Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 217 . mál.


298. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við gerð verðlagsgrundvallar skulu beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda teljast til tekna og koma til lækkunar á afurðaverði þeirra afurða sem beinar greiðslur taka til.

2. gr.


    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verði 2. mgr., svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðlagsnefnd heimilt að víkja frá því að gera ársfjórðungslega breytingu á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda, að hluta eða öllu leyti. Þrátt fyrir ákvæði 8.–10. gr. er verðlagsnefnd heimilt við ákvörðun á nýjum verðlagsgrundvelli að semja um tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur á gildistíma grundvallarins. Verðlagsnefnd er heimilt við ákvörðun og breytingar á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda að víkja frá ákvæðum 8.–10. gr. og 1. mgr. 12. gr. og breyta einstökum liðum og verðum einstakra afurða, enda sé um það fullt samkomulag innan nefndarinnar. Jafnframt er nefndinni heimilt að ákveða slíkar verðbreytingar og gildistíma þeirra óháð ákvæðum 10. gr. og 1. mgr. 12. gr.

3. gr.


    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verði 3. mgr., svohljóðandi:
     Fimmmannanefnd er, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., heimilt í samkomulagi um heildsöluverð að gera tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur til afurðastöðva, enda sé það samhljóða ákvörðun nefndarinnar.

4. gr.


    Við 29. gr. laganna bætist þrjár nýjar málsgreinar sem orðist svo:
     Á meðan ákvæði IX. kafla um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda sauðfjárafurða eru í gildi eða ef samið hefur verið um slíkar greiðslur til framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða samkvæmt heimild í a-lið 30. gr. gilda ákvæði þessarar greinar um greiðslur afurðastöðvar fyrir innlagðar afurðir allt að efri mörkum greiðslumarks lögbýlis. Sama gildir um slátur, gærur og ull vegna þeirrar framleiðslu.
     Áður en afurðastöð kaupir eða tekur til sölumeðferðar sauðfjárafurðir umfram efri mörk greiðslumarks framleiðanda skal gert sérstakt samkomulag milli afurðastöðvar og framleiðanda um slátrun, afurðaverð og greiðslu þess, eftir því sem við á. Samsvarandi magn afurða skal markaðsfært erlendis á ábyrgð viðkomandi aðila. Þó getur Framleiðsluráð landbúnaðarins heimilað sölu þeirra innan lands ef framleiðsla verður minni en sala.
     Hafi verið tekin ákvörðun um verðskerðingu vegna birgðasöfnunar í lok verðlagsárs skv. 44. gr. er afurðastöð skylt að halda henni eftir við uppgjör til framleiðenda á næsta verðlagsári og standa Framleiðsluráði landbúnaðarins skil á hinu innheimta verðskerðingarfé.

5. gr.


    Við a-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist:
     Á sama hátt er landbúnaðarráðherra heimilt í stað ofannefndra samninga að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða á lögbýlum.

6. gr.


    Á eftir VIII. kafla laganna komi nýr kafli, sem verði IX. kafli, með fyrirsögninni Um aðlögun og stjórn framleiðslu sauðfjárafurða 1991–1998, og orðist svo:

    a. (39. gr.)
     Frá 1. maí 1991 til 31. ágúst 1992 skal laga framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði með því að ríkissjóði er heimilt að greiða fyrir fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða allt að 3.700 tonnum og greiða förgunarbætur vegna fækkunar áa eftir nánari ákvörðun í reglugerð.
     Framleiðendur sauðfjárafurða á lögbýlum geta fram til 31. ágúst 1992 haft aðilaskipti að fullvirðisrétti, enda séu uppfyllt skilyrði þau sem ráðherra setur í reglugerð. Ríkissjóði er við slík aðilaskipti heimilt samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra að fella niður allt að 20% fullvirðisréttarins gegn greiðslu eftir nánari ákvörðun í reglugerð.
     Eigendum lögbýla er heimilt að leggja fullvirðisrétt/greiðslumark lögbýlisins inn til geymslu til 31. ágúst 1998 án þess að það veiti hlutdeild í heildargreiðslumarki á tímabilinu og greiðir ríkissjóður þá förgunarbætur vegna fækkunar áa.
     Fullvirðisréttur utan lögbýla, sem ekki hefur verið boðinn ríkissjóði skv. 1. mgr. fyrir 1. september 1992, skal falla niður.
     Takist ekki eftir ofangreindum leiðum að laga fullvirðisréttinn að innanlandsmarkaði skal færa fullvirðisrétt miðað við 31. ágúst 1992 niður um það sem á vantar og komi greiðsla fyrir eftir nánari ákvörðun í reglugerð. Við lok aðlögunar fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði skal miða við að hann verði í samræmi við heildargreiðslumark verðlagsársins 1993/1994, sbr. þó 1. mgr. Landbúnaðarráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða að niðurfærsla skuli vera mismunandi eftir landsvæðum. Jafnframt er heimilt að undanþiggja einstaka framleiðendur niðurfærslu að því marki sem þegar gerðir samningar við ríkissjóð kveða á um.
     Áður en greiðslur ríkissjóðs fyrir fullvirðisrétt og förgun bústofns verða inntar af hendi skal liggja fyrir staðfesting þess að ám hafi verið fargað og að ásetningur haustin 1991 og 1992 verði í samræmi við umsamda fækkun og niðurfærslu.

    b. (40. gr.)
     Heildargreiðslumark sauðfjárafurða er tiltekið magn kindakjöts, reiknað í tonnum, sem beinar greiðslur ríkissjóðs miðast við. Heildargreiðslumark skiptist í greiðslumark lögbýla. Það skal endanlega ákveðið fyrir 15. september ár hvert vegna framleiðslu næsta verðlagsárs, en verður 8.600 tonn verðlagsárið 1992–1993.
     Við ákvörðun heildargreiðslumarks skal byggt á neyslu síðasta almanaksárs og söluþróun fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs. Heimilt er einnig að taka tillit til líklegrar neysluþróunar á komandi ári. Þá skal tekið tillit til birgða 1. september þannig að þær samsvari þriggja vikna sölu innan lands. Til neyslu telst öll sala kindakjöts frá afurðastöð á innlendum markaði, svo og það kindakjöt sem framleiðendur taka úr sláturhúsi.


     Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, ákveða heildargreiðslumark fyrir hvert verðlagsár og setja í reglugerð nánari ákvæði um skiptingu í greiðslumark lögbýla.

    c. (41. gr.)
     Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beinna greiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega.
     Greiðslumark hvers lögbýlis fyrir verðlagsárið 1992–1993 skal vera í hlutfalli við fullvirðisrétt þess eins og hann er að loknum 1. hluta aðlögunar fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði að teknu tilliti til aðilaskipta að fullvirðisrétti fram til 31. ágúst 1992.
     Greiðslumark hvers lögbýlis verðlagsárið 1993–1994 skal vera í hlutfalli við fullvirðisrétt þess að lokinni aðlögun að innanlandsmarkaði 31. ágúst 1992 að teknu tilliti til aðilaskipta að fullvirðisrétti.
     Við ákvörðun greiðslumarks ofannefndra verðlagsára er heimilt að taka tillit til fullvirðisréttar sem bundinn er í samningum og heimtekins kjöts haustin 1990 og 1991.
     Greiðslumark þaðan í frá breytist í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki.
     Fari framleiðsla á lögbýlinu umfram efri mörk greiðslumarks þess, án sérstaks samkomulags við afurðastöð, skal það sem umfram er og ekki rúmast innan heildargreiðslumarks koma til lækkunar á greiðslumarki þess á næsta verðlagsári. Þá er heimilt að skerða greiðslumarkið um allt að 0,5 kg fyrir hvert framleitt kílógramm umfram efri mörk.

    d. (42. gr.)
     Frá 1. september 1992 eru heimil aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla, enda séu uppfyllt skilyrði þau sem ráðherra setur í reglugerð. Slík aðilaskipti taka ekki gildi fyrr en staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggur fyrir. Sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi þess þarf samþykki beggja fyrir aðilaskiptum að greiðslumarki frá lögbýli.
     Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýlið og skal það skráð sérstaklega á nafn hans. Nú vill leiguliði selja slíkt greiðslumark og skal jarðareigandi eiga forkaupsrétt að greiðslumarkinu. Tilkynna skal jarðareiganda um fyrirhugaða sölu, verð og greiðsluskilmála og hann skal hafa sagt til um það innan 30 daga frá því tilkynning barst honum hvort hann ætlar að neyta forkaupsréttar.
     Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um aðilaskipti með greiðslumark og skráningu þess. Ef hætta skapast á að tilfærsla á greiðslumarki gangi gegn æskilegum landnýtingarsjónarmiðum er landbúnaðarráðherra heimilt að takmarka eða stöðva slík aðilaskipti að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið. Sama gildir ef fyrir liggur rökstutt álit Landgræðslu ríkisins um að hin fyrirhuguðu aðilaskipti fari í bága við gróðurverndarsjónarmið.

    e. (43. gr.)
     Bein greiðsla er framlag úr ríkissjóði til framleiðanda sauðfjárafurða og skal svara til 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts. Það greiðist samkvæmt greiðslumarki hvers lögbýlis.
     Beinar greiðslur skulu greiðast mánaðarlega á tímabilinu frá mars til desember fyrir það verðlagsár sem hefst 1. september það ár, í fyrsta sinn í mars 1992. Fullnaðargreiðsla skal innt af hendi eigi síðar en 15. desember. Heimilt er að binda beinar greiðslur við tiltekinn ásetning sauðfjár á lögbýlinu.
     Beinar greiðslur breytast ekki þegar framleiðsla á lögbýlinu er 80–105% af greiðslumarki þess verðlagsárið 1992–1993. Fráviksmörk þessi, þ.e. efri og neðri mörk greiðslumarks, skulu endurskoðuð árlega með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Nái framleiðsla ekki tilskildu hlutfalli greiðslumarks skerðast beinar greiðslur ársins hlutfallslega frá því marki sem sett er hverju sinni. Heimilt er að telja sölu líffjár til framleiðslu. Heimilt er að skerða eða fella niður beinar greiðslur ef framleiðandi hefur gerst sekur um ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé.
     Landbúnaðarráðherra skal að fengnum tillögum Framleiðsluráðs setja nánari reglur um beinar greiðslur, m.a. um framkvæmd þeirra, viðmiðun við framleiðslukostnað og gæðaflokkun, hlutfall nýtingar til að fá fulla beina greiðslu og greiðslutilhögun.

    f. (44. gr.)
     Framleiðsla innan heildargreiðslumarks skal notuð til að fullnægja þörfum innlenda markaðarins. Verði birgðir kindakjöts í lok verðlagsárs umfram þriggja vikna sölu skulu þær markaðsfærðar innan lands eða utan með markaðsstuðningi sem kostaður skal með innheimtu verðskerðingar hjá framleiðendum kindakjöts við slátrun og innlegg á því verðlagsári sem birgðirnar verða markaðsfærðar. Verðskerðing þessi má vera allt að 5% af afurðaverði kindakjöts til framleiðenda eftir nánari ákvörðun landbúnaðarráðherra í reglugerð sem hann setur að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, en það ákveður, að höfðu samráði við samtök sauðfjárframleiðenda og afurðastöðva, hvernig birgðunum skuli ráðstafað og er afurðastöðvum, framleiðendum og öðrum sem kunna að eiga umrætt kjöt skylt að lúta ákvörðun Framleiðsluráðs. Ákvæði 24., 26. og 27. gr. gilda um innheimtu verðskerðingar.
     Þá er heimilt með samkomulagi landbúnaðarráðherra og Stéttarsambands bænda að ákveða sérstaka lækkun á heildargreiðslumarki næsta verðlagsárs til að koma birgðastöðu í jafnvægi á allt að tveimur árum. Fjármunum, sem sparast vegna þessa, skal varið til söluátaks á birgðunum innan lands.
     Ríkissjóður ábyrgist að birgðir 1. september 1992 verði ekki umfram áætlaða þriggja vikna neyslu, þ.e. 500 tonn, og mun bera kostnað af markaðsfærslu á birgðum umfram þau mörk.

    g. (45. gr.)
     Ágreiningi um ákvörðun á greiðslumarki lögbýlis, skráningu á greiðslumarki, rétt til beinna greiðslna og framkvæmd verðskerðingar samkvæmt þessum kafla og reglugerðum þar um er heimilt að skjóta til þriggja manna úrskurðarnefndar sem landbúnaðarráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Skal einn tilnefndur af Stéttarsambandi bænda, einn án tilnefningar og einn samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Ráðherra skipar einn úr þeirra hópi formann nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úrskurði nefndarinnar verður ekki skotið til ráðherra.

    h. (46. gr.)
     Allir þeir, sem hafa fullvirðisrétt til ráðstöfunar eða hagnýtingar eða hafa með höndum framleiðslu sauðfjárafurða, eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.

     Með hugtakinu fullvirðisréttur í lögum þessum er átt við rétt í sérstakri fullvirðisréttarskrá Framleiðsluráðs landbúnaðarins, sbr. reglugerð nr. 313/1991, með síðari breytingum.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðlögun og stjórn framleiðslu sauðfjárafurða og störf og málsmeðferð úrskurðarnefndar skv. 45. gr.

7. gr.


    IX. kafli laganna (Um vinnslu og sölu búvara) verður X. kafli og X. kafli verður XI. kafli. Töluröð greina í lögunum breytist í samræmi við framantaldar breytingar, svo og tilvitnanir í þær greinar.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 20., 21., 36.–38. gr. laga nr. 46 27. júní 1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, falla úr gildi frá 1. september 1992. Ákvæði laga þessara um greiðslumark og beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda sauðfjárafurða á lögbýlum falla úr gildi 31. ágúst 1998, nema samningur hafi verið gerður á grundvelli a-liðar 30. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Á eftir staflið H í ákvæðum til bráðabirgða kemur nýr stafliður, I, svohljóðandi:

I.


     Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal bera kostnað við sölu á kindakjöti sem fellur
til haustið 1992 vegna ákvæða reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur skv. 5. mgr. 39. gr. um mismunandi niðurfærslu eftir landsvæðum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Frumvarp þetta er samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra. Hefur verið unnið að gerð þess í landbúnaðarráðuneytinu og haft samráð við Stéttarsamband bænda, en tilgangur frumvarpsins er einkum sá að gera nauðsynlegar lagabreytingar í framhaldi af svokölluðum „búvörusamningi“ sem undirritaður var af landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og samninganefnd Stéttarsambands bænda 11. mars 1991. Samningur þessi ber heitið „Stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt“ og fjallar um framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða á tímabilinu frá 1. september 1992 til 31. ágúst 1998. Með samningnum eru tveir viðaukar, annars vegar viðauki 1 um aðlögun fullvirðisréttar í sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði fram til 31. ágúst 1992 og hins vegar viðauki 2 um ýmsar stuðningsaðgerðir til að mæta áhrifum samningsins. Þá fylgja samningnum 12 bókanir um ýmis málefni sem tengjast samningnum. Um efni samningsins vísast til fskj. I með frumvarpi þessu.
     Samningurinn tekur við að loknum gildistíma núverandi búvörusamnings 31. ágúst 1992. Umræður um gerð þessa samnings hófust fyrri hluta árs 1989 og í ágústmánuði það ár lögðu landbúnaðarráðherra og Stéttarsamband bænda fram hugmyndir um útlínur slíks samkomulags. Þá komu af hálfu beggja aðila fram hugmyndir um markaðstengdan samning til allt að 6 ára. Síðari hluta árs 1989 og framan af ári 1990 héldu viðræður áfram og unnið var að ýmiss konar gagnaöflun. Á aðalfundi Stéttarsambands bænda árið 1990 voru lögð fram sameiginleg efnisatriði til umræðu um grundvöll búvöruframleiðslunnar eftir 1. september 1992.
     Í tengslum við febrúarsamningana svonefndu 1990 varð samkomulag um skipan nefndar, sjömannanefndarinnar svonefndu, sem hefði það hlutverk að „setja fram tillögur um stefnumörkun er miði að því að innlend búvöruframleiðsla verði hagkvæmari og kostnaður lækki á öllum stigum framleiðslunnar, í búrekstri bóndans, á vinnslu- og heildsölustigi og í smásöluverslun“. Nefndin var skipuð fulltrúum frá landbúnaðarráðuneytinu, ASÍ, BSRB, Vinnuveitendasambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Stéttarsambandi bænda.
     Í september 1990 var samkomulag um að viðræðum þeim, sem í gangi höfðu verið milli landbúnaðarráðuneytis og Stéttarsambands bænda um nýja stefnumörkun, yrði slegið á frest þar til sjömannanefndin hefði lokið störfum. Áfangaskýrsla sjömannanefndar um framleiðslu sauðfjárafurða var afhent landbúnaðarráðherra 14. febrúar 1991, sbr. fskj. II, en hún lýsir þeim gögnum og hugmyndum sem liggja til grundvallar umræddri stefnumörkun í sauðfjárræktinni. Í kaflanum „Tillögur til úrbóta“ koma fram fyrstu hugmyndir um aðgerðir. Þann 20. febrúar óskaði stjórn Stéttarsambands bænda eftir áframhaldandi viðræðum um búvörusamning sem byggðar yrðu á hugmyndum sjömannanefndar með þeim viðaukum sem nauðsynlegir væru. Þær viðræður leiddu til ofannefnds samnings. Af hálfu Stéttarsambands bænda var hann undirritaður með fyrirvara um samþykki fulltrúafundar, en þar var hann samþykktur 14. mars 1991. Af hálfu landbúnaðarráðherra var samningurinn undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar. Alþingi hefur samþykkt viðauka 1 með 38. gr. lánsfjárlaga fyrir árið 1991, nr. 26/1991. Viðauki 2 er háður samþykkt fjárlaga hverju sinni en að öðru leyti er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar lagabreytingar til framkvæmdar á þeim samningi með frumvarpi þessu.
     Ákveðið hefur verið að taka búvörulögin til heildarendurskoðunar og mun landbúnaðarráðherra skipa nefnd til þess verkefnis. Nefndin mun gera tillögu um frumvarp til nýrra búvörulaga og er stefnt að því að frumvarp þar um verði lagt fyrir Alþingi haustið 1992. Landbúnaðarráðherra hefur óskað eftir því við svokallaða sjömannanefnd að hún haldi áfram störfum og skili lokaskýrslu sem fyrst sem höfð yrði til hliðsjónar við endurskoðun búvörulaga.
     Helstu breytingar, sem felast í nýrri stefnumörkun í landbúnaði, eru einkum:

Útflutningsbætur eru felldar niður.


    Ein stærsta breytingin er sú að stuðningi ríkissjóðs við útflutning landbúnaðarafurða verður hætt frá og með 1. september 1992 vegna afurða sem framleiddar verða eftir þann tíma. Útflutningsuppbætur gátu orðið að hámarki jafngildi 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar en með búvörulögunum voru þær lækkaðar á síðari hluta tímabilsins í 5% en 4% runnu til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til stuðningsaðgerða vegna samdráttar í hefðbundnum búskap. Vegna þessa er lagt til í 8. gr. frumvarpsins að 36. og 38. gr. falli brott 1. september 1992.

Verðábyrgð ríkissjóðs er felld niður.


    Verðábyrgð ríkissjóðs á umsömdu ákveðnu magni sauðfjárafurða er numin úr gildi og felur það í sér mikla stefnubreytingu í landbúnaði. Framleiðslan verður eftir 1. september 1992 á ábyrgð framleiðenda og afurðastöðva og hefur það í för með sér að bændur verða að meta sína stöðu í nýju ljósi hvað varðar verðlagningu á framleiðslunni og sölu afurðanna þar sem ríkissjóður ber ekki lengur ábyrgð á umsömdu magni.

Beinar greiðslur til bænda koma í stað niðurgreiðslna.


    Í stað niðurgreiðslna á heildsölustigi koma nú beinar greiðslur til bænda. Núverandi fyrirkomulag á niðurgreiðslum á verði kindakjöts fellur niður frá og með kjöti af haustslátrun 1992. Hins vegar er hvorki gert ráð fyrir að þessi breyting hafi áhrif á sérstakar niðurgreiðslur fjármálaráðuneytis á hluta virðisaukaskatts né gildandi reglur um niðurgreiðslu til ullariðnaðarins á vegum viðskiptaráðuneytisins. Beinar greiðslur verða inntar af hendi mánaðarlega, í fyrsta skipti í mars 1992.
     Beinar greiðslur til bænda greiðast út á greiðslumark sem ákveðið verður árlega og byggist á innanlandsneyslu kindakjöts. Bændur, sem hafa haft fullvirðisrétt í núverandi kerfi, fá hlutfallslegan rétt miðað við innanlandsneyslu. Réttur þeirra til beinna greiðslna nefnist greiðslumark og er mælt í kjötmagni. Heildargreiðslumark hækkar eða lækkar í takt við breytingar á innanlandsneyslu kindakjöts eftir vissum reglum. Meginatriðið er að heildargreiðslumark er tengt innanlandsmarkaði. Verði framleiðsla kindakjöts eitthvert ár umfram sölu, þannig að birgðir aukast, kemur mismunur til lækkunar heildargreiðslumarki næsta árs og öfugt. Bændum verða heimiluð aðilaskipti að greiðslumarki sem ætti að stuðla að hagræðingu í greininni og auðvelda búháttabreytingar. Með þessu fyrirkomulagi greiða sláturleyfishafar fullt afurðaverð fyrir kindakjötið þar sem beinar greiðslur koma til lækkunar á afurðaverði kindakjöts til framleiðenda. Afurðaverð kindakjöts til framleiðenda verður því eftir þessar breytingar þeim mun lægra sem beinum greiðslum nemur en þeim er ætlað að svara til 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts. Afurðalántökur sláturleyfishafa minnka stórlega og þar með fjármagnskostnaður. Auk þess ætti að draga úr þörf sauðfjárbænda fyrir rekstrarlán þar sem beinar greiðslur hefjast í mars og standa til hausts. Þessi háttur ásamt aðilaskiptum að greiðslumarki ætti að gera sauðfjárræktinni kleift að standast vaxandi samkeppni á kjötmarkaðnum.

Ákvörðun afurðaverðs.


    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að byggt verði áfram á núverandi verðlagningarkerfi. Í bókun II með búvörusamningi er gert ráð fyrir að verðlagskerfi sauðfjárafurða verði endurskoðað eftir tvö ár og þá m.a. kannaðir kostir umboðsviðskipta. Verðlagningu verður því fyrst um sinn hagað í samræmi við gildandi ákvæði 7.–12. gr. búvörulaga frá 1985, með þeim breytingum sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir.

Mjólkurframleiðsla.


    Í þessu frumvarpi er ekki fjallað um mjólkurframleiðslu, en í 5. gr. frumvarpsins er á því byggt að landbúnaðarráðherra verði heimilt að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs vegna mjólkurframleiðslu. Í 7. gr. búvörusamningsins er við það miðað að gerður verði sérstakur samningur um mjólkurframleiðsluna sem ljúka á fyrir árslok 1991, en í 7. gr. er á því byggt að stuðningur ríkissjóðs við framleiðslu á innanlandsmarkaði verði svipaður og verið hefur. Framleiðslustjórnun verði byggð á núverandi fullvirðisréttarkerfi, og skal framleiðsluréttur grundvallast á innanlandsmarkaði. Aðilaskipti að fullvirðisrétti verða heimiluð með ákveðnum takmörkunum. Útflutningsbótum á mjólkurafurðir verður hætt eins og áður er komið fram.
     Þó hér hafi verið fjallað lauslega um kjarna þeirrar stefnumörkunar í landbúnaðarmálum sem samningurinn kveður á um er þar jafnframt fjallað um ýmis önnur mál sem snerta landbúnað. Nefna má t.d. bókanir I–XII þar sem lögð er áhersla á eflingu landgræðslu og skógræktar, aðlögun rannsókna og leiðbeininga að breyttum aðstæðum, skattamál, verðlagningu og ýmis félagsleg atriði. Stefnumörkun í málefnum sauðfjárræktarinnar vegur þyngst í þeim breytingum sem gerðar eru. Stefnumörkun í mjólkurframleiðslu er ekki eins ítarleg, en sjömannanefnd, sem lagt hefur grunninn að þessari stefnumörkun, hefur ekki lokið þeim áfanga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að kveðið verði á um að beinar greiðslur til framleiðenda teljist þeim til tekna í verðlagsgrundvelli og komi til lækkunar á afurðaverði til þeirra á þeim afurðum sem beinar greiðslur taki til. Með búvörusamningnum var samið um beinar greiðslur ríkissjóðs vegna framleiðslu kindakjöts og taka þær því ekki til annarra afurða sauðfjár, svo sem sláturs, gæra eða ullar. Afurðaverð á kindakjöti til bænda myndast því við að beinar greiðslur ríkissjóðs verða dregnar frá framleiðslukostnaði kjötsins. Grein þessi á einnig við ef samningar verða gerðir á grundvelli a-liðar 30. gr. um beinar greiðslur ríkissjóðs vegna mjólkurframleiðslu.

Um 2. gr.


    Í ákvæði þessu eru verðlagsnefnd veittar heimildir til að víkja frá gildandi ákvæðum um verðlagningu búvara. Ákvæði þessarar greinar eru byggð á grein 5.1. í búvörusamningi og bókun II með honum. Þar er kveðið á um að verðlagningu skuli hagað í samræmi við gildandi ákvæði búvörulaga, með ákveðnum breytingum, og að tveimur árum liðnum skuli taka kerfi verðlagningar sauðfjárafurða til endurskoðunar og þá m.a. kannaðir kostir umboðsviðskipta. Í ljósi þess að framleiðendur hafa hagsmuni af því að framleiðsla þeirra seljist leiðir af sjálfu að verðlagsnefnd verður að hafa ákveðið svigrúm til verðlagningar og breytingar á verði framleiðslunnar með tilliti til þarfa markaðarins og eðlilegrar birgðastöðu.
     Í fyrsta lagi er verðlagsnefnd heimilt að víkja frá því að gera ársfjórðungslegar breytingar á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda vegna breytinga á fjármagns- og rekstrarkostnaði og á launum eins og 12. gr. kveður á um. Ákvæði 5.1. í búvörusamningi kveður á um að breyta skuli búvörulögum þannig að horfið skuli frá ákvæðum um sjálfvirkan framreikning verðs. Verðlagsnefnd hefur frjálsar hendur um það hvort og að hve miklu leyti hún lætur hjá líða að gera ársfjórðungslegar breytingar vegna ofantalinna atriða. Ekki er áskilið samþykki allra nefndarmanna og nægir því einfaldur meiri hluti, þ.e. samþykki fjögurra nefndarmanna, til ákvörðunar á grundvelli þessa ákvæðis.
     Í öðru lagi er verðlagsnefnd heimilt við ákvörðun á nýjum verðlagsgrundvelli að semja um tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur á gildistíma grundvallarins, þrátt fyrir ákvæði 8 –10. gr. Ákvæði 5.1. í búvörusamningi kveður á um að breyta skuli búvörulögum þannig að heimilt verði að semja um tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur og að lokinni endurskoðun verðlagsgrundvallar haustið 1991 skuli verð fært niður um 2% frá því sem grundvöllurinn gefur tilefni til og þar til viðbótar skuli grundvallarverð haustið 1992 fært niður á sama hátt um 4%. Í bókun II segir að samningsaðilar séu sammála um að stefna beri að því að raunverð dilkakjöts lækki í áföngum um 20% á næstu 5–6 árum. Ekki er áskilið samþykki allra nefndarmanna og nægir því einfaldur meiri hluti, þ.e. samþykki fjögurra nefndarmanna til ákvörðunar á grundvelli þessa ákvæðis.
     Í þriðja lagi er verðlagsnefnd heimilt við ákvörðun og breytingar á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda að breyta einstökum liðum og verðum einstakra afurða. Til að ákvörðun verði tekin á grundvelli þessa ákvæðis þarf að liggja fyrir samþykki allra nefndarmanna. Hér er verðlagsnefnd heimilað, hvenær sem er á gildistíma grundvallarins, að breyta einstökum liðum og verði einstakra afurða og hefur frjálsar hendur um það hvenær slík ákvörðun er tekin og til hverra vara hún nái svo framarlega að allir nefndarmenn standi bak við þá ákvörðun. Ekkert er í búvörusamningi sem tengist þessu ákvæði beint, en það hefur verið sett í frumvarpið að ósk verðlagsnefndar búvara með það að markmiði að verðlagning búvara geti orðið sveigjanlegri en verið hefur.

Um 3. gr.


     Kveðið er á um að heimilt verði að gera tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur til framleiðenda skv. 2. gr. frumvarpsins. Hér er sett sams konar heimild fyrir fimmmannanefnd til að gera slíkar kröfur til afurðastöðva. Til að ákvörðun verði tekin á grundvelli þessa ákvæðis þarf að liggja fyrir samþykki allra nefndarmanna. Nefndin hefur frjálsar hendur um það hvort og hve miklar framleiðnikröfur hún gerir til afurðastöðva í samkomulagi um heildsöluverð, enda liggi fyrir samhljóða ákvörðun hennar um að gera slíka kröfu. Í bókun II með búvörusamningi kemur fram að samningsaðilar séu sammála um að markmið um lækkun afurðaverðs til framleiðenda séu bundin þeirri forsendu að sami árangur náist jöfnum höndum fram á vinnslu- og sölustigi.

Um 4. gr.


    Hér er í 1. mgr. kveðið á um að afurðastöðvar greiði afurðaverð til framleiðanda á framleiðslu sem beinar greiðslur taka til á sama hátt og verið hefur og miðast greiðslur þeirra við efri mörk greiðslumarks lögbýlis. Eina breytingin er í raun sú að afurðaverð kindakjöts, sem afurðastöð greiðir, lækkar sem beinum greiðslum ríkissjóðs nemur. Ákvæði þessarar greinar byggir á því að afurðastöðvum sé með afurðalánum eða annarri lánafyrirgreiðslu gert kleift að uppfylla þessar skyldur. Samkvæmt 12. gr. kaupalaga, nr. 39/1922, er það meginregla í viðskiptum að þegar ekkert hefur verið ákveðið eða samið um hvenær kaupverð skuli greitt þá skuli líta svo á að kaupverðið beri að greiða hvenær sem krafist er. Með reglum 29. gr. voru lögfestar ákveðnar uppgjörsreglur og hafa þær í einstökum tilfellum þrengt rétt framleiðanda frá því sem áður var, en almennt var þessum reglum ætlað að flýta uppgjöri á greiðslum afurðaverðs til framleiðenda. Á sama hátt og verið hefur er aðilum þessara viðskipta frjálst að semja um annan hátt á greiðslum sín á milli eftir að beinar greiðslur ríkissjóðs koma til. Ákvæði þetta er í samræmi við greinar 5.3. og 5.3.1. í búvörusamningi.
     Í 2. mgr. er kveðið á um meðferð og ráðstöfun afurða umfram efri mörk greiðslumarks. Um þær skal gert sérstakt samkomulag milli framleiðanda og afurðastöðvar. Afurðir þessar skulu seldar erlendis nema Framleiðsluráð landbúnaðarins heimili sölu þeirra innan lands. Enn sem komið er hafa ekki öll sláturhús heimild til útflutnings á kindakjöti. Geri slík sláturhús samkomulag samkvæmt grein þessari við framleiðanda þarf það áður að tryggja með samkomulagi við sláturhús sem hefur heimild til útflutnings um skipti á framleiðslu. Þess vegna er notað orðalagið samsvarandi magn afurða í frumvarpinu. Þetta ákvæði breytir þó ekki heimild manna til að taka kjöt út úr sláturhúsi til heimanota eftir þeim reglum sem um það verða settar. Þá gildir ákvæði þessarar greinar ekki um afurðir þeirra sem ekkert greiðslumark hafa. Ákvæði þetta er í samræmi við grein 5.3.2. í búvörusamningi.
     Í 3. mgr. er kveðið á um að afurðastöð sé skylt að halda eftir verðskerðingu og standa Framleiðsluráði landbúnaðarins skil á henni. Ákvörðun um verðskerðingu er tekin á grundvelli f-liðar 6. gr. frumvarpsins. Ákvæði þetta er í samræmi við grein 5.3.3. og 6.2. í búvörusamningi.

Um 5. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra sé heimilt að semja við Stéttarsamband bænda um beinar greiðslur ríkissjóðs. Heimild ráðherra er bundin ákveðnum skilyrðum. Samningur um beinar greiðslur verður að koma í stað samnings um magn mjólkur- og sauðfjárafurða sem framleiðendum er ábyrgst fullt verð fyrir. Beinar greiðslur geta einungis tekið til afurða mjólkur og sauðfjár vegna framleiðslu sem fram fer á lögbýlum.
     Þegar hefur verið gerður samningur á milli landbúnaðarráðherra og Stéttarsambands bænda um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda sauðfjárafurða á lögbýlum á árunum 1992–1998, með fyrirvara um samþykki Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar, sbr. frumvarp þetta. Þar er við það miðað að beinar greiðslur komi í stað verðábyrgðar og greiðist vegna framleiðslu kindakjöts á lögbýlum. Þá er einnig við það miðað að beinar greiðslur komi í stað niðurgreiðslna. Hér er landbúnaðarráðherra á sama hátt veitt heimild til að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur á lögbýlum.

Um 6. gr. a. (39. gr.).


     Ákvæði þetta snertir fyrst og fremst viðauka 1 í búvörusamningi en Alþingi hefur fjallað um hann áður með lánsfjárlögum fyrir árið 1991 þar sem veittar voru fjárveitingar til þess að framkvæma viðauka 1. Aðlögun fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði miðar að því að fullvirðisréttur allra framleiðenda (greiðslumark) verði sá sami og ákveðið heildargreiðslumark fyrir verðlagsárið 1993/1994. Núverandi fullvirðisréttur nemur um 12.000 tonnum kindakjöts, en lagt er til í frumvarpinu að heildargreiðslumark verðlagsársins 1992/1993 verði 8.600 tonn kindakjöts. Bil þetta á að brúa með eftirfarandi leiðum:
*    Tilboð ríkissjóðs um að greiða fyrir allt að 3.700 tonn fullvirðisréttar og greiða förgunarbætur vegna fækkunar áa stendur til 1. september 1992. Tilboð ríkisins hófst 1. maí 1991, en greiðslur lækkuðu 1. september 1991. Þá voru eftir um 10.000 tonn fullvirðisréttar þannig að enn þá standa eftir um 1.400 tonn sem er umfram heildargreiðslumark verðlagsársins 1992/1993 og verður því náð út með neðangreindum leiðum og eru þær í samræmi við 1. tölul. í viðauka 1.
*     Ríkissjóði er heimilt að fella niður 20% af fullvirðisrétti sem höfð eru aðilaskipti að á milli lögbýla.
*    Eigendum lögbýla er heimilt að leggja fullvirðisrétt (greiðslumark) lögbýlisins inn til geymslu til 31. ágúst 1998 og er þeim þá óheimilt að hefja framleiðslu á þeim tíma. Það fer síðan eftir þeim reglum sem í gildi verða við lok geymslutíma með hvaða hætti unnt verður að nýta slíkan rétt.
*    Fullvirðisréttur utan lögbýla fellur niður 1. september 1992, en rétthafar slíks fullvirðisréttar eiga kost á að bjóða hann ríkissjóði fram til þess tíma.
*    Niðurfærsla fullvirðisréttar. Nægi fyrrnefndar leiðir ekki til að ná jafnvægi verður fullvirðisréttur færður niður um það sem á vantar.

Um 6. gr. b. (40. gr.).


     Heildargreiðslumark sauðfjárafurða er það magn kindakjöts sem beinar greiðslur ríkissjóðs til bænda miðast við. Hér er mælt fyrir um hvernig það er ákveðið og lagt til að það verði 8.600 tonn á verðlagsárinu 1992–1993. Það er sala á innanlandsmarkaði sem heildargreiðslumarkið ræðst fyrst og fremst af. Minni sala og auknar birgðir kindakjöts koma til lækkunar á heildargreiðslumarki næsta árs og aukin sala til hækkunar á því. Heildargreiðslumark skiptist í greiðslumark lögbýla, en greiðslumark lögbýla á verðlagsárinu 1992–1993 verður ákveðið skv. c-lið 6. gr. frumvarpsins. Miðað er við að sá sem skráður er fyrir greiðslumarki lögbýlis fái beinar greiðslur úr ríkissjóði fyrir 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts.
     Grein þessi er í samræmi við 1. og 2. gr. í búvörusamningi. Við það er miðað að heildargreiðslumark verði í upphafi, þ.e. verðlagsárið 1992/1993, 8.600 tonn. Sú tala er fengin samkvæmt viðmiðun greinarinnar, þ.e. neysla kindakjöts 1990 og söluþróun janúar– júní 1991, en það er um 8.200 tonn. Síðan bætast við um 300 tonn vegna heimtekins kjöts haustið 1990 eins og ákvæði 2.2. í búvörusamningi kveður á um. Þá er tekið tillit til um 100 tonna sem er það magn sem ívilnun einstakra svæða frá fyrri niðurfærslu nemur, sbr. greinar 2.3. og 2.4. í viðauka 1 í búvörusamningi.

Um 6. gr. c. (41. gr.).


     Heildargreiðslumarkið skiptist í greiðslumark lögbýla. Það er því forsenda fyrir beinum greiðslum ríkissjóðs að framleiðslan fari fram á lögbýlum. Fullvirðisréttur utan lögbýla fellur niður 1. september 1992 ef hann hefur ekki verið boðinn ríkissjóði og breytist sá fullvirðisréttur því ekki í greiðslumark.
     Í greiðslumarki lögbýla felst í raun að lögbýlið öðlast hlutdeild í markaði kindakjöts innan lands og hlutdeild í fjárframlagi sem ríkissjóður leggur fram til að tryggja framleiðendum að hluta fullt verð fyrir framleiðsluna. Í hugtakinu felst því ekki framleiðsluheimild eða framleiðsluréttur vegna þess að ekkert stendur í vegi fyrir því samkvæmt búvörulögum eftir 1. september 1992 að framleiðendur og/eða afurðastöðvar geri samning um útflutning á framleiðslu sem er umfram greiðslumark lögbýla eða framleiðslu þeirra sem ekki hafa greiðslumark. Ákvæði þessarar greinar er í samræmi við greinar 3.1., 3.2., 3.4. og 4.1 í búvörusamningi.
     Samkvæmt 1. mgr. er við það miðað að greiðslumark verði bundið við lögbýli og telst því þeim einum til hagnýtingar eða ráðstöfunar sem er eigandi lögbýlis eða hefur heimild hans til að nýta lögbýlið. Miðað er við að leiguliði á lögbýli hafi rétt til að hagnýta sér greiðslumarkið til innleggs og beinna greiðslna. Ef í gildi er ábúðarsamningur um lögbýlið er hvorum um sig, eiganda eða ábúanda, óheimilt á grundvelli hans að ráðstafa greiðslumarki lögbýlisins til annars lögbýlis, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Á því er byggt að almenna reglan verði sú að aðeins einn aðili verði skráður handhafi beinna greiðslna á hverju lögbýli.
     Samkvæmt 2. mgr. verður greiðslumark lögbýlis í upphafi, þ.e. verðlagsárið 1992/1993, í hlutfalli við fullvirðisrétt eins og hann er að loknum fyrsta hluta aðlögunar, þ.e. að lokinni fyrri niðurfærslu. Heildarfullvirðisréttur að henni lokinni er um 10.000 tonn og er því nokkru hærri en greiðslumark verðlagsársins 1992/1993 og er því ekki enn ljóst hvert hlutfall greiðslumarksins 1992/1993 verður af fullvirðisréttinum fyrr en tekið hefur verið tillit til fullvirðisréttar sem bundinn er í samningum við Sauðfjárveikivarnir og Framleiðnisjóð.
     Að lokinni aðlögun fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði breytist greiðslumark lögbýla ár frá ári í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki og með hliðsjón af aðilaskiptum að greiðslumarki. Heimilt er að lækka greiðslumark lögbýla ef framleiðsla fer umfram efri mörk og lækkar þá greiðslumark þess á næsta verðlagsári.

Um 6. gr. d. (42. gr.).


     Ákvæði þessarar greinar er í samræmi við 4.2. og 4.3. í búvörusamningi auk bókunar III með honum. Hér er kveðið á um að heimilt verði frá 1. september 1992 að hafa aðilaskipti að greiðslumarki á milli lögbýla með þeim skilyrðum sem ráðherra kann að setja í reglugerð. Þau taka ekki gildi fyrr en staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggur fyrir en það verður að gæta allra formreglna um aðilaskiptin eins og lög og reglugerðir kveða á um, svo sem að aflað hafi verið samþykkis allra hlutaðeigandi aðila, eiganda og ábúanda lögbýlisins eftir því sem við á. Ekki er gert ráð fyrir því að heimiluð verði afnot (leiga) á greiðslumarki heldur þurfi þar að vera um að ræða varanlegt framsal. Ákvæði þessarar greinar þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 6. gr. e. (43. gr.).


     Hér er kveðið á um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda sauðfjárafurða á lögbýlum og er viðmiðun þeirra 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts miðað við greiðslumark lögbýlisins. Beinar greiðslur greiðast frá mars vegna framleiðslu á komandi hausti og er við það miðað að þær skerðast ekki ef framleiðsla á lögbýlinu nær neðri mörkum greiðslumarks sem verður 80% verðlagsárið 1992/1993. Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð ítarlegri ákvæði um beinar greiðslur.
     Beinum greiðslum er ætlað að koma í stað niðurgreiðslna á kindakjöti og er tilgangur þeirra einkum sá að lækka vöruverð til neytenda, minnka útgjöld ríkissjóðs vegna framleiðslunnar ásamt afnámi útflutningsbóta og að vera nokkurs konar afkomutrygging fyrir sauðfjárbændur og tryggja með því búsetu í sveitum landsins.
     Beinar greiðslur eru framlag úr ríkissjóði en ekki greiðsla fyrir afurðir og er því miðað við að virðisaukaskattur leggist ekki á þær. Beinar greiðslur skulu nema 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts og koma til lækkunar á afurðaverði til framleiðenda við gerð verðlagsgrundvallar, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Ákvæði þessarar greinar er í samræmi við greinar 3.3. og 5.2.1. í búvörusamningi.

Um 6. gr. f. (44. gr.).


     Ákvæði þessarar greinar er í samræmi við 6. gr. í búvörusamningi og fjallar um hvernig fara skuli með birgðir kindakjöts. Hér er kveðið á um leiðir til að afsetja birgðir kindakjöts ef þær verða í lok verðlagsárs umfram þriggja vikna sölu. Birgðirnar geta safnast með tvennum hætti, annast vegar vegna aukinnar framleiðslu, t.d. að fleiri framleiða upp að efri mörkum greiðslumarksins og hins vegar að samdráttur verði í sölu kindakjöts. Við það er miðað að hægt sé að fara tvær leiðir vegna birgðasöfnunar, þ.e. verðskerðing og lækkun á heildargreiðslumarki næsta árs. Í ljósi þess að hér er um opinbera verðlagningu að ræða er talið nauðsynlegt að ráðherra taki ákvörðun um verðskerðinguna og að ákveðið sé í lögum að verðskerðingin verði ekki umfram 5% af afurðaverði kindakjöts til framleiðenda.

Um 6. gr. g. (45. gr.).


     Hér er kveðið á um skipan sérstakrar úrskurðarnefndar sem hægt er að skjóta ágreiningi til. Nauðsynlegt er að setja í reglugerð nánari ákvæði.

Um 6. gr. h. (46. gr.).


     Í 1. mgr. er kveðið á um að allir þeir, sem hafa fullvirðisrétt til ráðstöfunar eða hagnýtingar eða hafa með höndum framleiðslu sauðfjárafurða, séu háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafi í för með sér. Allir þessir aðilar verða að lúta þeim breytingum sem felast í niðurfellingu fullvirðisréttar og upptöku greiðslumarks og geta ekki eftir 1. september 1992 byggt rétt sinn á öðru en lögum og reglugerðum um greiðslumark. Gildir það m.a. um þá sem gert hafa fjárskiptasamning við Sauðfjárveikivarnir og leigusamning við Framleiðnisjóð.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 8. gr.


    Hér er lagt til að frumvarpið taki þegar gildi. Samkvæmt 11. gr. búvörusamnings er við það miðað að hann gildi frá 1. september 1992 til 31. ágúst 1998. Hins vegar er nauðsynlegt að frumvarp þetta taki þegar gildi þar sem ýmis framkvæmdaratriði þurfa að liggja fyrir sem fyrst, t.d. um aðlögun fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði og greiðslu beinna greiðslna sem eiga að hefjast í mars 1992. Þá er við það miðað að 36. gr. og 38. gr. falli úr gildi 1. september 1992 þar sem útflutningsbætur falla niður vegna framleiðslu eftir þann tíma. Af sömu ástæðum falla ákvæði 20. og 21. gr. úr gildi frá 1. september 1992.

Um ákvæði til bráðabirgða.


     Ákvæði þetta er í samræmi við grein 2.3. í viðauka 1 í búvörusamningi.





Fylgiskjal I.

Stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt.


Samningur landbúnaðarráðherra, f.h. ríkisstjórnar Íslands,


og Stéttarsambands bænda um framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða.


(Mars 1991.)





Viðauki 1.




Viðauki 2.







Fylgiskjal II.

Áfangaskýrsla um framleiðslu sauðfjárafurða.


(Sjömannanefnd, febrúar 1991.)









Fskj. 1.


Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



    REPRÓ Í GUT. — bls. 14—51, þ.e. fylgiskjal I (með viðaukum 1 og 2), fylgiskjal II (með fskj. 1) og fylgiskjal III (með töflum 1 og 2). Nokkrir hausar sendir.



Tafla 1.


Tafla 2.