Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:39:00 (2321)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður sem hér hafa verið um ræður sem fluttar voru í nótt, enda var ég ekki viðstaddur þær umræður. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs eru þær upplýsingar sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir flutti hér í þingsalinn. Það hefur nefnilega gerst að til nefndarmanna í fjárln. hefur komið greinargerð frá fjmrn. þar sem fjmrn. leggur formlega til að breyting sé gerð á því atriði sem hefur valdið einna mestum deilum í tekjuhlið fjárlaganna. Þetta gerist eftir að fjárln. hefur lokið störfum og eftir að efnahagsnefnd hefur skilað áliti og eftir að forsrh. hefur sagt hér í nótt að nú sé komin niðurstaða í öllu hjá ríkisstjórninni. En ég ætla nú ekki að stríða hæstv. forsrh. á því að fjmrn. hafi verið fyrsti aðilinn til að gera hann að ómerkingi þegar dagaði að morgni. Hitt er alvara málsins, virðulegi forseti, að nú hefur komið fram frá fjmrn. formleg brtt. til fjárlaganefndarmanna um viðkvæmasta atriðið í tekjuhlið fjárlaganna, 700 millj. sem sveitarfélögunum er ætlað að greiða. Fjmrn. telur að ekki sé hægt að afgreiða það atriði með þeim hætti sem fjárln. leggur til. Það er einstakur atburður að fjmrn. leggi fram formlega tillögu um breytingar á viðkvæmasta og heitasta deilumálinu í tekjuhlið fjárlaga eftir að fjárln. hefur skilað áliti sínu formlega og brtt. um tekjuhlið til þingsins.
    Þess vegna er það þannig, virðulegi forseti, að hvað sem líður umræðum um þingsköp er alveg ljóst hvað ber að gera eftir þessa greinargerð fjmrn. Í fyrsta lagi verður fjárln. að koma saman að nýju. Í öðru lagi verður efnahagsnefnd að koma saman að nýju. Efnahagsnefnd verður að skila nýju áliti um tekjuhlið fjárlaga samkvæmt þingsköpum í ljósi þeirra breytinga sem fjmrn. hefur nú gert tillögu um. Þá fyrst þegar fjárln. hefur fengið álit efnahagsnefndar á þessari nýju tillögu fjmrn. getur fjárln. skilað áliti til þingsins um það hvort hún ætlar að fara eftir þessari tillögu fjmrn. eða ekki. Ég vek athygli á því að orðalagið í þeirri greinargerð sem fylgir frá fjmrn. er algerlega ótvírætt. Þar segir að í samræmi við gildandi reglur ríkisbókhaldsins verði að lækka tekjuskatt einstaklinga í tillögum fjárln. um 700 millj. en hækka aðrar tekjur að sama skapi.
    Að sjálfsögðu getur virðulegur forseti verið fjmrn. þakklát fyrir það að fjmrn. skyldi með þessum hætti höggva hér á hnútinn þó að það sé auðvitað gert með þeim hætti að það er forsrh. til háðungar, forsrh. sem sagði þjóðinni í nótt og í morgun að nú væri öllum málum lokið. Nú verður að taka viðkvæmasta málið í fjárlagafrv. upp. Þess vegna tel ég skynsamlegt, virðulegi forseti, að forsetaembættið beiti sér fyrir því í ljósi þessara nýju málskjala frá fjmrn. að nú þegar verði ákveðið að það sé tilgangslaust að taka fjárlagafrv. til umræðu á þessum sólarhring. Í stað þess beiti forsetaembættið sér fyrir því að fjárln. og efh.- og viðskn. fái tíma til að ræða um þá róttæku breytingu sem fjmrn. leggur til að verði gerð á tekjuhlið fjárlagafrv.