Vatnsveitur sveitarfélaga

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 13:40:00 (2394)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög eðlilegt að við ræðum þetta mál hér 21. des. og förum yfir það, ekki síst þegar ljóst er að hér hafa orðið veruleg mistök við framsetningu málsins í frv. upphaflega. Hv. þingnefnd virðist hafa sést yfir það þegar hún fjallaði um málið. Ég vil taka mjög eindregið undir það sem hér hefur komið fram varðandi 14. gr., síðustu grein frv., að ekki verður séð að sú skipan sem þar er fram sett sé skynsamleg. Mér finnst skýringar hæstv. ráðherra varðandi málið, að þetta væri einhver spurning um eignarréttarviðhorf, ekki vera haldbærar nema það sé rökstutt frekar en þar kom fram. Ég held að það sé mjög óvænlegt að fara að lögfesta þetta 10 ára tímabil. Ég skil það svo að stefnt sé að því að að loknum 10 árum beri sveitarstjórninni að yfirtaka þessar heimæðar sé þess óskað af fasteignareiganda en þó því aðeins að þess sé óskað. Það er því í rauninni til langframa stefnt að því að einstakir fasteignareigendur, sem þetta frv. snertir, geti átt æðarnar og þær geti gengið í arf mann fram af manni, það er alveg ljóst, langt fram á næstu öld náttúrlega, eða svo lengi sem þessi lög fá að standa. Þ.e. ef þetta stangast ekki á við Evrópuréttinn og þyrfti kannski athugunar við. Það má vel vera. Það kemur kannski til umræðu síðar ef þau mál verða lögð fyrir þingið að gerðum samningi. Ég vil ekkert um það fullyrða út af fyrir sig.
    Ég undrast að þetta skuli hafa komið frá nefnd, sem hæstv. ráðherra hefur skipað í málið, og að hv. félmn. skuli ekki hafa rekið augun í þetta, sem þó getur auðvitað alltaf komið fyrir. En ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar að því hvort þetta mál hafi ekki verið rætt sérstaklega í nefndinni og hvernig formaður nefndarinnar, sem hér er á fundinum, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, lítur á þetta mál. Mér finnst það skipta verulegu máli hvernig forusta í nefndinni metur þetta ákvæði og það þurfi að koma fram við umræðuna.
    Ég held að langeðlilegast væri, áður en tekin er afstaða til málsins, að því verði vísað aftur til hv. félmn. til frekari athugunar varðandi þau atriði sem hér hafa komið ábendingar fram um. Það verði þá skilað, eins og þingsköp heimila, 29. gr. þingskapa, framhaldsnefndaráliti og hugsanlega brtt. við þetta ákvæði að betur athuguðu máli. Mér finnst að rangt væri að hrapa að því að fara að lögfesta þetta ákvæði eða vísa málinu til 3. umr. með þessum meinbugum sem hefur verið bent á.

    Hæstv. ráðherra talaði um þetta sem ákvæði til bráðabirgða en það er ekki sett fram sem slíkt enda er í rauninni verið að lögfesta þarna til langframa. Ég sé ekki að þetta sé neitt bráðabirgðaákvæði. Þetta 10 ára tímabil varðar aðeins það að fasteignareigandi getur að því loknu óskað eftir yfirtökunni eða réttara sagt sveitarstjórninni ber að því loknu að yfirtaka, komi fram ósk frá fasteignareiganda, en aðeins ef svo er.
    Ég tek eftir því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur undirritað þetta með fyrirvara. Hann er ekki viðstaddur umræðuna, hefur e.t.v. gert grein fyrir þessu þegar umræða hófst um málið. Ég held að hans fyrirvari hafi lotið að gjaldtöku og þeim gjaldstofnum, álagningarstofnum, sem kveðið er á um í 7. gr. Ég hefði kosið, sérstaklega ef hv. formaður nefndarinnar tæki hér til máls, að hann greindi okkur frá því hvaða breytingar verði á gjaldstofnum eða hvaða afleiðingar ákvæði frv. hafa varðandi gjaldstofna. Þetta hefði ég auðvitað átt að vera búinn að kynna mér en ég væri þakklátur hv. formanni nefndarinnar ef hann vildi varpa ljósi á það, sérstaklega hvort þarna sé um einhverja sjálfkrafa hækkun að ræða vegna breytinga á viðmiðunum, stofni til álagningar, sem ég held að hafi verið eitt af því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði fyrirvara um.
    En virðulegur forseti, aðalerindi mitt er í rauninni það að hvetja til þess eindregið að málinu verði vísað aftur til nefndar og hún skili þá frhnál. um málið.