Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 13:45:00 (2305)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Þegar brtt. við fjárlagafrv. var dreift hér í nótt vakti ég athygli á þeirri staðreynd ekki væri unnt að fullnægja ákvæðum þingskapa með því að láta 3. umr. um fjárlögin fara fram í dag. Og í þeim umræðum kvaddi sér einnig hljóðs hv. 8. þm. Reykv., formaður þingflokks Sjálfstfl., og mótmælti þessari túlkun. Ég vil hins vegar, vegna þess að hér eru fjölmargir þingmenn staddir svo og hæstv. forseti sem ekki voru hér í nótt, endurtaka þær röksemdir sem ég flutti þá og vísa í því sambandi í 29. gr. þingskapa þar sem stendur, með leyfi forseta:
    ,,Eigi má taka málið til umræðu fyrr en að minnsta kosti einni nóttu síðar en áliti nefndar eða meiri hluta hennar var útbýtt.``
    Og ég vil í þessu sambandi einnig vitna í 51. gr. þingskapa, með leyfi forseta:
    ,,Breytingartillögur við lagafrumvörp og þingsályktunartillögur skulu vera prentaðar og þeim útbýtt ekki síðar en einni nóttu áður en þær koma til umræðu.``
    Ég er þeirrar skoðunar og það er afstaða þingflokks Alþb. að til þess að fullnægja þessu ákvæði, ef menn ætla sér að taka fjárlagafrv. hér fyrir í dag, þá eigi að leita afbrigða. Og ég útiloka það ekkert, eins og fram kom í máli hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, að við mundum fallast á að afbrigðin yrðu veitt. Aðalatriðið fyrir okkur er það að menn framkvæmi þingsköpin í samræmi við anda þeirra. Þetta vil ég láta koma hér fram, virðulegi forseti, vegna þess að það er óhjákvæmilegt að á þetta verði látið reyna í dag í framhaldi af þeim umræðum sem urðu um þetta sama mál hér í nótt.
    Ég vil einnig leyfa mér að taka undir þá fyrirspurn sem fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl. Hvar er samkomulagið? Hvar er samkomulag stjórnarflokkanna? Við höfum ekki séð það hér á Alþingi síðustu sólarhringana. Hvar er niðurstaðan? Hún birtist a.m.k. ekki

í þeim málum sem snúa að hv. efh.- og viðskn., þ.e. tekjuskatti og eignarskatti. Það er nauðsynlegt að við fáum um það upplýsingar hér úr ræðustól í Alþingi. Við látum okkur það ekki nægja að vera ávarpaðir í fjölmiðlum. Við teljum að það sé nauðsynlegt að Alþingi sem lýðræðislegur vettvangur fái að fjalla um yfirlýsingar forsrh. á viðkvæmum stundum eins og þær sem komu fram í dag.
    Okkur er sagt að einhver hópur úti í þjóðfélaginu sé t.d. að breyta ákvæðum frv. um sjómannafrádráttinn. Við höfum ekki frétt neitt af því. Er það rétt? Er verið að því? Okkur er sagt að einhvers staðar úti í þjóðfélaginu sé verið að breyta eða gera tillögur um breytingar á ákvæðum um hlutabréf og hlutafjárhagnað. Hvar eru þær tillögur? Eru þær að koma? Er samstaða um það mál í Sjálfstfl. að afnema t.d. íslenskan hlutabréfamarkað? Þessa hluti þurfum við að fá hér í upphafi þessa fundar í dag til að geta haldið umræðum áfram. Það er hins vegar bersýnilegt, bæði af ummælum hæstv. forsrh. og hv. 8. þm. Reykv., að þeir starfa hér í anda meirihlutahugmyndafræðinnar. Þeir eru staðráðnir í að hafa ráð minni hlutans að engu. Það er sama hvort um er að ræða minni hluta í nefndum eða minni hluta hér á Alþingi yfir höfuð. Það á ekki að hlusta á það sem kemur fram frá minni hlutanum. Sé það einnig skoðun forsetadæmisins, forsætisnefndar Alþingis, að það sé svo að ekki beri að hafa hliðsjón af því sem minni hlutinn segir á hverjum tíma, þá verður það auðvitað að vera þeirra uppgjör. Þannig hefur þetta birst okkur núna á undanförnum sólarhringum af hálfu meiri hlutans að menn virðast staðráðnir í því að hafa að engu það sem frá minni hlutanum kemur og það er nýlunda hér á Alþingi, virðulegi forseti, og ástæða til þess að óska forsetanum til hamingju með að túlka hin nýju þingsköp einingarinnar með þeim hætti sem nú er gert af forsetanum og hæstv. ríkisstjórn.