Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 15:51:00 (2081)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Ég er ekki einn af þeim þingmönnum sem kem hér oft til að endurtaka ræðu mína en vegna þess að hæstv. utanrrh. var ekki staddur hér í morgun þá vil ég í örfáum orðum lýsa því sem ég lagði inn í umræðu um nál. sem hv. 4. þm. Reykv. mælti fyrir. Þá er þar fyrst til að taka að ég átta mig ekki alveg á hvort þessi samningur verður fullgiltur eða ekki. Hann er einfaldlega gerður á allt öðrum forsendum en nú eru fyrir hendi og nægir strax að nefna að meðal þeirra ríkja, sem eru talin upp í samningnum sjálfum, sem heitir samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu, eru Sovétríkin og þau eru einfaldlega ekki til þannig að ég átta mig ekki alveg á hvort slíkur samningur verður fullgiltur eða ekki.
    Það er ljóst að það hefur dregist of lengi hjá okkur hér að fullgilda þennan samning vegna þess að hann er undirritaður í París 19. nóv. 1990 með fyrirvara um fullgildingu og er auðvitað byggður á samningi tveggja mikilvægra hernaðarbandalaga, Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins, og nú eins og menn vita er Varsjárbandalagið heldur ekki til þannig að ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort hér sé raunverulega alvara á ferðum um að þessi samningur verði fullgiltur. Það er kannski vankunnátta mín og vanþekking en ég veit ekki einu sinni hvort Sovétríkin hafa fullgilt samninginn eða hvort búið er að samþykkja að hann verði fullgiltur. Ég veit ekki hvort við erum seinust af öllum að taka þá ákvörðun. ( ÓRG: Það er ekki búið.) Það mun ekki vera búið, segir hv. 8. þm. Reykn., og þá veit ég ekki í hvers umboði eða hver ætlar í umboði Sovétríkjanna að fullgilda samninginn, þannig að þetta mál ber dálítið einkennilega að.
    Ég lagði einmitt líka á það áherslu í morgun að það er ljóst að þessi samningur, og það vissi ég fyrir, fjallar ekki um kjarnorkuvopn né sjóheri heldur landheri og hergögn á meginlandi Evrópu. Þess vegna vil ég einnig spyrja hæstv. utanrrh. hvort ekki sé mál til komið að eitthvað verði gert til þess að tryggja okkur hér á Íslandi fyrir þeirri umferð kjarnorkuvopna sem við vitum að er í höfunum í kringum landið og væri það raunar meira hagsmunamál fyrir okkur heldur en þetta. En ég ítreka það auðvitað, og skal aldrei láta það henda mig að vera á móti neinum þeim samningi sem verður til þess að hergögnum fækki í heiminum en kyndugt er þetta mál óneitanlega og ber óvenjulega að.
    Þá minntist ég aðeins á áhrif samningsins á Íslandi og það verður nú eiginlega næstum því dálítið fyndið. Eftir að AWACS-flugvélarnar voru fluttar til Persaflóa eru hér einungis F-15 orrustuflugvélar í eigu Bandaríkjanna sem staðsettar eru á Keflavíkurflugvelli. Og í tilefni af því erum við háð eftirlitsákvæðum samkvæmt þessum samningi með þessum F-15 orrustuflugvélum þannig að við erum skuldbundin til þess að taka á móti heilum her af mönnum hvenær sem þeim svo sýnist sem ætla sér að horfa á þessar flugvélar og ekki veit ég einu sinni hve þær eru margar. En síðan kemur það fram í máli hv. 3. þm. Reykv. að þessi eftirlitsnefnd má beinlínis skoða hvað sem er og vaða inn í hvaða byggingu á Íslandi sem er, líklega til þess að leita að hergögnum. Við skuldbindum okkur til þess að halda því liði hér uppi, veita því gistingu og mat og sjálfsagt flutninga og ég vil því spyrja hæstv. utanrrh. hvort ekki væri nær að losa sig við þessar F-15 flugvélar og spara okkur þetta eftirlit nema þetta eftirlit eigi að ná til okkar allra og skiptir þá ekki máli hvort um hergögn sé að ræða eða ekki.
    Ég skal, hæstv. forseti, ekki tefja þetta mál en ég á að vísu dálítið erfitt með að skilja af hverju þetta er svona seint á ferðinni og af hverju liggur svona mikið á þessu einmitt í dag. En hvað um það, ekki skal ég koma í veg fyrir það. En mig langar að fá svar við þessum örfáu spurningum og þá fyrst og fremst þessari: Verður samningurinn yfirleitt fullgiltur? Ég kysi, hæstv. forseti, að hafa dálítið betri tíma til þess að ræða ofurlítið við hæstv. utanrrh. um framtíð Evrópu vegna þess að ótti minn er að það sé að myndast nýtt járntjald, ekki fyrir austan Vestur-Evrópu heldur fyrir sunnan alla Evrópu og þar verði komið upp járntjald milli suðurs og norðurs og um það mætti auðvitað hafa langt mál. Það mætti líka hafa langt mál um fundi sem við, fulltrúar í EFTA-nefnd þingsins, sóttum suður í Genf og í Strassborg nú fyrir viku þar sem allólíkar upplýsingar komu fram og allólíkir atburðir gerðust en þeir sem okkur hefur verið sagt frá hér uppi á Íslandi. En til þess gefst auðvitað ekki tími núna og verður enda gert seinna. En ég vænti þess að hæstv. utanrrh. fyrirgefi mér þó að ég hafi leyft mér að endurtaka þessar spurningar mínar þar sem hann ekki var viðstaddur í morgun.