Fjáraukalög 1990

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:55:00 (2324)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa ákveðnar deilur verið milli ýmissa sérfræðinga um ríkisreikninga og ríkisfjármál um hvernig bæri að færa upp bæði ríkisreikning og einnig að ganga frá frv. til fjárlaga og fjáraukalögum. Sumir hafa viljað halda því fram að inn í fjárlög hvers árs ætti að færa ábyrgðir eða skuldbindingar sem útgjaldalið er ríkið tæki á sig á því ári, þótt ekki kæmi ein einasta króna til útgreiðslu úr ríkissjóði það árið vegna þessara skuldbindinga. Við höfum ýmsir bent á að verði þessi regla tekin upp sé í reynd verið að rugla algjörlega hið hefðbundna hallahugtak fjárlaganna.

    Hið hefðbundna hallahugtak fjárlaganna er niðurstaðan þegar búið er að gera grein fyrir útgjöldum sem fara sannanlega út úr ríkissjóði á því ári og þeim tekjum sem sannanlega koma inn í ríkissjóðinn á því ári. Nú er hér tillaga, sem ekki er samstöðutillaga um í fjárln., og er farið inn á þá braut --- vegna þess að hv. þm. Pálmi Jónsson hefur af því pólitíska hagsmuni --- að fara að bókfæra sem útgjaldalið á fjáraukalögum ársins 1990 skuldbindingu sem yfirtekin var á því ári án þess að ein einasta króna færi út úr ríkissjóði vegna þessarar skuldbindingar á því ári.
    Ég vil spyrja af þessu tilefni: Er það ætlun meiri hlutans í fjárln. að beita sér fyrir því í fjáraukalögum fyrir árið 1992 að verði frv. um að leggja niður Framkvæmdasjóð Íslands samþykkt hér þá verði yfirtakan á tapi Framkvæmdasjóðs Íslands færð sem útgjaldaliður í heild sinni í fjáraukalögum fyrir árið 1992? Ég vil spyrja að því hér og ég óska eftir því, virðulegi forseti, að endanlegri afgreiðslu á þessu máli verði frestað þar til skýr svör hafa fengist við þeirri spurningu. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að gera þetta við sumar skuldbindingar en ekki aðrar, og þá sérstaklega við þær skuldbindingar þar sem einstakir fjárlaganefndarmenn hafa haldið einhverjar maraþonræður af því að það hentaði þeim í pólitískri baráttu á síðasta kjörtímabili að vilja láta bókfæra þessa yfirtöku á því ári sem hún var ákveðin.
    Við skulum segja t.d. að ríkissjóður yfirtæki ýmsar þær skuldbindingar sem aðilar hafa tekist á hendur eða ákveði að gera ráð fyrir því að endurgreiða skuldir með samningum. Og ég skal taka dæmi. Ég gerði samning við þáv. borgarstjórann í Reykjavík um hvernig ætti að greiða þær skuldir í vegamálum gagnvart Reykjavík sem Albert Guðmundsson, þáv. fjmrh., Þorsteinn Pálsson, þáv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. fjmrh., höfðu stofnað til. Með svipuðum rökum má halda því fram að ég hafi með þeim samningi staðfest skuldbindingar ríkisins til þess að greiða þessar skuldir. Er þá ætlun meiri hluta fjárln. að færa þennan samning sem útgjaldalið í fjárlögum eða fjáraukalögum fyrir árið 1991, þó að ekki komi króna til útgreiðslu á því ári?
    Við skulum segja, með öðru dæmi, að Alþingi samþykkti að yfirtaka ákveðna lífeyrissjóði vegna þess að það væri liður í almennum aðgerðum til þess að stokka upp lífeyrissjóðakerfið, og hægt er að færa fyrir því rök að slík tilvik geti komið upp. Væri þá ætlunin að bókfæra sem útgjöld á því ári allar framtíðarskuldbindingar viðkomandi lífeyrissjóða og gjörbreyta þannig hallatölu fjárlaganna? Með því að horfa á nokkur slík dæmi sjá menn hvers konar endaleysa þessi aðferð er. Ég veit hins vegar að ýmsir svokallaðir rétttrúnaðarmenn í bókhaldsfræðum færa fyrir því ýmis kenningarleg rök að þetta eigi að gera svona þó að ýmsir aðrir sérfræðingar í bókhaldsfræðum segi að það sé mesta vitleysa. Ég tel mjög varasamt fyrir þingið að fara í ágreiningi á þinginu að gera þetta með þessum hætti, og skil eiginlega ekki nauðsynina á því.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir benti á, að vilji menn endilega vera sjálfum sér samkvæmir í þessu þá er til mikill lager af slíkum fjárskuldbindingum sem hafa ekki verið færðar á neitt einstakt ár. Af hverju eru þær ekki teknar hérna upp, af hverju er það ekki gert? Er skuldbindingin sem hv. þm. Pálmi Jónsson flutti maraþonræðurnar um bara tekin svo að hann geti komið eftir að búið er að samþykkja fjáraukalögin og sagt: Ja, sjáið þið ekki, ég hafði alltaf rétt fyrir mér? Bara pólitísk leikfimi og farið að beita og breyta bókhaldsreglum ríkisfjármálanna til þess að þjóna einhverjum tímabundnum og persónubundnum pólitískum hagsmunum.
    Meiri hlutinn á þinginu getur gert það ef hann vill. Það er svo sem í takt við annað að menn hringli með færslukerfi ríkisfjármálanna með þessum hætti. En ég tel það mjög alvarlegt ef þeir embættismenn og yfirmenn þingsins sem hér eiga að bera ábyrgð á málum láta þetta viðgangast. Ég nefni þetta vegna þess að mér er kunnugt um að einstakir starfsmenn hjá Ríkisendurskoðun hafa haft það að metnaðarmáli, m.a. í deilum sínum við aðra lærða endurskoðendur að ná þessu fram. Svo þeir geti sagt í einhverjum kaffiklúbbi endurskoðenda: Sjáið þið, þingið skrifaði upp á mína túlkun.

    Nú vill svo til að forseti þingsins er æðsti yfirmaður Ríkisendurskoðunar. Og þessi tillaga er ágætt dæmi um það hvernig ,,bírókratískar`` deilur Ríkisendurskoðunar við aðrar stofnanir í kerfinu eru færðar með pólitísku valdi inn í þingsalinn. Og á hvers konar braut er Ríkisendurskoðun og forsetadæmið og meiri hlutinn á Alþingi þegar hann lætur slíkt gerast? Ég vil benda forsetadæminu á að eftir að Ríkisendurskoðun var færð til þingsins fer forsetadæmið með ráðherravald yfir Ríkisendurskoðun. Á að beita því ráðherravaldi með þessum hætti?
    Ég veit ekki hvort það þjónar miklum tilgangi að vera að ræða þetta hér vegna þess að ég sé alveg að hv. þm. Pálmi Jónsson hefur gert það að pólitísku metnaðarmáli sínu og hefur greinilega platað félaga sína í meiri hluta fjárln. sem ekki þekkja sögu þessa máls eða eru inni í þeim deilum innan stjórnkerfisins sem ríkt hafa um þetta atriði. Og nú hlær hann og glottir. Auðvitað hlær hann og glottir, vegna þess að hann er búinn að fá nýgræðingana í fjárln. til þess að fylgja sér í þessari för. En þá er eins gott að menn geri sér grein fyrir því að eftirleikurinn verður sá að öllum grundvallarreglum um það hvernig þingið hefur afgreitt fjáraukalög og ríkisreikninga er bara hent upp í loft. Vilja menn það endilega? Ég skil satt að segja ekki hvaða tilgangi það á að þjóna.
    Auðvitað breytir það engu, það breytir engu um ríkisfjármálin hvar þetta er bókfært. Það er bara pólitískt metnaðarmál manns, sem stóð í deilum við síðustu ríkisstjórn um efnahagsaðgerðir hennar, hvernig hann bókfærir þetta. Og ef hann er kominn inn á þá braut að menn séu farnir að rífa reglur og venjur ríkisbókhaldsins og ríkisfjármálanna og afgreiðslu fjárlaga hér uppi á þinginu til þess að þjóna pólitískum metnaði sínum, þá erum við auðvitað komin inn á mjög alvarlega braut.
    Hvað ætla menn að gera með Framkvæmdasjóð Íslands? Ætlar núv. hæstv. fjmrh. --- verst er að hann skuli ekki vera í salnum --- ætlar hann að samþykkja það að í fjáraukalögum fyrir 1992 verði rúmur milljarður í yfirteknum skuldbindingum Framkvæmdasjóðs færður sem útgjaldaliður á árinu 1992, þó að ríkið borgi ekki krónu vegna þess? Það væri fróðlegt að heyra það. Og æskilegt, virðulegi forseti, að núv. hæstv. fjmrh. svaraði þessari spurningu. Ég verð að láta það í ljós af því mér finnst núv. fjmrh. harla léttlyndur að vera ekki viðstaddur þessa umræðu. Hann hlýtur að vita af þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið, m.a. innan fjmrn., við þær röksemdir sem færðar voru fyrir þessu á sínum tíma. Að vísu er maður nú undrandi á mörgu í fari núv. stjórnarmeirihluta og hæfileikar meiri hlutans til þess að koma mönnum á óvart eru alveg ótakmarkaðir. ( Gripið fram í: Það er embættismaður hérna frammi.) Nei, ég ætla ekki að draga embættismenn fjmrn. inn í þetta. Ég er búinn að hlusta á þá svo oft og lengi segja sínar skoðanir á þessu máli, ég þarf ekkert að spyrja þá að því. Ég veit þær.
    En ég harma það að nýliðarnir í fjárln. skuli hafa látið gamla refinn, Pálma Jónsson, plata sig til þess að fara með þetta mál hingað inn. ( Gripið fram í: Háttvirtan.) Háttvirtan gamlan ref, Pálma Jónsson, plata sig til þess að flytja þetta mál hingað inn. (Gripið fram í.) Já, ég geri það af virðingu vegna þess að ég veit að þeir eru vandir að virðingu sinni en hafa greinilega ekki kynnt sér sögu þessa máls áður en þeir samþykktu að taka þetta hér inn. Heldur hafa látið Sigurð Þórðarson og Pálma Jónsson plata sig í þessu máli. Því að auðvitað hefur þetta verið jafnmikið metnaðarmál fyrir vararíkisendurskoðanda, Sigurð Þórðarson, eins og það hefur verið pólitískt metnaðarmál fyrir þingmanninn Pálma Jónsson. Vegna þess að vararíkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, hefur staðið í deilum innan kerfisins um það hvort túlkun hans væri rétt eða röng. Og auðvitað mun Sigurður Þórðarson vararíkisendurskoðandi notfæra sér það ef hinn pólitíski meiri hluti hér á þinginu skrifar upp á hans túlkun, jafnvitlaus og hún er. Og ég bið bara hv. þm. að velta því fyrir sér hvernig það samrýmist þeirra heilbrigðu skynsemi, því oft er nú gott að vitna bara til gömlu og góðu heilbrigðu skynseminnar í þessum málum.
    Ef ákveðið er að taka lán upp á 6 milljarða og það eigi að greiða fyrstu afborgun af láninu --- það er verst að hv. þm. Árni Mathiesen skuli vera farinn út úr salnum því

að ég vildi gjarnan að hann væri hérna og heyrði þetta. --- Ákveðið væri að taka lán upp á 6 milljarða og síðan ætti ekki að borga fyrstu afborgun af því fyrr en eftir fimm ár. Þá væri samkvæmt þessari kennisetningu öll lántakan, 6 milljarðar, færð sem útgjöld, hrein útgjöld eins og rekstur sjúkrahúsa eða kennaralaun í skólakerfinu eða laun alþingismanna, hrein útgjöld á því ári sem lánið er tekið. En alls ekki færð sem útgjöld á þeim árum þegar borgað er af láninu, nei alls ekki.
    Ef þessi kenning væri við lýði hefði lánið vegna flugstöðvarinnar, sem tekið var á sínum tíma, í utanríkisráðherratíð Matthíasar Á. Mathiesen, verið fært sem nettóútgjöld, hrein útgjöld á því ári sem lánið var tekið en alls ekki fært sem útgjöld á árinu 2020 þegar fyrsta afborgun á að fara fram samkvæmt því láni sem tekið var. Ég er alveg klár á því að hæstv. fyrrv. fjmrh. Matthías Á. Mathiesen, þáv. utanrrh., hefði ekki verið par ánægður með það ef þáv. meiri hluti á þingi eða einhverjir kerfissnillingar innan Ríkisendurskoðunar hefðu fundið það upp að nú ætti að bókfæra sem útgjöld á árinu 1987 allt lánið sem tekið var vegna flugstöðvarinnar. En auðvitað hefði átt að gera það. ( Gripið fram í: Það hefði þá kannski verið staðið öðruvísi að framkvæmdum.) Ég dreg nú fyllilega í efa að staðið hefði verið öðruvísi að framkvæmdum vegna þess, ég skal ekkert um það segja. Það getur enginn okkar sannað.
    Ég er bara að benda á söguna í þessum efnum. Það er ekki enn þá búið að færa lánið vegna flugstöðvarinar sem útgjöld. Það er ekki búið að því enn. Vegna þess að það er ekki byrjað að borga af því enn. En hér kemur allt í einu stjórnarmeirihlutinn á Alþingi og vill fara að færa þetta lán sem útgjöld, þó ekki sé byrjað að borga af því enn, eða a.m.k. mjög lítið, þá á að færa það allt sem útgjöld. En lánin vegna flugstöðvarinnar mega alveg liggja án þess að vera bókfærð sem útgjöld þó að það hafi verið fyrsta mál sem fortíðarnefndin tók yfir og gaf skýrslu um eftir að núv. ríkisstjórn tók við.
    Hvers konar system er þetta eiginlega? Er leikaraskapurinn orðinn svo mikill að það eru engin takmörk? Bara sum lán sem ríkið hefur tekið eru færð sem útgjöld á þessu ári en öll hin súpan, hún má bara liggja. --- Af því að það þjónar ekki pólitískum hagsmunum meiri hlutans að færa lánin vegna flugstöðvarinnar sem útgjöld en það þjónar pólitískum metnaði hv. þm. Pálma Jónssonar og kerfismetnaði vararíkisendurskoðanda að færa þetta svona. Og ég hika ekkert við að nefna vararíkisendurskoðanda hér vegna þess að mér finnst engin þörf á því að leyna því hver það er innan kerfisins sem sérstaklega hefur háð þessa baráttu.
    Það er auðvitað mjög vont þegar embættislegur metnaður einstakra manna og pólitískur stríðsdans einstakra þingmanna er notaður til þess að hræra svona fram og aftur með þær venjur og reglur sem hafa gilt hér, vegna þess að það þýðir það að allur samanburður milli ára um ríkisfjármálin er marklaus, fullkomlega marklaus.
    Ég get t.d. alveg sagt það hér, þótt að núv. hæstv. fjmrh. neyðist til þess --- til þess að þjóna pólitískum skapsmunum hv. þm. Pálma Jónssonar --- að færa yfirtökuna á skuldbindingum á Framkvæmdasjóð Íslands sem útgjöld á næsta ári þá ætla ég ekki að fara að saka núv. hæstv. fjmrh. um að þar með sé hallinn á ríkissjóði orðinn rúmum milljarði hærri, ég ætla ekki að gera það vegna þess að það væri ómerkilegur málflutningur. Jafnómerkilegur málflutningur og það sem gengur hv. þm. Pálma Jónssyni til í þessum efnum. Hann er bara að hræra með hallatölu fjárlaganna fram og aftur til að þjóna pólitískum metnaði sínum. Nú, meiri hlutinn getur gert það ef hann vill, hann má eyðileggja alla umræðu, samanburðarumræðu um ríkisfjármál ef hann vill. En að við látum þetta ganga fram þegjandi og hljóðalaust, án þess að rekja hvað hér er verið að gera, það nær ekki nokkurri átt.
    Ég tel auðvitað að forsetinn beri vissa ábyrgð á því hvað hér er verið að gera vegna þess að Ríkisendurskoðun heyrir undir forsetadæmið. En það er kannski mikið að gera hjá forsetadæminu þessa dagana og þess vegna hefur mönnum yfirsést hvað hér er verið að gera. En það er hins vegar alveg orðið ljóst.

    Virðulegi forseti. Ég tel þetta vera hið versta ráð og teldi réttast að fjárln. endurskoðaði afstöðu sína í þessum efnum, a.m.k. flytti hún, þ.e. formaður nefndarinnar --- ef hún ætlar að halda þessu til streitu --- myndarlega ræðu um það að frá og með þessum degi verði þetta þá gert við allar skuldbindingar. Og þá spyr ég: Hvenær á að færa lánin vegna flugstöðvarinnar inn sem útgjöld? Ég spyr formann fjárln. að því eða er þetta bara selektívt? Eða ætlar formaður fjárln. ekki að svara því?
    Ég tel þetta mál ekki vera flokkpólitískt deilumál hér á Alþingi. ( Gripið fram í: Það er það ekki.) Ja, það var það af hálfu hv. þm. Pálma Jónssonar hér á síðasta kjörtímabili, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, það var það. Alveg skýrt flokkpólitískt deilumál á síðasta kjörtímabili vegna þess að hv. þm. Pálmi Jónsson valdi bara þessa skuldbindingu eina út úr af mörgum sem til greina komu. Og það sem fjárln. hefur gert núna er að velja bara þessa skuldbindingu eina út úr, af því að það hentar pólitískt. Það eru óvönduð vinnubrögð, þau eru þinginu ekki til sóma og mjög hættuleg braut fyrir meiri hluta fjárln. og meiri hluta þingsins að láta draga sig --- ég segi það hreint út --- á asnaeyrunum, hvað þetta snertir.