Fjárlög 1992

59. fundur
Sunnudaginn 22. desember 1991, kl. 03:37:00 (2492)

     Karl Steinar Guðnason (um atkvæðagreiðslu) :
     Hæstv. forseti. Í tilefni af því sem fram hefur komið hér vil ég aðeins segja þetta. Hv. þm. Egill Jónsson, sem ég virði mjög mikils og er harður talsmaður Austfirðinga, hefur greint frá afstöðu sinni og dregið tillögu sína til baka, sem ég er reyndar þakklátur fyrir. Það er alveg ljóst að hann hefur barist mjög hart fyrir þessu málefni. Það hafa báðir stjórnarþingmennirnir gert. Það var ekki eining um það milli þingmanna kjördæmisins hvernig skipta ætti þeim peningum sem færu til Austfjarða og því var það að fjárln. tók ekki tillit til þess meiri hluta sem þá myndaðist. Það mun alls ekki vera fordæmalaust og okkur þótti því rétt að halda við það sem við höfðum áður ákveðið.
    Ég ætla ekki að fara mikið fleiri orðum um þessa hluti. Ég vona og þykist fullviss að hjúkrunarheimilið á Höfn í Hornafirði kemst upp á réttum og áætluðum tíma. Sú áætlun mun halda að mínu viti og ég lýsi því hér yfir að ég mun beita mér fyrir því ásamt öðrum í meiri hlutanum að hjúkrunarheimilið á Höfn haldi þeirri áætlun sem menn ætluðu.