Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:04:00 (2432)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég vil einungis benda á að það sem stendur eftir af þessari tillögu og það sem hefur verið sagt í þessu máli er ekkert annað en það að arður verður einungis einu sinni skattlagður. Það er alveg rétt sem hefur komið fram, ekki nú en oft áður, að það er ekki endanlega útséð hvaða form verður á fjármagnstekjuskatti en það er alveg ljóst að það er verið að gefa þau skilaboð til þjóðarinnar að arð eins og hverjar aðrar tekjur þarf að skattleggja. Það er hins vegar spurningin hvar sú skattlagning á að koma fram. Ég vona og ég veit reyndar, af því að hv. 1. þm. Austurl. er endurskoðandi, að hann skilji að það eina sem við erum að gera er þetta og við þurfum að senda þessi skilaboð frá okkur núna: Þær reglur eru víðast hvar í gildi annars staðar að arður er skattlagður jafnt og aðrar tekjur, þetta þarf að gilda jafnframt um opinber verðbréf, ríkisskuldabréf, í framtíðinni, þannig að það sé jafnræði á milli slíkra bréfa. Að þessu verður stefnt og ég sé ekki að þetta ákvæði í lögunum, þegar tekið er tillit til breytinga sem verða gerðar á lagafrv., setji hlutabréfamarkaðinn í neina hættu.