Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 10:41:00 (2038)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Ég hlýt að taka undir með síðasta ræðumanni að hér sýnist vera farið fram hjá öllum þingsköpum. Eins og þegar hefur komið fram er ákvæði í 25. gr. þingskapa um að efh.- og viðskn. skuli gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr. Það má segja að hún hafi gert að nokkru marki.
    Ég er hér með í höndunum tvö bréf sem skrifuð eru 12. des. frá Verslunarráði Íslands, undirrituð af einum nefndarmanni í efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, þar sem hann lýsir andstöðu við tvö dagskrármál þessa dags. Ég á tæplega von á því að hann muni greiða þeim atkvæði þegar þau koma til hans eigin nefndar. Ég vil spyrja hæstv. forseta: Eigum við von á að upp hefjist sams konar grín og átti sér stað hér í gær þegar þessi tvö mál koma til umræðu og afgreiðslu? Þetta er auðvitað óviðunandi.
    Eftir alla þá vinnu sem fram hefur farið í þinginu er boðaður fundur í fjárln. í dag kl. 5 þar sem ræða á sjúkrahúsmál sem tekin voru út úr 2. umr. fjárlaga. Mér sýnist að það muni vera frumumræða um þau mál. Það hlýtur auðvitað að vera krafa Alþingis að ríkisstjórnin taki sér hlé til þess að komast að einhverri niðurstöðu um hvað við erum eiginlega að fjalla um. Þessi tvö bréf frá Verslunarráði Íslands koma manni satt að segja ankannalega fyrir sjónir og ekki að vænta að hv. efh.- og viðskn. taki undir þau mál sem hæstv. ríkisstjórn er nú að bera fram. Við hljótum að eiga einhvern rétt á að vita til hvers við erum að sitja hér dag eftir dag þar sem öll lög um lágmarkshvíldartíma eru brotin daglega og ég vil fara fram á það að reynt verði að greiða úr þessum vandræðum áður en lengra er haldið. Ég tek undir með hv. 1. þm. Norðurl. e. að það getur varla verið verkefni okkar að sitja hér og fylgjast með farsa eins og átti sér stað í gær.