Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 22:31:00 (2144)

     Árni Johnsen :
     Virðulegi forseti. Þegar rætt er um sjómannaafsláttinn er ástæða til þess að fara um það mál nokkrum orðum og leggja áherslu á að sjómannaafslátturinn er hefðbundinn þáttur í kjörum sjómanna sem verið er að tryggja. Tryggja ber sjómönnum fullan sjómannaafslátt en það þarf jafnframt að tryggja að aðrir njóti ekki þess afsláttar á kostnað sjómanna. Það þarf sem sagt að hafa hreint borð. Það er ljóst að sjómannaafsláttur er eins konar afsprengi tveggja þátta, sjómannafrádráttar sem er vegna fjarveru frá heimilum og fiskimannaafsláttar sem var kjaraþáttur.
    Sjómannaafslátturinn í dag er auðvitað fyrst og fremst viðurkenning á sérstöðu í starfi sjómannsins, sérstöðu þar sem hann er langdvölum fjarri heimili sínu, fjarri þjónustu, fjarri svokölluðu menningarlífi, fjarri ýmsum þáttum í samfélaginu sem er daglegt brauð fyrir hvern og einn landkrabba.
    Margt er óljóst í framgangi sjómannaafsláttar og á síðustu dögum þegar menn hafa skoðað málin grannt, vegna tillögugreinar sem á að skerða sjómannaafslátt er lýtur að tekjuöflun ríkissjóðs, þá er jafnljóst að ýmislegt hefur komið mönnum á óvart. Það hefur til að mynda komið mönnum á óvart að talið var að 9 þús. menn eða þar um bil nytu sjómannaafsláttar en samkvæmt síðustu tölum eru það liðlega 11 þús. menn. Brögð eru að því að menn hafi fengið sjómannaafslátt í ríkari mæli en rök voru fyrir. Ég er sannfærður um að þegar gengið verður frá þessu máli og þeirri tillögugrein, sem varðar sjómannaafsláttinn, þá verði það fulltryggt að þeir sem í raun og veru eru sjómenn og hafa það starf að aðalatvinnu njóti til fullnustu sjómannaafsláttar. Ef eitthvað er, þá er ástæða til að hækka hann en ekki lækka. Þannig er ástæða til að hvetja til þess að menn taki á þessu jákvætt og ákveðið. Það er ástæða til þess að spúla dekkið í afgreiðslu á þessum mikilvæga þætti sjómanna, sjómannaafslætti. Ástæða er til þessa að tryggja að það séu sjómenn einir sem njóti þess réttar. Fiskimenn, farmenn, ferjumenn, sjómenn á rannsóknaskipum, varðskipum og öðrum slíkum sem tvímælalaust falla undir sjómennsku.
    Sú upphæð sem rætt er um að skerða, 180 millj. eða þar um bil, mun að öllum líkindum ekki skipta máli þegar málið er gert upp með tilliti til þess að út verði tekið það sem ekki á heima í þessari afgreiðslu og tryggt að inni sé það sem er raunverulegur afsláttur sjómanna á hafi úti. Það er ástæða til í þessu sambandi að benda á þætti sem vert er að skoða og taka á. Til að mynda er ástæða til þess að hvetja til aukinnar lögskráningar, að lögskráning nái ekki eingöngu til báta sem eru 12 tonn og yfir heldur einnig til minni trillubáta. Ég býst við að hægt væri að miða við um það bil 6 metra langa báta. Það er verulegur hluti af hinum smærri trillubátum landsins. Þó að slík breyting mundi að öllum líkindum kosta réttindakröfur, pungapróf eða eitthvert slíkt nám, er full ástæða til þess að huga vel að því og framkvæma það á einhverju árabili því það er þáttur sem menn eiga að geta sinnt samhliða sinni vinnu á sjó og landi. Það er námskeiðahald sem menn eiga að geta ráðið við og mundi um leið kalla á aukið öryggi á hinum smærri bátum sem er

mikil ástæða til þess að auka og treysta til að draga úr hinni hörmulegu slysatíðni sem við búum við.
    Ég vil undirstrika mikilvægi þess að tryggja sjómönnum fullan sjómannafrádrátt en gæta þess jafnframt að þar séu ekki inni í sjóðum aðilar sem hafa ekki þann rétt og hafa ekki þá viðmiðun sem sjómenn eiga að hafa og við viljum viðurkenna og virða.