Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 03:32:00 (1915)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég hafði í sjálfu sér ekki hugsað mér að fara mörgum orðum um þessi mál í þetta skiptið. Ég kvaddi mér hljóðs fyrir nokkrum klukkutímum. Hins vegar gaf ræða hæstv. menntmrh. tilefni til að ég tel mig nauðbeygðan til að staldra nokkuð við og fjalla aðeins um þær upplýsingar sem fram komu í hans ræðu. Út af fyrir sig mætti hugsa sér að ég staldraði við það eitt sem fram kom í hans máli núna en ræddi ekki um ráðuneytið að öðru leyti og enn fremur mætti auðvitað hugsa sér að ég sleppti því að fara yfir málefni annarra ráðuneyta sem er þó full ástæða til, sérstaklega vegna þess, virðulegi forseti, að nú búum við við þær aðstæður í fyrsta sinn að allar fagnefndir senda frá sér ábendingar um einstök atriði fjárlaganna. Það væri fróðlegt fyrir hv. þm. að lesa yfir greinargerðir fagnefndanna og bera þær síðan saman við niðurstöður fjárln. Og það gæti verið fróðlegt fyrir þingheim að velta því fyrir sér að hvaða notum hin nýju þingsköp hafa komið. Hefur verið tekið mark á fagnefndunum í vinnu fjárln.? Það er mjög alvarlegur hlutur þegar maður les í gegn öll nefndarálitin eins og ég hef gert hér í kvöld að sjá það að í rauninni hafa menn ekki tekið minnsta mark á fagnefndunum, ekki einu sinni athugasemdum sem fram hafa komið frá fagnefndunum samhljóða. Gleggsta dæmið um það er t.d. nefndarálit iðnn. þar sem fram kemur það mat iðnn. að óeðlilegt sé að iðnrh. sé með opin ein fimm, sex eða sjö tékkhefti sem heita ólíkum nöfnum í iðnrn. án þess að nokkur aðili fjalli um það í rauninni. Og iðnn. segir: Hinir ómerktu liðir iðnrn. eru óeðlilegir. Þetta segir iðnn. samhljóða undir forustu formanns þingflokks Alþfl. Hvað gerir fjárln. við þessa tillögu? Ekki neitt. Auðvitað geta menn sagt sem svo: Iðnrh. eða iðnrn. hefur lengi haft þetta svona, og ég viðurkenni það að hann hefur lengi haft þetta svona, þann tíma sem ég þekki til líka. Manni var hins vegar oft tregt tungu að hræra sitjandi við ríkisstjórnarborð með iðnrh. um mál af þessu tagi eins og menn geta skilið. Hins vegar er alveg ljóst að peningalegt svigrúm iðnrh. af öllum þessum ávísanareikningum sínum er óeðlilegt miðað við það sem aðrir ráðherrar hafa venjulega haft eins og t.d. hæstv. menntmrh. að ég tali nú ekki um hæstv. heilbrrh. og hæstv. félmrh. og þá er ég ekki að tala um þennan milljarð sem þeir ætla að hafa í hinum vasanum samkvæmt nýju tillögunum um flata niðurskurðinn.
    Þetta er auðvitað nokkurt umhugsunarefni, virðulegi forseti. Menn eru búnir að setja ný þingsköp, leggja mikla vinnu í að semja ný þingsköp og tala mikið um ný vinnubrögð í þinginu, fjárln. sendi frá sér kaflana til fagnefndanna. Fagnefndirnar sitja yfir þessu lon og don, skoða texta fjárlagafrv. út og suður, vanda sig við þetta þessi lifandis ósköp og gera allt sem mögulegt er til að ná t.d. samkomulagi í nefndum. Niðurstaðan er svo sú að það er ekkert mark tekið á þessu. Það er auðvitað hálfgert kjaftshögg á þessi nýju þingsköp og anda þeirra hvernig þessir hlutir eru afgreiddir. Ég get ómögulega neitað mér um það þótt

það sér orðið nokkuð árla morguns, virðulegi forseti, að minna á þessi atriði vegna þess að þau skipta mig máli af því að ég lagði alvarlega vinnu í afgreiðslu nýju þingskapanna sl. vor. Mér sýnist að fagnefndavinnan að því er fjárlögin varðar sé að engu höfð.
    Hæstv. menntmrh. vék hér að nokkrum spurningum sem fyrir hann voru lagðar og ég ætla aðeins að fara yfir þau atriði. Í fyrsta lagi spurði ég hann um flata niðurskurðinn, hvernig eigi að framkvæma hann í menntmrn. Hver er flati niðurskurðurinn sem á að framkvæma í menntmrn.? Hann er 455 millj. Hvenær er hægt að gera það? Það er hægt að koma þeim niðurskurði við í grófum dráttum frá september til desember á næsta ári. Að öðru leyti hefur menntmrn. sáralítið svigrúm í þessu efni. Útgjöld menntmrn. til meginkennsluþátta eru t.d. þannig að um 2 milljarðar á ári eru til háskólastigsins, 4 milljarðar til framhaldsskólastigsins og 5,4 til grunnskólastigsins. Það er alveg augljóst mál að ef taka á þessar 450 millj., segjum að 3 / 4 haustið 1992, þá verður að fella niður kennslu í grunnskólum og framhaldsskólum í landinu sem samsvarar fækkun kennara í landinu um 600--700. Það var tala sem ég lét frá mér fara í umræðunum fyrr í dag og hæstv. menntmrh. gerði ekki athugasemdir við hana, enda skil ég það út af fyrir sig vel að hann hafi ekki forsendur til að slá mál á þetta í einstökum atriðum, en ég er sannfærður um að talan liggur nokkurn veginn þarna. Og þetta gera menn með því, eins og hæstv. menntmrh. sagði, hann sagði það fullum fetum, þetta gerist með því að draga úr kennslumagni í grunnskóla. Þetta gerist með því að fækka stundum. Með öðrum orðum það verður fækkað kennslutímum í grunnskólum á Íslandi haustið 1992 á sama tíma og allar þróaðar menningarþjóðir eru að styrkja og bæta sína grunnskóla. Hvað er Bertel Haarder menntamálaráðherra Dana, að gera þessa dagana? Er hann að fækka stundum í sínum skólum? Nei, hann er að fjölga stundum. Í hvaða flokki er hann? Er hann í einhverjum ótíndum vinstri flokki eins og við hér sumir? Ónei, hann er í Venstre sem er íhaldsflokkur í Danmörku og álíka langt til hægri og Sjálfstfl. á Íslandi, ef ekki lengra. Allar þjóðir sem vilja undirbyggja góð lífskjör inn í framtíðina hafa auðvitað skilning á því að það þarf að bæta skóla. Skólinn er undirstaða góðra lífskjara, framfara í efnahags- og atvinnumálum og það skilja allir nema ríkisstjórn Íslands í dag.
    Það kom einnig fram í ræðu hæstv. menntmrh. að það er ætlunin að draga úr námsframboði í framhaldsskólum. Það var mjög athyglisverð yfirlýsing. Það kom einnig fram í ræðu hans að ætlunin er að breyta viðmiðunarstundaskrá grunnskólanna. Hvað á að taka þar út? Hvað á að strika þar út? Eru það verk- og raungreinar? Er það íslenska? Hvað á að taka þar út? Hvar erum við svo birgir af þekkingu í grunnskólanum að það sé ástæða til að slá striki yfir tilteknar greinar? Það er auðvitað rosalegur hlutur, virðulegi forseti, að horfast í augu við það að hér sé verið að skera niður með þessum hætti og það skuli vera gert undir umræðu um ríkisfjármál, fyrst og fremst, án þess að menntmrh. hafi gert grein fyrir því að hann hafi út af fyrir sig einhverja stefnu í skólamálum. Ég held að það vanti menntmrh. Ég held að við þurfum ekki fleiri aðstoðarfjmrh. Okkur vantar menntmrh., okkur vantar heilbrrh. og okkur vantar félmrh. Okkur vantar fagráðherra sem þora að halda uppi málstað þeirra greina og þess fólks sem þeirra ráðuneyti eiga að starfa með. Það þarf ekki fleiri aðstoðarmenn í fjmrn.
    Hæstv. menntmrh. vék síðan að skólagjöldunum. Ég verð að segja alveg eins og er að það var heldur dapur texti. Skólagjöld hafa verið innheimt lengi. Sá sem hér stendur bar ábyrgð á því að skólagjöld voru innheimt um skeið og hefur sjálfsagt einhvern tíma gert sig sekan um að borga skólagjöld. Hvað kemur það málinu við? Ég hygg að það sé erfitt að finna mörg dæmi um svo algert rökþrotabú og núv. hæstv. menntmrh. þegar hann ætlar sér að skjóta sér á bak við skólagjöld sem hafa verið innheimt á undanförnum árum í samanburði við þau skólagjöld sem hann er að tala um að taka til almenns rekstrar skólanna. Á

því er grundvallarmunur. ( Menntmrh.: Til hvers hafa þau verið notuð sem hafa verið inni?) Þessi skólagjöld hafa verið notuð af yfirgnæfandi meiri hluta fyrir skólafélögin sjálf og einnig í verknámsgreinum. ( Menntmrh.: Það eru dæmi um 8 þús. kr. í skóla.) Það eru dæmi um miklu hærri tölur, hæstv. ráðherra. Það eru dæmi um 18 þús. kr. í verknámsgjald í Verkmenntaskólanum á Akureyri, í matreiðslubraut og það eru dæmi um 40 þús. kr. í Verslunarskólanum sem þið talið aldrei um. Og ef það á að liggja mér á hálsi fyrir eitthvað í þessum efnum þá er það að líða Verslunarskólanum að skattleggja fólk með þeim hætti. En auðvitað er það þannig, virðulegi forseti, að hér er verið að fara inn á algerlega nýja braut í grundvallaratriðum. Það á að innheimta nemendaskatta til þess að standa undir rekstrarkostnaði skólanna fyrir utan laun og það er það sem ég hef sagt að sé ólöglegt, það er það sem greinargerðin segir að sé ólöglegt. Hvaðan hef ég það? Hef ég séð greinargerðina? Nei. En ég vitna í hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem hefur sagt það fullum fetum að í greinargerðinni standi að þetta sé ólöglegt. Og ég segi við hæstv. menntmrh., ef það er ætlunin að innheimta skólagjöld á annað borð, nemendaskatta í viðbót við hin gömlu skólagjöld, þá verður að breyta lögunum því að annars gengur innheimtan ekki. Hverjir verða að samþykkja skólagjöld samkvæmt gildandi lögum? Það eru skólanefndirnar. Munu skólanefndirnar samþykkja nemendaskatta, menntmrh.? Nei, þær munu ekki gera það. ( Gripið fram í: Þá verða þau auðvitað ekki tekin.) Það er alveg ljóst og þá verða þau ekki innheimt. ( Gripið fram í: Það er rétt.) Það er nefnilega kjarni málsins þannig að hæstv. menntmrh. viðurkennir að þetta sé í höndum skólanefndanna. ( Menntmrh.: Þetta er heimild.) Og í höndum skólanefndanna og ráðherrann er að tala um 8. gr. Já, þá er málið leyst. Þá verða engir nemendaskattir lagðir á. Það er skínandi gott og þá er hæstv. ráðherra búinn að viðurkenna að hér hafi auðvitað verið um frumhlaup að ræða vegna þess að það eru skólanefndirnar einar sem geta gert þetta og þær munu aldrei, segi ég, fallast á að taka hærri gjöld en þau sem í grófum dráttum hafa verið tekin á undanförnum árum. Ég get út af fyrir sig komið til móts við hæstv. menntmrh. og sagt sem svo: Reglurnar um þessi efni hafa ekki verið nógu góðar og lög um þetta voru fyrst sett árið 1988 og undirbúningur að reglusetningu í þessum efnum hefur staðið yfir um nokkurt skeið, eins og hann veit, þannig að þar hefur ekki verið nægilega vel á málum haldið. En það er alveg ljóst að ef hann ætlar að leggja þetta í hendur skólanefndanna þá er hann um leið að segja, það verða engin skólagjöld innheimt, og ég þakka fyrir það.
    Hæstv. menntmrh. vék aðeins að því að þessi ríkisstjórn væri betri en sú fyrri á flestum sviðum. T.d. ætlaði hún ekki að taka lán. Og þá kem ég að atriði sem ég hefði aðeins viljað nefna við hæstv. félmrh. til ítrekunar á því sem ég kom að hér fyrr í dag. Ætli hæstv. félmrh. sé enn þá á fótum, hæstv. forseti? ( Forseti: Ráðherrann er hér.) Ráðherrann er hér já, skínandi.
    Ég nefndi það í ræðu minni fyrr í dag að ætlunin væri að breyta fyrirkomulagi á ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot og ég lagði tilteknar spurningar fyrir hæstv. félmrh. Hæstv. ráðherra lét það koma fram í ræðu sinni, ef ég skildi hana rétt, að það væri ætlunin að fjármagna þessa ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot að einhverju leyti með lántökum ef tekjuöflun þess sjóðs sem gert er ráð fyrir í frv. hrykki ekki til. Ef ég hef skilið hæstv. félmrh. rétt, þá er með öðrum orðum ætlunin að greiða laun samkvæmt lögum um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot með lántökum. Mér þætti vænt um að hæstv. félmrh. útskýrði þetta aðeins nánar því að ég gat ekki betur skilið en það væri meiningin að sá sjóður sem þarna er um að ræða ætti að standa að lántökum ef tekjuöflun sjóðsins dygði ekki til. Og það væri fróðlegt að fá á þessu nánari útskýringar frá hæstv. ráðherra og ég vil ítreka þá spurningu til ráðherrans. Er það meiningin að knýja þetta ákvæði í gegnum þingið fyrir jól í fullkomnu stríði við verkalýðshreyfinguna í landinu?

    Hæstv. forsrh. sagði frá því núna fyrir nokkrum vikum í fjölmiðlum, í sjónvarpinu, að ríkisstjórnin gæti út af fyrir sig verið til viðtals um að taka til endurskoðunar áform sín um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot í tengslum við kjarasamninga. Og ég vil inna hæstv. forsrh. og félmrh. eftir því hvort ekki er hugsanlegt að ríkisstjórnin fallist á að fresta þessu máli a.m.k. eitthvað fram yfir áramót því það er náttúrlega ekki gott innlegg í kjarasamningana ef menn ætla sér að knýja þetta í gegnum þingið núna á þessum skammdegisdögum. Um leið og ég beini þessari fyrirspurn til hæstv. félmrh. þá skora ég á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að ríkisstjórnin taki þetta ákvæði út úr bandorminum vegna þess að þetta er slæmt ákvæði fyrir þann anda sem þarf að ríkja í viðtölum ríkisstjórnarinnar við launafólk í landinu.
    Ég vil aðeins að lokum í þessari tölu víkja að því, virðulegi forseti, sem fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. varðandi Þjóðleikhúsið. Hæstv. menntmrh. sagði orðrétt: ,,Þjóðleikhúsið verður eins og aðrir að taka til hjá sér``. Þjóðleikhúsið hefur verið að taka til hjá sér. Staðreyndin er sú að beiðni Þjóðleikhússins fyrir árið 1992 er í raun og veru um lækkun á raunframlagi frá því sem var t.d. á árinu 1989 þannig að það er auðvitað augljóst mál að Þjóðleikhúsið er ekki að gera kröfur umfram aðra. Ef framlagið til Þjóðleikhússins væri t.d. reiknað upp frá árinu 1989, eins og hjá öðrum stofnunum ríkisins, þá er ég sannfærður um að Þjóðleikhúsið ætti í raun og veru að fá talsvert hærri tölu og hefur dregist aftur úr. Ég held að það sé nokkuð alvarlegt mál fyrir okkur ef það er saumað svo mikið að Þjóðleikhúsinu að þar verði ekki hægt að halda uppi eðlilegri starfsemi. Ég er ekkert að mótmæla því að Þjóðleikhúsið taki til hjá sér. Ég kom að rekstri Þjóðleikhússins sem menntmrh. haustið 1988 þannig að þar var nú ekki beint þrifalegt alls staðar. Og ég veita að þeir sem þekkja til í fjármálum ríkisins, eins og hv. fyrrv. formaður fjárveitinganefndar, vita að það var tekið til í hinum almenna rekstri hússins. Það er alveg á hreinu að þar var tekið til. En ég óttast að sú afgreiðsla, sem Þjóðleikhúsið fær í fjárlagafrv. núna, sé hættulega tæp enda þótt ég viðurkenni að ég hafi ekki sett mig niður í tölurnar í ýtrustu smáatriðum, en mér sýnist hún vera hættulega tæp, að þarna muni um það bil 15 árslaunum eða svo. Það er auðvitað veruleg breyting frá því sem Þjóðleikhúsið sjálft fór fram á sem voru ekki ýtrustu óskir hússins heldur einungis framreikningur á þeim veruleika sem húsið bjó við á árinu 1989 og þá taldi það, ég man vel eftir því, að því væri heldur naumt skammtað.