Skattskylda innlánsstofnana

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 14:43:00 (2069)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef hugsað mér að geyma að ræða um efnislega hlið málsins þar til við lok umræðunnar, en það eru örfá atriði sem ég vil fá tækifæri til að leiðrétta strax. Það er að vísu nýmæli að hv. þm. Framsfl. telji leiðara DV vera eins konar biblíu fyrir þá, en svo kann að fara að í framtíðinni verði það þannig að þeir muni lesa úr þessum leiðara stefnuna í öllum málum, þar með töldum landbúnaðarmálum.
    Varðandi bílamál ráðherra tek ég þetta fram: Ráðherrar hafa ekki greitt skatta af bílanotum sínum hingað til. Síðasta ríkisstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum, eftir að þá lá fyrir greinargerð Guðmundar Skaftasonar, að beina þeim tilmælum til fjmrh. að leysa úr þessu máli á þann veg að ráðherrar greiddu skatta samkvæmt notkun þeirra á bifreiðunum. Nú hefur fjmrn. gefið út reglugerð og samkvæmt þeirri reglugerð er ráðherrum gert að greiða skatta og not þeirra á bifreiðum sem þeir hafa til umráða eru takmörkuð en ekki ótakmörkuð. Þessum málum hefur verið kippt í lag. Það er það sem hefur gerst. Ég get sagt hv. þm. að þeir hv. þm. Halldór Ásgrímsson og Steingrímur Hermannsson hafa ekki greitt skatta af bifreiðum sinum og það er alrangt ef menn halda, og lesa t.d. Pressuna og trúa því sem þar stendur, að það eigi við rök að styðjast og geti verið eðlilegt að hv. þm. Halldór Ásgrímsson skuldi á aðra milljón vegna notkunar á bifreið sem hann hafði til umráða.
    Um dagpeningana bara þetta: Þeir voru hækkaðir í tíð síðustu ríkisstjórnar en hafa nú verið lækkaðir um 20%. Síðan skal ég gleðja hv. þm. með því að hann gladdi mig mjög mikið þegar hann flutti ádrepuna til hins tvístraða hers þannig að ég sef áreiðanlega betur næstu nótt eftir að hafa hlýtt á hann flytja þessa ádrepu.