Skipulag ferðamála

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 16:27:00 (5396)



     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég kýs að bregðast við orðum hæstv. ráðherra, kannski raunar því sem hann svaraði ekki og sagði ekki, með andsvari. Fróðlegt er að heyra frá hæstv. ráðherra að hann sé í grundvallaratriðum ósammála því sem lá fyrir þinginu í fyrra og breið samstaða skapaðist um. Gerir hæstv. ráðherra sér von um að hann komi einhverri allt annarri stefnu í gegnum þingið en menn sameinuðust um á fyrra þingi að því er snertir neðri deild og meiri hluta í efri deild þingsins? Mér finnst það merkilegt og það væri þá betra að eitthvað færi að sjást í þá stefnu.
    Hæstv. ráðherra leyfði sér að hafa uppi dylgjur og hálfkveðnar vísur um starfsmenn samgrn. Mér finnst afar ósmekklegt af hæstv. ráðherra að gera það með þeim hætti sem hann viðhafði hér. Auðvitað er það hans mál hvernig hann hagar samskiptum sínum við fólk sem er í starfi hjá honum en kannski er unnt að bregðast við því með öðrum hætti en dylgjum úr ræðustól á Alþingi.
    Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningum mínum varðandi starfsskilyrði og skattlagningu á ferðaþjónustuna. Það var eins og ég nefndi, aðalásteytingsefni hans og eina efnisatriðið í raun sem hann bar við þegar hann stöðvaði frv. í fyrra vetur og hafði uppi mörg orð um það að virðisaukaskatti bæri að létta af ferðaþjónustunni, sérstaklega byggingu gistirýmis í þágu ferðaþjónustu. Hvað líður þessu máli? Hvað hefur hæstv. ráðherra gert til þess að ná fram þeirri stefnu sinni sem hann skrifar í raun og veru Sjálfstfl. fyrir í ræðu sinni í fyrra? Um þetta vil ég spyrja og vænti svara frá hæstv. ráðherra.