Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 16:13:00 (2001)

     Halldór Ásgrímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Hér er um að ræða sértekjur Hafrannsóknastofnunar sem leiða af því að hér í þinginu er frv. til laga um breytingu á lögum um Hagræðingarsjóð. Ef það frv. verður að lögum þá er verið að útiloka tímabundna aðstoð við byggðarlög sem missa aflaréttindi sín. Það er jafnframt verið að draga úr því fjármagni sem hægt er að verja til úreldingar fiskiskipa og þar með að draga úr möguleikum til hagræðingar í sjávarútveginum. Í þriðja lagi er verið að skapa mikinn pólitískan ágreining um þá fiskveiðistefnu sem nú er í framkvæmd og ég vænti þess að núv. ríkisstjórn dragi þessi áform sín til baka. Þetta er að mínu mati ein allra alvarlegasta brtt. við núv. fjárlagafrv. Þótt ýmislegt standi í núv. ríkisstjórn og stuðningsmönnum hennar virðist ekki standa neitt í þeim að auka álögur á sjávarútveginn með þessum hætti og standa í vegi fyrir því að hann fái eðlilegar aðstæður til hagræðingar á erfiðum tímum. Í ljósi þessa munum við þingmenn Framsfl. greiða atkvæði gegn þessum áformum.