Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 116 . mál.


119. Frumvarp til laga



um breyting á þinglýsingalögum, nr. 39 10. maí 1978, sbr. lög nr. 85 1. júní 1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    3. gr. laganna orðist svo:
     Bera má úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögum þessum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Heimild til þess hefur hver sá sem á lögvarðra hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra. Úrlausnin skal borin undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana.
     Nú ber aðili úrlausn þinglýsingarstjóra undir dóm og skal þá skrá um það athugasemd í þinglýsingabók.
     Sá er bera vill úrlausn um þinglýsingu skv. 1. mgr. undir dóm skal afhenda þinglýsingarstjóra skriflega tilkynningu um það. Skal þar greina úrlausn þá sem borin er undir dóm, kröfu um breytingar á henni og rökstuðning fyrir kröfunni. Þinglýsingarstjóri skal afhenda hlutaðeigandi staðfest ljósrit gagna og endurrit úr þinglýsingabók svo fljótt sem við verður komið. Sá sem bera vill úrlausn þinglýsingarstjóra undir dóm skal án tafar afhenda héraðsdómara málsgögn. Heimilt er þinglýsingarstjóra að senda héraðsdómara athugasemdir sínar um málefnið. Héraðsdómari skal kveða upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem kostur er og ekki síðar en þremur vikum eftir að honum bárust málsgögn.
     Ef annar en þinglýsingarbeiðandi vill bera úrlausn um þinglýsingu undir dóm skv. 1. mgr. skal þinglýsingarstjóri tilkynna það þinglýsingarbeiðanda og eftir atvikum öðrum þeim er hagsmuni kunna að eiga og gefa þeim kost á að koma á framfæri skriflegum kröfum sínum og athugasemdum. Að því búnu tekur héraðsdómari málið til úrskurðar og kveður upp rökstuddan úrskurð innan frests þess sem greinir í 3. mgr. Ef héraðsdómari telur mál sérstaklega umfangsmikið getur hann ákveðið að fram fari munnlegur málflutningur um ágreiningsefnið áður en það er tekið til úrskurðar.
    Úrskurður héraðsdómara um úrlausn þinglýsingarstjóra sætir kæru til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum um kæru í einkamáli. Skal úrskurður kærður áður en tvær vikur eru liðnar frá uppsögn hans ef kærandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en tvær vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitnesku um úrskurðinn.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Samkvæmt lögum nr. 39 10. maí 1978 er þinglýsing dómsathöfn sem sýslumenn og bæjarfógetar, lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli og borgarfógetar í Reykjavík hafa með höndum sem þinglýsingardómarar. Verður úrlausn í þinglýsingarmáli samkvæmt þeim lögum kærð til Hæstaréttar samkvæmt meginreglum II. kafla laga nr. 75/1973. Mun þetta fyrirkomulag gilda til 1. júlí 1992, en þann dag öðlast gildi lög nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
     Er frumvarp til aðskilnaðarlaganna var lagt fram á Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988 fylgdi því frumvarp til breytinga á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, og varð það að lögum nr. 85/1989 sem gildi öðlast 1. júlí 1992.
     Í lögum nr. 85/1989 er kveðið á um að sýslumenn verði þinglýsingarstjórar hver í sínu umdæmi og fellur þá niður heitið þinglýsingardómari. Jafnframt kveða lög þessi á um breyttar reglur hvað varðar málskot úrlausna í þinglýsingarmálum, sbr. 4. gr. laganna. Er þar horfið frá því fyrirkomulagi gildandi laga að úrlausn í þinglýsingarmáli verði skotið til Hæstaréttar með kæru. Er í 4. gr. laga nr. 85/1989 kveðið á um það að úrlausn þinglýsingarstjóra við meðferð þinglýsingar sæti stjórnsýslukæru til dómsmálaráðuneytisins og segir í athugasemdum með frumvarpi til laganna að þetta sé í samræmi við þá breytingu að þinglýsing verður stjórnvaldsathöfn eftir 1. júlí 1992. Er við það miðað í lögum þessum að þinglýsingarbeiðandi eigi tveggja kosta völ ef hann vill ekki sætta sig við úrlausn þinglýsingarstjóra. Annar kosturinn er sá að kæra úrlausnina til dómsmálaráðuneytisins. Hinn kosturinn er að höfða mál fyrir héraðsdómi til ógildingar úrlausninni og er þá hægt að höfða mál strax eða að fengnum úrskurði dómsmálaráðuneytisins.
     Reglur um málskot úrlausna í þinglýsingarmálum í löndum þeim, er búa við líkastar þinglýsingarreglur og þær íslensku, eru misjafnar. Í dönskum rétti er þinglýsing dómsathöfn sem undirréttur hefur með höndum og verður úrlausnum undirréttar skotið til landsréttar með kæru. Þinglýsingardómari getur kært úrlausn landsréttar til Hæstaréttar hafi landsréttur breytt ákvörðun þinglýsingardómara. Í Noregi fara héraðs- og bæjarþingsdómarar með þinglýsingu skjala, en þar er þinglýsing eigi að síður stjórnsýsluathöfn. Úrlausn í þinglýsingarmáli var áður skotið til dómsmálaráðuneytisins með stjórnsýslukæru, en með lögum nr. 47/1990 var sú breyting gerð á málskotsreglunum að stjórnsýsluúrlausn dómara í þinglýsingarmáli verður eftir gildistöku laga þessara skotið til lögmannsréttar í umdæmi þinglýsingardómara. Í Svíþjóð annast sérstakir dómarar þinglýsingar (inskrivningsdomare) og verður úrlausnum þeirra í þinglýsingarmáli skotið til „hovrätten“ með kæru.
     Reglur þær um málskot úrlausna í þinglýsingarmálum, er gilda munu samkvæmt lögum nr. 85/1989 eftir 1. júlí 1992 ef þau lög öðlast óbreytt gildi, þykja ekki alls kostar heppilegar. Í fyrsta lagi þykir fyrirkomulagið óþarflega margbrotið, þ.e. að bæði sé hægt að skjóta málinu til úrskurðar dómsmálaráðuneytisins og höfða mál til ógildingar úrlausninni. Í öðru lagi er sýnt að það getur reynst mjög tímafrekt að fá endanlega úrlausn um þinglýsingarágreining ef allra þeirra leiða er leitað sem lög nr. 85/1989 koma til með að heimila. Er í því sambandi rétt að hafa í huga að það mun leiða af lögum nr. 85/1989 að dómur héraðsdóms í máli til ógildingar úrlausn þinglýsingarstjóra verður borinn undir Hæstarétt með áfrýjun en ekki kæru.
     Með frumvarpi þessu er stefnt að því að einfalda reglur þær um málskot úrlausna í þinglýsingarmálum sem gilda munu eftir 1. júlí 1992 samkvæmt lögum nr. 85/1989, en að öðru leyti er í frumvarpi þessu ekki hróflað við ákvæðum þeirra laga. Felst meginefni frumvarpsins í því að úrlausn þinglýsingarstjóra í þinglýsingarmáli samkvæmt lögunum verður borin undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra, en úrskurði héraðsdómara verði skotið til Hæstaréttar með kæru samkvæmt almennum reglum um kæru úrlausna í einkamálum. Þykir fyrirkomulag þetta einfaldara í sniðum og skjótvirkara en fyrirkomulag laga nr. 85/1989, en þýðingarmikið er að úrlausn fáist skjótt í málum sem varða þinglýsingarágreining. Þá þykir heppilegra að fela dómstólum úrlausnarvald um slíkan ágreining fremur en stjórnvöldum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að úrslaun þinglýsingarstjóra í þinglýsingarmáli verði borin undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Er með þessu horfið frá því fyrirkomulagi laga nr. 85/1989 að unnt sé að kæra úrlausnina til dómsmálaráðuneytisins með stjórnsýslukæru. Svipar þessu fyrirkomulagi því um margt til reglna 14. kafla aðfararlaga, nr. 90/1989, varðandi úrlausn ágreinings sem rís við framkvæmd aðfarar.
     Í 1. mgr. er það orðað svo að úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögunum verði borin undir héraðsdómara. Með úrlausn er ekki einungis átt við ákvörðun þinglýsingarstjóra um að þinglýsa skjali eða synjun hans um að taka skjal til þinglýsingar, heldur meðferð hans á öðrum efnum, eins og t.d. skráning hans á skjali í þinglýsingabók, aflýsing, afmáning hafta, leiðrétting á bókunum, athugasemdir sem hann skráir á skjöl o.s.frv. Er lagt til grundvallar að hugtakið úrlausn hafi hér sömu merkingu og í 3. gr. laga nr. 39/1978. Þá byggir frumvarp þetta á þeirri forsendu að eftir þessari leið, þ.e. að leitað sé úrskurðar héraðsdómara og kæru úrskurðar hans til Hæstaréttar, verði ekki skorið úr um efnisatvik að baki skjali, svo sem um eignarréttindi og eignarhöft. Munu því, ef frumvarp þetta verður að lögum, sömu reglur gilda í þeim efnum og gilt hafa samkvæmt lögum nr. 39/1978. Úr ágreiningi um efnisleg réttindi verður því skorið í almennu einkamáli svo sem verið hefur, en ekki eftir þessari leið.
     Í 1. mgr. kemur fram að hver sá, sem á lögvarðra hagsmuna að gæta af ákvörðun þinglýsingarstjóra, njóti heimildar til að leita úrlausnar héraðsdómara. Það eru ekki einungis þinglýsingarbeiðendur sem geta átt hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra, heldur og ýmsir aðrir. Verða dómstólar að meta það hverju sinni sem á reynir hvort hlutaðeigendur eigi lögvarðra hagsmuna að gæta.
     Samkvæmt 1. mgr. skal úrlausn þinglýsingarstjóra borin undir héraðsdómara áður en liðnar eru fjórar vikur frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana. Fresturinn er samkvæmt þessu hinn sami og í lögum nr. 39/1978, en reglur um upphaf frestsins eru orðaðar með öðrum hætti en gert er í þeim lögum. Eru reglur um upphaf kærufrests í þinglýsingarmálum færðar til samræmis við reglu þá sem nú kemur fram í 22. gr. laga nr. 75/1973, um Hæstarétt Íslands, og eiga þær reglur við hvort heldur úrlausn þinglýsingarstjóra er borin undir héraðsdómara eða kærður er úrskurður héraðsdómara til Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
     Ekki er í frumvarpinu mælt fyrir um sérstakan upphafstíma frests gagnvart þriðja manni sem bera vill úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara. Munu því, ef frumvarp þetta verður að lögum, gilda sömu reglur um upphafstíma frests gagnvart þriðja manni og gagnvart þinglýsingarbeiðanda. Ber gagnvart þriðja manni að miða við það tímamark er þinglýsingarbeiðandi fékk vitneskju um úrlausnina. Komi krafa þriðja manns um úrlausn héraðsdómara fram eftir að frestur þinglýsingarbeiðanda er liðinn ber að vísa málinu frá. Þykir ekki heppilegt að þriðji maður hafi lengri frest en þinglýsingarbeiðandi hefur. Er í þessu sambandi rétt að hafa í huga að þriðji maður getur í slíkum tilvikum, þ.e. eftir að frestur er liðinn, fengið leiðréttingu sinna mála á grundvelli dóms í almennu einkamáli svo sem verið hefur.
     Ákvæði 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er sama efnis og 2. mgr. 3. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.
     Í 3. mgr. er mælt fyrir um það hvernig staðið skuli að því að bera úrlausn undir héraðsdómara. Ber hlutaðeigandi að afhenda þinglýsingarstjóra skriflega tilkynningu og greina þar úrlausnina, kröfu um breytingu á henni og röksemdir sínar. Eftir það útbýr þinglýsingarstjóri málsgögn sem hlutaðeigandi afhendir héraðsdómara. Skal héraðsdómari kveða upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem kostur er og ekki síðar en þremur vikum eftir að honum bárust málsgögn.
     Ef frumvarp þetta verður að lögum verða það án efa tíðast þinglýsingarbeiðendur sem bera vilja úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu undir héraðsdómara. Er það í samræmi við þá reynslu sem fengist hefur af lögum nr. 39/1978, en í gildistíð þeirra laga hafa það oftast verið þinglýsingarbeiðendur sem borið hafa úrlausn þinglýsingardómara undir Hæstarétt. Það er hins vegar ekki útilokað að aðrir en þinglýsingarbeiðendur vilji bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdóm og er mælt fyrir um það tilvik í 4. mgr. frumvarpsgreinarinnar. Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. skal þinglýsingarstjóri senda þinglýsingarbeiðanda og eftir atvikum öðrum þeim, er hagsmuni kunna eiga, tilkynningu um slíka kröfu. Skal þeim jafnframt gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegum kröfum sínum og athugasemdum innan hæfilegs frests, en að því búnu tekur héraðsdómari málið til úrskurðar og kveður upp rökstuddan úrskurð innan frests þess sem greinir í 3. mgr. Þá segir í niðurlagi 4. mgr. 1. gr. að telji héraðsdómari mál sérstaklega umfangsmikið geti hann ákveðið að fram fari munnlegur málflutningur um ágreiningsefnið.
     Samkvæmt 5. mgr. verður úrskurði héraðsdómara um úrlausn þinglýsingarstjóra skotið til Hæstaréttar með kæru samkvæmt almennum reglum um kæru í einkamáli. Gilda nú um slíkar kærur meginreglur II. kafla laga nr. 75/1973. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 39/1978 er kærufrestur í þinglýsingarmálum lengri en hinn almenni kærufrestur skv. 22. gr. laga nr. 75/1973, þ.e. fjórar vikur í stað tveggja. Er í frumvarpi þessu lagt til að frestur til að kæra úrskurð héraðsdómara til Hæstaréttar verði jafnlangur og hinn almenni kærufrestur, þ.e. tvær vikur, enda verða í ljósi 1. gr. frumvarpsins í heild ekki séð rök þess að frestur til þess að kæra úrskurð héraðsdómara um úrlausn þinglýsingarstjóra þurfi að vera lengri en almennur frestur til að kæra úrlausnir héraðsdómara til Hæstaréttar.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí 1992, en það er sami dagur og lög nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, öðlast gildi. Á það skal minnt sem fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan að frumvarp þetta, ef að lögum verður, kemur ekki til með að hrófla við öðrum ákvæðum laga nr. 85/1989 en þeim sem varða dómsmeðferð ágreinings um úrlausn þinglýsingarstjóra.