Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:31:00 (2439)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Við 2. umr. fjárlaga minnti ég hæstv. félmrh. á það að daginn, sem ríkisstjórnin samþykkti að leggja fjárlagafrv. fram á Alþingi, átti hún sérstakan fund á skrifstofu forsrh. með formanni Alþfl., hæstv. utanrrh. Dagana þar á undan hafði allt fjölmiðlakerfi landsins verið yfirfullt af fréttum um það að hæstv. félmrh. gæti ekki stutt fjárlagafrv. Ástæðan sem hæstv. félmrh. gaf þá var að það skorti nokkuð á jöfnunaraðgerðir gagnvart launafólki, sérstaklega í skattamálum í tengslum við fjárlagafrv. Þennan dag í september birtu allir fjölmiðlar landsins, sérstaklega sjónvarpsstöðvarnar, myndir af hæstv. félmrh. þar sem hún gekk út úr stjórnarráðshúsinu af fundi sínum með forsrh. og utanrrh. og hún lét hafa við sig viðtal. Hún lýsti því yfir að nú hefði hún ákveðið að styðja það innan ríkisstjórnarinnar að fjárlagafrv. yrði lagt fram vegna þess að hún hefði fengið tryggingu fyrir því að í tengslum við fjárlagafrv. yrðu afgreidd fjölmörg atriði í lífskjarajöfnun í þágu launafólks. Þessi lífskjarajöfnunaratriði yrðu í skattamálum, húsnæðisbótum, húsaleigubótum og fjölmörgu öðru sem mundi auka kaupmátt launafólks. Þetta sagði hæstv. félmrh. í áheyrn alþjóðar og ég veit að það voru þúsundir af launafólki og fólki tengt Alþfl. sem trúðu því að eitthvað væri að marka yfirlýsingar hæstv. félmrh., varaformanns Alþfl. Manneskjunnar sem sumir hafa talið fulltrúa fyrir það litla sem eftir væri af samvisku

Alþfl.
    Nú erum við stödd hér á laugardagskvöldi og það vill svo til að á þessu laugardagskvöldi og þessari nóttu á að fara að afgreiða bæði frv. um tekjuskatt sem er tengt fjárlagafrv. og fjárlagafrv. sjálft. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. félmrh.: Hvað í þessu tekjuskattsfrumvarpi, hvað í þessu fjárlagafrv. eru þær tekjujöfnunaraðgerðir sem hæstv. félmrh. fékk loforð fyrir hjá forsrh.? Eða: Hefur hæstv. félmrh. verið svikin? Eða: Var ekkert að marka yfirlýsingar hæstv. félmrh.? Voru þær bara ein af mörgum leiksýningum hæstv. félmrh. til þess að búa til þá ímynd að hæstv. félmrh. kærði sig eitthvað um kjör venjulegs launafólks í landinu?
    Ég óska eftir því vegna þess að við höfum ákveðið hér að sýna ákveðna tillitssemi við afgreiðslu þessara mála að nú komi hæstv. félmrh. hér upp og svari því: Hvar eru lífskjarajöfnunaratriðin í þessu skattafrumvarpi og í fjárlagafrumvarpinu sem hæstv. félmrh. fékk tryggingu fyrir? Hvar eru þau? Eru þau fólgin í barnabótunum sem taka 4.000 kr. á mánuði af launafólki innan BSRB sem á þrjú börn? Taka 4.000 kr. á mánuði af launafólki innan ASÍ sem á þrjú börn? Þannig að kaupmáttur venjulegs launafólks, venjulegrar fjölskyldu hér í landinu er skertur sem nemur mánaðarlaunum verkamanns og verkakonu með því frv. sem við erum hér að ræða. Hefur hæstv. félmrh. gert sér grein fyrir því að hún mun með atkvæði hér kvöld styðja það að kaupmáttur verkakvenna og verkakarla, félagsmanna innan BSRB, fjölskyldna launafólksins í landinu verður skertur sem nemur mánaðarlaunum láglaunafólks í landinu. Er það lífskjarajöfnunin, hæstv. félmrh.? Eða er það þannig að Alþfl. er tilbúinn til að samþykkja hvað sem er? Er hæstv. félmrh. komin á sama stig í lífkjarajöfnunarmálunum og hæstv. utanrrh. í jöfnunargjaldinu? Ekki til prinsipp. Ekki til orðheldni. Ekki til að það sé neitt að marka það sem sagt er.
    Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. komi hér upp og það dugir eitt orð, hæstv. félmrh., það dugir eitt orð, en það þarf dálítinn kjark að koma hér upp og segja það. Þetta eina orð sem dugir er að koma hér upp og segja á eftir: Virðulegi forseti, svarið er: Hvergi. --- Hvergi, hæstv. félmrh., því lífskjarajöfnunaraðgerðirnar eru hvergi í þessu frv. Þær eru hvergi í fjárlagafrv. Það er ekki neitt sem hæstv. félmrh. hefur fengið. Nú skora ég á hæstv. félmrh. að koma hér upp og segja þetta eina orð.