Prentun EES-samningsins

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 13:43:00 (5950)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka forseta svörin en ég tel þau afar ófullnægjandi þó ég hafi skilning á því að forseti getur auðvitað ekki greint frá öðru en fyrir liggur. Það er undrunarefni ef ekki hefur verið rætt um það af hálfu utanrrh. við þingið hvernig búið yrði að umræðu og athugun á þessu máli og ég hefði líka talið að það væri eðlilegt þegar er rætt um að taka þetta mál til umræðu innan fárra daga að einnig af hálfu forustu þingsins væri uppi sjónarmið um það hvaða forsendur þurfi að vera til staðar til þess að hægt sé að taka slíkt mál til umræðu. Mér finnst ekki seinna vænna að fara að upplýsa þingflokka um það hvaða aðstaða þeim býðst umfram það sem venjubundið er hér í þinginu til þess að fara ofan í saumana á þessu máli.
    Ég vil einnig inna eftir því, af því ég var bara með tvö bindi af þessari próförk, varðandi samning um Evrópskt efnahagssvæði, hvað forseti geti greint okkur frá varðandi allt sem fylgja á þessu máli. Ég hygg að það séu ein tíu bindi til viðbótar í álíka broti. Síðurnar eru 20.000 eða þaðan af fleiri sem tengjast þessu máli og hljóta auðvitað að liggja fyrir áður en málið er tekið til umræðu á Alþingi. Hefur

þetta efni borist þinginu í hendur, þó ekki væri nema í einu eintaki, og hefur verið gengið úr skugga um að það liggi fyrir nú þegar og verði aðgengilegt með einhverjum fyrirvara áður en þessi samningur verður tekinn til umræðu hér á Alþingi? En mér er tjáð að í norska þinginu sé gert ráð fyrir að þetta verði 12 binda safn sem verði þinggögn sem varða þetta mál. Ég veit út af fyrir sig ekki hvort það er komið fram á öðrum þjóðþingum EFTA-ríkjanna, en þetta hlýtur að vera ein af undirstöðunum undir því að hægt sé að byrja umræðu um málið og því inni ég eftir þessu til viðbótar.