Norræna ráðherranefndin 1991--1992

117. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 15:04:00 (5069)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta var nokkuð skýrt svar, þótti mér. En það var ekki það svar sem ég vonaðist til að heyra úr þessari átt.
    Hver er að gera kröfu til þess að menn fylgi einhverjum ákveðnum flokkahópi? Um það snýst ekki málið. Málið snýst um það hvernig menn haga sínu atkvæði og sínum áhrifum, sjálfir og sjálfrátt, í þessum stórmálum. Er það svo að vegna þess að þeir séu svona baneitraðir, vinstri sósíalistar sem svo eru kallaðir, í norrænu samstarfi að Framsfl., ja hann bara geti alls ekki komið nálægt slíkum sjónarmiðum og þess vegna velji hann þann kost að hlaupa upp í lestina til Brussel? Er mönnum svona komið? Er þeim ekki sjálfrátt? Og er þetta afstaða Framsfl. sem verið er að túlka? Eru þetta sjónarmið kjósenda Framsfl. sem hér er verið að túlka af hv. 2. þm. Austurl. og fulltrúa flokksins á Norðurlandaráðsþingi? Er það afstaða þessa miðflokks, sem hefur viljað kalla sig svo, að vilja taka lestina til Brussel í EES-samstarfið til að byrja með og síðan alla leið, vegna þess að það sé eina leiðin til að eiga hlut í norrænu samstarfi? Og vegna þess, vegna þeirrar blekkingar að það verði norrænt samstarf að finna sem skipti einhverju máli fyrir Íslendinga innan Evrópubandalagsins? Er það þetta sem ræður gjörðum manna? Ég er svo aldeilis hissa.