Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 51 . mál.


52. Frumvarp til laga



um lífeyrisréttindi hjóna.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Salome Þorkelsdóttir.



1. gr.


    Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa meðan á hjónabandi stóð, skulu teljast hjúskapareign þeirra. Við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skulu þau ellilífeyrisréttindi, sem áunnust meðan hjónabandið stóð, skiptast jafnt milli þeirra.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp sama efnis var lagt fram í efri deild á 112. og 113. þingi en náði ekki fram að ganga. Það er því endurflutt á grundvelli sömu forsendna.
    Eins og nú er háttað eru ellilífeyrisréttindi beinlínis tengd þeirri persónu sem aflað hefur tekna og greitt af þeim iðgjald enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjóna teljist hjúskapareign þeirra og henni sé skipt við slit hjúskapar. Eðlilegt er að litið sé á öflun ellilífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafa stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.
    Það verður að teljast réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun ellilífeyrisréttinda þeirra, þ.e. að ekki skiptir máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins.
    Samkvæmt lögum eru allir landsmenn, sem starfa úti á hinum almenna vinnumarkaði, skyldaðir til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði. Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi að þar myndast raunverulega mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Það er því sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á þennan rétt sem sameiginlegan rétt eins og aðrar eignir.