Aukatekjur ríkissjóðs

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 17:25:00 (2337)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegur forseti. Í umræðum um annað tekjuöflunarfrv. hæstv. ríkisstjórnar gerði ég athugasemd sem ég sé að hæstv. efh.- og viðskn. hefur ekki séð sér fært að taka til greina í sambandi við frv. um aukatekjur ríkissjóðs. Þessi athugasemd var gerð út af tvennu. Í fyrsta lagi vegna þess að þarna taldi ég að væri lag til að ná inn einhverjum frekari tekjum í ríkissjóð án þess að sú tekjuöflun bitnaði hart á barnafólki eða einhverjum öðrum sem nú er verið að ganga að og svo hins vegar og ekki síður vegna þess að þarna var um að ræða ákveðna fyrirbyggjandi starfsemi í sambandi við áfengisvarnamál. Ég vil að það komi aftur fram við 3. umr. að mér finnst full ástæða til þess að hærri leyfisgjöld séu greidd fyrir vínveitingastaði þegar þeir eru settir á stofn. Mér finnst ekki eðlilegt að ekki sé krafist hærri gjalda en frá 20.000 kr. og upp í 100.000 kr. fyrir leyfi fyrir áfengisveitingastað. Jafnframt finnst mér að almenn skemmtanaleyfi þurfi einnig að hækka og það af sömu ástæðu. Þetta var mín ábending og ég hlýt að harma að hún var ekki tekin til greina.

Ekki svo að skilja að ég haldi að þetta hefði skipt sköpum fyrir afkomu ríkissjóðs en ég held þó að núna þegar verið er að klípa hverja krónuna hvar sem hún fæst, eina og tvær milljónir frá ljómandi góðum verkefnum, sé full ástæða til að taka tillit til slíkra ábendigna. En ekki síður vegna þess forvarnastarfs sem með þessu væri unnið. Fram hefur komið á fundum sem við höfum verið á nokkrir þingmenn sem tengiliðir þingflokkanna við áfengisvarnaráð, að þeim sem hafa starfað í og með áfengisvarnaráði þykir að ekki sé um nógu há gjöld að ræða og ég tel að við eigum að taka mið af síkum ábendingum. Jafnframt telja þeir að þarna þurfi meira fé til forvarnastarfa og e.t.v. mætti hugsa sér --- þótt ég sé nú ekki að mæla sérstaklega með sérmerktum tekjum --- að einhver hluti af aukinni skattheimtu rynni til forvarnastarfa. Því það gefur auga leið að til lengri tíma er það langbesta sem hægt er að gera fyrir fjárhag ríkissjóðs að leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Ekki síður áfengisvarnamálum en öðrum. Ég sé þó að í nál. frá meiri hluta fjárln., frhnál. sem ég hef í höndum, er verið að fjalla um áfengismál að nokkru leyti í áliti minni hlutans sem birtur er með því. Vil ég grípa niður hér á síðu 13 í þessu frhnál. og með leyfi hæstv. forseta lesa lið sem er merktur nr. 5, Skattar af einkasöluvörum. ,,Ekki er gert ráð fyrir því að vörur ÁTVR verði hækkaðar umfram almennt verðlag. Við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu er ekki óeðlilegt að þessar vörur verði hækkaðar sérstaklega. Það mikilvægasta af öllu er að koma í veg fyrir hækkun helstu nauðsynjavara og verja ráðstöfunartekjur láglaunafólks. Ef þessar vörur væru hækkaðar sérstaklega um 6% mundi það skila ríkissjóði 400 millj. kr. í tekjur á árinu 1992.``
    Ég get ekki annað en vakið athygli á þessu jafnframt vegna athugasemdar minnar í umræðunni um aukatekjur ríkissjóðs vegna þess að jafnframt er verið að taka undir sjónarmið sem áfengisvarnaráð hefur komið á framfæri og raunar hefur verið komið á framfæri við okkur þingmenn upplýsingum um það að því hærra verð sem sé á áfengi þeim mun meiri líkur séu á að hægt sé að draga úr neyslu. Auðvitað er ekki þarna um það að ræða nákvæmlega að neyslan stórminnki eftir því sem verðið er hærra en það eru bein tengsl þarna á milli. Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að þessi ábending sé tekin til greina. Hins vegar höfum við í rauninni enga sérstaka stefnu til að fara eftir í þessum málum í þeirri umræðu sem verið hefur í fjáröflun ríkissjóðs og útgjöldum. Mér þykir hart að ekki skuli meiri gaumur hafa verið gefinn að þessum málum og þeirri ábendingu sem ég kom á framfæri. Ég held að full ástæða væri til þess þegar tekjur og útgjöld ríkisins verða tekin fyrir næst á Alþingi og það má vel vera að sú umræða verði áframhaldandi. Mér sýnist full ástæða til þess og varla hægt að búast við því að frá öllum hnútum verði gengið nú fyrir hátíðarnar. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem nauðsynlegt væri að líta á vegna tekna ríkissjóðs og ekki síður vegna þess fyrirbyggjandi þáttar og þess forvarnastarfs sem þar gæti fylgt með.