Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 97 . mál.


100. Tillaga til þingsályktunar



um auknar varnir gegn vímuefnum.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Karl Steinar Guðnason,


Gunnlaugur Stefánsson, Össur Skarphéðinsson,


Valgerður Gunnarsdóttir, Magnús Jónsson,


Sigurður E. Arnórsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér þegar í stað fyrir auknum samræmdum aðgerðum til að draga úr notkun vímuefna. Aðgerðirnar skulu m.a. hafa það að markmiði,
     að sami aðili fari með rannsókn fíkniefnamála á öllu landinu og honum verði tryggt fjárhagslegt sjálfstæði,
     að námsefni um vímuefnavarnir verði hluti skyldunáms í grunnskólum,
     að komið verði á fót forvarnasjóði er tryggi að samræmi sé milli þeirra verkefna sem verið er að vinna að,
     að gera með reglulegum hætti úttekt á fíkniefnavandanum með söfnun gagna og upplýsinga svo að auðveldara sé að gera sér grein fyrir umfangi vandans,
     að tryggja samræmi að því er varðar sérfræðilega aðhlynningu og umönnun fíkniefnaneytenda.
    Enn fremur ályktar Alþingi að skora á ríkisstjórnina að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni.

Greinargerð.


     Þegar kynnt var skýrslan „Ungir fíkniefnaneytendur, hvaðan koma þeir og hvert fara þeir?“ kom sú staðreynd illa við landsmenn að allt að 500 unglingar, 13 til 19 ára, væru djúpt sokknir í fíkniefnaneyslu og að ástandið hefði versnað mjög hin síðari ár. Áhugahópur sá, sem skýrsluna vann og landlæknir hafði forustu fyrir, benti á ýmsar leiðir til úrbóta. Má þar nefna aðstoð við heimili og fjölskyldur, stuðning við skólann og að nemendum verði auðveldað að hljóta starfsréttindi, eflingu rannsókna, kennslu í uppeldisfræðum, breytta skipan vímuvarnamála, sérstakan forvarnasjóð, stuðning við forvarnir og meðferð og að undirrita samning Sameinuðu þjóðanna gegn verslun með fíkniefni.
     Hér er á ferðinni mikill og bráður vandi og rík ástæða til að taka undir þessi sjónarmið.
    Framboð á fíkniefnum hér á landi er mismunandi mikið en afar mikilvægt er að halda því í skefjum. Það hefur margoft komið í ljós að þegar það tekst fækkar neytendum fíkniefna og færri nýir ungir neytendur bætast í hópinn. Því hefur verið haldið fram að mjög hafi þrengt að löggæslunni fjárhagslega undanfarin ár og að þurft hafi að setja verkefni í forgangsröð í fíkniefnarannsóknum, sem og annarri starfsemi lögreglunnar. Eftir að fíkniefnaviðskipti hafa orðið skipulagðari hin síðari ár hafa virkar aðhaldsaðgerðir lög- og tollgæslu haft mikil áhrif. Hér er lagt til að löggæsla í fíkniefnamálum hafi sjálfstæðan fjárhag og fari með rannsókn fíkniefnamála á landinu öllu. Samkvæmt reglugerð nr. 165, sem dómsmálaráðherra setti í apríl 1990, er hvert lögregluembætti ábyrgt fyrir málum á sínu svæði, en embætti lögreglustjórans í Reykjavík er gert að sinna beiðni um aðstoð frá öðrum embættum. Fjármagn til að framfylgja reglugerðinni hefur hins vegar verið af skornum skammti. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja þessum þýðingarmikla hluta löggæslunnar nægilegt sjálfstæði til að hún geti tekið nauðsynlegt frumkvæði varðandi þau verkefni sem henni eru ætluð. Fíkniefnadeild, sem hefur skyldur og ábyrgð gagnvart öllu landinu, á að vera annað og meira en einn partur af rannsóknardeild lögreglustjórans í Reykjavík.
     Varðandi fræðslu í skólum er hverjum skólastjóra í sjálfsvald sett hvort það námsefni, sem er á boðstólum, er notað. Í aðalnámsskrá grunnskóla 1989 er í fyrsta sinn fjallað um vímuefnavarnir og fá kennaranemar nokkurra klukkustunda umfjöllun um þær. Einnig er boðið upp á 25 stunda námskeið kennara, sbr. endurmenntunarnámskeið, til að kenna sérstakt námsefni sem heitir „Að ná tökum á tilverunni“ (Lions quest verkefni) og er það samstarfsverkefni Lions-hreyfingarinnar og menntamálaráðuneytisins. Lions-hreyfingin hefur lagt í mikinn kostnað við að þýða og staðfæra þetta verkefni sem er bandarískt að uppruna. Norðurlöndin munu öll vera að taka þetta verkefni inn í skólana sem námsefni og eru Svíar lengst komnir með það. Samstarfsverkefni nokkurra áhugahópa er að ná bæði til skóla, þannig að þeir taki upp kennslu, og til foreldra um að vímuvarnir hefjist heima. Margir óskyldir aðilar eru að fást við þessi mál, mismunandi námsefni er í boði og þar með er kröftunum dreift. Hér er gerð tillaga um að námsefni um vímuefnavarnir verði hluti af skyldunámi í grunnskólum.
     Í þeirri þingsályktun, sem hér er sett fram, er gerð tillaga um að koma á fót sérstökum forvarnasjóði þar sem samræming verkefna fari fram. Mikil ástæða er til að virkja það afl til forvarnastarfsemi sem felst í starfi frjálsra félaga. Hins vegar er ljóst að margir eru að vinna að sömu eða áþekkum verkefnum án þess að samráð eða samstarf eigi sér stað. Hugmyndin er að þeir sem að hinum ýmsu forvarnamálum vinna og sækja eftir stuðningi stjórnvalda sæki um fjárframlag til þessa sjóðs og er þá hægt að taka afstöðu til gildis verkefna eða jafnvel leggja til samvinnu á ákveðnum sviðum.
     Með reglulegri úttekt á stöðu fíkniefnamála, sem falin væri ákveðnum aðila, t.d. Félagsvísindastofnun, á að vera unnt að fá yfirsýn yfir umfang vandamálsins á hverjum tíma og mæta því með viðhlítandi aðgerðum.
     Meðferð fíkniefnaneytenda fer nú fram bæði á vegum ríkisins og frjálsra félagasamtaka og er því mikil ástæða til að samræma aðgerðir.
     Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á 113. löggjafarþingi kom fram að það væri ákvörðun þeirrar ríkisstjórnar að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og skynvilluefni sem 26 ríki eru orðin aðilar að, en það sé lagatæknilega flókið vegna lagabreytinga og nýmæla. Í aðild að samningnum felst skuldbinding um lagasetningu og aðrar framkvæmdir sem allar miða að auknum vörnum. Því er lagt til nú að samningurinn verði staðfestur.
     Tillaga þessi var flutt á 113. löggjafarþingi og er nú endurflutt með nokkrum breytingum. Henni fylgdu sem fylgiskjal skýrslur ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, yfirlit frá sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum um dómsafgreiðslur o.fl., svo og yfirlit frá lögreglustjóranum í Reykjavík um haldlögð fíkniefni á sl. árum. Vísast til þessa fylgiskjals í þskj. 668 á 113. löggjafarþingi 1990–91.