðið að standa vörð um málefni fatlaðra. Og ég veit að hæstv. félmrh. á stuðning í þeim efnum a.m.k. í mér og öðrum þingmönnum Alþb.
    Ég vil þessu næst, virðulegur forseti, víkja aðeins að þeim þáttum fjárlagafrv. sem snerta heilbrrn. sérstaklega. Ég vil biðja um að hæstv. heilbrrh. verði látinn vita og hann beðinn um að koma hér í salinn.
    Vandinn við umræðu um heilbrrn. er að vísu mjög sérkennilegur vegna þess að allar talnalegar forsendur þess kafla eru í uppnámi. Og þar eru menn ekki að tala um 2 millj. hér og 1 / 2 millj. þar. Þar eru menn að tala um milljarða og marga milljarða í hverju tilviki, hverri línu, hverri einustu tillögu sem lögð er fyrir. ( Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um að heilbrrh. er ekki í húsinu. Ég hef gert ráðstafanir til að á hann verði kallað og hann komi hér strax.) Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að ég óskaði eftir því fyrir hönd okkar þingmanna Alþb. í gærkvöldi að allir ráðherrar yrðu beðnir um að vera við þá umræðu sem nú fer fram, þannig að hér er í rauninni ekki um nýja ósk að ræða eða ósanngjarna af okkar hálfu, heldur viljum við fá að ræða þetta við ráðherrana. Ég geri þá hlé á þessu máli mínu. Ég hef ýmislegt að segja og ætlaði að víkja þessu næst að þeim þáttum sem snúa aðallega að menntmrn.
    Þar ætla ég í fyrsta lagi að víkja að þessari svokölluðu flötu lækkun sem hv. 2. þm. Austurl. gat um hér áðan. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið í hendur og hv. 2. þm. Austurl. las upp áðan, er gert ráð fyrir því að skera rekstrargjöld menntmrn. niður á næsta ári, til viðbótar við allt annað sem menn eru búnir að sjá, um 455 millj. kr. nettó. Ég geri ráð fyrir því að hér séu menn að tala fyrst og fremst um vinnulaun af margvíslegu tagi. Ef menn eru að tala um 6--7% t.d. af umfangi skólanna í landinu er væntanlega verið að tala um t.d. 300--400 grunnskólakennara sem á að segja upp störfum. Auk þess 200--250 framhaldsskólakennara og fjölmarga starfsmenn háskóla. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að því hvernig hann hyggst koma þessum niðurskurði fyrir vegna þess að auðvitað getur hann ekki --- mér liggur við að segja sem betur fer --- hróflað við skólaárinu 1991--1992. Allur þessi niðurskurður í menntmrn. verður því að koma niður haustið 1992 og á fyrri hluta ársins 1993, þ.e. á skólaárinu 1992--1993. Hér hlýtur auðvitað að vera um stórkostlegan samdrátt að ræða í kennslu á skólaárinu 1992--1993 sem menn eru með í huga.
    Nú kunna menn að segja sem svo að það sé í raun mjög erfitt fyrir menntmrh. miðað við gildandi lög að skera kennslu svona mikið niður. Það er rétt. En hann er að breyta lögunum. Samkvæmt bandormsfrv., sem liggur hérna fyrir, er gert ráð fyrir því að afnema það lágmark sem nemendur í skólum á Íslandi eiga að hafa og afhenda menntmrh. reglugerðarvald í þeim efnum þannig að hann getur ákveðið að hver einasti nemandi fái kannski ekki nema 10--15 tíma á viku eða hvað það nú væri. Hér er auðvitað um að ræða óvenjulega tillögu um miðstýringu og náttúrlega ekki nýtt þegar Sjálfstfl. kemst í menntmrn., þá er miðstýring aðaláherslan, að einn maður við eitt borð eigi að geta skorið niður tímafjölda grunnskólanemenda í landinu með þeim hætti sem hann er hér að gera. Það er náttúrlega alveg kostulegt að Alþfl. skuli standa að þeirri miðstýringu og árás á grunnskólalögin sem hér er um að ræða. Ef allur þessi niðurskurður á að koma niður á árinu 1992--1993 þýðir það að menn ætla sér að skera væntanlega niður einar 800--900 millj. kr. á ársgrundvelli. Þar með eru menn komnir með 600--700 kennarastöður sem á að leggja niður í skólum á Íslandi haustið 1992, á skólaárinu 1992--1993. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að því hvernig hann hugsar sér að framkvæma það.
    Þessar hugmyndir um flata lækkun rekstrargjalda eru mjög sérkennilegar að því leytinu til að í fyrsta lagi á ráðuneytið að skera sig niður um 750 millj., síðan á það að fá til baka um 300 millj. og það er út af fyrir sig fróðlegt líka að inna ráðherrann og aðra fagráðherra eftir því hvernig þeir ætla sér að vinna þetta. Það er nokkuð athyglisvert og nýlunda, eða finnst mönnum það ekki í íslenskum stjórnmálum, að haga eigi hlutunum þannig að einstakir ráðherrar geti ráðstafað mörg hundruð milljónum hver hjá sér. Hver verður næsta tillaga? Verður hún sú að taka um það ákvörðun að Alþingi sé í raun óþarft og fjárlaganefnd í þessu efni og segja bara: Menntamálaráðherra 10 milljarðar, takk, heilbrigðisráðherra 40, o.s.frv.? Þetta er auðvitað óvenjulegt valdaframsal sem hér er um að ræða af hálfu Alþingis ef það verður þannig að menntmrh. fær opinn tékka upp á 300 millj. og heilbr.- og trmrh. upp á 360 millj. Það er óvenjulegt valdaframsal. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá það á hreint hvernig hæstv. menntmrh. hugsar sér að taka á þessum hlutum.
    Ég vil einnig spyrja hann að því hvernig ætlunin sé að koma til móts við þann vanda sem blasir við án niðurskurðar hjá ýmsum grunnskólastofnunum og framhaldsskólastofnunum í landinu. Þá er ég t.d. að hugsa um vanda Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. En Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur stendur frammi fyrir gífurlegum vanda. Sá vandi stafar af því að við erum að ganga inn í breytt samfélag. Börnin búa við aðrar aðstæður en fyrr, þróunin hefur því miður haft það í för með sér, eða öfugþróunin, að við fáum börn í 1. bekk grunnskólans í Reykjavík, í þéttbýlinu, með mjög sérkennileg og alvarleg hegðunarvandamál sem voru algjörlega óþekkt áður. Hegðunarvandamál sem okkar sálfræðingar og sérfræðingar og aðrir aðilar hafa ekki kynnst fyrr. Við stöndum einnig frammi fyrir því í þessu byggðarlagi og víðar í þéttbýli að lítil börn, 7, 8 og 9 ára, fá ekki nema mjög takmarkaða skólavist, verða að sætta sig við að vera ein utan skóla mjög langan tíma á hverjum degi. Við höfum heyrt lýsingar á því hvernig nestispökkunum er komið fyrir á hurðarhúnum blokkanna. Það er þessi vandi sem Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur og Fræðsluskrifstofa Reykjaness, alveg sérstaklega, þurfa að takast á við. Ég tel það mikið ábyrgðarleysi að skapa ekki vinnuaðstæður til þess á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og Fræðsluskrifstofu Reykjaness að taka á þessum málum með skipulegum hætti. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh.: Er hætta á því að þjónusta fræðsluskrifstofanna verði líka skorin niður? Kennslan í fyrsta lagi skorin niður þannig að börnin gangi sjálfala lengur en nú og þjónusta fræðsluskrifstofanna líka. Hvar er sú menntastefna og metnaður sem er á bak við þetta frv. af hálfu menntmrn.?
    Ég vil einnig í þessu sambandi leyfa mér að benda á að bæði samtök foreldra og kennarafélaga hafa sent alþingismönnum og menntmrn. sérstakar athugasemdir út af fræðsluskrifstofunni. Ég bendi líka á að Skólastjórafélag Reykjavíkur sendi sérstakt bréf til allra þingmanna Reykjavíkur sem birtist 26. nóv. um þetta mál. Mér þætti vænt um ef hæstv. menntmrh. vildi greina frá því með hvaða hætti hann hyggst efla Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur eða hvort hætta er á því að fræðsluskrifstofan, þrátt fyrir geigvænlegan félagslegan vanda hjá börnum í þessu byggðarlagi, verði fjárhagslega skorin niður líka.
    Ég vil þessu næst víkja að öðrum þætti sem snertir menntmrn. Það eru skólagjöld. Mér þætti vænt um ef hingað væri kvaddur hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl. Hann hefur núna að undanförnu verið dálítið í fjölmiðlum varðandi það að ekki verði lögð á skólagjöld. Sagt hefur verið frá því að Alþfl. að hluta til, Alþýðuflokkurinn R eins og ég hef kallað það, Alþýðuflokkur revólúsjóneranna muni aldrei samþykkja skólagjöld. Í haust skrifaði ég nokkrar greinar í blöð þar sem ég sýndi fram á að það er óheimilt að innheimta skólagjöld í rekstur. Það er óheimilt samkvæmt framhaldsskólalögum eins og þau eru. Hæstv. menntmrh. sagði þá við undirritaðan í fjölmiðlum: Hann á að lesa betur, þessi þingmaður. Ég tók auðvitað mark á ráðherranum og las betur og niðurstaðan er alveg skýr í þessum efnum. Menntmrh. taldi það ekki nóg heldur ákvað hann að skipa nefnd til að skoða málið ásamt fulltrúum Alþfl. Tveir menn voru í nefndinni. Þessi tveggja manna nefnd hefur núna skilað áliti. Hvað stendur í hennar áliti? Það stendur nákvæmlega það sama í hennar áliti og birtist í blaðagrein eftir undirritaðan 10.--15. sept. sl., nákvæmlega það sama svo að ráðuneytið hefði getað sparað sér þann lögfræðikostnaðinn. Niðurstaða sérfræðinganna er sú að ekki sé heimilt að innheimta skólagjöld í rekstur framhaldsskólanna. Það er alveg skýr niðurstaða. Hv. formaður þingflokks Alþfl. kemur hér í 80. sinn í fjölmiðlum og ber sér á brjóst og segir: Ég er engilhreinn, ég stoppa þetta.
    En það er engin tillaga um það hér. Hv. formaður fjárln. segir í ræðu sinni í gær, þar sem hann var að tala um Ásbjörn Jóakimsson m.a.: Það verður tekið á þessum málum við 3. umr. fjárlaga. Ég spyr: Hvernig? Hver talar fyrir ríkisstjórnina í þessu máli? Er það fjárlagafrv.? Hér eru skólagjöld. Er það hæstv. menntmrh. eða er það hv. þm. Össur Skarphéðinsson? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli?
    Ég segi: Ef niðurstaðan er sú að fella út skólagjöldin, vonandi er það þannig, með hvaða hætti á það að gerast? Verða framlög til skólanna aukin sem því nemur eða hvað? Ég skora á hv. formann þingflokks Alþfl. að gera skýra grein fyrir því hér með hvaða hætti er ætlunin að fara með skólagjaldamálið hér á næstunni? Af hverju er ekki tekið á

því við 2. umr. fjárlaga? Af hverju liggur ekki fyrir nein brtt. frá honum eða Alþfl. R núna strax við 2. umr. fjárlaga? Hvernig stendur á því að maður fréttir ekkert af málinu en formaður þingflokks Alþfl. kemur hér í fjölmiðla, þenur sig og segir: Ég er góður, ég er dýrlegur, blessaður gimsteinn, ég ætla að bjarga þessu? ( ÖS: Þú ert eins og Ólafur Ragnar Grímsson.) Formaður þingflokksins er eitthvað pínulítið typpilsinna núna, blessaður, eitthvað svona pínulítið. En ég skora á hann að koma hingað og gera grein fyrir málinu. Ég er alveg viss um að sá hv. þm. sem formaðurinn nefndi hér er reiðubúinn til þess að veita honum lið í þessu efni og sömuleiðis undirritaður. Ég held að það sé hins vegar alveg nauðsynlegt að það komi fram við þessa umræðu hvernig Alþfl. hefur hugsað sér að afgreiða skólagjaldamálin. Það er í raun mjög nauðsynlegt en flókið að átta sig á því fyrir okkur sem þekkjum ekki til niðri í þingflokksherbergi Alþfl. og höfum ekki hugsað okkur að fara þangað. Aðrir væru hins vegar velkomnir upp í Hlaðbúð, eins og margoft hefur komið fram í þessum stól.
    Formaður Alþfl. kallaði formann þingflokks Alþfl. kommúnista í tilefni af því að hann barðist gegn skólagjöldum og segir svo í tímaritinu Mannlífi, sem ég vona að mér leyfist að nefna, virðulegi forseti, það er nú dálítið erfitt kannski. ( Forseti: Velkomið.) Ég hef leyfi forseta til að nefna Mannlíf, það er framför. Formaður Alþfl. segir í tímaritinu Mannlífi að enn eimi eftir af Alþb. í formanni þingflokks Alþfl. Það er alveg satt. Ég sé það á honum af og til. Það eru vissar rispur í honum sem mér þykir vænt um, því er ekki nokkur leið að neita. Ég ætla hins vegar að neita mér um að hæla honum mikið meira vegna þess að það gæti komið honum illa næst þegar hann mætir á fundi niðri í guðfræðideildinni, núverandi þingflokksherbergi Alþfl. Þar var áður guðfræðideild Háskólans --- til skýringar. Ég skora bæði á hæstv. menntmrh. og hv. formann þingflokks Alþfl. að gera grein fyrir þessu skólagjaldamáli hér. ( Forseti: Hv. þm. hefur óskað eftir því að gert verði hlé á fundinum meðan beðið er eftir að heilbrrh. komi og ég ætla að verða við þeirri ósk og geri stutt hlé á fundinum, ekki lengur en 10 mínútur og vona þá að hæstv. heilbrrh. verði kominn í hús.) --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Ég hafði í ræðu minni aðallega farið yfir málefni fatlaðra og lagt nokkrar spurningar fyrir félmrh. og varað við þeim hugmyndum sem þar eru um að skera niður þjónustu við fatlaða um mörg hundruð milljónir króna, flytja það verkefni yfir á vanmegna sveitarfélög og fullyrti að í rauninni væru menn þar að brjóta niður þjónustukerfi við fatlaða.
    Ég hef síðan hugsað mér að víkja nokkrum orðum að heilbr.- og trmrn. Ég verð að byrja á að taka undir það sem fram kom hjá hv. 2. þm. Austurl. fyrr í dag að í raun er nokkuð erfitt að átta sig á því hvaða tölur það eru sem þar liggja fyrir að því er það ráðuneyti varðar. Þar mun í fyrsta lagi vera um að ræða fjárlagafrv. sjálft þar sem gert var ráð fyrir tilteknum niðurskurði. Í öðru lagi breytingar á þeim niðurskurði samkvæmt bandormsfrumvarpinu. Í þriðja lagi breytingartillögur fjárln. og í fjórða lagi hugmyndir um flata lækkun ríkisútgjalda á árinu 1992.
    Ef við byrjum á því síðastnefnda mun vera gert ráð fyrir því að heilbr.- og trmrn. skeri niður til viðbótar við tillögur fjárln. hátt í 1 milljarð króna af rekstrarútgjöldum, fái síðan endurráðstafað, eins og það er kallað, 360 millj. kr. Þá standi eftir nettóskerðing á heilbrrn. upp á 560 millj. kr. Ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvernig hann hugsar sér að framkvæma þessa skerðingu, þessa flötu skerðingu á rekstrarútgjöldum heilbrrn. eða hvort þetta er einungis tala á tillögustigi sem ekkert verður gert með. Stendur heilbrrn. að þessari tillögu og hvaða þættir eru þar sem skera á niður til viðbótar við annan niðurskurð sem heilbrrn. er búið að taka á sig?
    Auðvitað er mjög sérkennilegt að standa svona að hlutum af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og hér er gert ráð fyrir að gera, ef niðurstaðan verður sú að heilbr.- og trmrh. geti að eigin geðþótta ráðstafað 360 millj. kr., ákveðið hvernig þeim fjármunum verður dælt út en nettóskerðingin á það ráðuneyti er 562 millj. kr. Nettóskerðing á heilbrrn. er 562 millj. kr. Auðvitað er algjörlega óeðlilegt að gera ráð fyrir því að þessir hlutir fari svona losaralega frá Alþingi því þá mætti í raun alveg eins segja að Alþingi gerði ekkert annað en að ákveða einhverja tugi milljarða til heilbrrh. og segja það samkvæmt ákvörðun heilbrrh. Punktur. Hérna er stigið skref inn á þá braut upp á hálfan milljarð eða svo. Ég er hræddur um að formaður fjárveitinganefndar, sem einu sinni var, Sighvatur Björgvinsson, einn af þingmönnum Vestfjarða, hafi í því hlutverki þótt nokkuð skrýtið ef gerð hefði verið tillaga um að láta einstaka ráðherra ráðstafa upp í hálfum milljarði fríhendis. Það er í raun og veru mjög sérkennileg staða og sérkennilega að verki staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar ef þetta er rétt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig hann hugsar sér að framkvæma þennan flata niðurskurð. Hvar er gert ráð fyrir því að hann komi niður? Hvaða sjúkrahús á að skera niður? Hvaða heilsugæslustöðvar eru það sem á að skera niður? Hvaða aðrir þættir eru það t.d. hjá lífeyristryggingunum, sjúkratryggingunum og slysatryggingunum sem á að skera niður?
    Þegar fjárlagafrv. var lagt fram á Alþingi í haust var gert ráð fyrir því að tilteknir þættir í heilbrrn. gætu sparað um 2 milljarða kr. Í greinargerð með frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum er farið yfir þetta. Þar er gert ráð fyrir því að þessir liðir gefi ekki 2.000 millj. kr. heldur 1.275 millj. kr. Með öðrum orðum, sá niðurskurður sem lagt var af stað með er ekki talinn standast heldur verði hann um 700 millj. kr. lægri en gert var ráð fyrir í upphafi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann sammála greinargerð fjmrn., telur hann hana rétta í þessu efni?
    Það kemur til dæmis fram í greinargerð fjmrn. að ráðuneytið telur að sá niðurskurður sem ætlaður var á ýmsum þáttum heilsugæslunnar muni skila 795 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrv. en samkvæmt núverandi gerð frv. 500 millj. kr. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. að því, er hann sammála þessari tölu? Ég ræddi við aðstoðarmann heilbrrh. í gærkvöldi. Bersýnilegt var að hann var ekki klár á því hvernig þessar tölur stóðu og ég tel að það sé lágmarkskurteisi við Alþingi að þær tölur sem fram eru reiddar af ráðuneytunum, hvort sem það er heilbrrn. eða fjmrn., beri nokkurn veginn saman þannig að það sé nokkurn veginn það sama sem ráðherrar eru að bera fyrir þingið.
    Í greinargerð fjmrn. er líka farið nokkrum orðum um lyfjakostnað. Eins og kunnugt er hefur heilbrrh. hrósað sér af því að hafa breytt reglugerð um lyfjakostnað þannig að 800 millj. kr. muni sparast frá því sem áður hafi verið gert ráð fyrir á árinu 1992. Hann er búinn að þenja sig með það um alla fjölmiðla að hann hafi sparað 800 millj. kr. En hvað segir fjmrn.? Segir það 800 millj. kr.? Nei, fjmrn. segir að sú reynsla sem nú liggur fyrir af þegar orðnum breytingum bendi til þess að sparnaðurinn verði í reynd 400 millj. kr. Hvaða tala er rétt? Sú sem lögð var fram í fjárlagafrv. í haust, sú sem hæstv. heilbrrh. hefur verið með eða sú sem fjmrn. er með?
    En þetta er ekki eini ágreiningurinn sem kemur fram á milli þessara ráðuneyta. Grundvallarágreiningur er í útreikningi á forsendum ráðstafana í ríkisfjármálum. Það kemur t.d. fram að fjmrn. telur að sá sparnaður sem gert var ráð fyrir í tannlæknakostnaði náist ekki vegna ákvæðis til bráðabirgða sem er í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Orðrétt segir hér, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að áliti fjármálaráðuneytis munu umræddar 150 millj. kr. ekki sparast nema fallið verði frá bráðabirgðaákvæði því sem er að finna aftast í frumvarpinu um ráðstafanir í ríkisfjármálum.``
    Ég spyr hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er það ætlun hans að halda við þetta ákvæði eða falla frá því? Ætlar hann að halda við þetta ákvæði? Hver er skoðun ríkisstjórnarinnar í

þessu efni? Fjmrn. vill fella þetta ákvæði út, heilbrrn. vill hafa þetta ákvæði. Hver er skoðun ríkisstjórnarinnar? Hér skakkar litlum 150 millj. kr. í forsendum heilbrrn. annars vegar og fjmrn. hins vegar. Ég held að það sé ótvírætt að hæstv. heilbrrh. verður að svara því hver er ríkisstjórnin í málinu. Er það heilbrh. eða er það fjmrh.?
    Í þessari greinargerð fjmrn. sem ég er að rekja er niðurstaðan sú að sá sparnaður, sem í fjárlagafrv. var talinn vera upp á 2.000 millj. kr., verði 1.275 millj. kr. Hvor talan er rétt, hæstv. heilbrrh.? Ég tel að það sé útilokað að afgreiða fjárlagafrv. og heilbrigðismálin öðruvísi en menn hafi alveg á hreinu hvað þarna er verið að tala um. Eru það 2.000 millj. eða 1.300 millj. eða hvað er það sem ber á milli og hverjar eru skýringarnar á því?
    Ég vil þessu næst, virðulegi forseti, víkja að tillögum meiri hluta fjárln. um breytingar á fjárlagafrv. Þar er t.d. gert ráð fyrir því að nokkur breyting verði á útgjöldum vegna lyfjakostnaðar. Virðulegi forseti. Þannig háttar til að ég er að leggja hérna spurningar fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. Ég veit að hann er á heimsmælikvarða að vitsmunum og næmi. Hann á engan sinn líka að því leytinu til. En að hann geti tekið niður milli fimm og tíu spurningar um tölur rétt si svona og geti síðan skilað þeim öllum standandi í hliðarsal í viðræðum við embættismenn, það finnst mér satt að segja ganga kraftaverki næst. Ég mundi þá, ef það reynist vera svo, gera að tillögu minni að hann yrði útnefndur til Nóbelsverðlauna fyrir vitsmuni. Aldrei áður hefur spurst til þvílíks líms á einum heila. Ég óttast að hæstv. heilbrrh. sé ekkert að hlusta á það sem þingmaðurinn segir og telur sig sjálfsagt ekkert þurfa á því að halda. Það sem ég er að segja í stuttu máli er að öll tillögu- og talnamatreiðsla heilbrrn. í þessu efni sé vitlaus vegna þess að menn hafi í raun ekki vandað sig eins og þeir eiga að gera áður en þeir leggja mál sín fyrir Alþingi.
    Í tillögum meiri hluta fjárln. er t.d. gert ráð fyrir því, virðulegi forseti, að hækka framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 150 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í frv. Gott og vel. Hver eru rökin? Þau eru að talið er að atvinnuleysi verði meira á árinu 1992 en forsendur fjárlagafrv. gerðu ráð fyrir. Ég spyr hæstv. heilbrrh.: Með hversu miklu atvinnuleysi er reiknað í forsendum meiri hluta fjárln.? Á hverju byggist sú tillaga sem hér er flutt, að hækka framlagið í Atvinnuleysistryggingasjóð um 150 millj. kr.?
    Ég vil einnig í sambandi við breytingartillögu meiri hluta fjárln. minna sérstaklega á Hollustuvernd ríkisins. Það á að hækka sértekjur hjá henni á næsta ári um 10 millj. kr. Áður var búið að skera niður framlög til Hollustuverndarinnar verulega. Þetta er ein okkar mikilvægasta stofnun að því er varðar ýmsa þjónustu í landinu. Hvaða rök eru fyrir því að ætla að það hægt sé að skera Hollustuvernd ríkisins niður með þessum hætti? Hvaða rök eru fyrir því? Engin slík rök hafa komið fram, ekki frá formanni fjárln. eða neinum öðrum fulltrúa stjórnarliðsins hér.
    Í tillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir því að breyta álagshlutfalli á launum á öllum spítölum í landinu. Engin rök hafa komið fram fyrir því af hverju þetta er gert. Ég tel að það sé ekki nokkur vafi á því að það verði að breyta álagshlutfallinu. En hvaða tölur eru á bak við þessa breytingu á álagshlutfallinu? Engar upplýsingar hafa komið fram um það við þessar umræður og þess vegna nauðsynlegt að fá upplýsingar um það.
    Ég vil enn fremur spyrja vegna breytingartillögu meiri hlutans við lið 409 í heilbrrn., þar sem um er að ræða hjúkrunarheimilið Skjól. Þar er gert ráð fyrir hækkun á framlögum til þess um 17 millj. kr. vegna sambýlis við Alzheimer-sjúklinga. Nú vitum við að þannig háttar til í Skjóli að þar hefur verið tilbúin dagdeild fyrir aldraða í mörg missiri. Ég sé ekki að gert sé ráð fyrir því að sú dagdeild fari af stað á næsta ári. Ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.: Gerir heilbrrn. ráð fyrir því að dagdeildin í Skjóli verði áfram lokuð og hún bíði áfram tilbúin eftir því að taka við fólki sem ekki kemur þangað inn á næsta ári? Er það svo að engin ný starfsemi í þágu aldraðra komi inn í fjárlög ársins 1992,

engin ný starfsemi, nema þessar 17 millj. sem eiga að ganga til sérstakrar þjónustu við Alzheimer-sjúklinga í Skjóli?
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur haldið um það talsverðar ræður að nú þurfi aldraðir að hafa forgang og hann hefur reynt að rökstyðja mál sitt t.d. að því er varðar St. Jósefsspítalann með því að aldraðir eigi að hafa forgang. Hann hefur reynt að rökstyðja mál sitt varðandi Landakot líka með því að aldraðir eigi að hafa forgang. Hvar birtist forgangur aldraðra í þessu fjárlagafrv. eða tillögum hæstv. heilbrrh.? Er ekki málið augljóslega þannig að á árinu 1992 verði um það að ræða að fleiri en ein og jafnvel fleiri en tvær deildir sem ella væru fyrir aldraða muni standa auðar af því að engin viðbótarfjárveiting fæst og vegna þess að það er ætlunin að skera niður framlög til spítala upp á 562 millj. kr. nettó eftir allan þann niðurskurð annan sem hér er verið að tala um? Það er bersýnilegt að ummæli hæstv. heilbr.- og trmrh. um það að aldraðir eigi að hafa forgang eru markleysa. Það er ekkert gert til þess að taka sérstaklega á málefnum aldraðra, ekkert.
    Ég vil loks, í sambandi við sjálft fjárlagafrv., inna hæstv. heilbrrh. eftir því hvort gert er ráð fyrir því í þeirri reglugerð sem hann gaf út á föstudaginn var að taka gjöld af ungbarnaeftirliti og mæðravernd. Alveg er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari því hvort í þessari reglugerð sé gert er ráð fyrir því að taka gjald af ungbarnaeftirliti og mæðravernd og þær upplýsingar þurfa að koma fram hér. Einnig er nauðsynlegt að það komi fram við þessa umræðu, virðulegi forseti, hvort hæstv. félmrh. hefur kynnt sér hvað það þýðir fyrir fatlaða í þessu landi að lagt verður gjald á alla þá sem heimsækja heilsugæslustöðvar á Íslandi. Hefur hæstv. félmrh. kannað það mál sérstaklega? Er hún með upplýsingar um það hvernig þessi sérstaka gjaldtaka á heilsugæslustöðvum kemur við fatlaða til viðbótar við það að taka á 400 millj. af þjónustu við fatlaða og flytja yfir á sveitarfélögin? Það er lögbrot. Þá er verið að skattleggja þetta fólk sérstaklega undir forustu ríkisstjórnar sem Alþfl. á aðild að. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. félmrh. svari því hvað hún telur að kostnaðurinn við heilsugæslu fyrir fatlaða aukist við þær breytingar sem hér er verið að tala um.
    Það hefur að vísu einnig í sambandi við málaflokkinn aldraðir flogið fyrir að ætlunin sé að taka upp sérstakt sveitargjald á aldraða á stofnunum. Ég hef heyrt í fréttum að uppi séu hugmyndir um að sveitarfélög eigi að borga ákveðna upphæð á sólarhring fyrir hvern mann sem vistaður er utan viðkomandi sveitarfélags. Er það rétt að uppi séu tillögur um það af hálfu Alþfl., sem beitti sér fyrir alþýðutryggingunum á sínum tíma, að taka upp hreppaflutninga og uppboðskerfi á nýjan leik, að það sé ætlunin að leggja sérstök gjöld á gamalt fólk sem vistast á stofnunum utan sinnar heimabyggðar? Það mundi t.d. þýða, svo ég nefni dæmi, að vegna aldraðra Reykvíkinga sem búa allmargir í Kumbaravogi mundi sveitarfélagið greiða fjármuni. Ég er þá ekki að segja að það væri ofverkið Reykjavíkur að leysa það verkefni. Hitt er alveg ljóst að þarna væri verið að kippa hugmyndalegum grundvelli undan alþýðutryggingunum á Íslandi sem byggjast á því að menn eiga rétt á tiltekinni þjónustu og að ekki sé spurt að því fyrst: Hvaðan ertu og hvernig lítur veskið þitt út? --- áður en menn fá þá þjónustu sem veitt er.
    Ég hef, virðulegi forseti, lagt allmargar spurningar fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. og sömuleiðis hæstv. félmrh. Ég hef spurt um hinn almenna niðurskurð sem þarna á að framkvæma. Ég hef spurt um það hvernig stendur á því að upplýsingum heilbrn. og fjmrn. ber ekki saman þannig að það skakkar mörg hundruð milljónum króna. Ég hef einnig lagt fram viðamiklar spurningar til félmrh. varðandi málefni fatlaðra þar sem gert er ráð fyrir því að leggja niður á vegum ríkisins dagvistun fatlaðra, verndaða vinnustaði, leikfangasöfn, sumardvöl, atvinnuleit, skammtímavistun, endurhæfingu. Það hefur komið fram að hér er verið að velta yfir á sveitarfélögin 350--400 millj. kr., en ég segi: Það segir í raun ekki alla

söguna af því að sveitarfélögin mörg eru vanmegna og ráða ekki við þetta verkefni. Bæði vanmegna fjárhagslega og ekki síður faglega.
    Það er kannski rétt í leiðinni að spyrja hæstv. félmrh.: Hvar eru tillögurnar til tekjujöfnunar sem ríkisstjórnin samþykkti að teknar yrðu inn og voru forsendan fyrir því að hún styddi fjárlagafrv. í haust? Hvar eru þær tillögur? Ég sé þær ekki. Ég sé hins vegar allt annað. Það er verið að flytja fjármuni frá fötluðum, frá öldruðum, frá sjúkum í þessu þjóðfélagi. Það er það sem er verið að gera. Það er því þveröfugt við það sem hæstv. félmrh. hélt fram þegar fjárlagafrv. var afgreitt í haust.
    Ég hef einnig, virðulegi forseti, beint nokkrum spurningum til hæstv. menntmrh. og ætla út af fyrir sig ekki að fara yfir þær sem lúta sérstaklega að niðurskurði í skólunum þar sem ég tel að menn séu að skera niður 600--700 kennarastöður á næsta hausti. Ég ætla ekki heldur að fara ítarlega út í skólagjöldin þar sem ég lagði spurningar fyrir formann þingflokks Alþfl. og spurði hann af hverju ekki væri gert ráð fyrir að fella skólagjöldin út. Ég hefði einnig getað hugsað mér að ræða við hæstv. menntmrh. um sérstaka þætti menningarstarfseminnar, einkum og sér í lagi leiklistina, og minni þar á ályktun leiklistarráðs frá fundi sem haldinn var 9. des. sl. Þar kemur fram að það er ljóst að Þjóðleikhúsið stendur frammi fyrir mjög verulegum vandræðum.
    Ég ætla hins vegar ekki að fara út í þau mál frekar vegna þess, og ég segi alveg eins og er, að ég tel að sú atlaga að fötluðum sem virðist vera í uppsiglingu sé eitt það ljótasta sem ég hef séð frá hæstv. núv. ríkisstjórn og er þá langt til jafnað.
    Ég ætla hins vegar að ljúka máli mínu með því, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. félmrh. um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot. Fram kom í ummælum hæstv. forsrh. í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum að gert var ráð fyrir því eða menn búa sig undir að svo geti farið að ríkisstjórnin verði að slaka nokkuð til í þeim efnum áður en frá kjarasamningum er gengið eða í tengslum við kjarasamninga. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort gert er ráð fyrir því að kaflinn um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot sem er í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum sé nægileg lagabreyting eða hvort ætlunin er að breyta lögum enn frekar.
    Ég vil enn fremur, að lokum, úr því ég er að nefna lagabreytingar spyrja að því hvort það er ætlun félmrh. að halda áfram endurskoðun á lögunum um málefni fatlaðra sem hafin var. Ég vil spyrja hvernig henni miðar og hvort það er rétt sem heyrst hefur að Sjálfstfl. hafi sett fótinn fyrir þá endurskoðun sem farin var af stað og hæstv. félmrh. hafi tekið ákvörðun um að gefast upp fyrir Sjálfstfl. í þeim efnum.