Skattskylda innlánsstofnana

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 13:47:00 (1950)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um skattskyldu innlánsstofnana. Þar er gert ráð fyrir því að skattleggja fleiri fjármálastofnanir í landinu heldur en hingað til hefur tíðkast. Nú er það öllum ljóst að ríkissjóður er í miklum vanda og þeir sem að því máli koma eru að sjálfsögðu með allmikil vandamál á sínu borði að ná þar endum saman með skikkanlegum hætti. Það verður hins vegar að gæta þess þegar leitað er að aðilum sem rétt er að skattleggja að sú skattlagning hafi eðlileg efnahagsleg áhrif, verði ekki eingöngu til þess að færa úr einum vasanum yfir í annan án þess að draga nokkuð úr þenslu í efnahagslífinu.
    Lengi vel voru innlánsstofnanir ekki skattlagðar og greiddu enga skatta til ríkisins, þ.e. ekki tekjuskatt og ekki eignarskatt en mörgum fannst að það væri eðlilegt að bankar og sparisjóðir greiddu skatta eins og önnur fyrirtæki í landinu. Þetta eru í sjálfu sér ekki óeðlileg sjónarmið en það er enginn vafi á því að sú þróun sem orðið hefur með skattlagningu innlánsstofnana hefur orðið til þess að hækka þjónustugjöld þessara stofnana og hækka fjármagnskostnað og hefur þess vegna í mjög mörgum tilvikum lagt meiri skuldbindingar á atvinnulífið. Jafnframt hefur sá siður verið tekinn upp að skattleggja Seðlabanka Íslands sem hefur í sjálfu sér enga þýðingu vegna þess að ríkissjóður á Seðlabankann og hvort einhverjir peningar eru færðir frá Seðlabankanum yfir til ríkissjóðs hefur afar takmarkaða þýðingu að því er varðar fjárlagahallann.
    Það má með sama hætti segja að það eigi jafnframt við um þær fjármálastofnanir sem eru í eigu ríkisins nema þá að viðkomandi skattlagning verði til þess að hækka þjónustugjöld og ná þar með meira fjármagni af atvinnulífinu og almenningi. Þetta frv. verður samt að skoðast í aðeins víðara samhengi vegna þess að hér er verið að tala um flestalla þá sjóði sem ríkissjóður á aðild að með einum eða öðrum hætti og ekkert tillit tekið til þess að ríkisvaldið hefur oft og tíðum lagt ýmsar skuldbindingar á viðkomandi sjóði til þess að standa undir útgjöldum eins og til rannsókna og annarra framfaramála í landinu. Það er t.d. ekki mjög langt síðan Iðnlánasjóður fékk allmikið fjármagn frá ríkissjóði til þess að standa að margvíslegri uppbyggingu í iðnaðinum og ég minnist þess að hæstv. núv. fjmrh. var mjög ákveðinn fylgismaður þess á sínum tíma meðan hann gegndi starfi iðnrh. að Iðnlánasjóður fengi stuðning frá ríkinu. Það hefur t.d. verið upplýst að núv. hæstv. ríkisstjórn hafi mikinn áhuga á því að standa við bakið á skipasmíðaiðnaðinum í landinu. Hér hafa verið fluttar alllangar ræður um það hversu illa hafi þar verið staðið að málum hér áður fyrr og hverjir hafi þar sérstaklega staðið í vegi. En ég býst við því að Iðnlánasjóður verði lítt hæfur til að leggja eitthvað af mörkum þegar hann þarf að greiða skatta til ríkisins með sambærilegum hætti og önnur fyrirtæki.
    Hér er jafnframt minnst á Iðnþróunarsjóð en sá sjóður nýtur þeirrar sérstöðu að honum var komið upp á sínum tíma með aðild Norðurlandanna og ég býst við því að mörgum þyki undarlegt að nú skuli standa til að skattleggja þennan sjóð, enda var hér um skuldbindingar að ræða milli Norðurlandanna. Ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé í anda þess stofnsamnings sem þá var gerður að taka upp skattlagningu á sjóðinn.
    Ég sagði að þetta yrði líka að skoðast í víðara samhengi vegna þess að í nál. sem meiri hluti efh.- og viðskn. hefur skilað er gert ráð fyrir því að fella niður ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum nokkurra sjóða, þ.e. Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Útflutningslánasjóðs frá og með 1. jan. 1992. Það kemur jafnframt fram í þessu nál. að þessi breyting sé undirbúningur þess að gera þessa sjóði að hlutafélögum. Það er að verða nokkuð sérkennileg regla hér á Alþingi og hjá núv. ríkisstjórn að það er tilkynnt við hitt og þetta tækifæri hvað eigi að gera við einstakar fjármálastofnanir í landinu. T.d. tilkynnti hæstv. núv. fjmrh. það í útvarpi, ef ég man rétt, að það ætti að selja Búnaðarbankann en tók það jafnframt fram að það ætti að selja hann ódýrt, það ætti að selja hann á hálfvirði, ef ég man rétt, og það átti náttúrlega ekki að selja hann á hálfvirði til þeirra sem áttu lítið heldur átti eingöngu að selja hann á hálfvirði til þeirra sem áttu peninga. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. skilji orð mín því að auðvitað verða hlutirnir vart seldir til annarra en þeirra sem hafa fjármagn undir höndum. Eftir því sem menn eiga meiri peninga, þeim mun meiri hags geta menn vænst af því að kaupa væntanleg hlutabréf í Búnaðarbankanum. Þarna er mjög sérkennilega á málum haldið að tilkynna svona lauslega hvað eigi að gera við einstakar fjármálastofnanir í landinu.
    Nú hefur það verið tilkynnt með þessu frv. að ákveðnar fjármálastofnanir í eigu ríkisins skuli skattlagðar með svipuðum hætti og bankarnir en það er jafnframt tilkynnt í nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. að það eigi að gera þessa sjóði að hlutafélögum. Ég býst ekki við því að þetta sé til þess að efla traust á þessum stofnunum og ég býst ekki við því að þetta sé til þess að efla traust þeirra aðila sem lána fjármagn til Íslendinga. Það liggur alveg ljóst fyrir að þeir sjóðir sem hér eiga hlut að máli, t.d. Fiskveiðasjóður Íslands, Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður og margir aðrir sjóðir, eru að taka lán erlendis og þeir sem lána það fé gera það með tilliti til þeirra reikninga sem þá liggja fyrir. Þeir eru líka að lána það fé með tilliti til þess að þessir sjóðir eru í eigu ríkisins. Og það er ekkert mál til að hafa í flimtingum að vera að tilkynna um það út og suður hvað eigi að gera við þessa sjóði. Það eigi að breyta þeim í hlutafélög, síðan eigi að selja þá ódýrt á markaðnum eða þá jafnvel að gefa þá. Og ég vil mótmæla því að með þessum hætti sé höndlað með mikilvægar eignir ríkisins þótt ég sé engan veginn að útiloka það að ekki megi breyta

um form þessara stofnana. Form er í sjálfu sér ekkert annað en skipulag viðkomandi stofnunar og hvort það heitir hlutafélag eða sjóður skiptir ekki ávallt máli heldur það sem að baki býr og að þeir sem skipta við viðkomandi stofnun geti treyst því að þar eigi í hlut aðili sem hægt er að eiga viðskipti við með eðlilegum hætti og eigandi viðkomandi stofnunar sé trúverðugur. En mér sýnist nú að þeir mörgu aðilar sem hafa lánað þessum sjóðum á undanförnum árum geti vart lengur treyst því að eigandi sjóðanna sé mjög trúverðugur. Og mér er nær að halda að í sumum tilvikum sé málum þannig fyrir komið að þeir sem eiga hjá þessum aðilum geti sagt upp lánssamningum ef svo býr undir.
    Virðulegur forseti. Áður en ég held áfram ræðu minni --- ég veit að hér er kominn allmikill óróleiki í salinn. Ég minnist þess að það mun hafa verið ákveðið að hér ætti að fara fram atkvæðagreiðsla kl. 2 og ég vildi fá upplýst hvort ég eigi að halda áfram ræðu minni eða hvort ég eigi að gera hlé á henni. ( Forseti: Það væri æskilegt að hv. þm. gerði hlé á ræðu sinni ef vel stendur á.) Já, ég get gert það núna, virðulegur forseti.