Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 14:43:00 (2403)

     Egill Jónsson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vísa til þess sem ég sagði áðan að mér er ekki kunnugt um hvernig mál hafa skipast á vegum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum þar sem þar hafa ekki verið fengnar fram neinar skýringar. Ég get hins vegar sagt að ég held að á ýmsan hátt hafi verið gætt vel að þátttöku landbúnaðarins í þessum efnum. Ég ætla ekki að fara út í neinn samanburð við fyrri tíð enda þjónar það engum tilgangi. En þátttakendur frá landbrn. hafa verið í þessari umræðu meira og minna í haust og landbúnaðarnefndarmenn Alþingis geta vel borið um það vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið í nefndinni og ég hef áður sagt frá, að þar hefur mér virst vera vel að málum staðið.
    Ég endurtek svo það sem ég sagði áðan að það verða náttúrlega aðrir að svara fyrir ríkisstjórnarþátttöku og aðgerðir í þessum efnum. Ég skyldi vissulega gera það ef það væri á mínum færum því ég kæri mig ekki um neina leynd yfir þessum málum.