Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 209 . mál.


255. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



1. gr.


    1. tölul. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, orðast svo: Heilsuverndarstarf í Reykjavík samkvæmt lögum nr. 44/1955 skal haldast óbreytt til ársloka 1992 en þá skulu heilsugæslustöðvar hafa verið skipulagðar til þess að annast það. Sérstök þriggja manna stjórn, skipuð af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, skal í umboði hans annast rekstur Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og vinna að endanlegri gerð áætlunar um framtíðarhlutverk stöðvarinnar. Í stjórninni skulu eiga sæti einn fulltrúi ráðherra, sem skal vera formaður, einn skipaður samkvæmt tilnefningu Reykjavíkurborgar og einn samkvæmt tilnefningu tryggingaráðs. Áætlunin skal koma til framkvæmda frá og með 1. janúar 1993. Frá þeim tíma falla heilsuverndarlög, nr. 44/1955, sbr. lög nr. 28/1957, úr gildi.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, er reiknað með að frá og með næstu áramótum verði heilsugæslustarfi þannig háttað í Reykjavík og starfsemi Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur einnig að lög nr. 44/1955, heilsuverndarlög, með breytingu nr. 28/1957, verði óþörf og falli því úr gildi. Sérstök stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, sem starfar samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæði og á auk þess að annast rekstur stöðvarinnar að gera tillögur um framtíðarhlutverk hennar, hefur skilað tillögum sem unnar voru í samráði við héraðslækni og stjórnir heilsugæslustöðvanna í Reykjavík eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu. Þar sem nokkurn tíma tekur að koma þeim í endanlega gerð og til framkvæmda er nauðsynlegt að gefa stjórnendum tíma til þess að koma þeim í framkvæmd. Þess vegna er lagt til að veittur verði eins árs frestur til viðbótar því sem upphaflega var ákveðið í lögunum.