EES-samningurinn og fylgiefni hans

151. fundur
Þriðjudaginn 19. maí 1992, kl. 10:46:05 (7026)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér hafa verið lögð á borð þingmanna nokkur hefti, sjö talsins, sem tengjast samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þetta er hluti af því efni sem þingmönnum er ætlað að setja sig inn í á næstu vikum og mánuðum, en fylgiefnið, efni viðaukanna er ókomið að mestu leyti nema það yfirlit sem hér er um þá, þannig að þessi stafli á eftir að gildna og vaxa mikið frá því sem hér liggur fyrir, ef ég hef skilið málið rétt. Ég vil inna eftir því hvort við fáum yfirlit frá hæstv. utanrrh. um þetta verk í heild, þ.e. hvað er ókomið, hvenær það efni kemur í hendur þingmanna þannig að mönnum gefist færi á að skoða málið heildstætt. Þetta eru samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef um 10.000 blaðsíður með annarri uppsetningu en hér er í formi stjórnartíðinda Evrópubandalagsins í tvídálka formi og ef reiknað er með uppsetningu svipað og hér er þá yrðu þetta um 20.000 blaðsíður.
    Ég tel alveg nauðsynlegt að hæstv. utanrrh. veiti okkur fyrir þinglokin yfirlit yfir hvað það er sem á eftir að koma þannig að menn geti sett sig inn í efni þeirra þátta sem hér liggja fyrir með hliðsjón af því sem ókomið er. Þá á ég ekki við frumvörpin sérstaklega, þó að auðvitað þyrftum við að fá heitin á væntanlegum frumvörpum í heild sinni og yfirlit yfir þau, heldur það sem tengist samningnum sjálfum, bindandi þáttum hans og hliðsjónarefni, en viðaukarnir eru í þeirri uppsetningu, sem ég gat um, sagðir vera um 7.000 blaðsíður. Hliðsjónarefni er upp á 1.000 blaðsíður og 600 síður sem varða aðild nýrra ríkja á undanförnum árum til viðbótar við hin upphaflegu sex, þannig að þarna er mikið sem á vantar að menn hafi þetta efni.
    Þar fyrir utan, hæstv. forseti, held ég að það væri rétt að utanrrn. eða þingið, það þyrfti að vera Alþingi, því þetta eru þingmál þó ég hafi ekki á móti því að utanrrn. komi þar að --- útvegi þingmönnum einhverja umgjörð um þetta þannig að menn geti haft þetta með á ferðum sínum og notað þann tíma sem menn hljóta að þurfa til að fara yfir þetta efni. Ég spyr: Hvernig er mönnum ætlað að halda þessu saman? Og ekki væri úr vegi að menn gætu hlýtt á þetta á hljóðsnældum líka til þess að nota tímann, t.d. á ökuferðum, þannig að þetta yrði einnig sett á þannig form ef alþingismönnum á að vera kleift að setja sig inn í þetta efni á þeim vikum sem fram undan eru þangað til nýtt þing hefst og umfjöllun um þetta mál.