Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 16:15:00 (2002)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það var rakið hér ítarlega í umræðunum sem stóðu í gærkvöldi og í nótt að núv. hæstv. ríkisstjórn er að leggja nýja skatta á sjávarútveginn á Íslandi sem nema líklegast þegar allt er talið töluvert yfir 1 milljarði kr. Hvorki hæstv. fjmrh. né hæstv. sjútvrh. treystu sér til þess að mótmæla því í umræðunum í gær og í nótt að þessi áform væru fyrir hendi og lýsingin á samtölunni, rúmlega 1.000 millj. í nýja skatta í sjávarútveginn á næsta ári, væri rétt.
    Það er því í hrópandi mótsögn við það að þykjast vera að greiða úr vanda sjávarútvegsins við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í okkar þjóðfélagi að hefja stórfellda nýja skattlagningu á sjávarútvegsfyrirtækin í landinu þannig að á árinu 1992 muni íslenskur sjávarútvegur verða skattlagður meira en hann hefur verið um langt, langt árabil. Er ekki nóg komið í skattlagningarstefnu þessarar ríkisstjórnar þó að hún fari ekki að auka skattlagninguna á grundvallaratvinnuveg íslensku þjóðarinnar, sem nú berst i bökkum, um rúmlega 1 milljarð með afgreiðslu þessa frv. og fylgifrv. sem hér eru til umræðu? Hvernig ætla þeir þingmenn Sjálfstfl. úr sjávarútvegsplássunum allt í kringum landið að réttlæta það að greiða atkvæði með slíkri skattlagningu?
    Þessi skattlagning á að gerast í gegnum breytingar á Hagræðingarsjóði. Það liggur ekkert fyrir um að það frv. verði samþykkt hér á hv. Alþingi. Og verði svo að þingið fari heim fyrir lok þessa árs án þess að það frv. verði samþykkt, þá er alveg ljóst að þá vantar efnislegu forsendurnar fyrir því að þessi tala sé raunhæf sem verið er að setja hér inn í fjárlögin af hálfu fjárln. og ríkisstjórnarinnar.
    Þess vegna væri auðvitað skynsamlegast og réttast fyrir hæstv. ríkisstjórn að draga þessa tillögu til baka, eins og ýmsilegt annað sem hún hefur dregið hér til baka, en vera ekki að halda því til streitu að sú tillaga sem hún vill ,,absolútt`` fá afgreidda hér sé skattlagning á sjávarútveginn, í þessari einu tillögu upp á rúmar 500 millj. kr. Ég segi því nei.