Verðlagsráð sjávarútvegsins

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 12:09:00 (2353)

     Kristinn H. Gunnarsson :

     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er ánægjulegt að hann upplýsir að viðræður eigi sér stað milli ráðuneytisins og talsmanna rækjuverksmiðja. Það segir manni að ráðuneytið álíti að því sé bæði skylt og rétt að fylgjast með þessu máli og að koma fram með tillögur til að verja þessa atvinnugrein. Það er að sumu leyti athyglisvert í ljósi yfirlýsinga sumra annarra ráðherra um að ríkisvaldið ætli sér ekki að skipta sér af málum sem þessum. Ég fagna þeirri afstöðu hæstv. sjútvrh. að gangast við ábyrgð stjórnvalda á atvinnumálum.
    Annað kom mér mjög á óvart í hans máli, sem ég vissi reyndar ekki, og það er að verð á rækju á mörkuðum erlendis hefur lækkað minna en verð á seldri rækju héðan. Þetta er merkilegt og er full ástæða til að fá skýringar á því hvernig á þessu stendur og hvort þeir sem standa í sölumálum þurfi að taka sér tak, en það er sú ályktun sem maður dregur af þessum upplýsingum, alla vega í svipinn.
    Ég bendi líka á að í fréttabréfi Samtaka fiskvinnslustöðva frá 30. sept. sl. kemur fram á bls. 8, með leyfi forseta:
    ,,Það sem einkum hefur sett svip sinn á rækjuvinnslu á árinu er mikið verðfall á mörkuðum fyrir pillaða, frysta rækju og er verðið nú rúmlega 20% lægra en fyrir rúmu ári.``
    Í þessu fréttabréfi koma upplýsingar ekki fram frá þessum aðilum sem hefðu náttúrlega átt að hafa þær undir höndum á þessum tíma. Þetta kemur mér verulega á óvart og er að sumu leyti slæmt, en að öðru leyti þó betra að það sé dregið fram því við ættum að hafa betri tök á að bæta þarna úr en í mörgum öðrum vandamálum sem við er að glíma í sjávarútvegi.
    Það er að mörgu leyti skiljanlegt að hæstv. ráðherra vilji ekki upplýsa neitt frekar um hvaða ráðstafanir eru á döfinni eða til umræðu og ég kref hann ekkert um það á þessu stigi, en vil hvetja hann til að líta á þetta mál af mikilli alvöru.
    Eins og fram hefur komið í ræðum manna sem hér hafa tekið til máls er þetta sérstaklega alvarlegt mál í þeim byggðarlögum þar sem rækjuvinnsla er stunduð. Þau eru í sjálfu sér ekki mjög mörg á landinu, en á þeim stöðum er þetta mjög þýðingarmikill þáttur í atvinnulífi og yrði verulegt áfall ef eitthvað brygði út af í þeim efnum.
    Ég skal, virðulegi forseti, ekki hafa fleiri orð um frv. Það væri út af fyrir sig hægt að ræða frekar stöðu rækjuvinnslunnar og þessarar atvinnugreinar, en ég hef komið á framfæri mínum sjónarmiðum í þeim efnum þannig að ég tel ekki þörf á að ræða þau mál frekar á þessu stigi. En ég tel hins vegar óhjákvæmilegt að það verði teknar upp umræður um stöðu þessarar atvinnugreinar strax og þing kemur saman í janúar.