Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:39:10 (6307)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í umræðuna undir formi andsvars. Ég hef hins vegar ekki fylgst náið með umræðunni efnislega og ætla ekki að blanda mér í það í samhengi frumvarpsins heldur einvörðungu í sambandi við málnotkun.
    Mér hefur alllengi verið hugleikin spurningin um notkun orðsins maður og sem andheiti við konu og mér finnst vera alveg fáránleg málnotkun og er því miður að festast nokkuð í sessi.
    Það á að sjálfsögðu að nota karl og kona sem andheiti og maður sem samheiti yfir tegundina maður, en orðið manneskja er alveg hræðilegt orðskrípi samkvæmt minni máltilfinningu og ég vona að menn geti sameinast um að ýta frá í íslensku máli og nota sem allra minnst. Hins vegar er alveg greinilegt að ýmsir eru farnir að bera sér þetta orð í munn vegna þess að þeim finnst það eitthvað hlutlausara gagnvart konum en orðið maður og segja þá manneskja.
    Hins vegar er ekki innifalið í orðinu manneskja að það þurfi að vera kona frekar en karl út af fyrir sig heldur er það einhver útvötnun á heitinu yfir tegundina maður.
    Þetta er innlegg mitt inn í umræðuna. Ég vil bæta því við að mér finnst það að taka upp í mjög ríkum mæli kona í sambandi við starfsheiti þar hefur verið notað maður hefðbundið eiginlega heldur vandræðalegt. Ef menn ætla að festa slíkt í málinu á að nota andheitið karl og segja þingkarl og þingkona, en ekki þingmaður og þingkona. Það er tóm endileysa samkvæmt minni máltilfinningu.
    Ég ræddi þetta reyndar á einni hljóðvarpsstöðinni fyrir nokkrum mánuðum. Þá kallaði ég til sérfræðing frá Orðabók Háskólans til að ræða þetta efni sérstaklega og þróun notkunar orðsins maður í samhenginu karlmaður fyrr á tíð. Það var hið fróðlegasta mál sem þessi sérfræðingur í íslensku máli hjá Orðabókinni flutti. Vafalaust er sá texti til í fórum hans því að hann hafði undirbúið sig ágætlega. Hann benti vissulega á að notkun orðsins maður yfir karlmann liggur nokkuð langt til baka í íslensku máli. Það er því komin nokkur hefð á að nota það blandað yfir karl og hins vegar yfir tegundina.
    Þetta er rétt til upplýsingar um þennan hlut og ég vona að menn finni út úr þessari flækju og mér heyrist að það sé þörf á því að haga betur orðum í því frv. sem er til umræðu án þess að ég hafi gaumgætt það.