Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:15:00 (2313)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka virðulegum forseta fyrir að leyfa mér að taka til máls og það er ekki um það sem hefur verið til umræðu heldur þykir mér nauðsynlegt að upplýsa hv. þingheim um það sem mér hefur borist frá efnahagsskrifstofu fjmrn.
    Hér höfum við verið að ræða hvort ástæða væri til og hvort unnt væri að ræða fjárlagafrv. við 3. umr. án þess að minni hlutanum gæfist tími til þess að skila nál. og það mál er í raun óútrætt. En mér var að berast í hendur svohljóðandi tilkynning, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Minnisblað um þátttöku sveitarfélaga í löggæslukostnaði. Við endurskoðun tekjuáætlunar fjárlaga fyrir 3. umr., sem kynnt hefur verið í fjárln. og efh.- og viðskn. Alþingis, var miðað við að þátttaka sveitarfélaga i löggæslukostnaði yrði dregin af staðgreiðsluskilum útsvars. Það var sú útfærsla sem lá fyrir á þeim tíma. Þessi áform hafa breyst á þann veg að um verður að ræða sérstakt framlag í formi fastrar krónutölu á hvern íbúa frá sveitarfélögum til ríkis, undirstrikað, án tengingar við útsvarstekjur. Þessi breyting veldur tilfærslu milli einstakra tekjuliða í 3. gr. frv. í samræmi við gildandi reglur ríkisbókhalds, þannig að tekjuskattur einstaklinga lækkar um 700 millj. kr. en ýmsar tekjur hækka að sama skapi um 700 millj. kr.``
    Hæstv. forseti. Þessu fylgir breyting á tekjuhlið fjárlaga 1992. Ég skal játa að þótt ég notaði það vit sem guð gaf mér á þessum 10 mínútum sem ég hef haft þetta undir höndum er ég ekki alveg búin að átta mig á hvað þetta í raun og veru þýðir. (Gripið fram í.) Hv. 2. þm. Vestf. bendir á að engin brtt. hafi borist, auðvitað ekki. Hér hlýtur það að gerast að nú komi brtt. frá meiri hluta hæstv. ríkisstjórnar, ég geri mér ekki alveg grein fyrir því, eða meiri hluta fjárln. Eitt er víst að hv. fjárln. hlýtur að verða kölluð saman og tekin afstaða til þess hvað þetta eiginlega er. Ég vil spyrja hæstv. forseta: Er ætlast til að hér fari fram eins og ekkert hafi í skorist 3. umr. fjárlaga? Ég held að með besta vilja komi það ekki til greina.
    Ég ætla ekki að leggja annað inn í þær umræður sem hér hafa farið fram en það að það er auðvitað niðurlægjandi og ósæmilegt að vera að ræða hér um hlutverk forseta þingsins. Þeirra hlutverk er auðvitað að gæta þess að hvorki meiri hluti né minni hluti misnoti rétt sinn hér á hinu háa Alþingi en mál nái hins vegar fram að ganga með samræðum milli þessara aðila. En ég vil fá álit og fer fram á álit hæstv. forseta, sem ég vænti að hafi vitað um þetta, hvernig við þessu verður brugðist.