Varnir gegn hávaða- og hljóðmengun

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:21:00 (6475)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka svar hæstv. forsrh. við fsp. Mér var kunnugt um þær reglugerðir sem vitnað var til og sem settar hafa verið eftir að þessi ályktun var samþykkt. En það breytir ekki því að eftir sem áður er nauðsynlegt að taka á þessum málum með öðrum hætti en gert hefur verið hingað til, þ.e. víðtækari hætti. Auðvitað er það matsatriði hvort þörf sé á lagasetningu til þess að ná árangri, en það var viðhorf flm. tillögunnar og það fólst í ályktun Alþingis. Enn er mjög víða pottur brotinn í þessum málum og ég er ekki viss um að það sé lagastoð í öllum tilvikum fyrir því og umfram allt er þörf á að taka á málunum út frá heildarviðhorfi.
    Til greina kom að beina fsp. þessari til hæstv. umhvrh. því að eðlilegt er að mengun af völdum hávaða sé tengd því ráðuneyti, a.m.k. að hluta til, en við völdum þann kost að beina fsp. til forsrh.
    Ég vil vegna þessa máls vísa til mjög athyglisverðs leiðara eða ritstjórnargreinar sem birtist í DV 11. apríl sl. undir fyrirsögninni ,,Hávaðamengun``. Það væri freistandi að lesa upp úr þessum leiðara, en tími er naumur. Ég vil hins vegar vekja alveg sérstaka athygli á honum og leyfa mér að vitna til svofelldra orða sem þar má finna:
    ,,Fólk þarf að átta sig á að eðlilegt og upprunalegt ástand felst í þögn og ýmsum óhjákvæmilegum hljóðum, svo sem brimgný, goluþyt og lækjarnið, en að hinn áreitni og skipulegi hávaði úr útvarps- og hljómflutningstækjum er mengun á hinu eðlilega og upprunalega ástandi.``
    Einnig segir þar: ,,Í fyrirtækjum og stofnunum þar sem sumir starfsmenn og viðskiptamenn vilja áreitinn og skipulagðan hávaða ættu þeir að geta öðlast hann með hjálp slíkra tækja, þ.e. sérbúnað tækja fyrir einstaklinga og án þess að trufla hina. Fráleitt er að telja rétt hávaðafíkla meiri í samfélaginu en hinna`` o.s.frv.
    Höfundur þessarar greinar bendir einnig á þann hávaða sem menn fá í gegnum símtæki ef þeir þurfa að bíða eftir samtali og að það sé ekki sjálfgefið og eðlilegt að slíkt sé sett í eyra manna til truflunar. Mér finnst þetta athyglisverð viðhorf og ég vil hvetja hæstv. forsrh. að láta fara yfir þetta efni. Ég held að umhvrn. þurfi að koma að málinu og því var gagnlegt að fá það upplýst hér, sem hafði fram hjá mér farið, að það væri viðhorf stjórnvalda að ekki væri þörf á frekari aðgerðum en gerðar hafa verið með setningu reglugerða, a.m.k. ekki setningu sérstakrar löggjafar.