Brunavarnir og brunamál

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 16:34:00 (2330)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa stuðningi mínum við málið. Hér er að mínum dómi ákaflega gott mál á ferðinni og sannarlega tími til kominn að tekið verði á brunamálum af alvöru og festu. Eins og við vitum hafa orðið margir mjög alvarlegir brunar hér á landi sem bæði hafa snert fyrirtæki og einstaklinga og það má alveg ljóst vera að brunavörnum hefur verið mjög ábótavant.
    Það kemur fram í athugasemdum við það frv. sem hér er til umræðu að eftir stórbrunann að Réttarhálsi 2 í Reykjavík var skipuð nefnd til þess að gera heildarúttekt á stöðu brunamála á Íslandi. M.a. kom fram í niðurstöðu nefndarinnar að þegar á heildina væri litið væri víða að finna veilur í skipulagi brunamála og sérstaklega eldvarnareftirlitið. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að athugasemdum og kröfum um úrbætur væri lítt fylgt eftir og upplýsingar um helstu brunatjón væru ófullnægjandi. Þá hafi lokaúttektir á byggingum almennt ekki farið fram. Niðurstaðan sýnir náttúrlega hvað best hve þessi mál eru á alvarlegu stigi. Ég hef sjálf unnið undanfarin ár sem kennari í mjög gömlu húsi í Reykjavík sem er að vísu steinsteypt. Það er eitt af fyrstu steinsteyptu húsum borgarinnar en eins

og í mörgum þeirra húsa eru timburgólf á milli hæða. Ég er hér að tala um Kvennaskólann í Reyjavík en eins og menn kannski muna varð einmitt bruni í því húsi. Það var íkveikja sem enn þann dag í dag hefur ekki verið upplýst. En sem betur fer tókst að bjarga þar miklu.
    Það sem mér finnst skipta máli í þessu sambandi er það að allan þann tíma sem ég vann í því húsi varð ég aldrei vör við að þangað kæmu brunayfirvöld, ég varð aldrei vör við neins konar æfingu eða að það kæmu fram leiðbeiningar um það hvernig ætti að bregðast við ef þarna yrði bruni. Hér er ég að tala um tiltölulega lítið hús með þröngum stigum þar sem fjöldi manns er innan dyra á hverjum einasta degi þannig að bara þetta eina dæmi úr skóla hér í borg segir mér að brunavarnir eru ekki í nógu góðu horfi. Þess vegna fagna ég því að þetta frv. skuli nú komið fram.
    Mig langar aðeins til að renna í gegnum þær nýjungar sem koma fram í frv. og sem greint er frá á bls. 9 í frv. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að félagsmálaráðherra skipi brunamálastjóra tímabundið, að fengnum tillögum stjórnar Brunamálastofnunar ríkisins.``
    Ég vil sérstaklega fagna þessu. Ég held að þarna sé félmrh. á réttri braut. Það á að innleiða sem allra víðast að embættum þessum sé skipt á milli manna og að sé tiltölulega auðvelt að endurnýja í slíkum stöðum.
    Þá er líka lagt til að fjölgað verði um tvo fulltrúa í stjórn Brunamálastofnunar ríkisins svo að þeir verði fimm í stað þriggja, og annar þessara fulltrúa á að vera tilnefndur af Arkitektafélagi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands og Verkfræðingafélagi Íslands. Þessu vil ég líka fagna. Mér finnst mjög gott að kalla til stéttir tæknimanna sem náttúrlega þekkja mjög vel til í þessum geira þar sem nýbyggingar og teikningar bygginga og skipulag bygginga og viðhald bygginga eiga í hlut. Ég efa ekki að slíkur fulltrúi geti komið með margar góðar ábendingar og einmitt í ljósi þess að eftirliti með byggingum er ekki sinnt og úttektir á byggingum fara ekki fram þá skortir greinilega á tengsl milli brunayfirvalda og tæknistétta í samfélaginu.
    Líka er lagt til að ábyrgð eigenda og forráðamanna atvinnuhúsnæðis verði aukið varðandi brunavarnir og eftirlit með þeim. Þetta held ég að sé líka mjög gott ákvæði því að auðvitað verða að vera sem ríkastir hagsmunir eigenda húsnæðis að halda því við og sjá til þess að það verði ekki fyrir tjóni. Það er náttúrlega svo augljóst hvílíkir hagsmunir eru þarna um að ræða þannig að ég fagna þessu líka.
    Hjá mér vöknuðu nokkrar spurningar undir umræðunni sem mig langar til þess að beina til hæstv. félmrh. og ég vil tengja það því að ég saknaði þess í greinargerðinni sem fylgir þessu frv. og reyndar finnst mér það koma fram í mörgum frumvörpum að þar sé að finna tölulegar upplýsingar. Ég er ekki búin að fletta því upp og ég geri mér ekki grein fyrir því hver er kostnaður við brunavarnir. Er þetta þungur baggi á sveitarfélögunum? Mig langar að fá nánari upplýsingar um það hvernig brunavarnaeftirlitið er núna undir það búið að fylgjast með brunavörnum, hverju er þar helst ábótavant og mig langar líka til þess að fá upplýsingar um það ef félmrh. hefði þær innan handar hvort brunar eru algengari hér en annars staðar. Er til einhver samanburður á því? Þetta er bara forvitni af minni hálfu en reyndar mjög eðlileg spurning því að það segir okkur auðvitað mikið hvort eftirliti er hér mjög ábótavant eður ei.
    Síðasti ræðumaður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, gerði að umræðuefni hvort stofnun eins og Brunamálastofnun ætti að vera staðsett í Reykjavík og að landsbyggðarmenn vilji auðvitað gjarnan sjá opinberar stofnanir úti á landi. Ég verð að segja að það gefur auga leið að stofnun eins og Brunamálastofnun sem á að sinna eftirliti þyrfti að vera á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað þarf mest eftirlit að fara fram í þéttbýlinu þar sem hús eru

hvað flest þannig að ég held að það hljóti að vera augljóst að það felst ákveðinn sparnaður í því að þessi stofnun sé á höfuðborgarsvæðinu.
    Ég vil að lokum taka það fram að ég lýsi yfir fylgi mínu við þetta frv. Ég fagna því mjög að það skuli komið fram og ég vona svo sannarlega að það fái skjótan framgang í þinginu og það megi verða til þess að brunavarnir og brunaeftirlit verði aukið og bætt hér á landi.