Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 219 . mál.


315. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    2. mgr. 9. gr. laganna orðist svo:
     Sóttvarnardýralæknir sóttvarnastöðvar skal ráðinn af landbúnaðarráðherra, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, og skal hann fá sérstakt erindisbréf. Sóttvarnardýralækni er einungis heimilt að stunda lækningar dýra utan sóttvarnastöðvar með leyfi landbúnaðarráðherra og samkvæmt reglum sem yfirdýralæknir setur.


2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 54 16. maí 1990, um innflutning dýra, er sóttvarnardýralækni óheimilt að stunda lækningar dýra utan sóttvarnastöðvar. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að smitefni geti borist úr sóttvarnastöð í búfé eða önnur dýr utan stöðvarinnar. Ekki er ástæða til að ætla að sóttvarnardýralæknir geti ekki stundað lækningar annarra dýra en hann hefur eftirlit með þar sem smitefni verður að telja hættulaust öðrum dýrategundum en þeim sem eru í umsjá hans í stöðinni og viðurkenndum sóttvarnaraðferðum er beitt. Því er lagt til að landbúnaðarráðherra geti heimilað sóttvarnardýralækni að starfa utan sóttvarnastöðvar. Leyfi ráðherra er háð því að yfirdýralæknir setji sérstakar reglur um störf sóttvarnardýralæknis utan sóttvarnastöðvar. Reynst hefur erfitt að framkvæma lögbundið eftirlit í sóttvarnastöð eftir núgildandi ákvæði 2. mgr. 9. gr. Sé unnt að veita sóttvarnardýralækni leyfi til starfa utan stöðvar eins og hér er lagt til er augljóst að með því væri unnt að spara umtalsverða fjármuni þar sem hægt er að fela honum önnur störf án þess að dregið sé úr smitvörnum í stað þess að hann sinnti eingöngu því eftirliti sem lögin gera ráð fyrir. Jafnframt er fellt niður ákvæði um sérþekkingu dýralæknis í eggjaflutningi og sæðingu búfjár þar sem slíka sérþekkingu er auðvelt að fá utan stöðvarinnar og því óþarft að binda þá starfsþekkingu við sóttvarnardýralækni. Frumvarpið miðar að því að draga úr kostnaði ríkissjóðs af rekstri sóttvarnastöðvarinnar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra.


    
Frumvarpið miðar að því að draga úr kostnaði ríkissjóðs af rekstri sóttvarnastöðva með því að rýmka starfsreglur sóttvarnardýralæknis og hefur það því engan kostnaðarauka í för með sér.