Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 16:09:00 (2085)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég hafði vænst þess að hæstv. utanrrh. kæmi hér upp í millitíðinni en hvað um það. Hér hafa komið fram ýmsir mjög athyglisverðir hlutir.
    Út af fyrir sig geta menn deilt um það hvort friðarhreyfingar eða ákvarðanir stjórnenda Atlantshafsbandalagsins um stefnumörkun til þess að ná fram friðarsamningum séu ástæðan fyrir því að friðarsamningar hafi tekist. Menn geta deilt um þetta fram og til baka eins og þeir vilja. Hitt er aftur á móti söguleg staðreynd og verður ekki á móti mælt að hvorki friðarhreyfingar né stefna Atlantshafsbandalagsins gerðu það að verkum að til valda komst í Sovétríkjunum maður að nafni Gorbatsjov. Er nú vel að báðir aðilar kinka kolli til samþykkis um að þeim er ljós þessi staðreynd. Það þýðir ekki að blekkja sig á því að þessi maður hefur fengið friðarverðlaun Nóbels vegna þess að hans einlægi ásetningur, að stuðla að friði og draga úr vígbúnaðarkapphlaupinu, varð Vesturlandabúum ljós og þeim var ljóst að í Sovétríkjunum var kominn til valda maður sem þeir treystu. Þegar þjóðhöfðingjar risaveldanna fóru að treysta hver öðrum var kominn tími til að setjast að samningaborði og undirrita friðarsáttmála. Það er ánægjulegt að sá samningur sem nú liggur fyrir þessu þingi og fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson og núv. utanrrh. og þáv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson undirrituðu í París 19. nóv. 1990.
    Aftur á móti er kaldhæðni örlaganna að sá samningsaðili sem öllu máli skipti í þessu sambandi, Sovétríkin, er nú í þeirri upplausn að menn vita ekki hvort þau halda velli eða ekki. Það er kaldhæðni örlaganna. Það er alveg eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv. að í því liggur hættan ef miðstjórnarvald allt hrynur á því svæði. Það kom líka fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að hættuboðarnir væru vegna hruns í Sovétríkjunum. Ég segi:

ef af verður. Ef liðsmenn Djengis Khans eru komnir að Moskvu eftir nokkur ár, það hefur gerst áður og getur gerst enn. Hvar stöðvast ríki Mongóla ef þetta hrynur? Hvar stöðvast það? Það eru náttúrlega hreinir draumóramenn sem ekki skynja þá hættu sem er þessu samfara og halda að mannkynið sé eitthvað nær friði ef við stöndum frammi fyrir því að þeir aðilar sem sömdu friðinn verða báðir úr sögunni því nú eru jafnmiklar raddir komnar upp í Evrópu um að nú þurfi ekki lengur að byggja á þeirri sterku lýðræðislegu hefð sem hefur staðið á bak við Atlantshafsbandalagið sem m.a. er það sterk að menn hafa ekki farið með her inn í Júgóslavíu þó að þar sé barist. En hvað vildi Evrópa gera? Evrópa er reið yfir því að hafa ekki haft her til að senda inn í Júgóslavíu og nú vilja þeir fara að búa hann til, sérstakar sveitir Frakka og Þjóðverja, bardagavanra þjóða eins og mannkynssagan kennir okkur. Þeir ætla ekki að senda þennan her til Moskvu eða Eystrasaltslandanna, þess er ekki þörf. Hvað ætla þeir að gera við herinn? Og ég spyr: Er skynsamlegt hjá okkur Íslendingum að ætla að taka þátt í slíku? Ég segi nei, hreint nei. Ég vil frekar fylgja þeim armi sem tilheyrir þá Bretum og Bandaríkjunum komi til klofnings í afstöðu þessara þjóða. Og ég vil segja það að ég held að Evrópa fari ekki stærri sigurför í sáttargjörð í Júgóslavíu en Snorri Sturluson forðum þegar hann ætlaði að sætta Húnvetninga. Ég hygg að árangurinn verði svipaður. ( Gripið fram í: Gekk ekki frekar illa hjá Snorra?) Það gekk illa hjá Snorra og væri fróðlegt fyrir hv. þm. að kynna sér þá frægðarför.
    Það er nefnilega kaldhæðni örlaganna að þegar þessi stóru ríki, risavöxnu ríki, Sovétríkin og Bandaríkin, höfðu bæði eignast leiðtoga sem unnu að friði, tryggðu frið og komu sínum stefnumálum áfram í hverjum samningnum eftir annan í jákvæðri þróun fyrir heiminn skuli það gerast að hlutirnir splundrist e.t.v. á nýjan leik. Ég segi e.t.v. á nýjan leik því að ég held að nokkuð sé til í því sem Gorbatsjov sagði, að þau átök sem eiga sér stað í Króatíu, á þeim svæðum, eru eins og hver önnur skrýtla, miðað við það sem gæti gerst ef lýðveldi Sovétríkjanna lenda í blóðugri borgarastyrjöld.
    Herra forseti, Ég hef ekki, vegna þess hve tíminn er hér knappur, ætlað mér að hafa langt mál um þetta, en ég vænti þess að hæstv. utanrrh. geri sér grein fyrir því að það er engin eining meðal Atlantshafsbandalagsríkjanna um þá stefnu að það eigi að fara að stofna einhvern Evrópuher úti í Frakklandi og Þýskalandi. Það er engin eining. Og ef það verða nú örlög vestrænna ríkja að lenda í sömu stöðu og Sovétríkin, að nú fari menn að splundrast, menn vilji koma upp léttum árásarsveitum, eins og þeir kalla þær, sem hægt sé að senda til að stilla til friðar, þá er spurning hvort Evrópa --- sem hefur á þessari öld verið aðalkveikjan að öllum stærstu átökum í heiminum, að Víenamstríðinu undanskildu, sem þó er vissulega arfur frá Evrópu ef það er skoðað líka --- ef Atlantshafsbandalagið brotnar nú niður vegna þess að menn vilja endilega fara að koma upp slíkum sveitum hefur mannkynið ekki færst nær friði á seinustu missirum, því miður, og þá virðist sú þróun sem var í átt til friðar vera stöðvuð í bili.
    Um leið og ég segi þetta undirstrika ég það að ég er að sjálfsögðu stuðningsmaður þessa samnings sem hér er um að ræða og vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir að hafa komið með hann inn í þingið til þess að láta staðfesta hann.