Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 05:10:00 (1930)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. beindi til mín spurningum um ríkisábyrgð á laun í annað sinn í dag. Ég taldi mig hafa svarað hv. þm. Um er að ræða að komið hefur fram athugasemd, m.a. frá forseta ASÍ, um það frv. sem fjallar um ábyrgðasjóð launa við gjaldþrot og er til meðferðar í þinginu. Hans athugasemdir hafa beinst að því að verið sé að skerða réttindi fólks og verði það frv. samþykkt geti það farið á þann veg að fjármagn sé ekki nægilegt í sjóðnum til að halda uppi ríkisábyrgð á launum. Ég nefndi í máli mínu í dag að fram hefðu komið hugmyndir til að koma til móts við þessi sjónarmið sem ég vænti að nefnd, sem fjallar um það mál, muni skoða áður en málið verði afgreitt til 3. umr. Um það er að ræða að stjórn ábyrgðasjóðsins, verði frv. samþykkt, skuli gera tillögur um þau réttindi varðandi ríkisábyrgðina og að í frv. verði kveðið á um lágmarksréttindi launafólks en að öðru leyti geti stjórnin sjálf gert tillögur um þau réttindi. Í hinn staðinn er talað um að rétt væri að skoða hvort til viðbótar því gjaldi, sem kveðið er á um í frv., komi ákvæði þess efnis að ef sjóðurinn geti ekki staðið við sínar skuldbindingar verði lántaka heimiluð og að lánið skuli endurgreitt með álagningu sérstaks aukagjalds á næsta almanaksári. Þetta voru hugmyndir sem ég ræddi um hér í dag og höfðu reyndar áður komið fram við umræðu um frv. um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.
    Ég vona að þetta sé nægjanlega skýrt. Það að atvinnureksturinn standi undir ábyrgð vegna launa við gjaldþrot er algengt í löndunum í kringum okkur og lagt er til af hálfu ríkisstjórnarinnar að sú leið verði tekin upp hér einnig.
    Ég vil í lokin nefna það út af því sem fram kom í máli 1. þm. Norðurl. e. að það væri verið að skera niður þjónustu við fatlaða og jafnvel loka sambýlum vegna þess að ráðuneytum væri gert að skera niður 5% í launa- og rekstrarkostnaði. Ég vil fullvissa hv. þm. um að það er ekki verið að skera niður þjónustu við fatlaða frá því sem nú er, komist þessar tillögur til framkvæmda og það þarf ekki að loka sambýlum, eins og hv. þm. nefndi, jafnvel þó að þessar tillögur kæmust til framkvæmda.