Jöfnunargjald

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 13:27:00 (2182)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hér er um að ræða eitt af þeim tekjuöflunarfrumvörpum sem snerta atvinnulífið í landinu. Þetta er út af fyrir sig kunnugt mál frá fyrri tíð og engin nýlunda að það sé framlengt. En það sem kemur á óvart nú er hvernig samráði við aðila vinnumarkaðarins um skattlagningu atvinnulífsins og skattlagningu launþega hefur verið háttað.
    Við sem sitjum í efh.- og viðskn. höfum setið í allan morgun við að tala við hinu ýmsu aðila í þjóðfélaginu og orðið þess áskynja að svo virðist sem ekki hafi verið talað við nokkurn einasta mann um nokkurn skapaðan hlut. Það virðist vera að Vinnuveitendasamband Íslands viti ekkert um efnisatriði frumvarpa ríkisstjórnarinnar. Það virðist vera að Alþýðusambandi Íslands og öðrum launþegasamtökum komi á óvart það sem verið er að leggja til. Og þetta gerist í þeim klíðum að umræður um kaup og kjör í landinu fara fram og ná þarf samstöðu á vinnumarkaði.
    Þetta frv. er gott dæmi um það sambandsleysi sem virðist ríkja því að strax 12. des. kom umsögn um málið frá Verslunarráði Íslands án þess að það væri beðið sérstaklega um hana. Og þar segir m.a. að brostnar séu lagalegar forsendur fyrir gjaldinu og meira að segja fyrir löngu, er bætt við. Og síðan segir:
    ,,Verslunarráð Íslands sér ekki að greiðendur jöfnunargjalds eigi önnur úrræði, verði gjaldið enn framlengt, en að leita réttar síns fyrir dómstólum og láta reyna á það hvaða réttarstöðu fríverslunarsamningar veita.`` Og síðan er bætt við: ,,Verslunarráð Íslands mun veita félögum sínum aðstoð í þessu skyni.``
    Það liggur þar með alveg ljóst fyrir að ef einhver kýs að fara í málaferli út af þessu máli þá á hann vísan stuðning Verslunarráðs Íslands og veit það fyrir fram að hann mun ekki þurfa að leggja í neinn kostnað í því sambandi. Framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, Vilhjálmur Egilsson, styður þessi áform en við, sem störfum í stjórnarandstöðu, vitum ekki betur en að hann sé einn helsti stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Og ef það er almennt að verða svo að hinir ýmsu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hugsi sér að fara annaðhvort beint í málaferli við hana eða styðja alla þá aðila sem upp á því taka með ráðum og dáð þá er ekki von að við áttum okkur almennilega á því hvað er að gerast á stjórnarheimilinu.
    En þetta er því miður ekki eina málið sem svo háttar til um því að þegar við fjölluðum í morgun um frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt komu aðilar frá Vinnuveitendasambandi Íslands og fóru yfir frv. og létu okkur hafa skjal sem er merkilegt því það ber yfirskriftina: Aðför að atvinnurekstri. Ég býst við því að það sé fremur sjaldgæft í Íslandssögunni að Vinnuveitendasamband Íslands hafi séð sig knúið til þess að koma á fund þingnefndar og leggja þar fram skjal sem ber yfirskriftina: Aðför að atvinnurekstri. Þetta skjal endar á þessum orðum:
    ,,Vinnuveitendasambandið varar því alvarlega við samþykkt þessarar tillögu og lítur á hana sem ógrundaða atlögu að atvinnurekstri, mistök sem ekki megi eiga sér stað.``
    Það voru látin falla þau orð að þetta væri það dæmalausasta rugl sem þeir hefðu nokkurn tíma séð. Það voru jafnframt látin falla þau orð að hér væri viðhafður beinn fjandskapur við atvinnulífið og jafnframt var sagt að þetta gengi ekki tæknilega upp. Ég hélt satt best að segja að það væri núv. ríkisstjórn nauðsynlegt a.m.k. að kynna helstu samtökum atvinnulífsins þau frv. sem hér eru að koma inn. Þeir héldu að nokkru leyti nokkuð til sömu ræðurnar og við fluttum hér í umræðum um málið nema þær voru miklu kjarnyrtari og beinskeyttari og það voru notuð miklu stærri orð, þannig að ræður stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi flokkast undir mikla hógværð miðað við það sem forsvarsmenn Vinnuveitendasambandsins sögðu. Svo var það undarlegt að þeir botnuðu eiginlega ekkert í því að þessi breyting skyldi verða í skattamálum á Íslandi við það að Sjálfstfl. kæmi inn í ríkisstjórn. Það kom þeim greinilega mjög á óvart þannig að þeir virðast líka vera illa upplýstir um stefnu Sjálfstfl.
    Ég tel í sjálfu sér, virðulegur forseti, ekki ástæðu til að hafa mörg orð um það frv. sem hér er til umfjöllunar. Það var margrætt í fyrri ríkisstjórn og eitt af því sem tekist var á um hvort ætti að framlengja á árinu 1990. Þáv. utanrrh. hélt því fram að hér væri um mál að ræða sem yrði að taka enda, og gerði það með ákveðnum rökum, og virtist engin leið vera að að þoka honum í þeim efnum. Ég ætla ekki að rekja þá sögu það geta aðrir gert sem þekkja þar betur til, en það kemur vissulega á óvart að þetta skuli vera tekið upp nú, a.m.k. með þeim hætti að atvinnulífið skuli sjá sig knúið til þess að hóta þar sérstaklega málaferlum.
    Það er alveg ljóst að fjárlagavandinn er mikill og e.t.v. meiri en hingað til hefur komið í ljós. En þessi vandi verður ekki leystur nema í bærilegu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Því að ef fjárlagavandinn verður fyrst og fremst leystur á kostnað atvinnuveganna og launþega með margvíslegum skattahækkunum þá mun það verða til þess að knúnar verða fram launahækkanir sem hleypa af stað verðbólgu sem við munum ekki geta ráðið við. Hæstv. ríkisstjórn leggur á það áherslu að við greiðum sem mest fyrir framgangi mála hér á Alþingi og störfum hér nótt og dag. Það er út af fyrir sig eðlilegt og ekkert við það að athuga og hefur oft verið gert áður. En það sem er fyrst og fremst athugavert er að hinir ýmsu aðilar sem eiga að búa við þessa löggjöf úti í þjóðfélaginu virðast koma eins og af fjöllum.
    Og þetta eru því miður ekki einu málin. Það sama á við um atvinnurekendagjald sem á að leggja á vegna hugsanlegra gjaldþrota í atvinnurekstri vegna missis launamanna á launum sínum. Það er jafnframt gjald sem virðist koma atvinnulífinu á óvart.
    Og síðast en ekki síst þá vorum við á fundi í sjútvn. þingsins til að fjalla um frv. til laga um Hagræðingarsjóð, þar sem er þó lagaskylda að hafa samráð við atvinnulífið og þá á ég fyrst og fremst við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Og þetta er lagaskylda sem þingmenn Sjálfstfl. knúðu fram hér á Alþingi á sínum tíma og það var sett inn ákvæði til bráðabirgða að ekki mætti endurskoða þessa löggjöf nema í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Það er nú ekki nóg með að það hafi ekki verið gert heldur komu þeir jafnframt af fjöllum og svo virtist sem enginn hefði kynnt þeim þá löggjöf sem þar er verið að setja. ( Gripið fram í: Var ekki verið að því í morgun?) Það er ekki hlutverk nefndarinnar að kynna mönnum þetta mál sérstaklega. Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar og við hljótum að efast um það sem í stjórnarandstöðu störfum að það þýði mikið að halda áfram þingstörfum fyrr en ríkisstjórnin hefur gert betur grein fyrir því hvað hún hyggst gera í hinum ýmsu málum. Það er nánast uppnám í öllum málum í öllum nefndum og það virðist vera að menn viti ekki sitt rjúkandi ráð. Það hefði verið ástæða til að fleiri hæstv. ráðherrar væru viðstaddir en ég get út af fyrir sig skilið það að einhverjir verða að sinna því sem gera þarf og því sé eðlilegt að þeir séu ekki hér við þingstörf að nokkru leyti þó við hljótum að gera kröfu um það að þeir komi hér síðar til fundar.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, hæstv. forseti. Það liggur sjálfsagt fyrir því eins og öðrum tekjuöflunarmálum að vísa því til nefndar og þá kemur í ljós, eins og í öllum öðrum málum, að þar er allt í uppnámi og enginn veit hvað er að gerast. Aðilar atvinnulífsins hafa aldrei verið eins reiðir að sjá eins og þessa dagana og var á þeim að skilja að það mundi enginn geta staðist þessa skattalöggjöf á ýmsum sviðum, eins og þeir orðuðu það, nema þá helst eiturlyfjasalar. Það er nú orðið nokkuð langt gengið þegar forsvarsmenn atvinnulífsins í landinu eru farnir að taka sér slík orð í munn. Og það er kannski ekki furða þó að við þingmenn, sem höfum þó fylgst með þessum málum undanfarna daga, séum líka undrandi á ósköpunum. Við áttum þó von á því að það hefði eitthvað verið talað við þessa menn. Við áttum ekki von á því að þeir hefðu skrifað upp á þetta og lýst yfir hrifningu sinni með þessi mál og ánægju með þau. En að þeir vissu nánast ekkert um þau kom okkur mjög á óvart því að slík vinnubrögð held ég að hafi almennt ekki verið viðhöfð þó að ég ætli nú ekki að svara fyrir að það hafi aldrei komið fyrir áður. En það blæs a.m.k. ekki byrlega fyrir málum í þjóðfélaginu í slíku andrúmslofti. Og það blæs ekki byrlega fyrir því að núv. ríkisstjórn sé fær um að ná einhverri sátt um sæmilega niðurstöðu í fjárlagafrv.